Bærinn minn.

Ég minntist nú alveg örugglega á það í einhverjum af fyrstu pistlunum mínum hvað þetta væri fallegur og snyrtilegur bær sem ég byggi í. Mér finnst þó í góðu lagi að endurtaka það og langar líka dálítið til að lýsa honum aðeins betur og því hvernig lífið hér kemur mér fyrir sjónir. Þetta er nokkuð gamall bær eins og sjálfsagt flestir evrópskir bæir eru, alla vega í samanburði við íslenskaSmile

Þéttbýli tók að myndast hér á 13. öld eftir að klaustur var byggt í Eldena sem er hér í útjaðri bæjarins. Eldena er núna bara eitt hverfi í bænum og varla nema 20 mínútna ganga þaðan sem ég bý (sennilega nær klst frá miðbænum).

Gamli miðbærinn er auðvitað uppáhaldið mitt og þar er mikið af fallegum gömlum húsum eins og títt er í slíkum bæjum. Það er þó ekki sjálfgefið hér í Þýskalandi að allar gamlar bæjarmyndir séu heillegar þar sem mikið var sprengt og skemmt í Síðari Heimsstyrjöldinni. Það sem bjargaði Greiswald var það að yfirvöld hér gáfust bardagalaust upp þegar Sovétherinn kom og því „þurfti“ ekkert að sprengja hér.

Eitt af því sem hefur komið mér einna mest á óvart er það hversu lítið er af illa förnum og niðurníddum húsum. Vel má skrifa það á fordóma mína en það eru vissulega ekki nema rúm 20 ár síðan Þýskaland sameinaðist og maður hefur heyrt svo margt um það að ástandið í gamla austrinu hafi nú ekki alls staðar verið beysið. Bærinn er vissulega ekki bara gamli miðbærinn og hér eru úthverfi sem eru misfalleg en ekkert í líkingu við ýmsar myndir sem maður hefur séð í gegnum tíðina af austur-evrópskum borgum. Hér eru vissulega heilu hverfin þar sem varla er neitt nema Plattenbau-blokkir. Margar þeirra líta svo sem ekkert sérlega fallega út en það eru líka margar sem hafa verið gerðar upp undanfarin ár og eru bara ljómandi huggulegar.

Þegar ég kom hingað í haust og steig út úr strætisvagninum hérna aðeins á ská hinum megin við götuna þá voru stillansar utan um alla blokkina hér við hliðina. Greinilegt var að verið var að klæða hana að utan og við blasti eitthvert svart miður fallegt efni með sements-sparslblettum hér og þar. Svo komu málarar og húsið fór að taka á sig aðra og mun frýnilegri mynd. Síðan voru sett ný svalahandrið og nú þegar stillansarsnir eru farnir blasir við stórglæsilegt húsSmile

Hér hefur greinileg verið töluverð endur- og uppbygging hin síðari ár. Bærinn skartar glænýju háskólasjúkrahúsi og –bókasafni, hvort tveggja glæsilegar byggingar. Og á nýja háskólasvæðinu (skáhallt á móti hinum tveimur áðurnefndu) er svo verið að byggja nýja háskólamatsölu með meiru sem á að opna einhvern tíma á næsta ári.

Víst er að háskólinn er einhver helsta lífæð bæjarins og hans vegna koma hingað á hverju ári nokkur þúsund ungmenni (þar af einhver hundruð útlendinga) eingöngu í þeim tilgangi að stunda hér nám. Enda er skólinn metnaðarfullur og virtur. Ég hef heyrt fleiri en einn segja að hér væri varla þetta stór bær ef ekki væri fyrir þennan skóla. Vegna þess fjölda útlendinga sem hingað koma er líka nokkuð alþjóðlegur blær á bænum en ekki virðast hér vera ámóta vandamál því tengd og víða í öðrum (og stærri) borgum og er það væntanlega vegna þess að stærstur hluti útlendinganna hér eru námsmenn.

Fólkið í bænum kemur mér fyrir sjónir sem vingjarnlegt, viðmótsþýtt og afslappað. Aldrei hef ég séð örla á neinum pirringi hjá fólki þegar ég hef átt í einhverjum vanda með að tjá mig eða skilja eitthvað og sýnir fólk því almennt umburðarlyndi. Það virðist ekki vera mikið um að fólk tali ensku (alla vega ekki fólk á mínum aldri og eldra) en þeir sem það gera eru meira en reiðubúnir að gera það ef á þarf að halda. Hinir sem það gera ekki eru frekar afsakandi en eitthvað annað og ekki hef ég orðið vör við neinn „þýsku-hroka“ sem maður hefur stundum heyrt um.

Ég minntist einhvern tíma á að hér væri mikið af hundum en að  engan kött hefði ég séð fyrstu þrjár vikurnar. Ég hafði varla sleppt því orðinu þegar ég rakst á fyrstu kisuna og er ég búin að sjá nokkrar síðanInLove En ekki er nú hægt að bera fjölda þeirra saman við flesta bæi heima og í miðbæ Reykjavíkur fór ég varla út úr húsi án þess að sjá a.m.k. einn og oftast nokkra. Og þó þetta mikið sé af hundum man ég varla eftir að hafa rekist á hundaskít liggjandi en margsinnis orðið vitni að því að eigendur hirði upp eftir sín dýr og mættu íslenskir hundaeigendur taka taka sér það til fyrirmyndar!

Ég get því með góðri samvisku sagt að Greifswald sé hinn vinalegasti bær og örugglega gott að búa hér, ekki síst með börn þar sem hér er frekar rólegt og lítil umferð bíla. Svo lítil reyndar að ég átti erfitt með að trúa að hér byggju jafn margir og raun ber vitni. Enda er reiðhjólið aðalferðamáti yfir 40% íbúanna (eins og ég held að ég hafi minnst á áður). Ég hef því ekki ástæðu til annars en að láta mér líða vel og vera glöð með staðarvalið sem þó var tilviljun ein á sínum tíma.

Falleg kveðja úr fallega bænumSmile


Ratað inn í Aðventuna

Á laugardaginn um síðustu helgi fór ég í mjög skemmtilegan ratleik hér um bæinn. Þetta er einn af þeim viðburðum sem LEI skipuleggur og er búið að vera  árvisst síðustu tíu ár eða svo. Lið þurfa að skrá sig til keppni með nokkrum fyrirvara og þetta hefur augljóslega krafist þó nokkurs undirbúnings af hálfu skipuleggjenda.

Það var hún Maria, þýsk stúlka og kærastan hans Philips (sem ég hef áður minnst á) sem safnaði liði í minn  hóp. Hún er líka ein af hjálparhellum útlendu nemanna, mjög fín og skemmtileg stelpa. Hún hafði hitt hann Ken vin minn og spurt hvort hann vildi vera með í þessu og hvort hann gæti ekki hóað einhverjum saman. Hann hafði svo mig og Alix upp úr því krafsi og svo bættist önnur þýsk stúlka í hópinn, hún Suzanne, sem er einmitt  hjálparhellan hans Kens. Þetta krafðist þess að maður væri á hjóli og þar sem ég hef ekki enn lufsast til að kaupa slíkan fararsjóta þá fékk ég hinn aldna og virðulega hjólfák hennar Milu sambýliskonu minnar að láni.

Klukkan 16 á laugardag vorum við því komin niður í Mensu (háskólamatsöluna) en þaðan var lagt af stað. Þar fengum við fyrstu vísbendingarnar og vorum við býsna ánægð með það hvað við vorum snögg að lesa úr þeim og lögðum því hreykin af stað. Fannst okkur þó eilítið langt í fyrsta takmark en Maria, sem hefur tekið þátt í þessu áður var ekkert voða hissa á því. Við fengum það sem sagt út að við ættum að hjóla norður í Nordstrasse, sem er í Ladebow, einu af úthverfum bæjarins, og þar áttum við að finna kassa. Þetta var nú bara hinn skemmtilegasti hjólatúr í ágætu veðri og tók um hálftíma.

Þegar þangað var komið var engan kassa að sjá og fórum við að rýna betur í leiðbeiningar. Þá kom nú eitthvað annað í ljós og töldum við að við hefðum átt að fara að húsi enskudeildar skólans, sem er í Steinbeckerstrasse, í miðbænum og aðeins steinsnar frá MensuBlush En við vorum greinilega ekki ein um þennan misskilning með Nordstrasse því á hæla okkar kom annað lið sem hafði fengið það sama út og við!

Þegar í Steinbeckerstrasse var komið var heldur engan kassa að sjá og fórum við enn að rýna í bréfið og komumst þá að hinni algjörlega augljósu staðreynd að við áttum að fara í Norrænudeildina í Hans-Fallada Strasse! Þar fundum við svo næstu vísbendingar og hélt leikurinn áfram og gekk bara bærilega að mestu leyti. Ekki kláruðum við þó leikinn og voru það aðeins tvö lið sem það höfðu gert enda hafði teygst meira úr tímanum en ráð var fyrir gert. Við lentum samt í þriðja sæti (af tólf liðum sem byrjað höfðu). Fjögur lið höfðu gefist upp og flestum hinna ekki gengið neitt of vel. Var það mál manna að þetta hefði verið með erfiðasta móti og höfðu margir á orði að ekki hefðum við útlendingarnir einir og sér komist langt þar sem vísbendingarnar kröfðust ansi mikillar þekkingar á þýskri menningu og tungu. En skemmtilegt var þetta nú samt og allir nokkuð sáttir og glaðir eftir því sem ég fékk best séð.

Eftir þetta fórum við nokkur saman, með Mariu og Philip í broddi fylkingar, á kebabstað  og fengum okkur í svanginn því menn voru orðnir ansi hungraðir (kl að verða 9 um kvöldið!) og eilítið kaldir þar sem kólnað hafði og hvesst eftir því sem á leið. Svo var haldið heim og hugsa ég að menn hafi sofnað fljótt og vel eftir að hafa hjólað bæinn þveran og endilangan og við örugglega einhverja tugi kílómetra með útúrdúrnum mikla!

Á sunnudag var svo bara lærdómur og undirbúningur að fyrirlestri sem ég, ásamt einum þýskum strák, var með í félagsmálvísindunum á þriðjudagsmorgun. Um kaffileytið fórum við Alix svo niður í bæ að skoða jólaþorpið sem þar opnaði þessa helgi. Þar er fjöldinn allur af litlum sölukofum og básum að selja alls konar dót en mest áberandi eru þó veitingasalar af ýmsu tagi. Einnig eru alls kyns leiktæki fyrir börn og má segja að markaðstorgið sé eins og lítið Tívolí.

Við löbbuðum um í dágóða stund, fengum okkur jólaglögg og hlustuðum á lifandi tónlist. Ekki var það þó jólatónlist sm við hlýddum á heldur „gömlu góðu“ lögin, eins og  t.d. Eagles, Roy Orbison o.þ.h.Grin Spilararnir voru tveir herramenn af léttasta skeiði, gráhærðir og síðhærðir gamlir rokkhundar en aldeilis prýðilega skemmtilegirSmile Ég er alveg viss um að þeir hefðu slegið í gegn á hvaða íslenska sveitaballi sem er! Og fólkið var greinilega mjög ánægt með þá, dansaði og söng með. Svo kíktum við í nokkrar búðir og fórum að því búnu heim.

Eftir kvöldmat fórum við svo, ég og Ken og Kërt heim til Alix. Þar fengum við kakó og smákökur sem hún var búin að baka, hlustuðum á jólalög og kveiktum á aðventu“kransinum“ hennar sem samanstóð (eins og minn) af fjórum kertum á diski! Var það virkileg notaleg stund með spjalli, aðallega um jólasiði hinna ýmsu landa.

Vikan gekk svo nokkuð venjulega fyrir sig; við Andreas klóruðum okkur (að ég held) nokkuð skammlaust í gegnum fyrirlestur um tvímálakennslu. Var okkur báðum létt á eftir og fórum beint á næsta kaffihús til að „pústa“ aðeins.

Í gærkvöldi fór ég svo á „Länderabend“ með kynningum á Tékklandi, Slóvakíu og Slóveníu. Það var mjög gaman og fróðlegt og hlaðin borð af þjóðlegum veitingum þessara landa. Þar var líka hún Tanja vinkona mín og fórum við svo aðeins yfir á Domburg til að hitta Alix og Ken og Kërt og bróður hennar Alix sem kominn var í heimsókn.

Við ætlum svo saman, öll þessi fimm, til Berlínar í fyrramálið og hlakka ég mikið til. Það verður því væntanlega bara rólegt kvöld hjá mér og snemma farið í háttinn til að ég verði nú vel upplögð fyrir ferðina. Það er svo ekki ólíklegt að ég hafi frá einhverju skemmtilegu að segja eftir helgina þar sem flestir sem ég hef talað við eru sammála um að Berlín sér með skemmtilegustu borgum! Bið ég ykkur hér með að óska mér góðrar ferðar og kveð svo að sinni.

Góðar stundirSmile


Kjötsúpa og konsert.

Þegar ég kom heim frá Stettin beið mín tölvupóstur frá honum Geira, þjóðverjanum sem kennir (aðallega forn-) íslensku við norrænu deildina hér. Erindið var að bjóða mér að koma á íslenskt kvöld sem hann ætlaði að halda fyrir nemendur sína á laugardagskvöldinu helgina á eftir.

Umrætt kvöld lallaði ég því heim til hans í kolsvartaþoku og hráslaga. Það var því heldur betur óvænt ánægja að finna ilm af íslenskri kjötsúpu þegar inn var komiðSmile Þarna voru saman komnir einir fimm eða sex nemendur hans, sem skildu reyndar mismikið í íslensku, en allt hið skemmtilegasta fólk og gaman að spjalla þó mest væri það nú á þýsku. Við Geiri töluðum þó saman á íslensku og verð ég að viðurkenna að mér finnst nú býsna notalegt að geta talað við einhvern á hinu ástkæra ylhýra, svona við og við. Og fleira var í boði sem íslenskt getur talist svo sem skúffukaka, harðfiskur og rækjusalat. Ekki var þó íslenskt brennivín á boðstólnum en hins vegar færeyskt og verð ég að segja að það finnst mér ekki síðra.

Eftir að hafa innbyrt kjötsúpuna (sem var aldeilis ljómandi vel lukkuð þó kjötið væri ekki íslenskt heldur eitthvað lífrænt ræktað þýskt!) og salat og harðfisk og köku var sest niður og horft á íslenska bíómynd. Það var Kóngavegur, sem ég hafði ekki séð og held ég að krakkarnir hafi nú ekki mikið skilið þó að texti (íslenskur) fylgdi með. En myndin er svo sem þess eðlis að það er alveg hægt að hlægja að henni þó maður skilji ekki allt og alla vega hlógu þau. Þarna upplifði ég ennþá einu sinni eitthvað nýtt, skemmtilegt og óvænt og var kvöldið alveg frábærtSmile

Kvöldið eftir, sunnudagskvöld, fór ég síðan ásamt nokkrum krökkum úr hópnum mínum á voða fína tónleika í Dómkirkjunni. Hálfa ástæðan fyrir því að við fórum var sú að hann Ken vinur okkar var að syngja í verkinu sem á efnisskrá var, en flytjendur voru Dómkórinn í Greifswald og Fílharmóníuhljómsveit Vorpommern. Verkið sem þarna var flutt var óratórían „Das Weltgericht“ sem er eftir Friedrich nokkurn Schneider, en á honum þekki ég hvorki haus né sporð. Nafn verksins gæti útlagst sem „Lokadómurinn“ eða eitthvað þ.u.l.

Einsöngshlutverkin eru erkienglarnir Gabríel, Mikael, Rafael og Úríel, og svo Eva, María og Satan! Og síðan er líka kór hinna ranglátu, kór hinna frómu og englanna, kór vítisandanna, kór hinna trúuðu, kór hinna hólpnu, kór kvennanna og barnanna og kór píslarvottanna, svo eitthvað sé nefnt! Það er skemmst frá því að segja að ég var yfir mig hrifin. Mjög fallegt og áheyrilegt verk og gaman að láta koma sér jafn skemmtilega á óvart þegar maður hefur ekki hugmynd um hvað í vændum erSmile

Og ekki var nú alveg laust við að litla kórhjartað mitt yrði pínu meyrt yfir þessu öllu saman. Hugsaði ég oftar en einu sinni hvað það væri nú gaman að standa meðal (kór)söngvaranna og reikaði hugurinn aftur til margra ógleymanlegra stunda við söng í hinum ýmsu verkum, stórum sem smáum, sem ég tók þátt í að syngja ásamt „mínum“ kór á árum áður. Vona ég svo sannarlega að slíkir tímar komi aftur innan tíðarSmile

Og þannig reyndist helgi sem engar væntingar voru við bundnar bera með sér hina ánægjulegustu skemmtun og gleði sem lengi verður lifað áSmile

Góðar kveðjur heim.

 

í upphafi.

Þó að þessi skrif mín hér hafi hingað til að mestu verið í dagbókarformi þá var það í raun ekki ætlunin þegar af stað var farið. Alla vega ekki eingöngu. Vissulega vildi ég deila með vinum og fjölskyldu, og hverjum þeim sem hugsanlega hefðu áhuga á, því sem á daga mína drifi. Í upphafi hafði ég líka hugsað mér að skrifa um eitt og annað sem mér dytti í hug og velti fyrir mér í útlegðinni. En eins og þið hafið séð þá er hreinlega búið að vera svo mikið um að vera að það hefur eiginlega komið af sjálfu sér að þetta yrði svona.

Ég tók þá ákvörðun raunar áður en ég kom hingað að gera allt sem ég gæti til þess að njóta vistarinnar hér sem mest og bestSmile. Ég vissi að það yrði ekki sjálfgefið að fjörtíu og fimm ára gömul kona dytti fyrirhafnarlaust inn í félagsskap fólks sem er flest á aldur við börnin hennar. Ég veit líka að það er ekki óalgengt að skiptinemar einangrist og eigi miður góða daga í nýja landinu. Slíkar sögur hef ég heyrt og þið eflaust líka og veit ég raunar um örfáa sem gáfust upp á fyrstu vikunum hér.

Það var mér því mikið ánægjuefni að finna hve vel mér var tekið og eins og ég held að ég hafi minnst á fyrr þá virðist það vekja forvitni og áhuga fólks að manneskja á mínum aldri geti yfir höfuð gert svona nokkuð. Mér hlýnaði um hjartarætur um daginn þegar einn af ungu strákunum í „hópnum mínum“ sagði við mig að ég væri frábær fyrirmynd fyrir mömmu hans. Hún væri alltaf að tala um að hana langaði svo að læra eitthvað en endaði þær tölur yfirleitt á því að segja að hún væri orðin of gömul fyrir það. Nú væri hann búinn að segja henni frá mér og nota mig sem dæmi um það hvað margt væri hægtSmile.

Ég vissi að það yrði oft erfitt að vera fjarri fjölskyldu og vinum og að þær stundir kæmu sem ég myndi velta því fyrir  mér hví í ósköpunum ég væri að þessu og hvað ég væri nú búin að koma mér út í. En þetta er nokkuð sem mig hefur svo lengi dreymt um og ég hreinlega varð að gera. Hvernig sem fer vil ég í framtíðinni frekar getað sagt; „ja, ég reyndi þó alla vega“ heldur en „ég vildi að ég hefði...“ .

Þó ég sé aðeins búin að vera hér í tvo mánuði þá hef ég þegar gengið í gegnum fjölbreyttan „skala“ tilfinninga. Og það er kannski eðlilegt að það gerist einmitt á þessum fyrstu vikum. Alveg í byrjun er allt svo spennandi og nýjabrum á öllu en svo þegar frá líður og allt verður venjulegt þá kemur að því að maður fær tíma til að velta fyrir sér því neikvæðara. Þetta er reyndar þekkt ferli sem var kynnt fyrir okkur í fyrsta þýskukúrsinum og kallað u-kúrfa upplifunarinnar(af því að koma til nýs lands).

Ég er ánægð með að hafa fengið þær upplýsingar sem þar komu fram og þær koma eflaust til með að hjálpa mér að komast í gegnum hin mismunandi stig þessarar reynslu. Ég er þegar búin að upplifa það að líta til baka og hugsa; já ég er á þessu stigi núna, óþarfi að hafa áhyggjur, þetta er allt eðlilegt. En ekki misskilja mig, þetta er nú ekki búið að vera neitt voðalegt drama;-) Það er einfaldlega svo margt sem maður hugsar um og upplifir á annan hátt á nýjum stað.

Ég gæti líka trúað því að fyrir mig sem er að gera þetta á þessum tímapunkti í lífinu sé upplifunin kannski sterkari að ýmsu leyti. Á mínum aldri veit maður að það er svo margt sem er ekki sjálfsagt í lífinu og svo margt sem getur gerst. Ungt fólk sem ekki er búið að koma sér upp fjölskyldu er yfirleitt kjarkaðra og frekar til í að láta vaða á hlutina. Kannski ný „sloppið“ að heiman frá mömmu og pabba, frelsinu fegið, tilbúið að leggja heiminn að fótum sér, finnst það geta allt. Þetta er sá eiginleiki sem ég öfunda það helst af. En ég veit að það er ljótt að öfunda og kannski get ég þetta bara líkaWink

En nú er nóg komið af væmni og spekingslegum pælingum í bili. Ég sagði frá því síðast að ég væri á leið til Stettin í Póllandi. Við fórum af stað um kl. tíu á sunnudagsmorgun, níu manns saman á tveimur bílum. Það er nánast sléttra tveggja tíma akstur þangað héðan og vorum við því komin um kl. tólf á bílastæði u.þ.b. tíu mínútna gang frá miðbænum. Löbbuðum við fyrst niður að ánni Oder og fengum okkur að borða á fínum veitingastað. Ég fékk mér þessa líka dýrindis rifjasteik og hún var sko ekki skorin við nögl! Ég þurfti nánast að leita að rifbeinunum í kjötinu, svo mikið var það og stóð ég nánast á blístri að máltíð lokinni. Með þessu drakk ég bjór sem heitir Okocim og er einn sá besti sem ég hef smakkað. Dökkur og pínu sætur og heil 8%! Síðan fékk ég mér kaffibolla á eftir og fyrir herlegheitin borgaði ég sem svaraði 1.700 íslenskum krónum!

Gengum við því næst inn í bæ og aðeins um þar. Fórum þó fljótt inn í stóra verslunarmiðstöð því hálfa erindið var að versla þar sem það er mun ódýrara en í hér. Þar röngluðum við um fram undir kvöld og versluðu allir eitthvað, mismikið þó. Ég keypti mér tvær síðar og hlýjar peysur fyrir veturinn og eitthvað fleira smálegt. Fékk mér svo Starbucks kaffi og ís með því, svona þegar steikin var farin að sjatna eftir búðarápiðSmile

Enduðum við daginn síðan á því að fara í matvörubúð og birgja okkur upp af hinu og þessu sem hverjum og einum hentaði. Á heimleiðinni lentum við í mikilli þoku á köflum og tók heimferðin því eitthvað lengri tíma. Bartek var með kveikt á útvarpinu í bílnum og þar var einhver tónlist í gangi sem ég held að hafi verið úr kvikmyndum. Var hún mjög skemmtileg og sérstök og átti einkar vel við þar sem tunglið skein fleytifullt í gegnum þokuna. Varð þetta til þess að skapa sérkennilega stemmningu og held ég að okkur hafi öllum liðið mjög vel. Sátum við nánast þegjandi alla leiðina heim, nema þegar við sögðum eitthvað um tónlistina og hvað dagurinn hefði verið skemmtilegur. Við vorum svo ekki komin heim fyrr en um ellefu um kvöldið og hugsa ég að allir hafi sofnað fljótt og vel, sáttir og sælir með daginn.

Læt ég nú langloku lokið og óska ykkur góðra stunda að sinniSmile


...og fleiri partí!

Í síðasta pistli var ég að taka mig til fyrir afmælispartí hjá þeirri stelpu sem ég hélt að væri eini Norðmaðurinn á svæðinu. En svo kom nú reyndar önnur norsk stelpa þangað en ég er ekki alveg viss um hvað hún er að gera hér. En hvað um það! Það var auðvitað voða gaman eins og búast mátti við af þessum frjóu og skemmtilegu ævintýrakrökkum sem eru hér allt í kringum mig.

Það var meira að segja svo gaman hjá Sunni að við fórum allt of seint af stað niður í Geokeller, sem er eins konar klúbbur jarðvísindanema, en þar átti að vera 5 ára afmælisfagnaður LEI-samtakanna. Þar fyrir utan var því löng biðröð og þegar við vorum búin að bíða í u.þ.b. 45 mínútur þá nennti ég því ekki lengur og fór heim ásamt tveimur öðrum. Ég frétti svo daginn eftir að hinir hefðu komist inn stuttu seinna og skemmt sér ægilega velGetLost

Hluti af ástæðunni fyrir nennuleysi mínu í biðröðinni var sá að ég var orðin eitthvað skrýtin í hálsinum. Úti var skítakuldi mér leist ekkert á að fara að krækja mér í einhver veikindi. En ég var sum sé komin með kvef og ekkert við því að gera nema bara sulla í mig tei úr fjallagrösum og blóðbergi, sem góð vinkona nestaði mig með að heiman, á víxl við Jägermeister, sem Þjóðverjar halda fram að sé hinn hollasti drykkur. Hann er nú greinilega eitthvert grasagums líka því á flöskunni stendur að í honum séu a.m.k. 56 tegundir af jurtum alls staðar að úr heiminum, verði ykkur að góðuW00t

En kvefið rjátlaðis nú af mér fyrr en varði og varð ekkert átakanlega slæmt en það þakka ég vissulega grösunum góðuSmile Helginni varði ég því að mestu í rólegheitum og lestri. Svo gekk vikan tíðindalítið fyrir sig sem er auðvitað hið besta mál. Magda var líka hundkvefuð og slöpp þannig að við væfluðumst hér um snörlandi og fölar á brún (og er nú ekki á náttúrulegan fölva okkar bætandi; hún er jafnvel enn ljósari yfirlitum en ég!). Milu fannst greinilega ástæða til að reyna að hressa okkur við og um ellefuleytið á miðvikudagsmorgun kallaði þessi elska í okkur og var þá búin að hita „Glühwein,“ sem er það sem við heima köllum jólaglögg, tína til smákökur og súkkulaði og flysja C-vítamínríkar appelsínur! Svo kom hún með tölvuna sína fram í eldhús og sýndi okkur, yfir þessum dásemdar veitingum, litla teiknimynd við svítuna úr Hnotubrjótnum eftir Tjaíkovskí.Happy Ekki amalegar trakteringar það, og upplyftandi fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Þið sjáið að ég er nú ekkert í voða slæmum félagsskap hérnaSmile

Ég svo fékk í vikunni tækifæri til að lesa öll norðurlandamálin nema finnsku. Á þriðjudaginn fékk ég langt bréf frá góðri vinkonu sem er líka í námsdvöl, að vísu í sínu eigin föðurlandi, Svíþjóð. Við fórum út með fimm daga milli bili í haust og vorum búnar að ákveða að skrifast á hvor á sínu máli á meðan við værum í burtu. Lesefni vikunnar í Skandinavíska þýðingakúrsinum sem ég sit var svo sagan af því þegar Emil í Kattholti hífði Ídu systur sína upp í fánastöngina. Fyrst las ég hana á sænsku og undirstrikaði nokkur orð sem ég skildi ekki eða var ekki alveg viss um hvað þýddu. Svo las ég norska textann og þá gat ég strikað nokkur orð út. Þar næst las ég þann danska og þá bættust einhver orð í skilninginn í viðbót og að lokum las ég færeysku þýðinguna og þá small þetta allt saman! Ótrúlega gaman að lesa þetta svona hvað á eftir öðru og bera saman þessi skyldu og skemmtilegu málHappy

Í gærkvöldi fór ég svo í heimsókn í næsta stigagang, til hinnar frönsku Alix, og þar var líka ensk vinkona hennar og eistnesku stelpurnar báðar. Við spjölluðum dágóða stund, mestmegnis um bækur, rithöfunda og breskt sjónvarpsefni, sem við höfðum allar býsna líkan smekk fyrir.

Síðan fórum við niður í bæ og hittum nokkra krakka í viðbót og sátum lengi sötrandi og masandi á Domburg. Það er fremur sérstök krá verð ég að segja, þ.e.a.s. kjallarinn, en þar eru ekki borð og stólar heldur hálfgerðar kojur og borð í þeim hér og þar. Fólk verður að fara úr skónum og annað hvort hreinlega að liggja eða sitja einhvern veginn flötum beinum eða með krosslagða fætur. Mér leið hálfpartinn eins og ég væri komin í einhverja hippakommúnu en þetta var svo sem ósköp notalegtSmile

Í dag er ég svo bara búin að lesa og reyndar taka smá göngutúr niður í bæ á kaffihús með Mögdu. Í fyrramálið bíður svo líklega enn eitt ævintýrið því við ætlum dálítill hópur að skreppa yfir til Stettin í Póllandi okkur til gamans! Ég hlakka heilmikið til og ætla að muna að búa mig almennilega svo mér verði nú ekki jafn kalt og í Stralsundferðinni um daginn! Það verður því vonandi frá einhverju skemmtilegu að segja næst og læt ég hér staðar numið að sinni.

Kærar kveðjur heimKissing


Partí og fleira.

Ég sagði víst síðast að næst ætlaði ég að segja frá partíi sem ég fór í á fimmtudagskvöldið í síðustu viku. Það var nú bara svona til að æsa upp í ykkur forvitninaWink

Hann Philipp, sem er einn af Erasmus leiðtogunum, bauð okkur krökkunum í hópnum mínum (takið eftir að ég segi okkur krökkunumCool) að koma á fyrstaársnemakvöld í klúbbkjallara Baltistik/Slavistik-deildarinnar. Þó að aðeins einn úr hópnum tengist þeirri deild sagði hann að þetta væri í góðu lagi og ekki bara fyrir þessa deild. Við vorum ein átta stykki sem þáðum boðið og varð þetta hið skemmtilegasta kvöld, mikið spjallað og hlegið og m.a.s. dansað! Plötusnúður var á staðnum og það var bara rétt eins og ég hefði verið á græjunum, hann spilaði svo skemmtilega tónlistWink Og mér heyrðust ungu krakkarnir vera býsna kátir með hann líka!

Við vorum tvær sem höfðum komið með strætó og fylgdumst við vel með klukkunni til að missa nú ekki af síðasta vagni. En þegar við ætluðum að fara að tygja okkur af stað þá sagði hann Bartek séntilmaður að hann væri á bíl og gæti skutlað okkur heimSmile Þannig að við gátum slappað af og skemmt okkur aðeins lengur. Það er býsna fjörugt félagslíf hérna á meðal þessa góða hóps sem ég þekki mest og er ég búin að fara í nokkur smærri partí bara svona í "heima"húsum. Og það segir sig sjálft að þau partí geta ekki orðið mjög stór þar sem íbúðirnar eru ósköp litlar og engin ofgnótt af húsgögnum í þeim. Þetta verður því allt bara mjög kósí og notalegt. En ekki orka ég nú að eltast við allt sem í boði er og afsaka mig með því hvað ég sé gömul. Þá er nú reyndar yfirleitt hlegið að mér og ég fæ meiningarfullar augnagotur og athugasemdir sem segja að það sé allt í lagi að afsaka sig en þessi afsökun sé ekkert sérstaklega marktækJoyful Eru þau ekki sæt, þessar blessaðar elskur?InLove

Föstudagur og laugardagur voru svo bara rólegheitadagar með helgarinnkaupum og lestri. Ég fór að vísu í Norrænudeildina á föstudagsmorgun og sat tíma í þýðingakúrsinum hennar Andreu Hesse og á ég von á því að ég geri það áfram. Það verður ágætis áskorun fyrir mig að sitja kennslustundir sem fram fara á þýsku og líka gaman að lesa norðurlandamálin aðeins.

Á sunnudagsmorguninn spurði Magda hvort við Mila værum til í að koma með henni í göngutúr út í Wieck en þar er kaffihús sem hana hafði lengi langað til að prófa. Mila var upptekin við lærdóm þannig að við Magda fórum bara tvær. Þetta varð hinn skemmtilegasti göngutúr í yndislegu haustveðri. Það var sól og blíða en annars er búin að vera þoka meira og minna síðasta hálfan mánuðinn. Kaffihúsið heitir „Alte Schule“ eða gamli skólinn og er það mjög skemmtilegt og margt sem minnir á skólann sem þar var einu sinni, svo sem skólamyndir, skólatöskur og ýmislegt annað dót. Þar smakkaði ég í fyrsta skiptið Knödel sem eru einhverjar soðnar (held ég) hveitibollur. Þessar voru sætar, með ávaxtafyllingu, hindberjasósu og þeyttum rjómaJ Yfir þessu sátum við lengi og spjölluðum. Svo gengum við aðeins um þorpið (Wieck) og svo í gegnum Eldena á heimleiðinni og kíktum aðeins á klausturrústirnar.

Vikan hefur svo gengið nokkuð venjulega fyrir sig. Ég fór þó á fund á miðvikudagskvöldið hjá hóp sem vinnur að verkefni sem heitir „Europa macht Schule“ og hefur það markmið að virkja skiptinema til að kynna land sitt og þjóð fyrir grunnskólabörnum á hverju svæði. Þetta hljómar nokkuð skemmtilega og er ég að hugsa um að taka þátt. Ég þarf þá að undirbúa og halda kynningu á íslandi í einhverjum skóla hér í Greifswald næsta vor. Er manni nokkuð í sjálfsvald sett hvernig kynningin fer fram og þarf ég nú að leggja höfuðið í bleyti og spegúleraWoundering

Þessi vika hefur líka gengið ósköp venjulega fyrir sig og nú er enn eitt partíið framundan, eða öllu heldur tvö! Ein stelpan í hópnum á afmæli og er búin að bjóða slatta af liði til sín í kvöld og svo er 5 ára afmælisfagnaðu LEI líka í kvöld og er líklegt að þangað verði stormað úr partíinu hennar Sunni. Þið sjáið að það er að verða grínlaust að reyna að sinna félagslífinu hérnaWhistling

Og nú þarf ég að fara að fá mér eitthvað í gogginn áður en partístandið byrjar, ekki fer maður að fá sér í glas á tóman maga!?

Segi ég því bara skál í boðinu!


Íslenska í Greifswald, lítill heimur!

Ég talaði um það síðast að lífið væri að færast í fastar skorður og hélt að nú kæmi ekkert fleira á óvart í bili. En maður veit aldrei hvað er handan við næsta horn!

Hún Tanja hafði nokkrum sinnum hvatt mig til að koma við í Norrænudeild háskólans (Nordische Abteilung) og vita hvort þar leyndist ekki eitthvað skemmtilegt. Ég frétti það reyndar fljótlega eftir að ég sótti um hérna að hér væri slík deild og að þar væri (eða hefði a.m.k. verið) kennd íslenska.

Eftir tímann í Félagsmálvísindunum á þriðjudagsmorguninn lét ég svo loksins verða af því að tölta yfir í Hans-Fallada Strasse þar sem Norrænudeildin er til húsa, í gamalli glæsivillu. Þegar þangað kom hitti ég fyrir tvo menn sem töluðu íslensku, annar þeirra alveg prýðilega en hinn eitthvað minna og sneri hann strax aftur yfir í þýskuna og lét hinn að mestu um að tala við mig. Það var eins eins og sá hefði himin höndum tekið og mér leið bara eins og einhverju fyrirmenni (ekki í fyrsta skiptið hér!) yfir móttökunum. Þetta var sem sagt hann Gernot Hohnstein og þar sem það voru aðeins nokkrar mínútur í að kennslustund hæfist hjá honum gaf hann mér bara netfangið sitt og spurði hvort ég væri til í að koma einhvern daginn í kennslustund hjá honum til að tala íslensku við nemendurna hans. Hann er reyndar aðallega að kenna forn-íslensku en vildi samt endilega að ég kæmi.  Svo benti hann mér á tvo aðra einstaklinga sem vinna við deildina og fór ég því aftur á staðinn eftir kennlustund seinni part dagsins.

Þá hitti ég fyrir hann Hartmut Mittelstädt. Það var hálf-furðulegt að vera allt í einu farin að tala íslensku við þjóðverja sem ég hafði aldrei séð áður. En það var vissulega mjög gaman og var íslenskan þeirra beggja aldeilis ljómandi góð! Ég man nú ekki alveg hvað Hartmut sagðist hafa dvalið mikið á Íslandi en það var ekki ýkja mikið og Gernot talaði ég ekki nógu lengi við til að ná að spyrja hann um það. Hartmut er að kenna tveimur einstaklingum nútíma-íslensku og kannast ég aðeins við annan þeirra, stúlku sem ég hitti fyrst á pöbbakvöldinu. Ég mun líklega fara í tíma til hans til að spjalla við þessi tvö og hlakka ég sannarlega til þess!

Þegar við höfðum spjallað saman í dágóða stund fór ég að afsaka það að vera að tefja hann en hann kvað það í góðu lagi. Spurði hann mig svo hvar ég byggi og sagði ég honum það. Þá sagðist hann vera að fara að spila handbolta í sömu götu og ég bý við og bauð mér far sem ég þáði með þökkum.

Þegar við komum út úr húsinu og vorum að stíga inn í bílinn hans þá heyrðist spiluð tónlist í nágrenninu og hann undrar sig eitthvað á því. Ég heyri strax að þetta er lúðrasveit og segi við hann að þetta minni mig nú bara á staðinn þar sem ég hafi búið í Reykjavík síðustu þrjú árin, þar hafi nefnilega verið æfingahúsnæði lúðrasveitar í næsta húsi. Hann spyr hvaða lúðrasveit það sé og segi ég honum að það sé Svanurinn. Þá kinkar hann kolli og brosir og segist kannast við þá sveit því hann hafi verið túlkur þeirra og leiðsögumaður þegar sveitin var í heimsókn í Austur-Þýskalandi fyrir yfir 20 árum. Þá rifjast það upp fyrir mér að hann Siggi Smári vinur minn og Guðrún systir hans höfðu minnst eitthvað á það, þegar ég sagðist vera að fara til Greifswald, að þar hefði búið einhver Hartmut sem hefði verið leiðsögumaður Svansverja í Þýskalandsferð fyrir löngu síðan! Makalaust hvað heimurinn getur nú verið lítillSmile

Á föstudaginn fór ég síðan enn eina ferðina í Norrænudeildina og hitti þar hana Andreu Hesse sem kennir þýðingar á milli norðurlandamála og þýsku og einnig eitthvað um þýðingar á milli norðurlandamálanna. Hún sagðist nú ekki kunna mikið fyrir sér í íslensku og að kúrsarnir hennar snerust ekki beinlínis um það að þýða heldur væru þeir meira fræðilegir og fjölluðu um ýmis vandamál sem þýðendur kljáðust við. Vel gæti svo farið að ég sitji tímana hjá henni þó ég eigi enn fullt í fangi með að skilja talað mál, ekki síst svona á fræðilegri nótunum. En það væri vissulega mjög góð æfing fyrir mig og aldrei að vita hvað út úr því getur komiðSmile

 Læt ég nú gott heita í bili og segi ykkur frá partíinu á fimmtudagskvöldið næstWink


Lífið að komast í fastar skorður.

Þá er þriðja skólavikan að hefjast og nokkuð reglulegt mynstur að komast á lífið. Síðasta vika snerist að mestu um skólann og ýmislegt smástúss honum tengt. Ég er að reyna að koma mér í lestrargírinn en kúplingin er dálítið þungWoundering Svo byrjaði ég í jóga-mixinu á miðvikudaginn og það var mjög fínt. Nokkuð strembið þó og fékk ég býsna hressilegar harðsperrur á eftir! Þetta er auðvitað mjög líkt venjulegu jóga en stöðurnar notaðar dálítið öðru vísi. Stundum er maður aðeins lengur í þeim, stundum eru spunnar einhverjar hreyfingar út úr þeim og svo er oft meiri hraði og ekki stoppað á milli staðanna.

Á föstudaginn var fór ég í bæinn, bara svona til að dúllast í góða veðrinu og kíkja í nokkra búðarglugga. Og það er sko nóg af þeimSmile Margar skemmtilegar og fallegar búðir sem gaman er að skoða. Fór svo inn í Junge Stadtbäckerei til að fá mér kaffi og hitti þar þrjár Erasmus-stelpur, þær ítölsku báðar og eina tékkneska. Þær buðu mér að setjast hjá sér og við spjölluðum dágóða stund yfir kaffi og kökum. Það er alveg ótrúlegt hvað allir eru áhugasamir um landið mitt og það er sífellt verið að spyrja mig um hitt og þetta. Eitt af því sem þær spurðu mig um var hvað við borðuðum. Það spannst svo alls konar grín út frá lýsingum af sauðfjárinnyflum, sviðum og kviðsviðum og hákarli. Mér gekk hálf bölvanlega að lýsa verkuninni á hákarlinum á þýsku og þær skildu ensku orðin yfir hlutina ekkert betur. En svipbrigði þeirra lýstu ekki miklum áhuga á að prófa umrædd matvæliWink

Í gær, sunnudag, var svo ferð til Stralsund sem er næsti stóri bær hérna norðan við Greifswald. Þar búa eilítið fleiri en hér, eða um 57.000 manns, og þangað er tæplega hálftíma lestarferð. Þessi ferð var skipulögð af LEI (þessum hópi sem ég var örugglega búin að segja frá og er í því að dekra við okkur Erasmusana) og vissi ég af henni frá fyrsta degi veru minnar hér. Fengum við leiðsögn um gamla bæinn og var farið fótgangandi fram of aftur um hann í tæpa tvo tíma.

Gamli bærinn í Stralsund er á heimsminjaskrá UNESCO og kemur það til af því að skipulag hans er nánast óbreytt frá stofnun hans á 13. öld. Bærinn er óskaplega fallegur og ákaflega gaman að ganga um hann og virða fyrir sér öll þessi gömlu, fallegu hús. Mikið hefur verið gert síðustu árin til að fegra hann og glæða lífi á ný en á tímum Alþýðulýðveldisins þóttu þessi gömlu hús ekki par fín. Hafði fólk að mestu flust út í úthverfin með sínum nýtískulegu og óneitanlega praktískari, en jafnframt steingeldu Plattenbau-blokkum. Núna er það hins vegar komið í tísku að búa í miðbænum og sést það mjög vel á því hvernig húsunum og umhverfi þeirra er við haldið. Þarna eru heilu göturnar sem gætu nánast verið klipptar út úr barnabókum eða teiknimyndum, svo krúttlegar eru þær og húsin litrík.InLove Ég hafði það á orði við ferðafélagana og leiðsögumanninn að það að búa þarna væri eins og að búa á safni og voru allir sammála um að það væri rétt lýsing.
Eftir gönguferðina var eins og hálfs tíma frjáls tími sem ég held að flestir hafi notað til að setjast inn á kaffi- eða veitingahús og fá sér eitthvað heitt í kroppinn því það var skítkalt! Norska verðursíðan yr.no hafði spáð  5-10°c en það hefur varla verið mikið yfir frostmarki og strekkingsvindur með. Ekki voru allir undir það búnir, þ.á.m. ég, og var ég hvorki með húfu né trefilFrown Síðan var farið í stórt og flott sjávarlífssafn sem er við höfnina og það skoðað í tvo tíma og var það líka mjög gaman.

Heimleiðis var svo haldið um 17:30 og var ég mjög fegin að setjast inn í hlýja lestina og ná í mig smá yl. Það var líka gott að koma heim og eiga þar drjúgan afgang af gómsætum kjúklingi og grænmeti sem ég hitaði vel og rann það ljúflega niður með rauðvínstáriWhistling

En nú ætla ég að láta gott heita og drífa mig í að hringja í mína yndislegu mömmu sem á afmæli í dagHeart

...og áfram heldur það!

Þriðjudaginn 4. október byrjaði svokölluð „Erstsemesterwoche“ en það er nafnið á fyrstu viku vetrarins í skólanum (og nýstúdentar og allir nýir nemar eru kallaðir „Erstis“). Þá fara fram alls kyns kynningar og boðið er upp á skemmtiatriði af ýmsu tagi, háskólanemum til ánægju.  Þennan dag var líka formleg skráning í íþrótta“kúrsa“ eða það sport sem hver og einn kærir sig um að stunda sér til ánægju og heilsubótar  meðan á námi stendur. Úrvalið er hreint út sagt ótrúlegt og auðvelt að fyllast valkvíða þegar maður fær bæklinginn frá Háskólasportinu í hendurnar! Eftir að vera búin að lesa hann nánast allan í gegn (það er tugir mismunandi námskeiða í boði!) þá endaði ég nú bara á því að velja eitthvað sem heitir Yoga Mix og mér skilst að sé blanda af Jóga og Pilates. Og fyrir einn og hálfan klukkutíma í viku frá 20. okt. – 28. jan. Borgaði ég heilar 25 evrur sem er rúmlega 4.000 íslenskar krónur.

Eftir skráninguna labbaði ég upp í Mensu, sem er háskólamatsalan, og þar eru líka til húsa ýmsar stofnanir eins og Stúdentaráð og Stúdentagarðarnir. Þar var hins vegar svo mikið kraðak af fólki að ég nennti ekki að skoða það sem um var að vera og fór bara á röltið. Hitti svo eina stelpu sem ég þekki og hafði ekki heldur nennt að standa í öllu kraðakinu. Við fengum okkur kaffi saman í rólegheitum og fórum  við svo aftur saman í Mensu seinni partinn þegar mesta flóðið hafði fjarað út. Fengum við þá gefna þessa fínu poka, merkta Greifswald, og voru þeir fullir af upplýsinga- og auglýsingabæklingum og ýmsu öðru dóti: bol, pennum, kveikjara, nammi og smokkWink Svo fórum við heim og ég varði kvöldinu í heimalærdóm fyrir þýskukúrsinn. Þegar heim kom var annar sambýlingurinn mættur á svæðið, þessi líka ljómandi geðuga stúlka frá Tékklandi, hún Magda. Svo auðvitað þurfti ég líka að spjalla aðeins við hana. Hún er sem betur fer mjög góð í þýsku og er með BA-próf í ensku eins og égSmile  Þannig að ég get notað hana fyrir orðabók og leiðréttinagarforrit líkaWink

Á miðvikudeginum var nokkurs konar prufu-próf fyrir lokaprófið í þýskukúrsinum. Mér fannst mér ganga skelfilega illa og var hálf miður mín á eftir. Þannig að ég var bara heima við þann daginn að reyna að klóra eitthvað í bakkann í náminu. Daginn eftir fengum við svo útkomuna og ég hafði mér til mikillar undrunar náð 60%, en það var mun betra en ég hélt. Ég komst líka að því að ég var ekki ein um að hafa fengið sjokk yfir prófinu. Þá tilkynnti kennarinn að þetta hefði verið mun erfiðara próf heldur en lokaprófið yrði og öllum var nokkuð létt. Ég ákvað nú samt að vera bara heima, stillt og prúð, og lesa fyrir blessað prófið. Það gekk svo bara ágætlega og viku seinna komst ég að því að ég hafði fengið 76% fyrir það, sem Frau Lüring (kennarinn) sagði að væri mjög gott.

Það var þungu fargi af mér létt eftir prófið á föstudeginum. Ég hafði ætlað mér beint niður í bæ að halda upp á það að þetta væri búið en þá fór ég að spjalla við eina pólska stelpu sem ég þekki ágætlega og hún minnti mig á að kl 2 væri kynningin á bókasafninu, en því hafði ég steingleymt. Við fórum því þangað og ég sá ekki eftir því. Góð kynning á öllu sem safninu viðkemur, bókakosti jafnt sem starfsemi. Feykilega flott og glæsilegt bókasafn! Það var svo komið hálf leiðinlegt veður svo ég fór bara heim eftir það. Þegar heim var komið kom póstmaðurinn rétt á hælana á mér með langþráðan pakka: sængina mína góðu og prentarann! Ég ætlaði svo að eyða kvöldinu í að horfa á íslenskt sjónvarp, fréttir og kastljós og útsvar en þá var eitthvað vesen á vefnum hjá RÚV svo ég gat ekkert séðAngryReyndi þá bara að finna eitthvað þýskt í staðinn sem tókst og ég horfði á það með öðru auganu og hélt áfram með sjalið sem ég er að heklaSmile Sofnaði svo vel undir sænginni mjúku og góðuInLove

Laugardagurinn var bara dúllerí; bloggskrif, þvottur, hekl og eplakökuát því Magda hafði bakað þessa fínu köku! Um kvöldið kom svo hinn sambýlingurinn, hin rússneska Mila sem mér líst líka alveg prýðilega áSmile Um kvölmatarleytið komu svo skilaboð á facebook frá honum Jindra um að hann ætlaði til Rügen daginn eftir og hvort einhverjir vildu með. Það voru margir um hituna og ég lenti því á biðlista ef svo má segja. En morguninn eftir var greinilega mishátt risið á mannskapnum þannig að einhverjir duttu út og ég  komst meðHappy Hinir farþegarnir þrír voru allir pólskir, og kannaðist ég aðeins við þau öll, en Pólverjar eru langfjölmennastir af erlendu nemunum hér. Keyrði Jindra svo sem leið lá til Stralsund en þar er brúin út í eyna. Og áfram var haldið og keyrt beinustu leið í Jasmund þjóðgarðinn. Þetta var alls um klukkustundar akstur. Þar skoðuðum við skemmtilega sýningu um tilurð landsvæðisins í kring og lífríkið þar; aðallumfjöllunarefnið voru útskýringar á því hvernig kalksteinn verður til (sem ég treysti mér nú ekki til að reyna að endursegja hér). Fórum við svo í langan göngutúr í gegnum skóginn og að hinum frægu kalksteinsklettum sem mynda ströndina þar á löngum kafla. Eftir heimsóknina í þjóðgarðinn keyrðum við lengra norður á eina og skoðuðum lítið þorp sem heitir Putgarten en þaðan er styst yfir til Svíþjóðar frá Þýskalandi. Það sýnir m.a. skilti við krá eina sem spyr hvort maður sé þyrstur og svarar sér svo sjálft með því að segja að þarna sé síðasta tækifæri til að bæta úr því áður en til Svíðjóðar komiSmile Þeir hafa kannski ekki mikið álit á sænskum bjór, Þjóðverjarnir!
Við fórum líka í langan göngutúr um svæðið þarna og skoðuðum  gamla vita og fleira fróðlegt. Þegar við komum aftur inn í þorpið var orðið alveg dimmt og áttum við fullt í fangi með að finna bílinn aftur! En það hafðist á endanum og svo var brunað beinustu leið heim en það tók rétt um einn og hálfan tíma og vorum við komin til baka um 9 leytið. Skemmtilegur dagur og mikið gengið þannig að ég sofnaði fljótt og vel.
Nú tók við fyrsta skólavikan og alvara lífsins byrjaði að ýta manni aðeins niður á jörðina eftir þá sumarfrísstemmningu sem ég var búin að vera í síðan ég kom.
Vikuna byrjaði ég þó á því að fara niður í Ráðhús og skrá mig formlega sem borgara í Universitäts- und Hansestadt Greifswald, eins og borgin heitir fullu nafni! Þetta er eitthvað sem er skylda að gera og fær maður ágætis hvatningu til þess: 150 evrur að gjöfHappy Eftir það fór ég svo upp í Mensu að skrifa undir leigusamning fyrir herbergið. Svo fór ég bara heim því það var leiðindarigning og ekkert spennandi að vera að dúllast í bænum í henni. 
Þriðjudaginn 11. byrjaði svo skólinn hjá mér með tveimur tímum sama daginn; fyrst kl 8 um morguninn og svo kl 4. Það var bara alveg ágætt að komast loksins í skólann og hitta kennara og samnemendur.
Ég hentist svo heim eftir seinni tímann til að gera mig fína því um kvöldið kl 7 var formleg athöfn í hátíðarsal skólans (flottu „Álunni“ sem ég sagði frá síðast!) fyrir alla nýju erlendu skiptinemana en þeir eru allt í allt eitthvað á þriðja hundrað. Þetta var að mörgu leyti fín athöfn en ég held að hún frú Roth hjá Auslandsamtinu slái honum Hjöra Gutt næstum því út í þrautræðniGasp Prorektor skólans, hann herra Dünkel byrjaði á að tala í svona tíu mínútur og svo tók hún við og var hátt í þrjú korter! Þeim varð báðum tíðrætt um það hve mörg þjóðerni væru þarna saman komin og endaði hún á því að telja þau upp og láta alla standa á fætur og sýna sig. Byrjaði hún á þeim löndum sem áttu bara einn fulltrúa, ef svo má að orði komast. Ein stúlka frá Belgíu, ein frá Danmörku, ein frá Íslandi Whistling og ein frá Finnlandi (það er reyndar ein líka frá Noregi en hún var einhverra hluta vegna ekki talin upp þarna). Svo voru tveir frá einhverjum löndum og svo bættist alltaf í og var endað á Pólverjunum en þeir eru 28 í nýliðahópi ársins. 53 þjóðerni voru þetta alls!

Eftir þetta var svo farið á veitingahús og þar var boðið upp á Brötschen með alls konar áleggi. Búið var að skreyta staðinn með fánum allra þeirra þjóðlanda sem þarna áttu fúlltrúa. Þar var svo setið og spjallað lengi kvölds.Miðvikudagurinn fór svo að mestu leyti í lestur og dund heima við. Ég skrapp þó aðeins niður í bæ til að ná í bankakortið mitt sem var loksins tilbúið eftir hálfs mánaðar bið!

Á fimmtudaginn þurfti ég svo að fara yfir í Makarenkostrasse til að fá niðurstöðurnar úr þýskuprófinu og í framhaldi af því að velja mér þýskukúrs fyrir veturinn. Eftir það fór ég og „meldaði“ mig hjá Útlendingaeftirlitinu og þar með held ég að öllu skrifræðisveseni sé loksins lokiðW00t

Föstudagsmorguninn fór síðan í þrif á heimilinu. Svo tók ég sólskinsgöngutúr niður í bæ til að versla eitt og annað smálegt. Kom svo heim og eldaði mér dýrindis ítalska pastasósu og pasta og sat svo á spjalli við Mögdu dágóða stund. Horfði svo á íslenska sjónvarpið sem ekki var með neitt vesen þetta kvöldiðSmile

Og nú í morgun er ég bara búin að lesa smá og skrifa þennan pistil og þar með loksins búin að ná í skottið á sjálfri mér!


Lífið er ævintýri!

Lífið er ævintýri!Föstudaginn 30. sept. kl 14 var boðið upp á útsýnisgöngu um skólann, þ.e.a.s. gömlu aðalbygginguna. Húsið var byggt á árunum 1747-50 og er hið fallegasta. Gamli hátíðarsalurinn, Álan(die Aula), er sérstaklega fallegur; rauðmálaður (sem er reyndar nýlegur litur) og hvítur, með marmaramáluðum súlum. Þar er einnig mikill útskurður og gyllingar. Þessi salur var reyndar upphaflega bókasafn skólans en það flutti í húsnæði sem sérstaklega var fyrir það byggt árið 1882. Ér verð nú að viðurkenna að ég náði ekki miklu af því sem leiðsögumaðurinn sagði, bæði vegna þess að blessuð stúlkan talaði ekki mjög hátt og eins er þýskuhlustunareyrað mitt ekki orðið mjög þjálfaðBlush En þetta var samt mjög gaman. Eftir þetta fórum við Tanja á kaffihús en vorum voða hógværar og fengu okkur bara eina köku samanHalo Svo tók við enn meira bæjarrölt í blíðunni og rólegheitakvöld heima við.Laugardagurinn 1. október rann upp með dásamlegu veðri, glampandi sól og hita. Þann dag var samkvæmt hinu þéttskipaða skemmtiplani LEI-hópsins búið að ákveða ferð niður ána Ryck og út í litla þorpið Wieck, sem stendur við árósinn, svo og að klausturrústunum í Eldena. Hittist allur hópurinn við Ráðhúsið og þaðan var gengið niður á Museums Hafen sem er bara nokkurra mínútna labb. Þar fórum við um borð í lítið skip og sigldum sem leið lá niður ána og út á víkina, Dänische Wieck, og aftur til baka. Þessi sigling var afar skemmtileg og veðrið alveg dásamlegt, rúmlega 20°c og glampandi sól. Þegar til baka var komið fórum við af skipinu í Wieck og í dálítinn göngutúr um þorpið. Það er hreinn draumur í dós og með þeim alkrúttlegustu sem ég hef séðInLove Voru nú ýmsir orðnir nokkuð svangir og stungu fararstjórarnir upp á því að við prófuðum „Fischbrötschen,“ sem eru lítil brauð, svona aðeins stærri en rúnstykki og eilítið aflöng. Inn í þau er svo stungið hinum ýmsustu fisktegundum (og þetta er yfirleitt alltaf kalt). Ég fékk mér bara það fyrsta sem ég sá en það var með einhvers konar fiskibollu- eða borgara. Aldeilis ágætt! Svo sá ég aðra sem voru með reyktan lax og ýmislegt annað. Eftir matarhléið var svo gengið af stað í átt að Eldena klausturrústunum en þangað er aðeins um 10mín gangur frá Wieck. Klaustrið í Eldena var reist árið 1199 af dönskum munkum og er bygging þess jafnan talin marka upphaf byggðar í Greifswald. Við siðaskiptin í Pommern, árið 1535, var það síðan aflagt. Klausturbyggingarnar urðu fyrir miklum skemmdum í 30 ára stríðinu (1618-48) en þá voru hlutar þess rifnir niður og múrsteinarnir m.a. notaðir í virkisbyggingar. En nóg um það! Rústirnar eru mjög fallegar og það er greinilegt að klaustrið hefur ekki verið nein smásmíði!! Hinn frægi þýski málari Caspar David Friedrich gerði svo þessar rústir frægar með málverkum sínum.

Eftir skoðunarrölt um rústirnar var svo haldið til baka inn í bæ. Sumir tóku strætó en ég ákvað að ganga ásamt nokkuð stórum hópi annarra. Þetta varð hin dásamlegasti göngutúr í yndislegu veðri, fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Rólegheita rölt sem tók u.þ.b. klst. Þegar við vorum farin að nálgast Museums Hafen fórum við að heyra tónlist og runnum á hljóðið. Þar var þá hljómsveitin Krach að spila og það gerði hún um borð í lítilli skútu sem bundin var við bryggjuna. Ég fór ásamt fleirum og settist í grasið og hlustaði og drakk bjórW00t Skemmtileg sveit sem minnti mig á allar í senn Skálmöld, Hjálma og Stórsveit ReykjavíkurSmile

 Veðrið var svo makalaust dásamlegt (já, ég geri mér grein fyrir því hvað ég er búin að nota þetta orð oft!), og upplifun dagsins öll, að mann langaði ekki til að fara heim eða að dagurinn tæki enda. Ég og Tanja hin finnska og Sunni hin norska ákváðum því að framlengja göngutúrinn og gleðina með því að ganga heim (við búum allar í sama húsi). Dóluðum við eftir makalaust fallegum götum og nutum þess að horfa á hús og gróður og spjalla um allt og ekkert.

Þegar heim kom biðu skilaboð á facebook um að það væri partí hjá frönsku stelpunum kl 21 um kvöldið. Ég snarlaði í mig einhverjum mat og rölti svo þangað yfir (í næsta stigagang, ekki erfitt). Það varð hin skemmtilegasta samkoma með spjalli og nasli af ýmsu tagi. Þar kom upp sú hugmynd hjá tveimur piltum sem eiga bíla að fara í bíltúr til Usedom daginn eftir. Ég stökk auðvitað á það tækifæri og sé sannarlega ekki eftir þvíSmile

Kl rúmlega 11 var svo lagt af stað og veðrið var sama dásemdin og daginn áður. Við vorum 9 manns á tveimur bílum sem þeir Philip, sem er þýskur, og Jindra hinn tékkneski óku. Það er að jafnaði ekki nema tæplega hálftíma akstur þarna niður eftir en við vorum u.þ.b. 45 mín og Philip hafði það á orði að þetta væri nú kannski ekki gáfulegasti dagurinn til að fara til Usedom. Búast mætti við örtröð af fólki, bæði þar sem veðrið var svona gott og líka vegna þess að þetta var löng helgi. 3. október (sem var mánudagurinn eftir) er nefnilega þjóðhátíðardagur eða sameiningardagur þýsku ríkjanna.

Fyrsta stoppið þegar út í  eyna var komið var við hús sem stendur á hvolfi. Býsna skondið að ganga þar um loftin og skoða allt frá því sjónarhorniSideways Síðan var haldið til Peenemünde en höfnin þar gegndi mikilvægu hlutverki í Síðari Heimsstyrjöldinni. Afi Philips gegndi þar einhverri stöðu á þeim tíma. Síðan keyrðum við til bæjarins Zinnowitz en þar er falleg strönd og var þar mikið af fólki að njóta þessa óvænta sumarauka. Við lölluðum um bæinn og niður á ströndina og dóluðum þar dágóða stund. Fórum svo á veitingastað og fengum okkur í goggin, flestir fengu sér Fischbrötschen og nú prófaði ég þetta með reykta laxinum og það var alveg himneskt! Og drakk bjór með, hvað annað;-) Síðan var meira dól, aftur farið niður á strönd og tekinn góður göngutúr þar. Heimferðin tók svo enn lengri tíma en hin þar sem umferðin gekk afskaplega hægt. Og það tók okkur sem sagt rúmlega einn og hálfan klukkutíma að komast heim aftur! Leið sem ætti að taka í mesta lagi 35-40 mín að öllu eðlilegu. Þrátt fyrir þessar tafir var dagurinn alveg frábær og lítið síðri en laugardagurinn. Ég hugsaði mikið um það á heimleiðinni hvað ég væri heppin að eiga kost á þessu öllu saman. Mánudeginum eyddi ég svo bara í dúllerí heima við og í heimalærdóminn fyrir þýskukúrsinn.

Kærar kveðjur þangað til næstSmile

P.s. Það er ýmislegt sem útlendingsauganu finnst skrýtið hér og eitt af því er það að ég hef ekki séð einn einasta kött síðan ég kom! Hér teymir annar hver maður hund og er varla þverfótað fyrir þeim, meira að segja inni á kaffihúsum og inni í búðum!! En engin kisa.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband