Jóladagur í Budweis

Á jóladagsmorgun var sofið fram yfir níu og morgunmatur borðaður í rólegheitunum. Ég sýndi fjölskyldunni nokkrar af þeim myndum sem ég hafði tekið með mér á minniskubbi. Þetta voru fjölskyldumyndirnar mínar frá síðustu árum í bland við ferðamyndir frá Íslandi. Magda var búin að sjá eitthvað af þeim myndum hjá mér og hafði beðið mig um að koma með þær. Ég reyndi að útskýra Íslandsmyndirnar eins vel og ég gat og segja um það bil hvar á landinu þetta eða hitt væri og virtust allir hafa gaman af. Í hádeginu fengum við okkur svo afganginn af súpunni frá gærdeginum, því þennan dag átti húsmóðirin að gera sem minnst og fannst mér það prýðileg hugmynd. Svo eru súpur líka alltaf bestar daginn eftirSmile

Eftir hádegið var svo farið í um 15 mínútna bíltúr að nálægum bæ sem heitir Cesky Krumlov. Þessi bær er á Heimsminjaskrá Unesco og er algjört listaverk. Hann stendur við bugðu á ánni Vltava (Moldau) og á klettahæð inni í skeifu bugðunnar, ef svo má að orði komast, stendur kastali. Var hann byggður á síðari hluta 13. aldar og fór þorpið að byggjast upp úr því. Meiri hluti húsanna eru frá 14. til 17. öld og þarna er mikið af óhemju fallegum húsum og bæjarmyndin býsna heilsteypt. Helstu byggingarstílar eru gotneskur, endurreisnar- og barrok.Það er nánast eins og að ganga inn í fagurlega myndskreytta barnabók að koma þarna, það er næstum óraunverulegtInLove

Og þó þorpið sé ekki stórt þá er kastalinn sá annar stærsti í Tékklandi á eftir Prag-kastala. Þarna röltum við um í rúma tvo tíma, settumst svo inn á litla krá og fengum okkur glühwein, eplastrudel og bláberjaknödel. DásamlegtSmile Það var þó fátt annað opið en stöku veitingahús og minjagripaverslanir þar sem þetta var  jú á jóladag.

Þegar dimma tók fórum við svo af stað til baka. Ekki fórum við þó beint heim heldur byrjuðum við á því að koma við í litlu húsi sem stendur við hlið kirkjunnar í Velesin. Þar voru til sýnis Betlehemsfjárhús (ef einhver veit um almennilega þýðingu á hugtakinu „Nativity Set“ þá þætti mér vænt um að heyra af því) af öllum stærðum og gerðum og úr öllu mögulegu og ómögulegu efni.

Það minnsta var í hálfri heslihnetuskel og það stærsta var nokkrir fermetrar á stærð! Sum voru úr pappír eða pappa, eins og ýmislegt gamalt jólaskraut sem ég hef séð. Önnur voru úr leir, eldspýtum, piparkökum, trölladeigi, tré, prjónuð, hekluð og ég veit ekki hvað! Það allra flottasta var svo þetta stóra en það var í kjallara hússins og þakti nokkurra fermetra stórt borð.

Þar var reyndar meira á ferðinni en bara Betlehemsfjárhús. Þetta var eiginlega heil sveit með vínakri, útihúsum, tækjum og tólum og fólki við hin ýmsu störf. Fólkið var skorið út úr tré og dýrin sömu leiðis. Þarna var verið að brugga vín í brugghúsi, plægja akra, fleyta trjábolum niður á bjarga kú út úr brennandi fjósi og slökkviliðið að berjast við eldinn, og margt, margt fleira um að vera. Hvert einasta smáatriði var svo nostursamlega unnið að unun var að skoðaInLove.

Það makalausa er að þetta er allt verk eins manns, 47 ára gamals bónda úr nágrenninu, þriggja barna föður sem rekur stórt bú! Ég get ekki byrjað að ímynda mér vinnustundafjöldann á bak við þetta dásamlega listaverk. Þetta er búið að vera til sýnis á aðventunni í einhver ár og það besta er að hann skiptir alltaf stórum hluta út á hverju ári og setur inn nýtt!

„Fólkið“ ku svo bera svip vina og nágranna handverksmannsins góða sem og þekkts fólks úr samfélaginu. Eftir að hafa skoðað þessi herlegheit lá leiðin næst í heimsókn til einnar af föðursystrum Jans, þeirrar sömu og syngur í kirkjukórnum. Þangað komu líka hinar þrjár sem við höfðum hitt kvöldið áður. Þarna var sest að kaffiborði og borið fram smurt brauð og ókjörin öll af smákökum og hefði ég allt eins getað verið á hvaða íslensku sveitaheimili sem var.

Sat fólkið og spjallaði heillengi. Mér hefði alveg nægt að sitja bara og maula kökur og láta mér líða vel án þess að skilja það sem fram fór en Magda blessunin var dugleg að þýða fyrir mig í lágum hljóðum svo ég held að fátt hafi farið fram hjá mér þegar upp var staðið.

Gestgjafinn Eva talaði líka dálitla þýsku og gátum við aðeins skipst á orðum. Klukkan var farin að ganga átta þegar við kvöddum þessar elskulegu konur og héldum heim. Eitthvað var svo kroppað í afganginn af karfanum þó enginn væri neitt ýkja svangur eftir trakteringarnar hjá Evu.

Marie spurði mig svo hvað mig langaði til að borða daginn eftir og gaf mér nokkra valkosti. Einn þeirra var kanína og þar sem ég hafði aldrei bragðað slíka skepnu valdi ég hana.

Svo sátum við og röbbuðum saman og ég sýndi eitthvað meira af myndum áður en haldið var í háttinn.

Aðfangadagur í Budweis

Að morgni aðfangadags vaknaði ég um hálf níu og þegar ég kom fram var fjölskyldan að setjast að morgunverðarborðinu. Þar var meðal annars brauðið girnilega sem Marie var að baka kvöldið áður, Hefezopf. Þetta er gerbrauð, eilítið sætt og ekki ósvipað Stollen en bara mun minna af þurrkuðu ávöxtunum í því. Sem sagt: ljómandi gottSmile

Eftir morgunmatinn hjálpaði ég Marie að skræla kartöflur og brytja þær og grænmetið sem átti að fara í kartöflusalatið sem vera skyldi aðalmeðlætið með vatnakarfanum um kvöldið. Á meðan skreyttu Madga og Jan jólatréð. Svo var hausinn af karfanum (sem er engin smásmíði, örugglega 1/3 af fiskinum!) soðinn, fiskurinn plokkaður úr og gerð súpa sem út í fara líka hrognin og lifrin úr fiskinum ásamt einhverju grænmeti. Þessi súpa var svo borðuð í hádeginu og bragðaðist mjög vel í munni þessa fiskikjafts sem ég er(fyrirgefið þið orðbragðiðBlush).

Svo var eitthvað dúllað í rólegheitum eftir hádegið en seinni partinn fórum við öll fjögur í göngutúr um þorpið, bæði til að sýna mér það og til að viðra hundinn Bert, sem er hinn mesti ljúflingur þó kraftmikill sé. Komum við til baka úr göngunni upp úr fimm og þá fór frúin að huga að eldamennskunni. Karfinn er einfaldlega skorinn í sneiðar, honum velt upp úr hveiti, eggi og raspi og steiktur á pönnu. Á undan fiskinum og kartöflusalatinu fengum við hvert sína litlu skálina með grænum baunum í og eru þær borðaðar til að tryggja góða uppskeru næsta ár. Á undan máltíðinni útdeildi húsbóndinn líka hreisturflögum af fiskinum og eiga þær að fara í peningaveskið til að tryggja að það verði ekki tómt næsta áriðSmile

Þetta eru eldgamlir siðir og finnast mér afar skemmtilegt að þeim skuli enn við haldið. Í veskinu mínu er nú ein svona flaga og verður þar (alla vega) næsta áriðSmile Og þessar flögur eru sko ekkert af minni gerðinni eða um það bil á stærð við íslenskan krónupening! Síðan var fiskurinn sjálfur snæddur og bragðaðist prýðilega. Eftir matinn komu svo bróðir Mödgu og mágkona og voru þau með okkur í pakkaopnuninni. En fyrst fengum við okkur dálítinn eftirrétt, sem var ávaxtakakan mín og kaffi með.

Það kaffi sem þarna var á borð borið kalla þau tyrkneskt kaffi en þá er einfaldlega sett kaffiduft í hvern bolla og sjóðandi vatni hellt yfir og beðið í smá stund á meðan korgurinn sjatnar (svolítið eins og könnukaffi sem ég veit að einhverjir Íslendingar kannast við). Var haft á orði að þetta væri nú makalaust fjölþjóðleg máltíð: á borðum á þessu tékkneska heimili var ensk jólakaka, bökuð í Þýskalandi af Íslendingi og drukkið tyrkneskt kaffi með! Dálítið smart, ekki satt? Wink

Svo voru pakkar opnaðir og er skemmst frá því að segja að ég var hreinlega ausin gjöfum! Var ég brátt orðin alveg orðlaus (og myndu nú einhverjir segja að dálítið þyrfti til þessWink). Er ég því ákveðin í að hætta að trúa á jólasveininn og taka í staðinn alfarið upp átrúnað á hinn tékkneska Jesichek, en það er hann sem kemur með gjafirnar þar í landi. Nafnið skilst mér að þýði einfaldlega Jesús litli.

Eftir „pakkastundina“ var svo aðeins bætt á sig kaffi og smákökum áður en haldið var til kaþólskrar messu í nærliggjandi bæ, Velesin. Þetta er fræg messa þar um slóðir og fjöldinn allur af fólki sem treðst inn í fallega litla kirkju (á þess lands mælikvarða, en ég giskaði á að hún tæki í sæti svona tvo þriðju til þrjá fjórðu af því sem Dalvíkurkirkja tekur). Það var líka þó nokkur fjöldi fólks sem stóð allan tímann.

Þetta var hin fallegasta athöfn, mikil tónlist og falleg, og einhver lestur inn á milli sem ég skildi auðvitað ekki nema tvö orð í: Jesús KristúsSmile Jú og svo auðvitað amen! En mér tókst að standa upp og signa mig á réttum stöðum og held að ég hefi ekki skorið mig mikið úr fjöldanumSmile

Á eftir var svo aðeins staldrað við og heilsað upp á fjórar föðursystur Jans sem einnig voru í messunni, en ein þeirra syngur í kórnum. Svo var haldið heim þar sem ég náði að spjalla aðeins við fjölskylduna mína á skype og var það auðvitað afskaplega indælt. Fannst mér þá í augnablik að fólkið mitt væri ekki svo langt í burtu, eftir allt saman!Heart

Í háttinn fór ég svo að nálgast eitt og leið mér ósköp vel eftir þennan yndislega dag og kvöld. Fannst mér ég vera ótrúlega lánsöm og rík að njóta allrar þessarar gestrisni hjá þessu indæla fólki og að geta um leið séð inn í stofu til minna eigin ástvina. Varð mér hugsað til þeirra tíma, fyrir daga nútíma tækni, þegar fólk sem fór til dvalar í útlöndum gat ekki látið vita af sér eða fengið fréttir að heiman nema á margra vikna eða mánaða fresti.

Það var því með gleði í hjarta yfir lánsemi minni sem ég sofnaði þessa jólanóttSmile


Prag III

Á Þorláksmessumorgun vaknaði ég um hálf sjö við skarkalann í einum herbergisfélaganum sem þurfti að fara snemma af stað. Og sú var nú ekkert að skafa af því! Það var eins og hún væri ein í heiminum og tillitssemi ekki til í hennar orðabókFrown Trampaði um gólfið, skurkaði heillengi í einhverjum plastumbúðum og snýtti sér eins og tóbakskarl þegar hún var rétt komin út af baðherberginu (einhverjir hefðu nú kannski bara gert það þar inni!). Ein hinna bað hana, frekar pirruð, um að hafa lægra en það hafði engin áhrif. En hún fór svo út upp úr sjö og var þá friður eftir það.

Ég fór svo fyrst fram úr um hálf níu og þegar ég kom út af baðherberginu voru hinar allar vaknaðar og töluðu um hávaðann um morguninn. Ég gekk frá farangrinum mínum og fékk að setja hann í geymslu í afgreiðslunni. Dreif mig svo út og fann mér fljótt kaffihús þar sem ég fékk mér morgunmat þar sem ég hafði alveg gleymt að hugsa fyrir honum daginn áður. Tölti ég svo niður í bæ, eina ferðina enn. Núna var ég með áætlun, í fyrsta skiptið í ferðinniSmile Ég hafði svo sem bara ætlað að nota þennan stutta tíma í borginni til að skoða hana sjálfa og ekkert hugað að því að fara á söfn eða því um líkt. En núna var ég bara alveg búin að fá nóg af labbi í bili og langaði til að taka því aðeins rólegar.

Ég ákvað því að fara og skoða Gyðingasafnið og hverfið í kringum það. Safnið samanstendur af nokkrum sýnagógum, viðhafnarsal (Ceremonial Hall) og svo auðvitað kirkjugarðinum fræga. Ég byrjaði á Pinkas sýnagógunni en þar eru skrifuð á veggi nöfn þeirra 80.000 Gyðinga frá Bæheimi og Móravíu (=Tékklandi) sem létu lífið í útrýmingarbúðum nasista í Síðari Heimsstyrjöldinni. Það er mjög sérstakt að ganga um þetta hús, þar sem mjög lítið er um innanstokksmuni en bara letrið á veggjunum. Að ímynda sér þennan fjölda og öll þau líf og þá sögu sem að baki liggur. Í viðhafnarsalnum eru svo alls kyns hlutir sem minna á einmitt það; persónulegir munir og teikningar, bæði eftir börn og fullorðna, sem sýna lífið í búðunum og lýsa líka draumum, þrám og hugðarefnum fólksins.

Þegar ég steig út úr Pinkas og út í kirkjugarðinn hvað við ægilegur hávaði svo mér krossbrá. Þetta var væl í sírenu og velti ég eitt augnablik fyrir mér hvort þetta væru einhver áhrifahljóð tengd safninu en fannst það þó skrýtið því það var eins og þetta kæmi að utan. Sem það og gerði. Mér varð svo litið á klukkuna og þá áttaði ég mig á því hvers kyns var: klukkan var tólf og á þessari stundu var að hefjast jarðarför Vaclavs Havels. Jók þetta enn á það undarlega andrúmsloft sem á safninu ríkti. Ég skoðaði svo líka Maizel, Klaus og Spænsku sýnagógurnar. Mjög fallegar byggingar, en ég hef aldrei stigið fæti inn í sýnagógu fyrr. Ég var í rúma tvo tíma að skoða safnið.

Þegar ég var búin að því (þó maður geti varla sagt að maður sé „búinn“ að skoða nokkurt safn, því það er alltaf hægt að skoða betur og sjá hluti á nýjan hátt) þá var klukkan að nálgast tvö og ég orðin svöng. Fann ég þá þennan ljómandi huggulega stað, sem heitir Kolkovna, og fékk mér að borða. Þarna var margt innan stokks sem minnti á bjórbrugg og á matseðlinum var meðal annars að finna „Beer Menu“ þar sem réttir virtust eldaðir með eða upp úr bjór. Ég pantaði mér nú bara hamborgara en hann hét „Beer burger “ og láðist mér að spyrja þjónana hvernig hann tengdist bjór. Ekki fann ég að minnsta kosti neitt bjórbragð af honumWoundering Eitt af því sem ég tók fljótt eftir þarna var að þjónarnir voru allir karlkyns og þótti mér það nú ekkert verraWink Hvort það var tilviljun eða ekki verð ég bara að sjá næst þegar ég fer til Prag!

Þegar ég var búin að borða var klukkan farin að ganga þrjú og tími til kominn að rölta aftur upp á gistiheimilið til að ná í farangurinn minn. Á lestarstöðina var ég svo komin vel í tíma fyrir brottför sem var kl 16:16. Lestin sem ég ferðaðist með til Budweis var með klefum en svoleiðis lest hef ég ekki ferðast með áður. Hún var svolítið gamaldags en prýðilega þægileg. Það tók hana rétt tæpa þrjá tíma að sniglast þarna suður eftir þó vegalengdin sé varla meira en 150km. Ástæðan var sú að þessi tiltekna lest stoppaði í hverju einasta krummaskuði á leiðinni og held ég að hámarkstími á milli staða hafi verið um tíu mínútur og aðeins um tvær mínútur þegar styst var á milli!

En það fór ágætlega um mig og ég reyndi að skrifa aðeins í fínu ferðadagbókina mína. Hana hafði keypt í minjagripabúðinni við kastalann í Prag og er hún með mynd eftir tékkneska listamanninn Alphonse Mucha sem ég er mjög hrifin af Smile(þó ekki gæfi ég mér nú tíma til að heimsækja safnið hans!). Ég hugsaði mikið um það hvernig jól ég ætti í vændum og til þessa fólks sem ég var að fara að hitta í fyrsta sinn og var svo elskulegt að bjóða mér, bláókunnugri manneskjunni, að halda jólin með sér. Mér varð líka hugsað til minnar eigin fjölskyldu, sem ég yrði svo víðs fjarri og var ekki laust við að ég yrði nú dálítið meyr við þær hugsanir. En það var ekki síst yndislegt að hugsa um þann dýrmæta fjársjóð sem það er að eiga góða og yndislega fjölskyldu til að saknaInLove Ég hugsað nú líka pínulítið til skötunnar sem ég fengi ekki þennan Lákann, og þó mér finnist hún voða góð þá var nú ekki verst að missa af henniWink

Á brautarstöðinni í Budweis tóku svo Magda og pabbi hennar, hann Jan, á móti mérSmile Keyrðum við beint heim til þeirra en þau búa í litlu þorpi sem heitir Vcelna og er í útjaðri borgarinnar. Þar beið Marie, mamma hennar Mögdu, með matinn, ofnbakaðan þorsk og lax!

 Um kvöldið var svo bara setið og spjallað um alla heima og geima, enda margs að spyrja á báða bóga. Allt í einu var bara komið miðnætti og var þá ákveðið að drífa sig í háttinn og svaf ég vel og lengiSmile


Prag II

Fimmtudaginn 22. desember vaknaði ég ekki fyrr en að nálgast níu og fór mér að engu óðslega við að koma mér á fætur. Átti bara eitt lítið epli til að borða og ekki tók það langan tíma. Svo fór ég yfir í afgreiðsluna til að freista þess að reyna aftur við tölvuna en það gekk engu betur og gafst ég því uppGetLost.

Fór bara út í góða veðrið, sól og u.þ.b. 5°c hita, og gekk af stað sama rúnt og kvöldið áður. Í þetta sinn tók ég örlitla lykkju á leið mína og rakst þá m.a. á menn sem voru með tvö væn kör á gangstéttinni full af lifandi fiskum. Þetta var vatnakarfinn sem er jólamatur margra Tékka og sem ég vissi að ég fengi á aðfangadagskvöld. Þarna gat fólk komið og valið sér fisk, sölumennirnir veiddu þá upp úr karinu, slátruðu og gerðu að á staðnum. Þannig getur fólk vitað að fiskurinn þess sé glænýr og ferskurSmile

Eftir að hafa fylgst með þessu og tekið myndir hélt ég áfram ferðinni og myndaði nú líka dansandi húsið ásamt fleiri fallegum húsum sem urðu á leið minni á göngunni meðfram ánni. Einnig tók ég myndir yfir á kastalahæðina og af Karlsbrúnni sem ég stansaði að sjálfsögðu aðeins við. Einnig staldraði ég við safnið um tónskáldið Smetana, sem samdi svo fallega tónlist um föðurlandið sitt, en safnið stendur rétt við brúna og stytta af honum fyrir framan húsið sem er afskaplega falleg bygging.

Svo ranglaði ég inn í bæinn og fór fljótlega á veitingastað og fékk mér að borða þar sem ég var orðin talsvert svöng þó klukkan væri aðeins rétt farin að ganga tólf. Fékk ég mér eitthvað sem merkt var á matseðlinum sem tékkneskur sérréttur. Þetta var svínagúllas í dökkri, bragðmikilli sósu og með einhverjum brauðbollum og þeim stærsta haug af rauðkáli sem ég hef séð á einum matardiski! En þetta bragðaðist bara ljómandi vel og yfirgaf ég því staðinn södd og sæl og hélt áfram fremur stefnulausu flandri mínu til klukkan eitt.

Þá var ég komin upp á Vaclavstorg (Vaclavske Namesti) en þar ætlaði ég að hitta hana Jönu vinkonu hennar Mögdu, sem ætlaði að vera svo elskuleg að lóðsa mig eitthvað um bæinn. Við höfðum ákveðið að hittast við minnismerkið um heilagan Vaclav sem er efst á torginu og beint fyrir framan Þjóðminjasafnið. Og þar gat á að líta: hundruðum, ef ekki þúsundum, kerta hafði fólk komið fyrir þar í kring til minningar um sinn ástsæla fyrrum forseta og rithöfund, Vaclav Havel sem var nýlátinn. Og víðar um borgina mátti sjá haf af kertum sem þetta og greinilegt að þarna var einlæglega syrgt. 

Jana byrjaði á því að fara með mig í Lucerna höllina, sem byggð var af Vaclav Havel, afa þess sem nú er nýlátinn. Húsið var fullbyggt árið 1921 og eitt hið fyrsta af mörgum slíkum fjölnota húsum sem hýsa skyldu verslanir, veitingahús o.fl.  Í Lucerna eru auk þess tóneikasalur, bíósalur og klúbbur þar sem spiluð er lifandi tónlist. Þetta er flott og glæsileg bygging og a.m.k. að einhverju leyti í Art Nouveau stíl (sem ég er mjög hrifin af!). Þar byrjuðum við á að fá okkur gott kaffi áður en við tókum lest og sporvagn upp að kastalanum.

Það er mjög gaman að skoða sig um í kringum kastalann og það var líka það eina sem ég gat gert þar sem allar byggingar þar og söfn voru lokuð vegna andláts Vaclavs Havels og undirbúnings jarðarfarar hans. Lá hann á viðhafnarbörum í húsi við hliðina á Dómkirkjunni þar sem hann var svo jarðsunginn daginn eftir. Þarna gat fólk komið og vottað honum hinstu virðingu og það gerðu margir. Ég held að ég ýki ekki þegar ég segi að biðröðin hafi verið meiri en hálfs kílómetra löng og heyrði ég svo síðar að fólk hefði beðið í nokkra klukkutíma eftir að komast að. Það var ótrúlega magnað og sérstakt andrúmsloft í borginni allri vegna andláts þessa manns. Blandaðist það svo saman við jólaösina og stemmninguna sem henni fylgdi.

En þó ég kæmist ekki inn fyrir dyr í kastalanum þá gat ég notið útsýnisins af hæðinni og þess fallega umhverfis og þeirra bygginga sem þar eru. Þarna upp frá skildu leiðir okkar Jönu. Ég lallaði í rólegheitunum um, fékk mér kaffibolla og eplastrudel á kaffihúsi og gekk svo niður gullnu götuna sem er vægast sagt sérstök með sínum hálfu húsum sem byggð eru upp við kastalavegginn. Svo gekk ég dálítið um sömu megin árinnar, alveg stefnulaust, naut þess aðeins að horfa í kringum mig og gat ekki hætt að undrast fegurð þessarar borgarInLove.

Að endingu gekk ég svo yfir Karlsbrúna, stoppaði oft og naut útsýnisins þaðan, þó dimmt væri orðið. Inn í bæ lá svo leiðin, eina ferðina enn. Og nú kíkti ég aðeins í búðir, það var varla annað hægt en að smitast af jólaskapinu og ösinni og láta aðeins freistastWink Svo dólaði ég heimleiðis og nældi mér í einhvern matarbita á leiðinni.

Ég var búin að ganga óhemju mikið þennan dag og verkjaði nánast í hverja frumu líkamans. Fór ég því beint í háttinn þó klukkan væri ekki orðin tíu, og man varla meira en að hafa lagt höfuðið á koddann!

Prag I

Að morgni 21. desember lagði ég af stað í ferðalag sem bera myndi mig á nýja staði og um tvö ný lönd á næstu einni og hálfri viku. Kílómetrarnir sem ég átti eftir að leggja að baki í lestarferðunum reiknast mér til að séu samanlegt u.þ.b. 1.500.

En þennan fyrsta dag byrjaði ég á að fara með lest til Berlínar, skipta þar um og taka Búdapest-lestina til Prag. Um kl 15:30 var ég svo komin alla leið. Ég gekk frá brautarstöðinni að gistiheimilinu „Miss Sophie´s“ við Melónustræti (Melounova) þar sem ég átti pantað rúm í fimm kvenna herbergi með baði. Þangað var um 10 mínútna gangur frá stöðinni. Gistiheimilið var mjög huggulegt og greinilega allt nýuppgert. Einfalt, snyrtilegt og smekklegt (og engar kojurSmile). Ég létti af mér mesta farangrinum og hélt af stað út í bæinn þó farið væri að skyggja.

Ég byrjaði á því að labba stystu leið niður að ánni Vltava (Moldau) til að skoða dansandi húsið sem þar stendur og er engu líkara en þar sé á ferðinni dansandi par! Húsið var teiknað af tékknesk-króatíska arkítektinum Vlado Milunic í samvinnu við Frank Gehry og lauk byggingu þess árið 1996. Það hefur stundum verið uppnefnt Ginger og Fred eftir Hollywood-stjörnunum fræguSmile

Þegar þarna var komið var orðið svo dimmt að myndavélin mín vildi ekki taka almennilega mynd. Ég ákvað því að halda bara áfram að labba um og njóta þess sem fyrir augu bar og gefa myndavélinni frí í bili. Gekk ég meðfram ánni og virti fyrir mér ljósadýrðina á kastalahæðinni og reyndar allt um kring því þarna skartaði borgin auðvitað öllum sínum fegurstu jólaljósum. Gekk ég niður að Karlsbrúnni og inn í bæinn og naut þess að horfa í kringum mig á öll þessi íðilfögru gömlu hús og var það nú eiginlega bara nóg fyrir mig.

En auðvitað skoðaði ég nú í einhverja búðarglugga líka, annað hvort væri það nú í höfðborg þess lands sem einna frægast er fyrir sinn kristal! Og ekki eru þær nú neitt slor búðirnar þarnaHappy Það væri ósköp lítið vandamál að losa sig við einhverja hundraðþúsunkallana á mjög skömmum tíma ef maður þyrfti þessWink

Er klukkan fór að nálgast átta um kvöldið var ég orðin svöng og freistaði þess að finna veitingastað sem Mila hafði mælt með. Gekk það hins vegar ekki vel og loksins þegar hann fannst, um 45 mínútum síðar, var þar fullt út úr dyrum. Ég fór því bara inn á næsta stað sem ég fann. Var hann afganskur og fékk mér eitthvað sem ég vissi ekkert hvað var og reyndust vera einhverjar kjötbollur í deigi. Ósköp lítið spennandi og öfundaði ég fólkið á næstu borðum sem virtist mun heppnara með sitt val.

Að þessu búnu fór ég bara að þræða mig í áttina að gistiheimilinu og kom þangað að verða tíu. Fór ég aðeins inn í afgreiðsluna til að fá að fara í tölvu, svona til að láta nú aðeins vita af mér. Tölvan var hins vegar hundleiðinleg, afskaplega hægvirk og var ég orðin ansi pirruð eftir nærri 45 mínútur en á þeim tíma hafði ég aðeins náð að lesa tvo pósta, svara þeim og skrifa eina stutta færsluAngry.

Ég var orðin hundþreytt og skreiddist því beint í bælið þegar upp á herbergið var komið og sofnaði eins og steinnSleeping


Afsakið hléið!

Nú er ég búin að taka ansi langt hlé frá blogg-skrifunum en það var þó alls ekki ætlun mín. Það var einfaldlega mjög mikið að gera hjá mér fyrir jólin, og yfir hátíðirnar var ég á eilífu flakki.

Síðasta daginn fyrir jólafríið frá skólanum var ég með kynningu í einum áfanganum og tók undirbúningur hennar dágóðan tíma. Inn á milli stalst ég aðeins út til að sinna vinunum en það var margt að gerast í kringum þá.

Daginn eftir Lübeck ferðina var ég með obbolítið aðventu/jólaboð fyrir mitt lið. Hafði mér tekist að baka þrjár smákökusortir og „vígði“ svo eina af jólakökunum líka. Hitaði súkkulaði og glühwein og rann þetta allt vandræðalaust niður í mannskapinn og voru allir í fínu skapi. Svo tókst mér (alveg óvart!) að vera með dálítinn fyrirlestur um Ísland og sýndi nokkrar myndir. Það er svo gaman hvað öllum finnst landið mitt spennandiSmile

Í vikunni á eftir var alltaf eitthvað um að vera. Meðal annars kom kærasti eins úr hópnum í heimsókn og þurfti að kynna hann fyrir vinunum og pöbbunum í bænum. Ekki gat ég misst af því! Og svo þurfti að taka kveðjuskál áður en allir færu heim í jólafrí. Á föstudagskvöldinu var LEI líka með smá jólaskemmtun og ball með en ég stoppaði nú ekki lengi þar.

Laugardaginn 17. desember fór ég svo á Lúsíuhátíð í Norrænu deildinni. Ég hef aldrei farið á svoleiðis áður og það var óskaplega gaman. Róleg og notaleg stemmning og mikið af fallegum söng. Jólalög frá öllum Norðurlöndunum nema ÍslandiPouty Einhverra hluta vegna var eina íslenska lagið í söngbókinni „Á Sprengisandi“ og þótti mér það hálf skrýtið. Að vísu var eitt erindi úr „Fögur er foldin“ þarna með en það var sungið á öllum málunum sem var reyndar býsna skemmtilegt. Svo var kaffi á eftir og það var þá heldur en ekki hlaðborðið! Bæði sætt og ósætt, brauð, kökur, salöt og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Slagaði bara upp í réttarkaffið heima á Tungunum, svei mér þá!  Vantaði bara randalínurnar og flatbrauðið með hangikjötinuWink

Allar voru þessar uppákomur ósköp skemmtilegar og hefði ég ekki viljað missa af neinu. Þriðjudaginn 20. des var ég svo með kynninguna mína og gekk það bara bærilega, held ég. Hún var seinni part dags og því var svigrúmið ekki mikið til að huga að því hvað taka þyrfti með í rúmlega vikulangt flakk sem leggja átti í snemma morguninn eftir. Ég var í nettu spennufallli eftir kynninguna og heilasellurnar ekki í neinu ástandi til að ákveða hverju ætti að pakka. Einhverju potaði ég þó niður í bakpokann/skólatöskuna og litla ferðatösku. Ég vildi ekki að farangurinn íþyngdi mér um of, þar sem ég bjóst jafnvel við því að þurfa að vera með allt hafurtaskið í eftirdragi einhverja dagparta.

Allt small þetta nú samt einhvern veginn saman. En í bólið skreiddist ég ekki fyrr en um eittleytið og svo reif ég mig upp um hálf sex því ég vildi hafa tímann fyrir mér. Tók ég strætó kl hálf átta, ásamt Kërt, en við urðum samferða í lestinni til Berlínar þar sem hún ætlaði að taka flug heim til Eistlands síðar um daginn. Ég tók hins vegar aðra lest og skreið í nokkurn veginn beina línu suður eftir Þýskalandi í gegnum Dresden, inn í Tékkland og alla leið til Prag.

Næsta vers verður svo um hanaSmile

 

Jólamarkaður í Lübeck

Síðustu viku hefur allt gengið sinn vanagang og flýgur tíminn að mér finnst orðið mun hraðar en ég kæri mig um.

Í gær fór ég í smá rútuferðalag sem löngu var ákveðið og er enn eitt atriðið sem LEI skipuleggur og býður okkur útlendingunum upp á. Ekið var sem leið lá til Lübeck, en þangað er tæpra þriggja tíma akstur frá Greifswald. Það hafði snjóað um nóttina og var föl á jörðu, það fyrsta sem ég sé þennan vetur. Á veginum var líka smá krapi en ekkert sem orð er á gerandi.

 Við vorum komin á áfangastað um hálf ellefu og var þá gengið rakleiðis inn í miðbæinn og að Ráðhúsinu. Fengum við tæplega klukkustundar langa leiðsögn um þessa gullfallegu byggingu sem byrjað var að byggja um 1226 en lokið 1308. Svo hafa ýmsar viðbætur og breytingar verið gerðar í gegnum aldirnar eins og gengur. Einhverjum skemmdum varð húsið fyrir í stríðinu en við þær skemmdir var gert, þó að mestu á nútímalegan máta.

Leiðsögumaðurinn var vel fullorðinn maður og afar innlifaður í starf sitt. Höfðum við það á orði að hann væri búinn að fara um með aðeins of marga skólahópa því málstíllinn og talandinn var slíkur. Það var eins og hann væri sífellt að treysta okkur fyrir ægilegum leyndarmálum og var það nokkuð grínaktugt á köflum. En skemmtilegur var hann og fróður og var ég mjög ánægð með hannSmile

Þessari leiðsögn var lokið rétt fyrir tólf og var þá frjáls tími til kl fimm en þá var ætluð brottför. Ég fór í dálítinn göngutúr um bæinn með eistnesku stelpunum, Kërt og Lottu en við lúskruðumst þó fljótt inn í verslanir því veðrið var afskaplega leiðinlegt; slyddu-krapa-hundslappadrífa af verstu sort. Við kíktum inn í eina kirkju, Jakobskirkjuna sem er ljómandi falleg, og ætluðum inn í Maríukirkjuna líka en hún var þá lokuð vegna einhverrar athafnar. Svo skildu okkar leiðir þegar ég var orðin svöng.

Fór ég inn á fiskistað sem heitir Nordsee og fékk mér eitthvað sem hér heitir Seelachs og bragðaðist bara ágætlega. Við stutta og lítt fræðilega athugun komst ég að því að þetta myndi vera ufsi. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé ekki vinsæll matfiskur heima og man ég aðallega eftir að hann væri hafður í bollur, sem mér finnast reyndar mjög góðar! En hann bragðaðist sem sé bara ljómandi vel með einhvers konar sveppasósu út á og  var nýr og ferskur.

Og talandi um Nordsee; ég hélt stundum að ég væri hreinlega komin til Danmerkur eða Svíþjóðar því svo mikið heyrði ég talað af tungum þeirra landa! Astrid, sem er eini daninn hérna í Erasmushópnum í Greifswald, var ekkert hissa á því og sagði að það væri mjög vinsælt að skreppa suður fyrir landamærin til að versla, þar sem það er mun ódýrara en í heimalöndunum.

Á veitingastaðnum var, eins og alls staðar annars staðar í bænum, brjálað að gera og hafði ég dálitlar áhyggjur af því að fá ekki sæti þar sem ég var ein og enginn til hjálpar við að sitja um borð sem losnuðu. Ég sá þó smugu hjá fjölskyldu sem sat við eitt og hálft borð. Spurði ég hvort ég mætti setjast og kinkuðu þau vinalega kolli. Ég heyrði svo strax að þarna voru danir á ferð.

Það var í raun alveg ótrúlegt hvað mikið var af fólki í bænum og greinilegt að þarna er fólk ekkert að láta veðrið hafa of mikil áhrif á sig sem er auðvitað hið besta mál. Ég hélt svo áfram rölti mínu um bæinn, kíkti á jólamarkaðinn en fann fljótt að ég væri  sennilega bara ennþá mett eftir dagskrána í Berlín um síðustu helgi.

Síðast en ekki síst fór ég svo inn í Marsipanbúð Niederegger-marsipanframleiðandans. Þetta er eitthvert frægasta marsipanið í Þýskalandi og búðin ein sú frægasta líka (þeir í Lübeck ku að eigin sögn hafa fundið upp marsipanið en eistnesku vinirnir mínir sögðu mér að Tallinbúar eigni sér líka þann heiður! Læt ég ógert að fara nánar út í þá sálma hér hver er hvurs o.s.frv. í því máli!). Þetta var í stuttu máli sagt eins og að vera kominn í marsipan-himnaríkiðHalo

Þvílík búð! Úrvalið af marsipaninu og öllu sem mögulega er hægt að láta sér detta í hug að búa til úr því er með ólíkindum. En það var ekki fyrir viðkvæma eða óstöðuga að vera þarna inni skal ég segja ykkur! Það var varla hægt að hreyfa sig um og dáðist ég alveg að starfsfólkinu hvað það var lipurt og æðrulaust, því ekki gat það hreyft sig mikið hraðar en aðrir í allri ösinni.

 Eftir að hafa keypt ögn af einhverju dýrindi var ég orðin býsna kaffiþyrst og endaði ég daginn á því að fara inn á ljómandi notalegt kaffihús og fá mér kaffi og köku, auðvitað með marsipaniJoyful Svo arkaði ég beint á rútustæðið og var ósköp fegin að geta slakað mér í hlýrri rútunni á heimleiðinni.

eima tóku svo sambýlingarnir á móti mér, önnur með nýbakaðri köku og hin með jólaföndri! Ekki amalegt þaðSmile Það er svo von mín að þið, kæru vinir, eigið jafn indæla og skemmtilega aðventu og ég.

Kær kveðja.

Berlín III

Það var ágætt að geta haft sína hentisemi þegar ég fór á fætur á mánudagsmorgninum. Fékk ég mér að borða einhvern samtíning úr bakpokanum, pakkaði saman og kvaddi.

Nú ákvað ég að nóg væri komið af labbi og tók lest niður í bæ. Ákvað ég að taka því bara nokkuð rólega þennan síðasta dag. Fór ég úr lestinni neðarlega við Friedrich Str. og gekk svo eitthvað um með stefnu á Potsdamer Platz. Kíkti aðeins betur á jólamarkaðinn og fékk mér gott kaffi á Starbucks. Svo tók ég aftur lest smá spöl ofar í bæinn og gekk svo eitthvað eilítið um aðrar götur en dagana áður.

Rakst ég þá m.a. á lítið torg, Hausvogtel Platz, með sérstökum skúlptúr ef svo má kalla, en það eru þrír háir speglar sem mynda þríhyrning. Það er rétt svo hægt að smeygja sér á milli þeirra og að innan eru líka speglar, eins og í mátunarklefa. Ég fékk fljótt skýringu á þessu sérkennilega listaverki. Við speglana voru litlir skildir sem á stóð að þarna hefði verið hjarta fataiðnaðar Gyðinga í borginni. Þarna voru allar verslanir og fyrirtæki eyðilögð og fólkið ýmist handtekið eða hrakið burt í byrjun stríðs (ég man því miður engar dagsetningar, sem ég held þó að séu þarna). Þetta er enn eitt þeirra merkja um þá ótrúlegu og merkilegu sögu sem þessi borg á sér og maður finnur nánast á hverju götuhorni.

Eftir að hafa skoðað mig aðeins í speglunum hélt ég áfram göngunni upp á Unter den Linden og sem leið lá upp á Alexander Platz, enn eina ferðina. En áður en ég var komin alveg alla leið fór ég inn á safn sem Inga hafði bent mér á daginn áður. Þetta var DDR-safnið sem er, eins og nafnið gefur til kynna, um tíma þýska alþýðulýðveldisins og líf fólksins í landinu á þeim tíma. Það er ansi sérkennilegt að skoða þetta safn og tilfinningin sambland af kæti og hrolli. Maður hlær að því hvernig ýmsum hlutum var háttað og skammast sín svo fyrir um leið þar sem maður veit að þetta var sannarlega ekki skemmtilegt líf hjá þorra fólks.

Eftir að hafa skoðað safnið fór ég og fékk mér að borða á voða notalegum Víetnömskum veitingastað. Hann er inni í lítilli hliðargötu eða meira eins og húsasundi sem glerþak er yfir og eru þarna aðallega veitinga- og kaffihús. Þegar ég var að stíga út um dyrnar heyrði ég sérkennilegan háværan dyn og tók mig smá stund að átta mig á að þetta var haglél sem buldi svona á glerþakinu! Það stóð þó ekki lengi, ég var varla búin að spenna upp regnhlífina til að losna við að fá höglin ofan í hálsmálið þegar allt var um garð gengið.

Fór ég svo inn á jólamarkaðinn á torginu, verslaði einhverja ögn og fékk mér síðasta Glühwein-bollan í BerlínJoyful Svo ákvað ég að kíkja aðeins inn í verslunarmiðstöð sem heitir Alexa. Ég var búin að heyra og lesa um hana en hafði ekki fundið hana daginn áður. Hún er voða flott og fín og væri vandalítið að koma góðum slatta af aurum í lóg þar! Ég lét mér þó nægja að kaupa eina litla ferðatösku. Já, nú haldið þið auðvitað að ég hafi verið búin að versla svona mikið en málið er það að ég kom hingað bara með bakpokann minn (skólatöskuna, í rauninni) og eina stóra ferðatösku. Þegar ég leggst í jólaflakkið mun bakpokinn varla nægja en taskan vera allt of stór svo mig vantaði í raun eitthvað mitt á milli. Alveg sattSmile 

Að þessu búnu tók ég bara lest upp á Hauptbahnhof og dúllaði mér þar í tæpan klukkutíma áður en lestin til Greifswald fór af stað. Rétt fyrir brottför kom svo hann Ken vinur minn, en við höfðum ákveðið að verða samferða heim. Lestin sem við fórum með í þetta skiptið var mun flottari en hinar sem ég hef farið með og líka hraðskreiðari. Tekur bara rúma tvo tíma í staðinn fyrir tæpa þrjá með þessari „venjulegu.“ Það var ósköp notalegt hjá okkur á heimleiðinni: við þuldum ævintýri helgarinnar hvort fyrir öðru og slökuðum á eftir lýjandi en óhemju skemmtilega daga.

Við vorum bæði á því að við hefðum nú alveg getað hugsað okkur að vera einhverjum dögum lengur í Berlín! Urðum við að minna okkur sjálf á að við værum nú einu sinni skiptiNEMAR og að það væri svo sem alveg við hæfi að við reyndum að sinna náminu eitthvað líka, svona inn á milli, að minnsta kostiWink Og það var svo sem voða gott að koma heim, skríða í sitt eigið ból og hvílast vel.

Læt ég nú lokið ferðasögu þessari og býð góðar stundirSmile


Berlín II

Þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgninum voru herbergisfélagarnir enn í fastasvefni. Ég læddist því um, maulaði eitthvað í mig sem leyndist í bakpokanum og dreif mig fljótt út. Svo gekk ég niður „Alt Moabit“ og beint niður að Þinghúsi og tók nokkrar myndir í viðbót því nú var veðrið snöggtum skárra (Ég held að ég hafi gleymt að nefna hvar ég gisti, en það var á Amstel House sem er við Waldenser Strasse).

Svo ákvað ég að fara smá rölt meðfram ánni Spree og byrja á nyrðri enda Friedrich Strasse sem ég ætlaði svo að ganga endilangt niður að Checkpoint Charlie. En við ána, svona mitt á milli Þinghússins og Friedrich Str. rakst ég á veitingahús sem mér leist svo vel á að ég ákvað að fara þar inn og splæsa á mig „brunch“ til að fá orku fyrir göngur dagsins. Og þar varð ég sko ekki fyrir vonbrigðum! Þetta var mjög huggulegur staður og var lifandi tónlist, þetta líka frábæra Jazzband af gamla skólanumSmile Bara eins og Raggi Bjarna væri mættur á staðinnWink Frábærir spilarar og tónlist við mitt hæfi og auðvitað jólalög í bland. Ég naut því hverrar mínútu þennan klukkutíma sem ég sat þarna og gúffaði í mig alls konar kræsingum. Held ég að þetta sé það næsta sem ég kemst jólahlaðborði þetta árið.

Fór ég því södd og sæl aftur af stað og hélt áætluðum kúrsi. Þegar inn í Friedrich Str. var komið var ein fyrsta búðin sem þar gat að líta All Saints tískuverslunin og held ég að ég hafi sjaldan séð jafn flotta og frumlega gluggaskreytingu í nokkurri búð. Úr fjarska leit út fyrir að hjólkoppum hefði verið raðað í gluggana en þegar ég kom nær sá ég að þessir hringir voru nú of litlir til að það passaði. Þetta reyndust sem sagt vera hjólin á nokkur hundruð handsnúnum saumavélum sem stillt var upp á mörgum hillum við hvern glugga í búðinniW00t Og ekki eru þeir nú neitt slor heldur hinir gluggarnir í þessari (örugglega einni) flottustu verslunargötu Berlínar. Leiddist mér gangan ekki en viðurkenna verð ég að það hefði nú verið býsna gaman að vera með eilítið þykkra veskiWink

Ég hélt mínu striki niður að Checkpoint Charlie, sem var eitthvert frægasta eftirlitshliðið á Berlínarmúrnum á sínum tíma. Þar eru líka upplýsingaskilti við götuna og svo „Múrsafnið“ en ekki heimsótti ég það nú í þetta skiptið. Úr því ég var komin þetta „neðarlega“ ákvað ég að labba niður á Potzdamer Platz sem er ekki langt frá. Á leiðinni gekk ég meðfram hluta af múrnum sem ennþá stendur þarna og fannst mér það býsna magnað.

Á Potsdamer Pl. er auðvitað jólamarkaður, eins og á u.þ.b. öðru hverju götuhorni í borginn. Þessi hafði þó það sem hinir (sem ég sá) höfðu ekki: snjóbrekku (tilbúna, að vísu) þar sem hægt var að kaupa sér salíbunu á einhvers konar dekkjablöðru. Skoðaði ég mig aðeins um þarna og gekk svo til baka upp í bæ og kíkti í nokkrar búðir að gamni. Meðal annars súkkulaðibúð þar sem gat að líta stærðarinnar líkön af Þinghúsinu, Brandenbogarhliðinu o.fl. úr súkkulaði! Frekar flottSmile

Fór ég svo að fikra mig nær Alexander Platz en þar hafði ég mælt mér mót við hana Ingu Þórunni sem var með mér í enskunni heima, en hún er við nám í Berlín. Um það leyti sem við hittumst var veðrið að verða leiðinlegt aftur. Rétt þegar við ætluðum að fara inn á jólamarkaðinn á torginu gerði slíka dembu að við ákváðum að hlaupa frekar beint inn á næsta kaffihús og fá okkur eitthvað heitt. Sátum við þar og spjölluðum dágóða stund og bárum saman bækur okkar um nám og annað sem á daga hafði drifið í Þýskalandi. Þegar stytti upp fórum við og þvældumst á milli jólamarkaða allan seinni part dagsins.

Meðal annars fórum við á Gendarmenmarkt en inn á hann þarf maður að borga sig, en að vísu bara eina evru. Hann er líka öðrum mörkuðum fallegri og var þar óhemju mikið af skemmtilegum og eigulegum hlutum. Þar hittum við ungt íslenskt par, söngnema, og ræddum við þau dágóða stund. Svo fengum við okkur auðvitað Glühwein og eitthvert brauðmeti. Héldum við svo aftur upp á Alexander Platz en þar skildu leiðir um áttaleytið um kvöldið.

Fór ég svo fljótlega heim á gistiheimilið. Greip ég einhverja ávexti í búð á leiðinni og lét duga sem kvöldmat eftir allt brauðmeti dagsins. Herbergisfélagarnir voru nú allir á bak og burt og hafði ég því herbergið fyrir mig, sem var ósköp þægilegt.  Mig verkjaði í hverja frumu eftir að hafa verið á gangi meira og minna frá hálf tíu um morguninn og fór því fljótt í koju og sofnaði eins og rotaður selurSleeping

 

Berlín I

Um síðustu helgi fór ég í skemmtireisu til Berlínar. LEI-hópurinn hafði skipulagt ferð þangað en það reyndist vera takmarkaður sætafjöldi og náði enginn úr mínum nánasta hópi að skrá sig nógu snemma og ekki ég heldur. Mér þótti þetta súrt í broti og ákvað að fara bara á eigin vegum. Það gerðu fleiri, sem áttu þó reyndar hin ýmsu erindi og stefnumót við vini, systkini eða unnusta. Við ákváðum að fara á laugardagsmorgninum. Náðum að kaupa miða saman, en það er mun ódýrara, sem var auðvitað hið besta mál og svo hitt að hafa félagsskapinn á leiðinniJ

Þegar á Hauptbahnhof var komið skildu því leiðir og ég arkaði beinustu leið að gistiheimilinu þar sem ég átti pantað herbergi (í fjögurra kvenna svefnskála). Það var um hálftíma gangur og þegar ég kom þangað, sem var um klukkan eitt eftir hádegi, var herbergið ekki laust. Ég fékk þó að létta aðeins á bakpokanum mínum og geyma þar dót og var það ágætt þar sem hann seig nokkuð í. Fór ég því næst á kaffihúsið Jonas sem ég hafði séð þegar ég kom og fékk mér Brötschen með reyktum laxi. Þarna var allt búið til jafn óðum og var því mjög ferskt og gott.

Ég fór svo aftur af stað og ákvað að ganga niður í bæ, svona til að taka tíma á vegalengdum. Fyrst fór ég niður að sigursúlunni á 17. júní-stræti (ekki nefnt eftir íslenska þjóðhátíðardeginum samtWink, heldur eftir uppreisn sem verkamenn í Austur-Berlín efndu til þann dag árið 1953).

Gekk ég svo umrætt stræti að Brandenborgarhliðinu og þaðan að þinghúsinu (Bundestag) og skoðaði það lítillega, en aðeins að utan þó, þar sem panta þarf með þriggja daga fyrirvara ef mann langar að komast inn! Fór svo aftur niður að hliðinu, eftir að hafa látið aðeins „renna af mér“ inni í minjagripabúðinni við þinghúsið, en það var mígandi rigning og ekki öll lóðrétt. En inn um hliðið fór ég og þótti nokkuð til komaSmile Gekk svo eftir Unter den Linden, sem mér hefur alltaf þótt gasalega rómantískt götunafn, og það var bara þó nokkur stemmning í því þrátt fyrir vætuna.

Mig var farið að svengja og langaði auk þess mikið í kaffi og ætlaði ég að fara inn á kaffihús sem mér leist voða vel á en það var svo pakkfullt að ég varð frá að hverfa. Lufsaðist ég því inn á eitthvert lítið kaffihús í hliðargötu. Það leit svo sem ekkert spennandi út en kaffið var mjög gott og kakan sömuleiðis svo ég tók gleði mína á nýSmile

Hélt ég svo áfram sem leið lá upp á Alexander Platz og skoðaði jólamarkaðinn þar sem var mjög gaman. Fékk mér Glühwein og Schmalzen, sem eru litlir bitar úr svipuðu eða samskonar deigi og kleinuhringir eða Berlínarbollur og er flórsykri stráð yfir þá ylvolga! DásamlegtJoyful Gafst svo upp á að vera úti í rigningunni og fór inn í Galeria Kauphof, sem er verslunarmiðstöð, og þrammaði þar allar hæðirnar fjórar eða fimm í dágóðan tíma. Um áttaleytið fór ég svo þaðan og ætlaði að finna mér einhvern stað til að borða á og rakst ég þá ekki á Tönju, einn ferðafélagann, og unnusta hennar. Þótti okkur þetta fremur fyndið þar sem borgin er nú ekki það lítil að maður eigi von á að rekast á fólk sem maður þekkir.

Eftir óhemjugott sushi og vænan bjór tók ég svo neðanjarðarlestina upp á gistiheimilið. Þegar upp í herbergið var komið voru þar tvær ungar stúlkur að hafa sig til fyrir djamm. Ég skreið beint í koju og held að ég hafi sofnað með það sama. Varð ég rétt svo vör við það þegar stelpurnar fóru út. Ekki svo ýkja löngu seinna að mér fannst rumskaði ég við umgang og þar var þá kominn fjórða manneskjan í kompaníið. Hefur hún örugglega farið beint í koju og vissi ég ekki meir fyrr en næsta morgun.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband