8.10.2011 | 21:01
Nýjabrum

Laugardaginn 24. september svaf ég bara út og dúllaðist heima við fram að hádegi. Um eitt leytið lallaði ég svo af stað niður í bæ í dásamlegu veðri og rétt fyrir kl 2 var ég mætt við Ráðhúsið. Erindið þangað var að fara í gönguferð um miðæinn sem boðið var upp á fyrir Erasmus stúdentana. Það er hópur sem heitir Lokale Erasmus Initiative (LEI) sem stóð fyrir honum og mun hann einnig standa fyrir alls konar uppákomum skiptistúdentum til skemmtunar og fræðslu í allan vetur. Gangan var mjög skemmtileg og fróðleg og hápunktur hennar, í fleiri en einum skilningi, var sá að prílað var upp í (100m háan!) turninn á Nikulásarkirkjunni. Og eins og gefur að skilja var þaðan aldeilis frábært útsýni yfir borgina og nágrenni hennar og alveg út í báðar eyjarnar, Rügen og Usedom
Eftir það var göngunni formlega lokið en stelpurnar sem leiðsögðu okkur stungu upp á því að við löbbuðum út að Museums Hafen, sem er í rauninni bara gamla höfnin í bænum. Ég tölti þangað líka (bara 5mín labb) þó ekki væri til annars en að sjá staðinn. Þar var svo bara sest í grasið og farið að spjalla saman. Ég var ein á báti og ætlaði nú eiginlega að fara að snúa við og fara aftur inn í bæ þegar stúlka sem sat við hliðina á mér gaf sig á tal við mig. Hún reyndist vera frá Finnlandi og heita Tanja og með henni var hin Pólska Magda. Svo kom Fransizca hin þýska í viðbót en hún hefur verið að læra finnsku og þurftu þær Tanja auðvitað að spjalla svolítið saman á finnskunni. Við sátum svo allar og spjölluðum dágóða stund og ég fór svo aftur inn í bæ og á kaffihús, en ekki hvað
Sunnudagurinn rann svo upp hlýr, bjartur og fagur og ég fór í langan göngutúr um bæinn. Gekk fyrst að því sem ég hélt að væri lystigarður en reyndist svo aðeins vera trjágarður eða trjásafn (Arboretum). Það var mjög gaman að sjá alls konar misframandleg tré og haustlitadýrðin að komast í hámark. Svo gekk ég fram hjá nýja Háskólabókasafninu og spítalanum og alveg niður í bæ. Enn og aftur sá ég nýjar götur og gladdist yfir því hvað þessi blessaði bær er fallegur Nú var ég komin niður í miðbæ, eina ferðina enn, og ekki með neitt sérstakt erindi. Datt þá ofan í höfuðið á mér hvort ekki væri nú sniðug hugmynd að gerast svolítið menningarleg og fara á safn. Fyrir valinu varð, nokkuð fyrirsjáanlega kannski, Pommerisches Landesmuseum sem er nokkurs konar Þjóðminjasafn fyrir þetta svæði hér (Mecklenburg-Vorpommern). Það var mjög gaman að skoða það og var ég þar í tæpa 3 tíma! Áður en ég fór heim fór ég svo, ...jájá, ég held að þið séuð alveg búin að fatta þetta, á kaffihús
Kl 7 um kvöldið þann sama dag var svo planað Kneipenbummel á vegum LEI en það var sem sagt kráarrölt með leiðsögn! Hittust allir við Ráðhúsið og var svo skipt upp í grúppur. Ekki fengum við neitt að velja okkur saman heldur skipuðu LEI-krakkarnir okkur að standa í hring, gengu svo á milli og númeruðu liðið og valdist því í hópana af handahófi. Þetta var aldeilis frábærlega skemmtilegt kvöld og hitti ég marga nýja krakka og spjallaði mikið. Minn hópur fór á þrjá pöbba; fyrst á Domburg, sem er frekar gamall staður, svo á Cheers, sem er alveg nýr og síðast á Die Urige Kneipe sem er eldgömul. Það er skemmst frá því að segja þetta kvöld setti ég persónulegt met! Og nú bið ég ykkur að halda ykkur fast; ég drakk heila ÞRJÁ bjóra!!! Hehe, ég veit að flestu venjulegu fólki finnst ekki sérlega mikið til um það en þeir sem þekkja mig best vita að ég hef aldrei verið hrifin af bjór og hef undanfarin ár drukkið að meðaltali einn á ári (á Þorrablótinu heima í Svarfaðardal!). Og það sem meira var; tveir af þessum bjórum voru bara alveg ágætir (enda dökkir)! Einhverjir myndu eflaust segja að þroskamöguleikum mínum séu lítil takmörk sett og verður þetta kvöld að teljast til sterkari dæma um það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2011 | 17:15
Loksins kemst ég áfram!
Nú held ég að ekki sé seinna vænna fyrir mig að fara að halda eitthvað áfram ef ég á einhvern tíma að ná að koma til skila því sem á daga mína hefur drifið þessar síðustu tvær vikur. Þetta er búnn að vera viðburðaríkur tími og varla gefist stund til að setjast niður og líta til baka.
Ég flaug til Þýskalands í tveimur leggjum, svo ég leyfi mér að nota þessa ensku slettu. Fyrst frá Keflavík til Arlanda í Stokkhólmi og svo þaðan til Berlínar. Bæði flug gengu hnökralaust og þægilega fyrir sig en fjögurra tíma bið var á Arlanda. Á Pension Regine Braun í Berlín var ég svo komin kl rúmlega átta á miðvikudagskvöld og hafði þá verið á ferðinni frá 4:30 nóttina áður. Þar sem matvörubúðir loka almennt kl átta og ég hafði ekkert hugsað fyrir kvöldmat fór ég á nærliggjandi veitingahús sem pilturinn á gistiheimilinu benti mér á. Þar pantaði ég lítið blandað salat, sem var ljómandi gott, en skammturinn sem ég fékk var allt annað en lítill og var ég pakksödd á eftir. Fór ég svo fljótlega í háttinn því ég var orðin býsna þreytt og átti pantað far með lest til Greifswald kl 8:34 morguninn eftir.
Vaknaði ég eldsnemma því ég vildi vera tímanlega í því þar sem ég þekki ekkert til í Berlín og vissi ekki hvernig gengi að finna út úr hlutunum á brautarstöðinni. Pilturinn á gistiheimilinu hafði líka sagt mér hvaða strætó ég ætti að taka til að komast á stöðina. Fór ég eftir hans orðum og gekk það eins og í sögu og auðvitað var ekkert mál að átta sig þegar þangað var komið. Þannig að ég hafði góðan tíma til að fá mér morgunmat og náði m.a.s. að kíkja í nokkra búðarglugga líka
Svo kom lestin mín og ég seig af stað í norðurátt. Lestarferðin var hin skemmtilegasta; þetta var bara svona gamaldags lest sem líður í gegnum sveitir, bæi og borgir og veitir ágætis útsýni á umhverfið í kring. Fyrir manneskju sem aldrei hefur ferðast með slíku faratæki (nema bara neðanjarðarlestum annarra borga) var þetta bara skemmtun og gaman að horfa á þýsku sveitirnar út um gluggan. Fór ekki hjá því að ég bæri það sem fyrir augu bar saman við heimalandið; marflatt Norður-Þýskalandið og fjöllin og hæðirnar heima, og velti því dálítið fyrir mér hvernig mér ætti eftir að líða á flatlendinu. Fyrir Íslending er það sérkennilegt að hægt skuli vera að ferðast hundruðir kílómetra án þess að sjá þúfu eða hól.
Þegar til Greifswald var komið tók á móti mér indælis stúlka, sem ég hafði verið í tölvusamskiptum við, setti mig upp í strætó, sagði hvar ég ætti að fara út og bað mig svo að bíða þangað til hún kæmi á hjólinu sínu. Hlýddi ég því. Meðan ég beið eftir henni fór ég að kvíða því að þurfa að dröslast með farangurinn minn langar leiðir fótgangandi því ég var satt að segja búin að fá nóg af því daginn áður og bak og axlir hvort tveggja fremur aumt. En viti menn: stúdentagarðurinn minn var bara hinum megin við götuna! Þar, í Ernst-Thälman Ring 10A, tók önnur indælis stúlka við mér, afhenti mér lykil og lóðsaði mig upp í íbúðina. Og við það að drösla töskukvikindinu upp á fimmtu hæð í lyftulausu (6 hæða) húsi fór restin af kröftum mínum Mér leist nú svo sem ekkert voðalega vel á húsakynnin við fyrstu sýn; allt virkaði voða hrátt og bert en þetta venst nú bara þokkalega. Klósett og bað eru ljómandi snyrtileg með nýjum flísum og fínni sturtu svo þá er varla yfir neinu að kvarta!
Tók ég upp úr töskunni í snarheitum og fór svo með strætó niður í bæ til að skoða mig um. Og þvílíkur draumur í dós sem þessi bær er. Svo mikið af fallegum gömlum húsum, steinlögðum götum og torgum. Að ég nú ekki tali um kaffihúsin og bakaríin og úrvalið af bakkelsinu. Fór strax á eitt þeirra og fékk þessa líka dásamlegu valhnetu-rjóma-marsipantertu Svo rölti ég um miðbæinn fram undir kvöld, fór þá heim og verslaði eitthvað í matinn og reyndi aðeins að koma mér betur fyrir í herberginu. Fór svo frekar snemma í háttinn eftir langan og lýjandi dag. Herberginu áttu að fylgja sæng, koddi og ein rúmföt en sængin og koddinn myndu nú varla kallast svo virðulegum nöfnum á Íslandi; mátti vart milli sjá hvort var þynnra sængin eða verið og koddin varla sýnilegur. En mér tókst nú samt að sofna og svaf ágætlega.
Á fimmtudeginum svaf ég fram undir 10. Hafragrautur í morgunmat með einhverri soya-hrís-mjólk. Hún var það næsta sem ég komst hrísgrjónamjólkini sem ég er vön heima. Í þetta skiptið ákvað ég að ganga niður í bæ til að vita hvað það tæki langan tíma og var ég um 35mín niður að Lange Strasse, sem er aðal verslunargatan. Það var mun styttri tími en ég átti von á. Erindi dagsins var að fara í Akademisches Auslandsamt. Þar tóku á móti mér þrjár aldeilis ljómandi indælar konur sem voru ekkert nema elskulegheitin og virtust voða glaðar að sjá mig. Mér leið bara eins og stórstjörnu, svo áhugasamar voru þær Ein þeirra var Ann-Cathleen Neumann sem ég var búin að vera í tölvusambandi við alveg frá því að ég sótti um og það var mjög gaman að hitta hana loksins. Hún hjálpaði mér að fylla út pappíra varðandi stofnun á bankareikningi og vísaði mér á konu sem átti að taka á móti mér í skólanum sjálfum.
Eftir þetta fór ég svo og fékk mér kaffi og köku, auðvitað Svo fór ég á röltið og í bókabúðina sem er á móti ráðhúsinu en ég hafði ekki tekið eftir henni daginn áður. Mjög hugguleg búð og minnti óneitanlega töluvert á minn gamla vinnustað. Lyktin meira að segja svipuð! Sá þar margt skemmtilegt og fróðlegt, m.a. dágóðan slatta af bókum sem voru með myndum af kúm framan á kápunni
Svo hélt ég áfram að kíkja í búðir og nóg er nú af þeim!
Tók síðan strætó heim og fór inn í bakaríið sem er við hliðina á Aldi og bara rétt á ská á móti blokkinni minni og spurði konuna þar hvar ég gæti keypt rúmföt. Hún benti mér á stóru verslunarmiðstöðina hinumegin við hornið og það var sum sé Schönwalde Center. En seint myndi ég nú kalla það stóra verslunarmiðstöð; svona kannski á stærð við Glæsibæ í Reykjavík. Þar bar ég upp sömu spurningu og var mér þá bent á enn aðra verslunarmiðstöð sem er svona ca 15 mín labb heiman frá mér. Hún heitir Elizen Park og þangað stormaði ég. Það er alvöru verslunarmiðstöð og mikið af frekar stórum búðum með öllum fjáranum. Og út labbaði ég með þessi fínu rúmföt og kodda, því ekki gat ég hugsað mér aðra nótt á sneplinum sem fyrir var. Svo lallaði ég heim og skellti öllum herlegheitunum í þvottavél og þurrkara og svaf við það næstu nótt. Kvöldmaturinn var svo brauð með salami og skinku og tesopi.
Hér læt ég staðar numið í bili, framhald í næsta þætti!Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.9.2011 | 22:26
Vetur í Skoffínskógi
Ég er sem sé komin til þeirrar borgar í Mecklenburg-Vorpommern sem Greifswald heitir og er gömul Hansa- og háskólaborg. Háskólinn hér var stofnaður árið 1456 og er þar með annar elsti háskóli Þýskalands (á eftir háskólanum í Rostock) og einn af þeim elstu í Evrópu. Nafnið á blogginu mínu er þannig til komið að mig langaði til að þýða nafn borgarinnar og fann eftir þó nokkra leit skýringu á nafninu. Greifswald var í eina tíð ritað Gripswalde og mun það komið af orðinu Gryhon eða Griffin eins og það er t.d. skrifað á enskri tungu í dag. Griffin þessi er goðsagnavera og hefur búk ljóns en höfuð og vængi arnar. Átti hann að vera afar mögnuð skepna. Segir sagan hér að slíkur griffin hafi bent munkum (kannski frá Eldena -Klaustrinu) á besta staðinn til að byggja borg með því að setjast í tré við það sem nú er elsta gata borgarinnar, Schuhagen. Griffin hef ég svo séð þýtt sem skoffín og enda þótt það sé kannski nokkuð vafasöm þýðing (þar sem skoffín er í íslensku haft um afkvæmi hunds og refs, ef ég man rétt) þá læt ég það standa hér alla vega þar til einhver mér vitrari leiðréttir mig. Svo fannst mér það bara hljóma svo vel, svona stuðlað og fínt
Ég ætla mér ekki að hafa þennan upphafspistil minn lengri og bíð með frekari lýsingar á því sem á daga mína hefur drifið þessa fyrstu viku þangað til næst.
Ég vona að allir mínir kæru ættingjar og vinir hafi það sem best á meðan ég er í burtu og auðvitað ævinlega.
Ykkar einlæg,
Rósa María.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar