Færsluflokkur: Bloggar

Skoffínskógur kært kvaddur

Ég sit hér við skrifborðið mitt í litla norðurherberginu í íbúð 47 í Ernst-Thälman-Ring 10A í Greifswald, og klukkan er að nálgast eitt. Ég er nýkomin heim af Domburg, sem er einn af uppáhalds-pöbbum vinahópsins míns hér. Þangað var ég mætt klukkan átta í kvöld til að eiga stund með þeim hópi fólks sem ég hef átt hvað mest saman við að sælda í vetur.

Ég sendi út skilaboð til u.þ.b. 25 einstaklinga á fésbókinni í gær um að ég yrði þar til að kveðja liðið og að mér þætti vænt um ef einhverjir vildu koma og eiga með mér notalega kveðjustund yfir kokteilglasi. Þar sem skólinn er nýbúinn, margir að undirbúa heimferð og flestir á kafi í prófum eða ritgerðaskrifum átti ég aðeins von á broti af hópnum en viti menn, það bara mættu nánast allir! Það snart mig djúpt að allir þessir krakkar skyldu vilja koma og kveðja mig og þau voru ekkert að flýta sér neitt, það var lengi setið og mikið skrafað og hlegiðHappy Það er vissulega ekki bara ég sem er að fara; þegar ég leit yfir hópinn „minn“ þá sá ég að af þessum rúmleg tuttugu einstaklingum yrðu líklega aðeins þrír eftir í Greifswald að mánuði liðnum.

Mér er efst í huga ómælt þakklæti fyrir alla þá góðu reynslu sem ég hef safnað í sarpinn þessa mánuði hér og gleði yfir viðkynningunni við þessa yndislegu krakka sem, þrátt fyrir að vera flestir á aldur við syni mína, hafa tekið mér eins og hverjum öðrum „unglingi“ og aldrei látið mig finnast ég vera eitthvað öðruvísi.

Og þó, ég hef svo oft fengið að heyra það að þeim finnst þetta reyndar dálítið sniðugt og merkilegt, að kona á mínum aldri geti gert svona nokkuð, og hafa sumir sagt að þetta gefi þeim nýja sýn á það hvað og hvernig menntun er. Hún er ekki bara eitthvað sem maður gerir einu sinni, klárar, og svo ekki meir, fer að vinna og heldur sig á sömu brautinni það sem eftir er, heldur getur maður breytt til síðar og þarf ekki að verða fastur í sama farinu ef maður fær leið á því sem maður gerir eða áhugamál breytast.

Það er líka afskaplega gaman að sjá saman komið ungt fólk af 10 mismunandi þjóðernum og fá enn einu sinni staðfestingu á því að manneskjur eru í raun alls staðar eins, inn við beinið. Ég velti því fyrir mér á meðan við sátum þarna hvort manneskja sem gengi fram hjá og skyldi ekki þýsku hefði gert einhvern greinarmun á þessum hóp og hverjum öðrum sem fyrir utan þýska krá sæti á þriðjudagskvöldi í júlí. Ég hugsa ekki.

Það fer vissulega ekki hjá því að þegar fólk er fjarri sínu landi og ástvinum þá skapast öðru vísi bönd og fólk lærir að meta hvert annað á annan hátt. Maður þarf að stóla á sjálfan sig og læra að þekkja annað fólk og treysta því, og um leið lærir maður margt um sjálfan sig. Þó svo maður eigi aðeins skamma samleið þá binst maður böndum sem alltaf verða sérstök.

En það er líklega best að ég reyni að missa mig ekki alveg endanlega í tilfinningaseminni og pælingum um eðli mannsins. Það er bara svo auðvelt að verða viðkvæmur á kveðjustund, ekki síst kveðjustund sem þessari þegar maður veit ekki hvort maður á nokkurn tíma eftir að sjá meirihlutann af fólkinu framarCrying 

Ég held að ég fari því að hafa mig í háttinn, þessa síðustu nótt mína hér í bæ, í bili a.m.k. Klukkan 8 í fyrramálið kemur „Hausmeister“ og tekur út herbergið og tekur við lyklinum sem búinn er að vera minn í 10 mánuði. Að því búnu ætla ég að smyrja mér brauð til að hafa með mér í nesti á leið minni til Berlínar, en lestin þangað leggur af stað kl 09:57.

Í Berlín ætla ég svo að dúlla mér fram á fimmtudagskvöld en þá á ég flug heim á landið mitt fagra. Það verður yndislegt að sjá fósturjörðina, ættingjana og vini aftur og tilhlökkunin bærist í bland við tregann að skiljast við fólkið „mitt“ hér og þetta land, sem búið er að fóstra mig svo ljúflega þessa mánuði.
Kveð ég svo kæra bæinn minn með þökkum fyrir allt. Auf Wiedersehen, GreifswaldKissing


Frakklandsferð III

Á mánudeginum sváfu flestir vel fram eftir. Ég gat þó ekki sofið mjög lengi, ætli aldurinn sé ekki farinn að segja til sínWink Fór ég því á fætur og dúllaði við tiltekt í eldhúsinu og las agnarögn. Þennan morgun rigndi og var veðrið frekar grámyglulegt þó hlýtt væri. Þetta var þó ekkert úrhelli og var að mestu hætt um miðjan dag.

Þegar restin af fólkinu kom á fætur var svo farið að tína eitthvað í sig, eins og gengur. Það má segja að aðal þessarar dvalar hafi verð át, afslöppun og samvera. Einhverjir gestir tíndust svo í burt og vorum við, hin fimm fræknu ásamt Alix og systkinum eftir. Við áttum ennþá eftir að prófa tennisvöllin og nú var tækifærið notað til þess. Ekki verða hæfileikar mínir á því sviði í annála færðir, svo mikið er víst! Og þó ég væri hálffegin þegar Andrus leysti mig af á spaðanum þá var þetta mjög skemmtilegt. Philipp, Maria, Ken og Andrus spiluð örugglega vel á annan tíma en við Alix létum okkkur nægja að sitja hjá, dást að hinum og spjalla. Síðan spiluðum við kúluspil dágóða stund og lékum við litlu dúlluna hennar Marielle og líka sæta litla síamskettlinginn nágrannanna sem var alltaf annað slagið að sniglast þarna í kring.

Við ferðafélagarnir fórum svo seinni partinn niður í búð til að kaupa inn í nesti svo við gætum haft sama háttinn á og í fyrri ferðinni. Tókum við í leiðinni dálítinn rúnt um nágrennið fagra til að sjá aðeins meira í kringum okkur. Smurðum við svo nestið og stungum í ísskápinn. Svo var farið að huga að mat, en þetta kvöld var ákveðið að grilla pylsur og kjöt. Það var bara gert í arninum inni í borðsalnum og bjó Rémi til viðarkol eftir kúnstarinnar reglum. Það tók dágóða stund og á meðan bökuðu þau systkinin Crépes (franskar pönnukökur) sem átti svo að borða seinna um kvöldið. Eftir matinn var svo súkkulaðifylltum banönum skellt á grillið og þeir borðaðir með ís og rjóma, sem var ekki amalegtTounge

Seinna um kvöldið tók svo Alix fram Crépes pönnu og hitaði kökurnar upp á matarborðinu. Voru þær ýmist borðaðar með smjöri, sykri og sítrónusafa (sem mér þótti best), bráðnu súkkulaði eða jarðarberjum og ís. Einhverjum datt svo í hug að prófa að flambera nokkrar og tókst það bara þokkalega. Ekki fór maður orkulaus í rúmið það kvöldið, frekar en hin!

Enn var setið og spjallað og nú var kominn tregatónn í samræðurnar þar sem þetta var síðasta kvöldið okkar á þessum dásamlega stað. Enginn veit hvenær, eða yfir höfuð hvort, við eigum eftir að hittast í framtíðinni þó fögur fyrirheit séu um slíkt.

Og á sama tíma og í fyrri ferðinni, klukkan 04:15 um nóttina yfirgáfum við svo þennan himneska stað. Með hjörtun þrútin af þakklæti og gleði og hugann fullan af ljúfum minningum sem ylja munu um ókomin ár. Bakaleiðin gekk jafn snurðulaust fyrir sig og hin. Þó löng væri leiddist mér ekki baun og hreinlega naut þess að líða í gegnum það fallega landslag sem fyrir augu bar. Og nú fékk ég eldskírnina í akstursmálunum því nú fékk ég það hlutverk að keyra hluta af leiðinni eftir að inn í Þýskaland var komið, á alvöru Autobahn. Ég veit ekki alveg hvort okkar var stressaðra, ég eða Philipp. Ég held að ég hafi tekið hann svolítið á tauginni á stundum og honum ekki fundist ég nógu viðbragðsfljót. En allt gekk þetta vel og til Leipzig vorum við komin upp úr tíu um kvöldið þannig að ferðin var um hálftíma styttri en hin.

Nánast var skriðið beint í bólið á sama náttstaðnum en nú var hægt að sofa aðeins lengur því lestin okkar fór ekki fyrr en um klukkan níu morguninn eftir. Lullaði hún svo norður eftir á sínum hraða og var sú ferð tíðindalítil. Heim til Greifswald komum við svo um hálf-fjögur í eftirmiðdaginn og þá var nú ekkert verið að slappa af því klukkan hálf sjö voru tónleikar hjá litlum kór sem Maria syngur í og fórum við öll hin til að hlusta. Það var mjög gaman, fjölbreytt og sumarleg efnisskrá og m.a.s. sungin lög sem ég hef sungið með „mínum“ kór heima.  Prýðilegur endapunktur á öllum skemmtilegheitunum! En það var ósköp gott að skríða upp í sitt ból það kvöld og hugsa til baka yfir þessa nýliðnu daga og öll þeirra ógleymanlegur ævintýriSmile


Frakklandsferð II

Dögunum sem í hönd fóru var að mestu tekið rólega. Seint farið á fætur og réð afslöppun og samverugleði ríkjum. Auðvitað þurftum við að prófa sundlaugina sem fyrst og alla dagana fjóra lágum við eitthvað við hana. Þó hún væri fremur köld, aðeins um 21-23°C, var gott að busla aðeins í henni á milli þess sem sólin bakaði kroppinnCool Við hliðina á lauginni var tún þar sem kýr af Limousin-kyni voru á beit. Skemmdi sú sjón ekkert fyrir og jók enn á sveitarómantíkina sem yfir vötnum sveif.

Eitthvað þurfti að kaupa inn eins og gengur og var því rölt niður í St. Mathieu flesta dagana þeirra erinda. Og auðvitað líka til að skoða bæinn ögn. Niður í miðbæinn þar er bara nokkurra mínútna gangur frá húsinu. Svo voru gestir að bætast í hópinn og aðrir að fara. Tvær vinkonur Alix bættust í hópinn á föstudeginum og svo komu bæði systkini hennar, Marielle og Rémi, á laugardeginum og tæpra þriggja ára systurdóttir, lítill bláeygður krullukollur sem heillaði alla upp úr skónum.

Kanadísku vinkonurnar okkar frá Greifswald, þær Emma og Sofia, ætluðu að fara á laugardeginum og þar sem Alix hafði lofað svo hátíðlega að baka franskar makkarónukökur þá varð hún að drífa í því á föstudagskvöldinu. Áður en baksturinn hófst bjuggu Emma og Sofia til „jello shots“ sem eru ansi skemmtileg „skot“. Vodka er blandað út í uppleyst ávaxtahlaup og það látið stífna. Það er mjög skondið að skella þessum skotum í sig og varla hægt að merkja að þar sé áfengi á ferð því þau líkjast frekar sakleysislegum eftirrétti. Lúmskt góð í fleiri en einni merkinguWink 

Á eftir fylgdust allir spenntir og áhugasamir með Alix útbúa makkarónurnar en það er þolinmæðisvinna og ekki hrist fram úr erminni! Að endingu fékk svo hver sínar tvær kökurnar og þær voru auðvitað bara himneskar!Eftir át og bakstur var svo slegið upp diskóteki í hlöðunni, en hún þjónar bæði sem borðstofa heimilisins og einnig spilasalur, því uppi á loftinu þar eru bæði borðtennisborð og ballskákborð. Skemmtum við okkur auðvitað hið besta og dönsuðum af innlifun fram á nótt.

Á laugardagsmorgninum fór ég út að skokka því mig langaði svo til að skoða aðeins hið fagra umhverfi St. Matiheu. Það var mjög gaman en ég fór þó ekki langt því ekki vildi ég nú villast. Svo var hitt og þetta mallað og borðað eins og búast má við í franskri sveit. Ekki var það þó allt franskt því á laugardeginum bjó Philipp t.d. til lettneskt ostasalat, en hann bjó í eitt og hálft ár í Lettlandi. Ekki leist mér nú alveg á blikuna þegar hann hrærði saman rifnum osti, rifnum gulrótum, majónesi og hvítlauk. En þetta bragðaðist miklum mun betur en það hljómaði og átti ég eftir að laumast oft í salatskálina. Var þetta svo á borðum á laugardagskvöldinu ásamt hrísgrjónarétti sem frönsku vinkonurnar bjuggu til og auðvitað voru ostarnir ekki langt undan og heldur ekki „saucissons“ sem eru einhvers konar spægipylsur sem eiga engan sinn líka! Hrikalega góðar! Ken og Andrus bjuggu líka til eistneska rommköku sem er algjört sælgæti, úr muldu kexi, dósamjólk (condensed milk), súkkulaði, ávöxtum og auðvitað rommi, ásamt einhverju fleira góðgæti.

Þessi laugardagur sem við vorum þarna var Jónsmessudagur. Var Philipp búinn að lofa að við fengjum að kynnast lettneskum Jónsmessusiðum og stóð sannarlega við það. Slegið var upp brennu á túni skammt frá húsinu og í kringum bálið var sungið, dansað og setið og slappað af í grasinu langt fram á nótt. Svo þurftu allir að stökkva yfir bálið, en að takast það á að boða gæfu allt næsta ár. Síðan var spjallað og hlegið út í eitt. Um miðnættið skaust ég svo inn, ásamt tveimur af frönsku vinkonunum og lagaði heitt súkkulaði í stærðar potti og þeytti rjóma. Skutlaði svo út í það Austurrísku rommi, Stroh, og bárum við þetta svo niður á túnið og féll það í góðan jarðvegWink

Upp úr því, sennilega á milli eitt og tvö, fór fólk að tínast inn og í háttinn. Við vorum þó fimm sem eftir sátum og héldum nóttina út þangað til bjart var orðið aftur, en það er ekki fyrr en upp úr klukkan 5. Alix, Philipp, Ken, Andrus og ég. Alix var með gítar og spilaði og söng eins og alvöru trúbador, sem hún gæti hæglega verið, ef hún kærði sig um. Svo bættum við sprekum á eldinn annað slagið til að halda honum við og okkur heitum. þaþ var töfrum líkast að sitja þarna í nóttinni í þessari fallegu sveit með Jónsmessuandann yfir.Þegar bjart var orðið tóku Philipp og Andrus sig til og fóru í sundlaugina, en í Lettlandi ku það vera siður að baða sig í sjó eða vötnum við sólarupprás á Jónsmessunótt. Við skreiddumst svo í rúmið um 6, þreytt og syfjuð en líka glöð og hamingjusöm.

Á sunnudeginum ákvað ég að taka aftur smá skokk, þó ekki væri langur svefn að baki, og þá slóst Maria í för með mér. Við hlupum þá vænan hring og var það bara dásemdin ein. Veðrið var yndislegt og ekki hægt annað en að njóta. Vorum við býsna drjúgar með okkur eftir 40 mínútna túr sem ýmist var upp eða niður í móti. Ágætis tilbreyting frá flatneskjunni hér í Greifswald, að beggja mati, og höfðum við það á orði að við værum búnar að vinna okkur inn samvisku fyrir góðu átiWink 

Eftir hádegi á sunnudeginum var svo ákveðið að fara að St. Mathieu-vatninu, sem er rúmlega hálftíma gang frá húsinu. Töfrandi göngustígur í gegnum skóg og engi til skiptis. Við vatnið var mjög fallegt og þó nokkur slatti af fólki þar að baða sig og busla, en þarna er tilbúin baðströnd. Mér fannst nú ekkert voðalega aðlaðandi að fara út í vatnið, en það var kolbrúnt, sem Rémi sagði að stafaði af miklu járninnihaldi. Maður sá varla armslengd ofan í það. Ég fikraði mig rólega út í því það og taldi mér trú um að það væri bara meinhollt að synda í öllu þessu járni! En vatnið var svo sem ekkert heitt, þó ívið hlýrra en sundlaugin við húsið, sem lengst af var um 21-23°C. Endaði með því að ég synti, ásamt Mariu, þvert yfir vatnið og var það alveg ótrúlega gaman! Mér fannst á þeirri stundu líf mitt vera dásamlegt, verandi stödd í miðju Frakklandi og að synda í stöðuvatni í fyrsta skiptið á ævinni! Svo lágum við bara dágóða stund í sólbaði áður en við gengum aftur heim.

Þar var svo spilað Petanques, kúluspilið fræga. Fyrir matinn tóku sumir smá syrpu í borðtennis. Þar á meðal ég, en ég held að ég hafi ekki spilað það síðan ég var unglingur. Það var ótrúlega gaman að rifja það upp og mesta furða hvað ég gat! Síðan voru borðaðir afgangar frá deginum áður og auðvitað ostar og saucisson. Svo var bara setið við arininn og spjallað um heima og geima. Stemningin var yndisleg og það var óskaplega notalegt að vera þarna með þessu góða fólki sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til fyrir 10 mánuðum síðan! Svona gjafir getur lífið fært manniHeart


Frakklandsferð I

Ævintýrum mínum hér á meginlandinu eru lítil takmörk sett! Ég hugsa oft um það hve heppin ég er að vera búin að upplifa allt það skemmtilega og góða sem ég hef upplifað hér. Einnig um allt það góða fólk sem ég hef hitt í dvöl minni hér og eins á ferðalögunum.

Nýjasta ævintýrið sem bættist í minningasafnið hófst um hálf-ellefuleytið að morgni miðvikudagsins 20. júní. Þá steig ég, ásamt þremur ungum mönnum, þeim Ken, Andrusi og Philipp, upp í lest sem bar okkur á næstu 6 klst. til Leipzig, en þaðan er hinn síðastnefndi. Þetta var fyrsti áfangi ferðar sem við fórum til að þekkjast heimboð hennar Alix vinkonu okkar sem var hér í Greifswald á fyrri önninni í vetur.

Þegar til Leipzig var komið sótti stjúpa Philipps okkur á lestarstöðina og fór með okkur heim þar sem við fengum svo bíl föður hans lánaðan. Svo fórum við í bæinn og hittum þar hana Mariu, kærustu Philipps, sem þangað var komin á undan okkur. Löbbuðum við síðan um bæinn undir leiðsögn heimamannsins. Dóluðum við okkur þar fram á kvöld og fórum svo út að borða með pabbanum og stjúpunni, mesta indælisfólki, sem skaut svo yfir okkur skjólshúsi um nóttina.

Klukkan korter yfir fjögur um nóttina lögðum við svo af stað keyrandi á lánsbílnum beint á ská yfir rúmlega hálft Þýskaland (hinn tæpa helminginn höfðum við jú farið með lestinni daginn áður!). Þar var þó ekki látið staðar numið því áfangastaður okkar var í mið-suður-Frakklandi svo verkefni dagsins var ærið.

Allt gekk ferðalagið hið besta og þó langt væri naut ég þess til hins ýtrasta. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því að fá að njóta útsýnis yfir fagrar sveitir þessara tveggja landa og fékk enga leið á því! Við fórum meðal annars yfir margar stórar ár, svo sem Elbu, Rín, Mósel og Loire. Það er ekki á hverjum degi sem maður fer yfir þær allar á einum og sama deginum!

Aðeins var stoppað til að skreppa á klósett og fá sér í gogginn, en gestgjafar okkar um nóttina voru svo rausnarlegir að útbúa okkur með haug af dýrindis samlokum, ávöxtum og grænmeti. Við stoppuðum því oftast bara einhvers staðar á bílastæðum við veginn þar sem við borðuðum standandi við bílinn, til að njóta þess að teygja úr skönkunum líka.

Í bænum Commercy, var svo komið að mér að taka við stýrinu, en við Philipp og Maria skiptumst á, þar sem hinir tveir eru hvorugur með bílpróf. Það var nú ekki alveg laust við að ég væri pínulítið stressuð að fara að keyra í fyrsta skipti á erlendri grund og hafa ekki setið undir stýri síðan í september. En þetta gekk bara mjög vel þar sem við keyrðum að mestu leyti bara um sveitavegi í Frakklandi og Philipp sat við hlið mér og lóðsaði.

Að keyra sveitavegina þýddi líka akstur í gegnum tugi, eða líklega frekar hundruð, lítilla þorpa sem var voða gaman. Ekki skemmdi félagsskapurinn fyrir og vorum við, þrátt fyrir langa og lýjandi ferð, búin að skemmta okkur aldeilis prýðilega við sögur, spjall og leiki.

Eftir að hafa lagt að baki um 1.420km á tæpum 19 klst. komum við í myrkri um kvöld, til áfangastaðar okkar, bæjarins St. Mathieu í Limousin-sýslu, en í útjaðri hans stendur sumarhús fjölskyldu Alix. Og það sem beið okkar! Þetta var eins og að keyra inn í kvikmynd, franska auðvitað, gamalt og stórt sveitahús með sundlaug og tennisvelli við hliðinaSmile 

Það voru hlýjar og yndislega móttökur sem við fengum hjá Alix og þremur vinkonum, þar af tveimur sem einnig voru komnar frá Greifswald, en höfðu farið fljúgandi og komu daginn á undan okkur. Beið okkar létt máltíð, salat og brauð og auðvitað ostabakki! Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem skriðu upp í dásamleg rúm í ótrúlega sjarmerandi herbergjum hússins gamla, eftir máltíð og stutt spjall, en orkan leyfði ekki langa vöku þetta fyrsta kvöld.


Langþráð heimsókn II: Farið á flakk

Föstudagsmorguninn 25. maí höfðum við ákveðið að taka bílaleigubíl og fara á smá flakk. Guðbjartur, Jóhann og Halldór fóru að sækja bílinn á meðan við Siggi gengum frá í íbúðinni. Svo var lagt af stað, fremur stefnulaust og óstressað.

Keyrðum við bara eitthvað um það bil í norðurátt en mín hugmynd var að skoða eitthvað vatnasvæði Mecklenburg-Vorpommern. Við lentum fljótlega í umferðartöfum en þetta var um Hvítasunnuhelgi sem er fyrsta alvöru ferðahelgi sumarsins, hér eins og heima.

Okkur hafði láðst að taka með nóg vatn og var því ákveðið að stoppa í einhverju þorpi til að kaupa það. Við keyrðum út af hraðbrautinni hægförnu og inn í næsta þorp. Allt í einu sáum við risastóra, hringlaga byggingu í Kínverskum stíl. Við urðum auðvitað forvitin og keyrðum þar upp að til að athuga hvað þetta væri. Þarna reyndist vera veitingastaður og var hann svo aðlaðandi að við bara drógumst þar inn, sem var í góðu lagi, enda nánast komið hádegi.Þarna fengum við dásamlegan mat og máttum borða eins og við gátum í okkur látið af dýrindis hlaðborði. Verður þessi máltíð og staðurinn ekki síður, lengi í minnum haft!

Svo héldum við áfram að dóla um sveitirnar og tókum stefnuna á Müritz-vatnið, sem er næststærsta stöðuvatn Þýskalands, á eftir Bodensee. Við gerðum stuttan stans í bænum Waren, fengum okkur drykk á veitingastað við bakka vatnsins og fórum svo í eilítinn göngutúr. Þetta var hinn snotrasti bær og gaman að labba um. Svo fórum við að beina stefnunni í áttina að Greifswald og vorum komin þangað að verða níu um kvöldið.

Þar var byrjað á að tékka herramennina inn á gistiheimilið þeirra, en það er bara á ská á móti þar sem ég bý og ca tveggja mínútna labb frá mér. Svo komu allir með mér heim til að kíkja á mitt slot og kynna gaurana fyrir sambýlingunum mínum, en allt er þetta fólk búið að heyra mikið hvert um annað í vetur og var orðið býsna forvitið að sjást.Svo var farið í háttinn til að safna kröftum fyrir ævintýri laugardagsins.

Laugardaginn þann var skipulögð ferð til Rostock fyrir ERASMUS-nemana á vegum LEI. Við fengum að slást í hópinn en fórum þó bara á „okkar“ bíl og hittum svo liðið í Rostock. Fórum við með þeim í göngutúr með leiðsögn um gamla bæinn sem vitaskuld var voða gaman við fórum svo okkar eigin leiðir, þvældumst um bæinn, fengum okkur í gogginn og versluðum smá. Eltum svo hópinn til Warnemünde, sem er lítill bær alveg niður við ströndina, aðeins steinsnar frá borginni. Þar hittum við nú aldrei neitt á hitt liðið en fengum okkur bara göngutúr á ströndinni og kaffi og eplastrúdel á kaffihúsi.

Svo dóluðum við okkur til baka. Guðbjartur og Siggi tóku kvöldinu svo bara rólega heima við en Jóhann og Halldór komu með mér í Júróvision-partí sem mér hafði verið boðið í. Þeir voru nú fyrst ekkert æstir enda ekki miklir aðdáendur keppninnar, en skemmtu sér held ég alveg ljómandi vel þegar upp var staðið. Enda er það alveg spes stemning að vera í svona partí með allra Evrópuþjóða kvikindum, sem eiga auðvitað sína fulltrúa í keppninni. Þarna voru þjóðverjar, tékki, finni, eisti, norðmenn, frakki og reyndar tvær kanadískar stelpur líka, þannig að það var alltaf fagnað þegar einhver þjóða viðstaddra fékk atkvæði. Þannig að kvöldið varð hið skemmtilegasta.

Sunnudaginn 27. maí var svo förinni heitið til Rügen sem er stóra eyjan hér við norðaustur-hornið á Þýskalandi. Þangað yfir er farið um brú við Stralsund. Við þvældumst um krókótta sveitavegi og stoppuðum í nokkrum bæjum við og við til að fá okkur hressingu. Fengum okkur smá göngutúra líka, m.a. við Prora sem er staður sem Hitler ætlaði að gera að sumardvalarstað til að gera verkalýðinn glaðari með sitt hlutskipti. Þetta er eitt risastórt húsbákn, fleiriþúsund fermetrar og byggingin er örugglega einhverra hundraða metra löng. En þetta var aldrei tekið í notkun því ekki náðist að klára bygginginguna áður en stríðið braust út. Nú stendur þessi hrikalegi steinsteypukassi þarna sem minnisvarði um eina af hinum brjáluðu hugdettum einræðisherrans.

Daginn enduðum við alveg út á norðaustasta odda eyjarinnar, í Putgarten. Þar eru leifar stríðsminja og þrír misgamlir vitar á smá bletti. Þar röltum við um góða stund og nutum náttúru og veðurs áður en brunað var til baka.

Mánudagurinn var síðasti dagur herramannanna í þessari heimsókn. Við ákváðum að taka snöggan rúnt til Stralsund því mér fannst ómögulegt annað en að þeir fengju að sjá fallega gamla bæinn þar. Þetta er bara hálftíma akstur og því ekki mikið mál. Við fórum seint af stað og byrjuðum því á að fá okkur hádegismat á veitingastað við Ráðústorgið og fengum þar dýrindis fisk. Svo fórum við dálítinn göngutúr eftir mínu takmarkaða minni um gamla bæinn, áður en snúið var við. Þá tókum við dálítið labb um miðbæinn hér og fengum við okkur ís í sólinni á markaðstorginu, Marktplatz.

Að endingu fórum við út í Wieck og náðum snöggum göngutúr að Eldena klausturrústunum og líka að borða Fischbrötschen með reyktum laxi. En þá var klukkan orðin rúmlega fimm og kominn tími fyrir piltana að fara að tygja sig af stað. Farangur var sóttur heim til mín og svo var komið að kveðjustund. Þær eru alltaf erfiðar en í þetta skiptið var þó huggunin að það væri nú ekki svo langt þangað til við hittumst næst. Þar með var þessi dásamlega vika á enda runnin með öllum sínum upplifunum og síðast en ekki síst, sjaldgæfri samveru sem ég held að okkur sér öllum dýrmæt og verður lengi í minni geymd. Læt ég þá lokið þessari ferðasögu og bý mig undir næstu ferð, en þá liggur leið til Frakklands og verður sú reisa örugglega í frásögur færandi síðar.


Langþráð heimsókn I: Berlín

Eins og ég minntist á síðast þá komu synir mínir ásamt Guðbjarti, mínum fyrrverandi sambýlismanni, í heimsókn til Þýskalands um daginn. Þeir lentu í Berlín undir miðnætti mánudagskvöldið 21. maí og fóru til baka réttri viku seinna.

Ég fór til Berlínar síðla mánudags og náði í lykla að íbúðinni sem við ætluðum að búa í og hitti svo þýska vinkonu sem leiddi mig í ýmsan sannleika um borgina og hverfið sem við gistum í. Það var alveg dásamleg stund að koma auga á gaurana í lestinni þegar hún renndi inn á Hauptbahnhof og að fá að faðma þá eftir 8 mánaða aðskilnaðInLove 

Morguninn eftir var farið fremur seint á fætur þar sem karlarnir voru þreyttir eftir langt ferðalag og seint farið að sofa. Byrjuðum við svo að skoða borgina og hófum yfirreiðina í næsta nágrenni við gististaðinn í Wilmersdorfer Strasse. Gengum við niður á Savignyplatz þar sem við fengum okkur drykk til að kæla okkur í hitanum, sem var um 30°C. Þaðan héldum við niður á Kurfurstendamm, aðeins eftir þeirri götu og að Gedächtniskirche, Minningarkirkjunni, og skoðuðum hana. Svo fengum við okkur að borða og fórum að því búnu í tæpra tveggja tíma „sightseeing“ með tveggja hæða rútu.

Það var mjög gaman, þrátt fyrir nánast óbærilegan hitann þar sem maður var alveg óvarinn fyrir sólinni og bærði varla hár á höfði. En þarna sannaði sólvarnarkremið ágæti sitt því enginn brann! Að ferðinni lokinni var svo haldið upp á Alexander Platz þar sem við flúðum undan hitanum inn í verslunarmiðstöð og kældum okkur sjálf aðeins en hituðum greiðslukortin í staðinnWink Svo héldum við heimleiðis þar sem við tókum kvöldið rólega og spjölluðum og nutum þess bara að vera saman. Í háttin var haldið snemma, enda allir þreyttir eftir þennan heita dag og lítinn svefn nóttina áður.

Morguninn eftir var haldið upp á Potzdamer Platz þar sem byrjað var á að fara upp í Panorama Punkt, sem er 24ra hæða hár turn með útsýnispalli á efstu tveimur hæðunum. Þangað upp fær maður far með hraðskreiðustu lyftu í Evrópu! Og ég get svarið að hún var sneggri upp á 24. hæð en lyftan í húsinu þar sem við bjuggum var upp á fjórðu!! Þar uppi áðum við dágóða stund, virtum fyrir okkur borgina og nutum þess skemmtilega útsýnis yfir hana sem þarna er að fá. Þar uppi eru líka skilti með miklum upplýsingum um borgina, sögu hennar og ekki síst byggingarsögu síðustu áratuga.

Eftir útsýnisstundina fórum við yfir götuna og inn í Sony Center, sem er einhvers konar yfirbyggt torg með fjölda veitingastaða og kaffihúsa. Þar eru líka flottustu bíóin í Þýskalandi, og þó víðar væri leitað. Þar fengum við okkur að drekka og héldum svo gangandi upp að Brandenborgarhliði, með viðkomu við Helfararminnismerkið. Það hlýtur að vera stærsta minnismerki í heimi, eða a.m.k. með þeim allra stærstu. Það þekur 19.000 fermetra og samanstendur af 2.711 steinsteypuklumpum sem hver er 2,38m á lengd og 95sm á breidd. Hæðin er frá 20sm og upp í tæpa 5 metra. Stórt og magnað, sem er vel við hæfi.

Við Brandenborgarhliðið þurfti auðvitað að taka smá myndastopp og svo var rölt í gegn, yfir Pariser Platz og eftir Unter den Linden, götunni sem liggur milli Brandenborgarhliðs og Museumsinsel. Þar settumst við niður skuggamegin til að fá okkur í gogginn. Að því loknu tókum við röltið upp og niður Friedrichsstrasse, aðalverslunargötuna í þeim bæjarhluta. Við neðri (syðri) enda götunnar er Checkpoint Charlie, en þar var eitt af aðalvarðhliðunum á Berlínarmúrnum sáluga.

Þegar þarna var komið sögu voru flestir orðnir þreyttir á hitanum og því var ákveðið að fara aftur upp á Alexander Platz og flýja inn í lofkælda verslunarmiðstöð þar sem síðari hluta dagsins var varið við ráp og gláp og eilítil innkaup áður en haldið var heim þar sem kvöldinu var varið á svipaðan hátt og daginn áður.

Fimmtudaginn 24. maí ákváðum við að taka smá labb um götuna „okkar,“ Wilmersdorferstrasse, og kíkja aðeins í búðir þar og vorum í því fram yfir hádegi. Þar borðuðum við líka hádegismat á Ostsee fiskiveitingastað. Svo tókum við lest upp á Alexander Platz, eina ferðina enn, en nú var torgið góða notað sem upphafspunktur en ekki enda!

Gengum við þaðan niður í áttina að Museumsinsel, eða safnaeyjunni, sem er eins og nafnið bendir til, eyja í ánni Spree. Á henni standa öll helstu söfn borgarinnar, sum hafa verið þar frá upphafi en önnur hafa verið flutt þangað á síðustu áratugum. Þar stendur líka Dómkirkjan fagra. En við hófum leikinn á því að fara á DDR safnið en það er safn um sögu þýska Alþýðulýðveldisins. Ekki stórt en býsna magnað safn sem vel er þess virði að skoða.

Við vorum líka að hugsa um að fara í Aquadome sem er einhvers konar sædýrasafn. Þar er m.a. risastórt fiskabúr, einhverjir tugir metra á hæð og lyfta sem gengur í gegnum það. En það kostaði litlar 17 evrur á haus og fannst okkur það óheyrilega dýrt og hættum snarlega við! Fengum okkur bara kaffi í staðinn og fórum svo niður að ánni þar sem við höfðum ákveði að fara í siglingu. Það var óhemju gaman. Sáum við auðvitað safnaeyjuna og svo líka Þinghúsið, aðalbrautarstöðina og margt, margt fleira. Það var mjög gaman að fá svona annað sjónarhorn á borgina.

Að siglingu lokinni ætluðum við rétt aðeins að kíkja inn í Dómkirkjuna því við höfðum ekki ýkja mikinn tíma. Það kostaði hins vegar full mikið inn til að við tímdum því fyrir örstutta stund og bíður hún því næstu heimsóknar. Við örkuðum því bara sem leið lá eftir bakka árinnar í áttina að Þinghúsinu, en þar í nágrenninu er veitingastaður sem ég féll fyrir þegar ég kom þangað í vetur. Það var aðeins lengra labb en mig minnti og hálfgerð vonbrigði því staðurinn var þéttsettinn og þó hægt væri að sitja úti þá var það ekki mjög aðlaðandi.

Við fórum því bara yfir ána og kíktum á veitingastaðina þar, sem ógrynni er af. Þar fékk ég að ráða ferðinni og veðjaði á einn þýskan stað. Mjög var upp og ofan hvað hverjum fannst um sinn mat; Siggi var himinsæll með sína gómsætu kálfalifur en Halldór varð fyrir miklum vonbrigðum með „Rinderroulade“ sem er e.k. upprúllaðar þunnar sneiðar af nautakjöti með einhverri fyllingu. Ég fékk mér súpu sem var bara svona í meðallagi, Guðbjartur fékk sér „Flammkuchen“ sem leit út eins og skrítin pizza en bragðaðist að hans sögn þokkalega. Jóhann fékk sér svínasnitsel sem hann var líka þokkalega sáttur með. Það sem er ekki síst eftirminnilegt við þennan stað, sem ég man ekkert hvað heitir, er hvað klósettin eru skemmtilega myndskreytt í anda graffitilistarJoyful 

Að máltíð lokinni fórum við svo á skemmtilegan djassklúbb og hlustuðum á hinn danska Thorbjörn Risager þenja sín grófu raddbönd. Þetta var síðasti dagurinn okkar í Berlín og ekki laust við saknaðartilfinningu í lok dags. Allir voru sammála um að þetta væri sko pottþétt bara byjunin á viðkynningunni við þessa skemmtilegu borg.


Hátíðardagar o.fl.

Það sem af er maí er búinn að vera fremur viðburðaríkur tími, eins og reyndar flestar vikur hér hafa verið. Mikið hefur farið fyrir tónleikum og menningarviðburðum í tengslum við menningarhátíðina Nordischer Klang, eða hljómur úr norðri, sem haldin hefur verið árlega hér í Greifswald síðustu 20 ár.


Föstudaginn 4. maí fór ég á í heimsókn á Borgarbókasafnið til að ræða við góða konu þar um tilhögun á lestri sem ég átti að vera með fyrir börn á þriðjudeginum 8. Hinkraði ég svo um stund niðri í bæ til að fara aftur á bókasafnið en þar var þá opnuð sýning á Íslandsmyndum eftir þýskan ljósmyndara, Krim Grüttner. Hún hefur margsinnis komið til Íslands til að mynda og hefur m.a. gefið út bækur með myndum þaðan.Þetta var mjög gaman, fallegar myndir, mestmegnis náttúrumyndir og þó nokkuð af vetrarmyndumSmile Þessi sýning var einn liður í áðurnefndri hátíð.

Laugardaginn 6. maí voru svo tvær veislur sama daginn. Mila átti afmæli seinni partinn í apríl og var með smá veislu fyrir nokkra vini. Útbjó hún fullt af alls konar pinnamat og svo var grillaður fiskur, sem ég smakkaði reyndar ekki fyrr en kaldan seint um kvöldið því í millitíðinni fór ég í annað boð. 

Hann Philipp hafði boðið okkur nokkrum til sín í súpu. Þetta reyndist vera köld súpa og þó hún væri fagurbleik og íðilfögur á að líta leist mér nú ekki meira en mátulega á þegar ég fór að skoða innihaldið. Mikið af rauðrófum og svo gúrkur, kefir, dill og sitthvað fleira. En það reyndist ekkert flagð undir súpunnar fagra skinni, hún var bara mjög fersk og góð og ég á sko örugglega eftir að búa til svona súpu einhvern tíma, á heitum sumardegiSmile Í eftirrétt var svo ein dásamlegasta ostakaka sem ég hef smakkað og fór ég heim saddari en ég hef orðið lengi!

Á sunnudeginum hjólaði ég svo niður í bæ og fór á tónleika með norska saxófónsnillingnum Torben Snekkestad. Hafði ég nú misgaman af því sem kappinn spilaði, tvö stykki voru ágæt en restin full nútímalega fyrir mín gamaldags eyruBlush Í bakaleiðinni stoppaði ég svo í rúman hálftíma og hlustaði á lúðrasveit aldraðra norskra hermanna og var það mjög gaman.Hjólaði ég svo í einu spani heim og fór í kaffi og unaðslega góða kanilsnúða til hennar Tinu, sem er frá Noregi. Það má því segja að ég hafi þarna átt mjög norskan dagSmile 

Daginn eftir fór ég svo og hlýddi á upplestur hins hálf-þýska/hálf-íslenska Kristofs Magnússonar úr nýlegri bók hans sem heitir „Gebrauchsanweisungen für Island“ eða „Notkunarleiðbeiningar fyrir Ísland“. Ágætlega skemmtilegur lestur og örugglega hátt í hundrað manns að hlusta þannig að það er alveg ljóst að það eru margir hér sem hafa áhuga á eyjunni okkar fögruInLove 

Á þriðjudeginum var svo komið að mér að láta ljós mitt skína og leggja mitt af mörkum í þágu norrænnar menningar! Á Borgarbókasafninu var sem sé búið að undirbúa tvær lestrarstundir fyrir börn úr 7 ára bekk. Fyrri hópurinn kom kl 9 og sá seinni kl 11. Las ég fyrir þau þýsku útgáfuna af „Ástarsögu úr fjöllunum“ eftir Guðrúnu Helgadóttur og Brian Pilkington. Virtust blessuð börnin bara nokkuð ánægð og eftir lesturinn svaraði ég svo eftir bestu getu alls konar spurningum sem þau báru fram um Ísland og tröll og hvaðeina. Virtust allir vera sáttir með þetta og ég þó örugglega langmestGrin

Föstudaginn 11. maí fór ég á tónleika í hátíðasal háskólans með finnskum píanóleikara, Annikku Konttori-Gustavsson. Mjög skemmtilegir tónleikar með finnskri tónlist og sagði hún frá verkunum inn á milli. Að þeim loknum þeysti ég upp í leikhús til að fara á meiri tónleika! Þar voru tvær hljómsveitir, önnur dönsk með pólskan söngvara og hin sænsk með brasilískan söngvara! Mjög skemmtilegar báðar tvær þó ólíkar væru.

Laugardaginn 12. maí fór ég svo á formlega lokatónleika hátíðarinnar en þeir voru haldnir á litlum tónleikastað niðri í bæ. Þar spiluðu þrjár hljómsveitir: ein dönsk, ein finnsk og svo íslenska hljómsveitin Moses Hightower. Þetta voru aldeilis frábærir tónleikar og íslendingarnir auðvitað langbestirWink 

Á sunnudagskvöld stormaði ég svo niður í bæ, eina ferðina enn! í þetta skipti var á dagskrá eitthvað sem kallað var Musikalishe Lesung eða tónlestur. Þar var á ferðinni hann Steini, Steingrímur Karl Teague, úr Moses Hightower og spilaði bæði eigin tónlist og þekkt íslensk lög eins og Undir stórasteini, Braggablús, Draumalandið og Vísur Vatnsenda-Rósu. Hann Hartmut Mittelstädt, sem ég hef áður minnst á, íslenskuprófessor við Norrænudeild háskólans hér, las svo þýðingar sínar á nokkrum textanna. Einnig las hann þýðingu sýna á makalaust skemmtilegri smásögu eftir Steina. Undir þeim lestir veltist fólk um úr hlátri og átti Hartmut sjálfur stundum í mesta basli með að hlæja ekki of mikið! Þetta var held ég bara skemmtilegasta uppákoma hátíðarinnar, svona að mínu matiSmile

Fyrir utan öll þess hátíðahöld hefur lífið svo bara snúist um skólann og lestur og lærdóm. Í gærkvöldi fór ég þó í leikhús og sá „My Fair Lady.“ Það var ægilega gaman þó ekki skildi ég nú nema u.þ.b. helminginn af því sem sagt var. Það kom þó ekki svo mikið að sök þar sem ég þekki verkið þokkalega og tónlistin dásamlega nýtur sín alltaf. Konan sem lék Elísu hafði mjög fallega sópranrödd sem hún gat svo fyrirhafnarlaust breytt yfir í rokkaða hálsrödd og var hún alveg frábær. Og ekki var sá sem lék Higgins síðri, fór hreinlega á kostum og er sá allra skemmtilegasti sem ég hef séð í því hlutverkiLoL

Þið sjáið að það er ekki rólegheitunum fyrir að fara hjá mér, frekar en fyrri daginn hér í vorkartöflulandinu eins og góður vinur orðaði það! Og nú magnast spennan í mér óðum, því á næsta mánudag koma drengirnir mínir og Guðbjartur með þeim að heimsækja mig. Það verður skemmtileg vika sem varið verður í Berlín og Greifswald og nágrenniSmile

Það verður því væntanlega frá nógu að segja næst! Góðar stundir.


Apríl

Jæja, nú er apríl floginn hjá og ég hef ekki komið neinu frá mér óralengi! Ég var byrjuð að skrifa og var svo að smá bæta við en kom þessu aldrei af staðUndecided Hér kemur því allur aprílmánuður eins og hann leggur sig og rúmlega það!

Eins og ég hef áður minnst á þá fór hluti af skiptinemunum heim eftir fyrri önnina. Einhverjir nýjir komu hins vegar í staðinn en þó ekki eins margir og á haustönninni. Einn góður félagi minn fór svo alfarinn heim í lok mars. Daginn eftir að ég kom heim úr ferðalaginu til Hamborgar og Leipzig var dálítið kveðjupartí fyrir hann og var það mjög skemmtilegt þó alltaf séu kveðjustundir blandnar ákveðnum trega. Á sunnudeginum var voða gott veður og fórum við því nokkur saman niður í miðbæ til að fá okkur kaffi og svona til að hann gæti formlega kvatt bæinn. Fyrst fórum við á kaffihús og tókum svo kaffi með okkur niður að á og sátum lengi í grasinu þar.

Um kvöldið var ég svo búin að bjóða honum ásamt þremur öðrum í mat. Tvær stúlkur komust ekki í matinn þannig að á endanum urðu það bara tveir piltar sem nutu matarins með mér. Stúlkurnar komu svo síðar um kvöldið og var þetta hin ljúfasta kvöldstund. Sagði hann svo þessi elska að hann hefði ekki getað hugsað sér betri lokadag og lokakvöld hér, í þessum félagsskap og með svona góðan mat. Ég var bara eins og bráðið smér við þessi fallegu orð.Smile Daginn eftir fór hann svo af stað heim.

Vikuna þá var ýmislegt að gera því skólinn nálgaðist og ég þurfti að velja mér kúrsa fyrir sumarönnina og hafa samband við kennara ásamt ýmsu fleiru smálegu. Á miðvikudeginum kom svo annar góður vinur til baka úr annarfríinu og bauð ég honum í mat um kvöldið. Það var ósköp ljúft að fá hann til baka og nóg um að spjalla. Svo eru alltaf einhver partí og nóg að gera við að hitta fólk.

1. apríl var gönguferð út í Wieck og Eldena fyrir nýju skiptinemena og fór ég líka með ásamt fleirum af þeim „eldri.“ Það var mjög hressandi göngutúr í skítakulda og roki. Við fórum því nokkur saman og náðum í okkur yl á góðu kaffihúsi áður en aftur var haldið inn í bæ.

Mánudaginn 2. apríl byrjaði svo skólinn aftur og var ég bara ósköp fegin því. Mér líst ljómandi vel á þá kúrsa sem ég valdi og kennarana líka. Þessa önnina sýnist mér að verði mun meiri lestur en á þeirri fyrri en lesefnið er spennandi og bara tilhlökkunarefni að fást við það.

Svo komu páskarnir og fóru þeir að mestu bara í leti og át. Þó tók ég góða hjólatúra inn á milli því veðrið var ágætt að mestu, aðeins rigning á laugardagskvöldinu. Á Skírdag bauð hann Ken, vinur minn frá Eistlandi mér og annarri vinkonu til sín til að gera páskegg. Við veltum eggjum upp úr vatni og svo hrísgrjónum, pökkuðum þeim svo inn í laukhýði og tuskur og svo voru þau soðin. Upp úr pottinum komu svo ljómandi sæt brúnleit egg með hvítar freknurJoyful 

Páskadagurinn var aldeilis ljómandi góður og byrjaði ég hann á því að fara í messu í Dómkirkjunni ásamt Ken vini mínum. Þaðan fórum við svo beinustu leið í páskamorgunverð sem LEI skipulegði og fór fram niðri í bæ. Þar komu allir með eitthvað smálegt, aðallega álegg og meðlæti en brauð, te og kaffi var á staðnum. Þetta var ljómandi skemmtileg stund með áti og spjalli. Síðan var dólað heim og síðdeginu varði ég aðallega í tölvuhangs og lestur.

Um kvöldið var ég svo búin að bjóða eistnesku vinunum mínum, Ken og Kati í mat. Mér til allnokkurrar furðu hafði ég fundið lambakjöt úti í REWE, sem er búðin hér úti á horni. Það hef ég ekki séð áður og hugsa að þetta hafi nú bara verið út af páskunum en það eru víst einhverir þjóðverjar sem vilja borða lamb á þeirri hátíð. Ég bakaði grænmeti í ofni og gerði góða sósu, steikti hryggvöðvana á pönnu og bragðaðist þetta allt hið besta, þó ég segi sjálf fráWink Kjötið var bara mjög gott og kom skemmtilega á óvart!

Eftir matinn töltum við svo yfir til Kens og þá bættust í hópinn Philipp og Maria, þýskir vinir okkar. Þau eistnesku buðu þar upp á alveg dásamlegan eftirrétt, eitthvað sem helst líktist skyrköku og heitir Pasha. Þetta er gert úr quark, sem er mjólkurafurð sem minnir helst á sambland af skyri og rjómaosti, ekki eins þykkt þó. Þetta er síað þar til það verður nokkuð þykkt, svo er hrært saman við það sykri, eggjum, þeyttum rjóma, rúsínum og hnetum. Þetta var alveg dásamlega gott og borðaði ég mér nánast til óbótaSick Svo spiluðum við skemmtilegt landnemaspil fram til miðnættis. Þessi páskadagur var því eins góður og hugsast gat.

Sitt hvoru megin við páskana komu svo sambýlingarnir til baka eftir 5 og 6 vikna frí heima í Rússlandi og Tékklandi. Það var ósköp notalegt að fá þessar elskur aftur til baka og margt um að spjalla eftir þeirra löngu fjarveru.

Síðustu vikur hafa svo að mestu leyti bara snúist um skólann og lærdóm. Laugardagskvöldið 14. apríl fór ég þó í leikhús að sjá danska leikritið „Veisluna.“ Það er býsna magnað stykki sem mig er lengi búið að langa til að sjá, en ég kom mér aldrei að því að sjá það heima, hvorki á sviði né í bíó.

Sunnudagskvöldið fyrir rúmri viku síðan bauð ég norskri vinkonu ásamt sambýlingunum að borða með mér lax. Ég er nú alltaf svolítið stressuð að kaupa fisk hér og hrædd við að hann sé ekki nógu góður en það voru óþarfa áhyggjur í þetta skiptið.

Á miðvikudagskvöld var svo alþjóðlegur kvöldverður þar sem allir komu með eitthvað matarkyns frá sínu landi. Ég hafði alveg steingleymt þessu og hafði því lítinn tíma til að láta mér detta eitthvað sniðugt í hug. Skellti ég því bara í rækjusalat, keypti Ritz-kes og lét það duga. Hvarf það fljótt og kýs ég að líta á það sem hrósWhistling Sat fólk lengi kvölds úti í garðinum á bak við húsið þar sem þetta var haldið. Veðrið var gott og flestir í spjallstuði enda skortir aldrei umræðuefni í þessari alþjóðasúpuSmile

Lengst af spjallaði ég við hina Norðurlandabúana, fimm finnskar stelpur og eina danska. Líkir fiskar spyrðast best stendur einhvers staðar og mér finnst einfaldlega alltaf eitthvað meira heimilislegt við félagskap frændþjóðanna en annarra, að þeim öllum ólöstuðum! Nýliðin helgi var svo bara eintómur lestur og rólegheit.

Í gærkvöldi fórum við Ken í Óperuna og sáum Flagara í framsókn. Það var svona miðlungi skemmtilegt, dálítið köflótt sýning. Held ég að mér hafi fundist sýningin heima á Íslandi sem ég sá fyrir nokkrum árum mun betri.

Á eftir löbbuðum við svo niður á höfn til að hitta nokkra vini sem þar voru, ásamt mörgum heimamönnum, að halda upp á Valborgarmessu eða Valborgarnótt sem er þó nokkur hátíð hér. Þar var setið og spjallað dágóða stund en ég fór þó frekar snemma heim. Þar sátu svo sambýlingarnir með glas í hönd og auðvitað settist ég með þeim og skemmtum við okkur vel við spjall og vitleysu fram til hálf tvöLoL 

Og nú er fyrsti maí runninn upp en honum verður lílega að mestu varið í lestur. Framundan er svo bara lærdómur og meiri lærdómur og betra að reyna að slugsa nú ekki of mikið!
Læt ég nú lokið löngum pistli og vona að hann sæki vel að ykkur, kæru vinir, og að hækkandi sólin gleðji og kætiSmile


Leipzig

Að morgni 22. maí var ég venju fremur löt og var ekki komin út fyrr en upp úr hálf tíu. Ég rölti niður í bæ, en þó ekki stystu leið eins og daginn áður heldur fór ég aftur að brautastöðinni og gekk niður Nicolaistrasse sem er ein aðalverslunargatan í miðbænum. Á leið minni þarna tók ég eftir að þessi ljótu hús sem stungið höfðu í augað daginn áður voru í raun bara umlukin stillönsum. Sum eru nýbyggingar enn önnur er verið að gera upp.

Tók ég svo einhverja smá króka og hliðargötur og þræddi mig þannig niður á Ráðhústorg. Ákvað ég þegar þangað var komið að kíkja á Tómasarkirkjuna frægu, þar sem meistari Bach var kantór í 27 ár, frá 1723 – 50. Þetta er fremur látlaus bygging en þó falleg og gaman að koma þar inn. Settist ég niður í dálitla stund og reyndi að ímynda mér hvernig umhorfs hefði verið á hans dögum og hvernig lífið hefði verið. Ekki fékk ég nú neina hugljómun um það en það er sannarlega merkilegt að koma inn í þessa kirkju sem var hans vinnustaður í svona mörg ár.

Bach stjórnaði einnig Thomaner drengjakórnum sem er einn hinn frægasti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað en kórinn sá fagnar einmitt 800 ára afmæli sínu á þessu ári. Svo fór ég yfir götuna og á Bach-safnið sem er í húsi þar sem Bose fjölskyldan bjó en gott vinfengi var á milli þessara tveggja fjölskyldna. Það var virkilega gaman að skoða safnið og mikið varð mér nú hugsað til hennar mömmu minnar! Alveg er ég viss um að hún hefði gaman af að koma bæði á safnið og í kirkjunaSmile

Um tólfleytið fór ég inn á ítalskan veitingastað á móti kirkjunni og fékk mér pasta með norskum laxi, alveg ægilega gott! Þaðan fór ég svo að upplýsingamiðstöðinni þar sem ég átti bókað í skoðunarferð um bæinn. Það var boðið upp á ensku líka en ég var eini útlendingurinn í u.þ.b. 15 manna hóp og sagði við leiðsögumanninn, sem var mjög skemmtileg kona á svipuðum aldri og ég, að mig langaði til að reyna að hlusta á þýskuna og ég skyldi bara spyrja hana ef ég skildi ekki eitthvað. Það er skemmst frá því að segja að til þess kom bara ekki og var ég mjög ánægð með sjálfa mig að skilja hana svona velHappy Auðvitað skildi ég nú ekki alveg hvert einasta orð en það vantaði ekki mikið upp á. Konan var vissulega mjög skýrmælt og talaði ekki hratt þannig að þetta var allt hið besta mál og naut ég ferðarinnar mun betur en ella hefði verið.

En til að lýsa túrnum aðeins þá var fyrst farið í um klukkustundar langan göngutúr þvers og kruss um miðbæinn og svo var stigið upp í rútu sem fór um einnar og hálfrar stundar hring. í göngutúrnum var aðeins kíkt inn í Nikulásarkirkjuna fögru. Það var einmitt í henni sem fólk byrjaði, í byrjun september 1989, að hittast á mánudagsmorgnum að aflokinni vikulegri friðarbæn, til að mótmæla, í mestu friðsemd þeim stjórnarháttum sem það bjó við og fara fram á breytingar. Eftir bænastundina í kirkjunni færði fólkið sig svo yfir á Ágústusartorgið. Þessi mótmæli (Monday demonstrations) breiddust svo smám saman út og restina af þeirri sögu þekkjum við í grófum dráttum en hún endaði með sameiningu þýsku ríkjanna 3. október 1990.

Þessi ferð var öll hin ánægjulegasta, konan fróð og skemmtileg og veðrið hið besta. Þegar maður hefur ekki mikinn tíma á einhverjum stað þá held ég að sé einmitt sniðugt að fara í svona ferð. Maður fær ákveðna yfisýn og góðar upplýsingar og fróðleik með. Ferðinni lauk klukkan fjögur á Ágústusartorginu, sem mér skilst að sé eitt af stærstu torgum Þýskalands. Það liggur á milli óperuhússins, Gewandhaus hljómleikahallarinnar og háskólans.

Að ferðinni lokinni var ég orðin fremur kaffiþyrst. Fór ég því beinustu leið á Riquet, sem er kaffihús sem ég var búin að sjá og lesa um og leist vel á. Þar fékk ég mér kaffi og dásamlega góða hnetutertu. Að því innbyrtu fór ég á rölt um bæinn og varði síðdeginu í rólegheitum við að njóta þess sem fyrir augu bar í þessari afskaplega líflegu og skemmtilegu borg. Þvældist ég um og skoðaði öll litlu sundin og hliðargöturnar þar sem úir og grúir af alls konar verslunum.

Meðal annars kíkti ég inn í Mädler Passage, sem er ein af mörgum yfirbyggðum götum í miðbænum, en þar ofan í kjallara nokkrum er veitingastaður sem heitir Auerbachs Keller. Þann stað gerði skáldið Goethe ódauðlegan með því að nefna hann í leikriti sínu um Faust. Fyrir utan dyr staðarins eru svo tvær styttur, hvor sínu megin við götuna, og sýna þær einmitt það atriði sem á að gerast þar. Önnur styttan er af Faust og hin af Mefistófelesi.

Þegar nálgaðist kvöldmatartíma fór ég að velta fyrir mér hvað og hvar ég ætti að fá mér að borða. Varð mér gengið inn í Barthels court, sem er lítið sund og hafði ég gengið það líka daginn áður. Þar hafði ég séð veitingahús sem einnig var minnst á í bókinni minni litlu. Heitir það Zum Arabischen Kaffee Baum eða við arabíska kaffitréð. Þetta mun vera eitt af frægustu veitinga- og kaffihúsum borgarinnar og er til húsa í mjög fallegri Barrok byggingu.Kaffihús er á efri hæðum en veitingahús á jarðhæðinni þar sem boðið er upp á dæmigerða Saxneska rétti. Ég man nú ekki hvað rétturinn sem ég fékk mér hét en þetta var kjötþrenna: lamb, svín og naut borið fram á stórum haug af steiktum kartöflum, sveppum og lauk. Ægilega gottSmile

Þegar ég kom þaðan út tók ég dálítinn kveðjugöngutúr um miðbæinn áður en ég hélt upp á gistiheimilið. Þegar þangað var komið var kominn einn herbergisfélagi, geðugasta stúlka frá Finnlandi. Spjölluðum við saman í svolitla stund en fórum svo frekar snemma í háttinn.

Morguninn eftir pakkaði ég saman og tékkaði mig út. Fékk þó að geyma töskuna mína á meðan ég fór í dýragarðinn, en þangað var ég komin rétt upp úr klukkan níu. Þar varði ég síðustu þremur tímunum í borginni og var það sannarlega ekki leiðinlegt!

Auk venjulegs dýragarðs er þar að finna einhvers konar innanhússregnskóg, Gondwanaland að nafni. Þar eru endurskapaðar aðstæður eins og í hitabeltislandi og er þar að finna mikið af bæði plöntum og dýrum sem ekki myndu lifa við aðstæður svona norðarlega á hnettinum.

Ég fór meðal annars í siglingu um litla „á“ og sá alls konar dýr sem ég hef ekki séð áður. Til að mynda litla apa sem skjótast um í trákrónunum og fara hratt yfir! Þeir eru ansi skemmtilegir en fólk er beðið að passa upp á hluti sem það heldur á og að láta ekkert standa upp úr vösum því þeir eru þjófóttir og snöggir að grípa hluti sem vekja forvitni þeirra. Svo voru þarna alls kyns eðlur og skriðdýr, tapírar, kattardýr sem ég kann ekki að nefna og margt fleira. Úti voru svo fílar, ljón, gíraffar og alls konar „hefðbundin“ dýragarðsdýr. Þrír klukkutímar eru allt of stuttur tími á svona stað og næst tek ég sko heilan dag í þetta!

Um tólfleytið fór ég svo aftur niður á gistiheimili en það er aðeins í um 10 mínútna göngufjarlægð. Náði ég þar í töskuna mína og tölti að brautarstöðinni þaðan sem ég tók lest tíu mínútur fyrir eitt. Sú bar mig til Berlínar en þar skipti ég um og tók aðra norður til Greifswald og var ég komin heim um fimmleytið. Þó ferðalagið hafi verið skemmtilegt var vissulega ósköp ágætt að koma heim og slappa aðeins af.

Helgin fór svo mikið til í að kveðja einn góðan vin sem var að fara alfarinn til síns heima á mánudeginum. En um það skrifa ég síðar. Læt ég hér lokið ferðasögu þessariSmile


Hamborg - Leipzig

Að morgni 21. mars pakkaði ég saman föggum mínum og var ég komin út úr húsi upp úr kl níu. Tók lest niður í bæ en ákvað nú að taka því bara rólega þar sem ég átti pantað far með lest til Leipzig kl 10:51.

Datt mér í hug að kíkja inn aftur inn í Europa Passage verslunarmiðstöðina og skoða hana aðeins betur að gamni mínu. Þar opnuðu þá verslanir ekki fyrr en tíu en ég rölti um og virti fyrir mér húsið sem allt var blómum skreytt að innan og voða vorlegt um að litast. Fékk mér ís og borðaði í rólegheitum á meðan ég gekk um.

Húsið er á nokkrum hæðum og ég tók allt í einu eftir því að hér og þar í gólfflísarnar voru greypt nöfn hinna ýmsu evrópsku borga. Þegar ég var búin að sjá bæði Stokkhólm og Osló fór ég markvisst að leita að Reykjavík og fann hana uppi á efstu hæðSmile Auðvitað tók ég mynd af nafninu hennar þarna á gólfinu og fannst þetta voða sniðugt! Svona þarf nú lítið til að gleðja konu frá lítilli eyju úti í hafi sem hefur verið að heiman frá sér í nokkra mánuðiWink 

Svo fór ég upp á brautarstöð og þaðan fór lestin af stað á tilsettum tíma. Tók ferðin rúmlega þrjár stundir og stoppaði lestin bara einu sinni: Í Berlín. Ekki leist mér nú alveg á blikuna þegar ég kom út af flottu og fínu lestarstöðinni því við mér blasti svakaleg umferðargata og hundljót hús handan hennar. Ég gekk meðfram þessari götu spottakorn en gistiheimilið mitt var í hliðargötu aðeins tæpra tíu mínútna gang frá lestarstöðinni. Þar skutlaði ég dótinu mínu inn og gekk svo rakleiðis niður í miðbæ sem var aðeins steinsnar í burtu, um það bil tíu mínútna gangur niður á Ráðhústorg. Mun þægilegra en í Hamborg!

Ég byrjaði á því að heimsækja upplýsingamiðstöðina til að fá kort og bæklinga. Ákvað ég einnig að bóka mig í skoðunarferð um bæinn daginn eftir. Á korti í lítilli bók sem ég keypti var tillaga að göngutúr um miðbæinn og eftir að hafa fengið mér kaffi og köku í Berfættugötu (Barfussgasse) rölti ég af stað og lallaði þennan hring (nafn götunnar skilst mér að sé dregið af hinum berfættu Ágústínusarmunkum, en klaustur þeirra mun hafa verið þarna í nágrenninu).

Þetta var mjög gaman og tók það um tvo tíma með stoppum og glápi hér og þar. Veðrið var hið besta, 10 – 12°hiti, og allt annað en í Hamborg. Þarna fannst mér bara komið vor og naut ég blíðunnar út í æsar.

Að göngutúrnum afloknum ranglaði ég bara um miðbæinn frekar stefnulaust, skoðaði mig um og kíkti auðvitað í nokkra búðarglugga líka! Miðbærinn var voða skemmtilegur, mikið af kaffi- og veitingahúsum og fjöldi fólks á ferð. Afar líflegt andrúmsloft en þó afslappað.

Um kvödmatarleytið fór ég inn á Nordsee við Ráðhústorgið og fékk mér dýrindis fiskisúpu og hvítvínsglas. Kostaði það 20 centum minna en kaffið og kakan á fyrsta kaffihúsinu á bryggjunni í Hamborg!Svo rölti ég bara heim á leið í blíðunni með viðkomu augnaráðsins í nokkrum búðargluggum.

Á gistiheimilinu hafði ég pantað mér rúm í sex kvenna herbergi en var barasta alein í því þessa nótt. Ekki var það nú slæmt og gott að geta haft sína hentisemi. Herbergið var líka með ágætis útsýni í áttina að miðbænum og nú leit stóra gatan ekki alveg eins skelfilega út og fyrr um daginn. Og þó að dálítill umferðarniður væri þá sofnaði ég fljótt og vel eftir að hafa skrifað í dagbókina og lesið litla stund.


Næsta síða »

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband