Færsluflokkur: Bloggar
10.4.2012 | 10:13
Hamborg III
Þriðjudaginn 21. mars tók ég daginn snemma, eins og alla jafna í ferðinni. Var ég komin út úr húsi korter fyrir níu og tók lest beint niður í bæ eða öllu heldur niður á bryggju. Ég var hálft í hvoru að hugsa um að fara í siglingu um Elbu en rann svo á rassinn með það. Hvort tveggja var að það er dálítið dýrt en stærri hluti ástæðunnar var einfaldlega rok og kuldi. Ég hafði farið af stað í ferðalagið í nýju sumarúlpunni minni en hefði betur haldið mig aðeins lengur við gömlu þykku dúnúlpuna. Var mér búið að vera frekar kalt allan tímann og hraus hreinlega hugur við því að láta blása meira um mig en nauðsyn krafði
Arkaði ég því bara upp í bæ og beint að Ráðhúsinu. Þar fór ég inn til að forvitnast um skoðunarferðir um húsið en ég hafði séð það í bókinnni minni litlu að slíkt væri í boði. Ég var heppin því það var aðeins rúmur hálftími í næstu ferð. Dólaði ég því bara í rólegheitum um nágrennið og kom svo til baka á tilsettum tíma (11:00).
Ekki sé ég eftir þeim þremur evrum sem ég borgaði fyrir því húsið er eitt listaverk Ekki er nóg með að þar hangi málverk og standi fagrar höggmyndir heldur eru innréttingarnar hreint með ólíkindum. Húsið er líka heljarstórt og eru í því hvorki meira né minna en 647 herbergi sem mun vera 6 herbergjum fleira en í Buckingham Palace í London! Á veggjum er víða skrautlegt veggfóður, sums staðar úr plussi, annars staðar úr leðri. Loft og veggir málað af ótrúlegri list og fegursti útskurður í öllum hornum. Allt ber þarna vitni ríkidæmi borgarinnar sem byggðist að miklu leyti upp af umsvifum í kringum höfnina, en hún er önnur stærsta höfn Evrópu, á eftir höfninni í Rottedam, og ein af þeim 20 stærstu í heiminum. Það væri of langt mál að ætla sér að fara mikið út í smáatriði í sambandi við Ráðhúsið því það er einfaldlega svo stórt og mikið. Tók skoðunartúrinn um húsið u.þ.b. 45 mínútur og mæli ég svo sannarlega með honum við þá sem til borgarinnar koma.
Ég var svo komin út um korter í tólf og dólaði þá bara aðeins um miðbæinn þangað til ég fór að hitta góðan þýskan kunningja á kaffihúsi í Europa Passage verslunarmiðstöðinni. Við höfum ekki hist í nokkur ár og var mjög gaman að heyra hvað á daga hafði drifið og ekki síst að tala íslensku í dálitla stund.
Eftir heillangt og skemmtilegt spjall labbaði ég, að hans ráði, yfir í Speicherstadt og skoðaði Miniatur Wunderland. Það er sannkallað undraland þar sem endurskapaðir eru í smækkaðri mynd heilu lands-, bæja- og borgarhlutarnir, bæði þýskir og annarra landa. Þetta er stærsta lestarmódel í heimi og eru lestarteinarnir um 13 kílómetrar! Um þá ferðast 900 járnbrautarlestar með um 12 þúsund vagna nokkur hundruð kílómetra á dag.
Sýningin var opnuð árið 2002 og þekur 1.300 fermetra. 250 tölvustýrðir bílar af öllum gerðum keyra um og alls konar uppákomur eru sífellt í gangi. Í fyrra bættist svo við flugvöllur sem þekur um 150 fermetra. Þar má fylgjast með reglulegri flugumferð og segir í auglýsingu að þetta sé hugsanlega einn af heimsins nákvæmustu flughermum. Dagurinn í undralandinu varir í um 15 mínútur og þegar dimmir lýsa um 300 þúsund led perur upp þennan litla heim þar sem um 200 þúsund manneskjur u.þ.b. tveggja sentimetra háar búa.
Ég var þarna á ferð um miðjan dag á þriðjudegi og það var ótrúlegur fjöldi fólks á staðnum. Þetta er enda einn vinsælasti ferðamannastaður Hamborgar og heimsækir safnið um ein milljón manna árlega (sem gerir tæplega 3 þúsund á dag!). Ég var þarna í tæpa tvo tíma og kom út algjörlega orðlaus, svo magnað er þetta
Þegar ég kom út úr undralandinu fór ég beint niður á bryggjurnar aftur til að kaupa nokkra minjagripi sem ég hafði séð en ekki getað ákveðið mig nákvæmlega hvað skyldi kaupa. Ég hefði örugglega getað keypt þá annars staðar en mig langaði líka til að kíkja þangað einu sinni enn, svona í kveðjuskyni.
En nú var farið að rigna svo ég tók bara lest upp í bæ aftur og fór beinustu leið á eitt af huggulegu kaffihúsunum í Alster Arcades, sem eru á bakka Alster-árinnar. Þetta eru voða hugguleg bogagöng sem hýsa alls konar fallegar verslanir og skemmtileg kaffihús.
Eftir að hafa maulað í mig þessa fínu Sachertertu og drukkið kaffi með skrapp ég svo á snyrtinguna, sem ekki væri nú í frásögur færandi nema fyrir það að þar inni lenti ég á spjalli við eldhressa, 84 ára gamla konu. Hún uppveðraðist öll þegar hún heyrði að ég væri frá Íslandi og sagðist hafa komið þangað einu sinni, árið 1987. Svo sagðist hún vera búin að senda stóran hluta af börnum og barnabörnum þangað og allir kæmu jafn glaðir til baka
Þarna fann ég enn einu sinni hvað það er gott að vera Íslendingur í Þýskalandi! Það eru svo margir sem þekkja mann sem þekkir mann sem hefur komið þangað og ef fólk hefur ekki komið þangað sjálft þá segist það undantekningalítið að það hafi nú alltaf langað til að koma þangað
Þetta verður svo auðvitað til að brýna mig í þeirri trú að ég VERÐI að læra málið vel svo ég geti tekið á móti öllum þessum áhugasömu, hugsanlegu ferðamönnum
Þegar þarna var komið sögu var klukkan að verða fimm og orðið of seint að fara að hugsa um safnaheimsóknir. Ég hélt því bara áfram að róla um bæinn og skoða í búðir. Þar sem það rigndi enn var ég ekkert of spennt fyrir að vera mikið á gangi og tók ég því lestina upp á gistiheimili um sjöleytið. Tók ég kvöldinu rólega og fór að vanda snemma að sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2012 | 14:15
Hamborg II
Mánudaginn 19. mars fór ég þokkalega snemma á fætur og borðaði morgunmat á gistiheimilinu. Ég hafði ákveðið að kaupa morgunmat þar til að spara mér það vesen að þurfa að finna eitthvað annars staðar.
Svo tók ég lest beina leið niður á Landungsbrücken þar sem ég hafði ákveðið að fara í útsýnisferð um borgina, en bílarnir fara m.a. þaðan. Gekk ég um bryggjurnar í einhverja stund en ákvað svo að fara bara inn í rútuna upp úr hálf tíu til að ná góðu sæti. Það tókst og sat ég alveg fremst á efri hæð bílsins. Þetta var mjög skemmtilegur rúntur sem þræddi alls konar krókaleiðir í gegnum borgina og fram hjá öllu því markverðasta sem hún býr yfir.
Leiðsögumaðurinn var hinn skemmtilegasti og jós af sínum fróðleiksbrunni á prýðilega skiljanlegri þýsku, fyrir mín eyru. Ekki skildi ég nú hvert orð þó og er stundum dálítið pirruð orðin á því hvað mér finnst mér ganga hægt að ná að skilja talað mál Túrinn var um ein og hálf klukkustund, frá tíu til hálf tólf.
Að honum loknum fór ég og fékk mér svo fisk að borða á Nordsee. Ég held að ég hafi áður minnst á þá staði, þetta er keðja veitingastaða sem eru um allt Norður-Þýskaland og bjóða upp á ágætis fisk. Það er svolítill mötuneytisblær á þessum stöðum en ég kann ágætlega við þá samt og það er þokkalega fjölbreytt úrval af fiski í boði.
Svo stökk ég aftur upp í rútuna (miðinn gildir allan daginn) og fór fyrsta og skemmtilegasta hluta leiðarinnar aftur, í gegnum Speicherstadt, sem er gamla vöruskemmuhverfið á eyjunum í ánni. Það hefur verið mikið endurbyggt á síðustu árum og er m.a. verið að byggja nýtt og glæsilegt og feykilega framúrstefnulegt tónlistarhús með glerhjúpi, ofan á eldri múrsteinsbyggingu. Þarna eru líka ennþá alls konar vöruhús en þó mestmegnis íbúðir og alls kyns söfn. Mér skilst að algengt fermetraverð á íbúð, ef einhver hefur áhuga á að kaupa, sé um 5.000 evrur sem eru u.þ.b. 850 þúsund íslenskar!
Ég fór svo úr rútunni við aðaljárnbrautarstöðina og hélt af stað í minn eiginn útsýnistúr, fótgangandi. Ég hafði keypt litla bók daginn áður sem innihélt uppástungu að slíkum göngutúr með leiðbeiningum, ágætu korti og heilmiklum upplýsingum um merkisstaði á leiðinni. Byrjaði ég á því að ganga Mönckeberg Strasse að Ráðhúsinu sem er feykilega falleg bygging í endurreisnarstíl. Það var byggt á árabilinu 1886-97 í stað eldra húss sem sprengt var í loft upp til að reyna að forða því að miklir eldar sem eyðilögðu stórna hluta borgarinnar árið 1842, dreifðu sér.
Svo fór ég yfir ána Alster en Hamborg stendur á mótum þessara tveggja áa, Alster og Elbu og má segja að ármótin séu akkúrat í miðbænum (eða miðbærinn akkúrat á ármótunum!). Fór ég svo ýmsar krókaleiðir að Mikjálsksirkjunni (Michel). Ég fór inn í hana, sat þar dágóða stund og las mér til í bókinni á milli þess sem ég virti fyrir mér fegurð kirkjunnar.
Hélt ég svo áfram og tók dálítinn útúrdúr að safni um Jóhannes Brahms, en fór nú ekki inn í það þó heldur hélt áfram röltinu. Stytti reyndar aðeins hringinn með því að sleppa Reeperbahn því ég hafði jú gengið hann daginn áður. Fór því bara stystu leið niður á Landungsbrücken, en ég held að ég fái nú seint leið á því að koma þangað Þar er stanslaus umferð skipa og báta og mjög líflegt.
Leiðarlýsingin beindi mér svo aftur meðfram ánni og dálítinn krók inn í bæ og að Nikulásarkirkjunni. Turn hennar stendur hár og voldugur og var greinilega verið að gera eitthvað við hann því hann var allur innpakkaður í stillansa. Að öðru leyti er kirkjan bara rústir einar en hún var sprengd í Síðari Heimsstyrjöldinni, eins og reyndar ansi stór hluti af borginni. Ekki stendur til að byggja hana upp aftur heldur eiga rústirnar að vera minnisvarði um eyðileggingu stríðsins. Svo fór ég aftur niður að á og aðeins inn í Speicherstadt og gekk þar dálítið um áður en ég lét leiða mig aftur upp í bæ og að brautarstöðinni.
Ég var hátt í sex klukkutíma að fara þennan hring með dálitlum stoppum og hliðarsporum hér og þar. Eftir þetta rölti ég dálitla stund um Mönckeberg Strasse og kíkti aðeins meira í búðarglugga. Fór svo aftur niður að höfn en aðdráttarafl hennar er býsna sterkt! Fékk ég mér eitthvað létt í gogginn á litlum stað þar áður en ég fór upp á gistiheimili. Þar fór ég fljótlega í háttinn og las þó nokkra stund. Hugsa ég að ég hafi verið sofnuð upp úr hálf tíu enda nokkuð þreytt eftir langan göngudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2012 | 13:46
Hamborg I
Sunnudaginn 18. mars lagði ég upp í dálítið ferðalag og fór þann dag til Hamborgar. Lestin lagði af stað frá Greifswald kl 9:16 um morguninn og var komin á leiðarenda um tvöleytið. Þó ekki sé leiðin ýkja löng þá þurfti ég nú samt að skipta tvisvar um lest, fyrst í Stralsund og svo í Rostock. Allt gekk þetta ljómandi vel og mátulegur skiptitími var á báðum stöðum. Á brautarstöðinni í Hamborg vafraði ég hins vegar um í örugglega hátt í klukkutíma og ætlaði aldrei að finna út úr því hvernig ég fyndi lest upp á gistiheimilið Gekk á milli upplýsingabása og misskildi greinilega allar leiðbeiningar
...og hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að tala bara ensku! En allt kom þetta nú á endanum og ég komst upp í lestina.
Þegar á Altona brautarstöðina kom tók ekki mikið skárra við, ég gekk í nokkra hringi og fann bara Goethe Allee en ekki Goethe Strasse! Hafði loks rænu á að hringja bara í gistiheimilið og fá leiðbeiningar. Skutlaði ég dótinu mínu þangað inn og fór svo aftur niður í bæ (og þaðan í frá voru lestarnar auðvitað ekkert mál!).
Úr lesinni fór ég á Reeperbahn til að geta nú sagt að ég hefði gengið þá frægu götu. Svona sveitalubbi eins og ég fékk nú bara hálfgerðan kjánahroll af að ganga fram hjá öllum spilavítunum og klámbúllunum og spásseraði rösklega í gegn
Gekk ég svo áfram og niður á Löndunarbryggjurnar, Landungsbrücken, sem eru bryggjurnar við ána Elbu. Í dag eru þær aðallega notaðar fyrir ferjusiglingar á ánni. Ég kíkti aðeins niður í Alter Elbtunnel, sem eru göng sem grafin voru undir ána til að flytja vörur frá vöruhöfnunum yfir í verslunarhlutann. Þau leystu af hólmi endalausar ferjusiglingar þvers og kruss yfir ána. Þá var orðið töluvert vandamál að skjóta ferjunum á milli tíðra ferða stórra skipa upp og niður ána og slysahætta þó nokkur. Göngin, sem eru um 426m löng, opnuðu 7. september árið 1911 og þóttu á sínum tíma mikið tækniundur.
Þegar þarna var komið sögu var ég um það bil að ærast á kaffibindindinu og freistaðist inn á svakalega huggulegan veitingastað á bryggjunni. Þar sem klukkan var að verða sex spurði ég um leið og ég kom inn úr dyrunum hvort ennþá væri hægt að fá kaffi og köku. Þjónninn kvað já við því en sagðist bara eiga eftir tvær tegundir, og benti mér á þær. Mér leist voða vel á eplastrudel og bað um sneið og kaffi með. Þetta var mjög gott, bæði ís og rjómi með kökunni og kaffið alveg alvöru. En héðan í frá ætla ég ALLTAF að skoða matseðilinn áður en ég panta: herlegheitin kostuðu nærri 10 evrur (u.þ.b. 1.600íkr)!
Hálfa ástæðan fyrir því að ég fór þarna inn var sú að mér var skítkalt, það var hávaðarok og ekki nema 4 5 gráðu hiti. En inni var hlýtt og notalegt. Í hátölurum hljómaði tónlist sem ég á sjálf á diskum og það jók auðvitað á notalegheitatilfinninguna. Fyrst var Norah Jones og svo kom Michael Bublé og þegar hann söng Home varð ég bara hálfmeyr og átti bágt með að halda aftur af tárunum. Svona læðist heimþráin að manni þegar mann síst varir. Upp í hugann komu margs konar minningar tengdar þessari tónlist sem ég spilaði svo oft heima á Dalvík. Veit ég að synir mínir eiga líka sínar minningar um margt af því sem ég hlustaði á, þó þeim sé það oft þvert um geð þar sem tónlistarsmekkurinn hefur nú ekki alltaf fallið sérlega vel saman
Á veggnum fyrir ofan borðið mitt hékk svo mynd af skipi, svona gamaldags Kútter eða einhverju svoleiðis og hét það Die bunte Kuh sem gæti útlagst sem skjöldótta kýrin, eða bara Skjalda! Ekki minnkaði þetta nú heimilislegu áhrifin, en fyrir þá sem ekki vita er ég afskaplega hrifin af kúm og hef um árabil safnað alls kyns hlutum með myndum af þeim og þeim tengdum. Meira að segja saumað út heilan púða með mynd af kú En ég komst hratt og örugglega niður á jörðina þegar ég fékk reikninginn!
Eftir að ég var komin með yl í kroppin á ný hélt ég aftur af stað og lét berast með vindinum eftir bryggjunum og alveg inn í bæ. Þegar þangað var komið var orðið dimmt og dólaði ég mér því bara um Mönckeberg Strasse, sem er ein aðalverslunargatan í bænum. Endaði svo uppi á aðalbrautarstöðinni og tók lestina heim á gistiheimili um hálf átta. Þar fékk ég mér síðustu samlokuna af nestinu sem ég hafði tekið með mér í lestina, skrifaði minnispunkta og las dálitla stund áður en ég fór að sofa.
Þetta var átta kvenna herbergi með baði og klósetti inni, sem er mjög þægilegt. Sá ég að einhverjir myndu vera í öllum rúmunum en varð lítið vör við herbergisfélagana (hafði haft rænu á að taka með mér eyrnatappa!). Þær virðast flestar hafa komið heim eftir að ég sofnaði og voru alltaf í fastasvefni þegar ég fór á fætur. Gat ég því alltaf haft mína hentisemi með snyrtinguna sem var mjög þægilegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2012 | 23:45
Vorið á næsta leyti
Jæja, þá er ég nú loksins búin að koma þessari blessuðu ritgerð frá, það var löng og erfið fæðing! Nei, ég segi nú bara svona, það eina sem var erfitt var að halda sig að verki. Umfjöllunarefnið var hins vegar hið skemmtilegasta og ekkert undan því að kvarta. Að velja nokkur verk eftir skemmtilegan listamann, greina þau og fjalla um þau út frá eigin brjósti er hreint ekki slæmt Ég var örugglega búin að minnast á hann áður, indjánann með þýska nafnið, Fritz Scholder. En þegar skilafrestur er langur þá er pressan ekki mikil og einhvern veginn virka ég nú bara best undir henni, því er nú ver og miður. Leiðindaeiginleiki sem treglega gengur að breyta. En nóg um það!
Það er svo sem ekki búið að vera neitt mikið um að vera hér þennan mánuðinn. Margir í burtu eins og ég hef áður minnst á og þeir sem eru á staðnum uppteknir sem aldrei fyrr í verkefnum af ýmsu tagi. Mér hefur þó tekist að narra nokkra til mín í mat annað slagið og eru allir voða glaðir að einhver skuli hafa orku og frumkvæði til þess. Það er alltaf gaman að hittast aðeins og sjá framan í aðra og þarf ekki alltaf mikið til eða að taka langan tíma. En það fer nú væntanlega að rofa til hjá flestum hvað úr hverju og hinir burtflognu að koma til baka.
Svo reyni ég að vera dugleg að lesa á þýsku og prjóna dálítið þegar ég nenni engu öðru. Ég fór í bókabúð á dögunum og keypti tvær litlar bækur um Greifswald til að reyna að fræðast meira um bæinn minn. Kannski rekst ég þar á eitthvað skemmtilegt til að deila með ykkur
Ég hef líka þó nokkuð verið að þvælast um bæinn og kanna nýjar slóðir. Er nú líka loksins, loksins búin að fjárfesta í hjóli og það er mesti munur! Þá get ég komist lengra á styttri tíma sem er voða fínt. En ég fer nú líka áfram í göngutúra og þó gaman sé að skoða nýja staði þá hefur litla þorpið Wieck alltaf sitt aðdráttarafl og dregst ég oft þangað. Það er svo lifandi skelfing krúttlegt og er líka niður við sjó og alltaf hressandi að anda að sér sjávarloftinu.
Um síðustu helgi fékk ég mér enn einn göngutúrinn þangað en í stað þess að ganga svo beint sömu leið til baka þá ákvað ég að ganga meðfram ánni. Það var mjög gaman og gekk ég langleiðina inn í miðbæ en þó ekki alveg alla leið. Beygði inn á einn af mörgum stígum sem liggja í gegnum mýrarnar og skóginn á milli árinnar og bæjarins. Þræddi svo nokkrar götur sem ég hef ekki gengið áður. Þetta voru mest íbúðagötur og gaman að kíkja inn í garðana og sjá krókusa og vetrargosa og einhver fleiri blóm sem ég þekkti ekki, gægjast upp úr moldinni og blómstra eins og þau ættur lífið að leysaÁ trjám og runnum tútna svo brumknapparnir út og virðast vera að springa úr óþreyju!
Í vikunni á undan hafði ég hjólað fram hjá Praktiker, sem er svona Húsasmiðjan þeirra hérna, og þar gat að líta sumarblóm í löngum röðum og búið að stilla út öllu sem við kemur vorverkunum í garðinum. Maður finnur líka hvað það er farið að birta mikið, alveg orðið bjart fram að kvöldmat. Það koma þó ennþá kaldir dagar en ég held það hafi ekki frosið neitt að ráði í meira en tvær vikur.
Og þar sem ég er nú búin með ritgerðina þá er kominn dálítill fiðringur í mig að skreppa í einhverja smá túra hér innan lands. Á morgun legg ég af stað til Hamborgar og ætla að vera þar í þrjá daga og þaðan er svo meiningin að fara til Leipzig og vera þar fram á föstudag. Það verður væntanlega spennandi að koma á nýja staði, eins og alltaf og hlakka ég virkilega mikið til. Það ætti því að verða frá einhverju skemmtilegu að segja næst.
En nú læt ég staðar numið í bili og vona að allir heima séu við góða heilsu og láti ekki bensínverð og stjórnmálaþvaður skemma fyrir sér vorið sem framundan er! Það styttis í það, vitið þið til Kær kveðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2012 | 19:36
Febrúar
Nú er febrúar að renna sitt skeið og hefur gert það býsna hratt. Ég er dálítið óánægð með sjálfa mig, hvað ég er ódugleg orðin að skrifa hér og finnst ég vera að svíkjast um
Febrúar og mars eru svokölluð Vorlesungsfreie Zeit í skólanum. Það þýðir að það er engin kennsla á þessum tíma en hins vegar eru próf og ef fólk þarf að skrifa ritgerðir er þessi tími hugsaður til þess. Þannig að formlega séð er önninni í raun ekki lokið fyrr en í lok mars. Skilafrestir á verkefnum eru þá oftast á bilinu frá 15. 31. mars.
Ég þurfti ekki að taka nein próf en þarf að skrifa eina ritgerð og er skiladagur hennar 15. mars. Í byrjun mánaðar var ég með háar hugmyndir um að klára hana snemma en þau fögru markmið fóru fljótt fyrir lítið og byrjaði ég ekki af alvöru á henni fyrr en fyrir rúmri viku.
Það var mikið um að vera í kringum mig því eins og ég hef áður minnst á þá voru margir að fara heim. Það var því mikið um kveðjupartí og bara samverustundir almennt. Það er dálítið sérstök stemmning sem myndast í hóp sem er svona mikið saman í þetta stuttan tíma. Þetta fólk þjappar sér saman, verður dálítið eins og önnur fjölskylda manns og leitar hvert til annars þegar eitthvað bjátar á. Svo veit fólk ekkert hvort það kemur til með að sjást aftur yfir höfuð þó að ýmis fögur fyrirheit séu þar um. Þessar fyrstu tvær vikur í febrúar báru því með sér margar tilfinningaþrungnar stundir og fór einbeitingin kannski dálítið úr skorðum fyrir vikið.En maður kemur í manns stað og svo eru vissulega ekki allir farnir! Og ég þekki nú líka fleiri en bara þá sem ég hef átt allra mestu samskiptin við og í þeim hópi eru líka fínir krakkar sem ég kem örugglega til með að hitta meira.
Ég fór til dæmis á miðvikudagskvöldið var á krá með nokkrum krökkum sem ég hef ekki átt mjög mikil samskipti við hingað til en eru ekkert nema elskulegheitin. Það var mjög skemmtilegt kvöld og alltaf um nóg að spjalla þegar saman kemur fólk af margs konar þjóðerni og í mismunandi námi Ég hef því ekki miklar áhyggjur af að ég sökkvi niður í einhvern einmanaleika eða verði afskipt, síður en svo!
Febrúar er svo auðvitað alltaf uppáhaldsmánuður því þá á ég jú afmæli Á afmælisdaginn, á föstudaginn var, vaknaði ég fremur snemma og tók því bara rólega um morguninn. Þvoði smá þvott og tók til og var svo meira og minna við tölvuna að skoða afmæliskveðjur sem streymdu inn á fésbókina úr öllum áttum! Um hádegisbilið hringdu svo Lára mágkona og mamma í mig á skype og sungu fyrir mig afmælissönginn
Spjölluðum við saman dágóðastund og það var mjög notalegt!
Svo fór ég í búð og keypti inn fyrir bakstur. Bakaði skúffuköku og bolludagsbollur, sem mislukkuðust reyndar, hefuðu sig nánast ekkert og urðu bara litlar og harðar En þær voru góðar á bragðið með sultu og rjóma og glassúr!
Ég hafði boðið nokkrum krökkum í kaffi til mín en það komust ekki nema þrjár stelpur því hinir voru allir uppteknir í prófum eða vinnu. En þeir komu svo hins vegar með mér á veitingastað um kvöldið og áttum við mjög skemmtilegt kvöld saman þar og sátum lengi. Ég kveikti ekki á perunni fyrr en eftir um það bil klukkutíma setu að þetta voru allt saman læknanemar! Koma þau úr ýmsum áttum: tvær stelpur frá Noregi, ein frá Eistlandi, ein frá Þýskalandi og tveir strákar, annar pólskur og hinn tékkneskur. Þetta var dálítið skondið og bauð upp á ýmislegt grín Ég hafði á orði að mér fyndist ég mjög örugg í þessum hópi ef eitthvað kæmi nú upp á
Í fyrradag, laugardag, fór ég svo með þessum tveimur ágætu piltum og einni pólskri stelpu í viðbót í dálítinn skreppitúr til tveggja borga sem ég hef ekki séð áður. Þetta voru Schwerin, sem er höfuðborg Mecklenburg- Vorpommernríkis, og Wismar sem er mjög gömul borg með afar fallegan gamlan miðbæ sem er á Heimsminjaskrá UNESCO (eins og Stralsund, sem er hér rétt fyrir norðan mig!). Það var tæpra tveggja tíma keyrsla til Schwerin og svo um tuttugu mínútur þaðan til Wismar þannig að það hentaði ágætlega að taka þessar tvær svona saman.
Þetta var mjög skemmtileg ferð og gaman að skoða þessar gömlu og merku borgir. Wismar var til dæmis blómleg Hansa-borg á 13. og 14. öld og státar af einu stærsta markaðstorgi í Þýskalandi. Schwerin er líka falleg borg og á sína merku sögu sem ég ætla nú ekkert að reyna að rekja hér. Þar er ægifagur kastali sem stendur á dálítilli eyju í vatni sem heitir Schwereiner See (Schwerinvatn). Þennan kastala skoðuðum við svo og garðinn í kringum hann, sem er mjög fallegur. Fyrstu sagnir um virki á þesum stað eru frá árinu 973. Í gegnum aldirnar er kastalinn svo búinn að taka ýmsum breytingum og hefur verið endurbyggður margsinnis. Elstu hlutar núverandi kastala munu vera frá 16. öld. Núna hýsir hann ríkisþing Mecklenburg-Vorpommern og einnig hefur hluti hans verið gerður að safni sem er mjög fallegt og gaman að skoða.Heim vorum við svo komin um sexleytið og átti ég svo bara rólegt kvöld heima við sem var kærkomið eftir tvo viðburðaríka daga.
Í gær var ég svo að reyna að koma mér aftur í gírinn við ritgerðarskrifin en gekk hálf hægt. Lét svo freistast þegar ferðafélagarnir frá laugardeginum buðu mér með sér í göngutúr. Fórum við út í Wieck, það fallega litla þorp sem ég fæ aldrei leið á að labba um. Veðrið var dásamlega fallegt og gengum við bara um og nutum útiverunnar og þess sem fyrir augu bar. Fengum okkur svo kaffi í Alter Schule sem er voða krúttlegt kaffihús í gömlu skólahúsi.
Nú er svo bara að bretta ermarnar enn lengra upp, spýta í lófana og reyna að drífa ritgerðina af svo ég nái að eiga dálítið frí. Kær kveðja þangað til næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2012 | 11:16
Salzburg III
Að morgni 29. Desember var ég ekkert upprifnari en daginn áður og leyfði ég mér að sofa þokkalega lengi. Var því ekki komin út úr húsi fyrr en upp úr tíu eins og daginn áður.
Gekk ég sem leið lá eins og fyrsta daginn beint niður að ánni, yfir Makartsteg-brúna og niður í miðbæ. Ef horft er af brúnni má næst henni á norðurbakka árinnar sjá fallega byggingu, fölbleika að lit. Þetta er Sacher hótelið sem Sachertertan fræga dregur nafn sitt af (það er að vísu annað Sacher hótel í Vín og ég er reyndar ekki viss um á hvorum staðnum kakan sú varð upphaflega til).
Á handriði brúarinnar er einhvers konar hænsnanet og í það eru festir a.m.k. nokkur hundruð hengilásar. Þegar grannt er skoðað er á lásana skrifað eða í þá grafin nöfn, og gjarnan hjörtu með, og dagsetningar. Það virðist sem sagt vera vinsælt meðal elskenda að hengja þarna lása sem einhvers konar tákn um tryggðabönd. Af hverju veit ég ekki en þetta er skemmtileg sjón
Gekk ég nú enn einu sinni um bæinn og kíkti aðeins í búðir. Var ég eitthvað búin að skoða áður og nú hafði ég gert upp hug minn um örfá hluti sem mig langaði til að kaupa. Tók ég líka mikið af myndum.
Þennan dag var ég líka búin að ákveða að fara upp á Mönchberg-hæðina og skoða Hohensalzburg virkið sem er eitt helsta og stærsta kennileiti borgarinnar. Áður en upp á hæðina var haldið kom ég þó við hjá kirkju heilags Péturs og skoðaði kirkjugarðinn þar, sem er afar fallegur. Ekki fór ég þó inn í kirkjuna sjálfa. Í þessum kirkjugarði, sem er sá elsti í Salzburg, eru grafnir margir frægir menn, eins og til dæmis tónskáldið Michael Haydn. Áður en ég lagði svo í hann upp á hæðina fór ég aðeins í Katacomburnar sem eru einhvers konar bænhús grafin út úr berginu. Ekki er vitað nákvæmlega hvað þær eru gamlar en þær eru taldar vera frá frumkristni (ég fann eitthvað um að þær hefðu alla vega verið þarna um árið 477).
Svo lagði ég á brattann upp hæðina. Þarna er líka er togbraut sem hægt er að fara upp með en ég sparaði mér þær þrjár Evrur sem munaði á aðgangseyrinum að virkinu og fór bara upp Festungsgasse á mínum tveimur jafnfljótu sem höfðu ekkert nema gott af æfingunni Og þegar upp er komið er margs að njóta. Í virkinu fær maður hljóðleiðsögn sem leiðir mann um helstu hluta þess og er það mjög gaman. Mig minnir að það tæki rúma klukkustund. Þar eru meðal annars til sýnis líkön af virkishæðinni og virkinu sjálfu á hinum ýmsu tímaskeiðum í byggingarsögu þess. Allt frá því að þarna er byggt lítið, einfalt virki árið 1077 sem smá bætist við næstu aldirnar þangað til að það er komið í þá mynd sem það er í í dag en það var einhvern tíma á 17. eða 18. öld.
Í viðbót við alla þá skemmtilegu hluti sem innan veggja er að sjá er svo auðvitað útsýnið sem er alveg frábært! Ég gekk um og horfði í allar áttir og naut þessi dágóða stund. Á Kuhenburg Bastion, sem virkar eins og risastórar svalir og veita einna fallegasta útsýnið, eða yfir sjálfa miðborgina, varð ég vitni að bónorði! Ég sá allt í einu útundan mér að maður kraup á kné frammi fyrir konu og af svip hennar að dæma fór ekkert á milli mála hvað var að gerast Stóðu þau svo lengi lengi í þéttu faðmlagi. Það er vel skiljanlegt að fólk kjósi þennan stað fyrir slíka stund því þetta er bara alveg magnað! Eins og að standa mitt í ævintýri í þessu ofurfagra umhverfi hefur óneitanlega sterk áhrif á mann og ekki varð stemmningin verri við þetta
Þarna uppi í virkinu eru líka veitingastaðir og minjagripasala og enn nokkrir kofar þar sem selt var Glühwein og smá snarl í jólamarkaðsstíl. Ekki keypti ég nú neitt og það var orðið það áliðið að flestir höfðu lokað þegar ég var búin að horfa nægju mína, eða ætti ég frekar að segja þegar ég gat ekki horft mikið lengur þar sem það var orðið dimmt. Ég náði þó í skottið á einum náunga og gat keypt mér síðasta Glühweinbollann í þessu jólafríi! Sötraði ég hann í rólegheitum og virti fyrir mér jólaljósadýrðina sem við tók þegar dagsbirtunni sleppti.Rölti ég svo til baka og fór einhverjar krókaleiðir í gegnum ljósum prýddan jólabæinn áður en ég hélt heim á leið.
Þetta var síðasti dagurinn minn í Salzburg og það var dálítið erfitt að sleppa hendi, eða öllu frekar augum af þessari fallegu borg. Það var ýmislegt sem ég gerði ekki eins og til dæmis að skoða Mozartsafnið og allt sem tónskáldinu góða viðkemur. Ekki fór ég heldur á nein önnur söfn niðri í bænum og verður það allt að bíða næstu heimsóknar, en það er spurning hvenær hún verður farin!
Þetta voru alveg óendanlega skemmtilegir dagar sem ég hafði átt þarna sem og undangengin vika á flakkinu mínu öllu. Um kvöldið komu svo vinkonan og fjölskylda til baka og sátum við og spjölluðum fram eftir kvöldi á jólaskreyttu og notalegu heimili. Morguninn eftir fór ég á fætur um hálf átta og þegar ég kom fram í eldhús var gestgjafinn búinn að búa til dásamlegan morgunverð handa mér. Að honum loknum kvaddi ég með söknuði og rölti niður á brautarstöð þaðan sem lestin mín fór af stað klukkan 9:02.
Ég þurfti aðeins að skipta um lest tvisvar á allri þessari löngu heimleið og fékk sem betur fer góðan tíma til þess: 45 mínútur í München og rétt um klukkutíma í Berlín. Til Greifswald var ég svo komin um tuttugu mínútur fyrir níu um kvöldið og var bara hreint ekki sem verst að koma heim. Ég hafði kviðið pínulítið fyrir því að fyllast einhverri tómleikatilfinningu en það var bara ágætt að slaka aðeins á. Ég hafði jú gengið óhemju mikið undanfarna daga og var vissulega dálítið þreytt. Og þó að maður sitji nú bara á rassinum í lestunum þá eru slík ferðalög líka þreytandi, ég tala nú ekki um þegar maður er hálfan sólarhringinn á ferðinni!
Ég sofnaði því vel og snemma um köldið, himinsæl með ótrúlegt jólaævintýri sem örugglega á eftir að geymast í minni svo lengi sem ég lifi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2012 | 10:48
Salzburg II
Næsta morgun fór ég mér að engu óðslega og fór ekki út fyrr en um tíuleytið. Gekk ég fyrst niður í átt að ánni en hélt mig þó norðan hennar, sömu megin og brautarstöðin er. Gekk framhjá hinni fögru Mirabell-höll sem ég sá þá að ég hafði líka gengið framhjá á heimleiðinni kvöldið áður. En þá tók ég ekki eftir garðinum sem er fyrir framan hana. Hann er mjög fallegur með blómabeðum og fallega tilklipptum runnum sem auðvitað nutu sín nú ekki mikið þarna í lok desember.
Ég kíkti líka inn í tvær kirkjur, Andrésarkirkjuna og Þrenningarkirkjuna. Báðar voða fallegar, Þrenningarkirkjan þó sýnu íburðarmeiri og ekki hægt að ganga inn um hana alla heldur bara horfa úr anddyrinu. Áfram hélt ég svo niður að Linzer Gasse, sem er verslunargata, og dólaði ég þar um einhverja stund.
Svo fór ég upp á Kapusínahæðina (Kapuzinerberg) en þar er munkaklaustur og á móti því er hús þar sem rithöfundurinn Stefan Zweig bjó um hríð. Við húsið er dálítið minnismerki um hann. Gekk ég um hæðina dágóða stund og naut útsýnisins yfir borgina á vetrarsólinni. Ekki amalegt það
Þegar ég kom aftur niður af hæðinni fann ég mér lítið veitingahús í hálfgerðu bakhúsi við Linzer Gasse og fékk mér þar eitthvað sem hét Knödelgeheimnis (Knödel-leyndarmál). Ofan á vænum haug af súrkáli, sem var reyndar bara þokkalega gott, voru Knödelbollur með mismunandi kjötfyllingum. Ég held að ég hafi örugglega einhvern tíma minnst á Knödel áður en það eru einhvers konar soðnar brauðbollur sem hægt er að fá með alls konar mismunandi fyllingum, sætum, kjöt- og alla vega. Einnig eru slíkar bollur án fyllingar oft hafðar sem meðlæti með mat. Með þessu drakk ég svo einhvern bjór úr nágrenninu, ljósan reyndar, en hann var samt alveg þokkalegur! Þetta bragðaðist alveg hreint prýðilega og veitingastaðurinn var hinn notalegasti.
Eftir matinn hélt ég svo áfram ferð minni og tók nú stefnuna yfir ána og niður í miðbæinn. Þar gekk ég meira um og fór m.a. alveg upp að þverhníptum klettum Mönchberg-hæðarinnar sem gnæfir yfir bænum. Rétt undir þeim er kirkja heilags Blasíusar og fór ég þar inn. Eins og í þrenningarkirkjunni er bara hægt að kíkja úr anddyrinu. Hún er mjög dimm og sérkennileg og dálítið gotneskt andrúmsloft þar inni.
Svo fór ég fram hjá hestabaðinu (Pferdeschwemme) sem er býsna sérstakt fyrirbæri. Það lét erkibiskupinn byggja árið 1695 og af því má ráða hve mikils virði hestarnir hans voru honum. Í miðjunni er stytta af hesti sem verið er að temja og var hún eins og aðrar styttur bæjarins undir heilmiklum glerhjúpi. Svo hélt ég áfram eftir Hofstallgasse, sem nefnd er eftir hesthúsum hirðarinnar, fram hjá háskólabókasafninu og Mozarthúsinu sem byggt var árið 2006. Þar er líka Grosses Festspielhaus sem byggt var á árunum 1956 60. Risastór tónleikasalurinn þar er höggvinn inn í Mönchberg-klettahæðina og voru gömlu hesthúsin endurbyggð sem anddyri og forsalir tónleikahallarinnar.
Ég hlóð svo eldsneytisgeyma mína á kaffihúsi sem er í sama húsi og háskólabókasafnið, fékk mér kaffi og súkkulaðiköku með rjóma og kirsuberjafyllingu og hvíldi lúin bein. En þau áttu nú eftir að verða lúnari þennan daginn! Eftir endurnæringuna lá leiðin í Dómkirkjuna. Hún er alveg dásamlegt listaverk og dvaldist mér dálengi þar inni. Settist niður og glápti opinmynnt eins og sveitamaður (sem ég jú er!) og drakk í mig alla dýrðina. Bara myndirnar í loftinu eru alveg kafli út af fyrir sig.
Til að koma mér niður á jörðina aftur eftir himneska fegurð kirkjunnar kíkti ég aðeins í nokkrar búðir áður en ég hélt að Nútímalistasafninu. Þar voru í gangi sýningar á verkum ýmissa frægra listamanna, til að mynda Emil Nolde og Oskar Kokoschka. Einnig sýning á verkum eftir Evan Penny sem þekktastur er fyrir óhugnanlega eðlilegar mannamyndir, skúlptúra. Mjög sérstakt að skoða fólkið hans. Dvaldi ég á safninu í um tvo tíma og naut þess í botn. Út af safninu kom ég ekki fyrr en um áttaleytið um kvöldið og lá þá leiðin beint heim í vinkonuhúsið og var þar slappað vel af.
Meirihluti fjölskyldunnar hafði skroppið í burtu og var því rólegt í kotinu. Ég var ótrúlega þreytt og dösuð í skrokknum og tók góða stund í að teygja á vöðvum og liðka liðamót áður en haldið var í háttinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2012 | 10:36
Salzburg I
Þar sem lestin mín frá Budweis til Salzburgar átti ekki að fara fyrr en rúmlega tíu (að morgni 27. desember)gafst góður tími til að borða morgunmat í ró og næði. Fjölskyldan fór svo öll með mér á brautarstöðina. Það var erfitt að kveðja þetta góða fólk og held ég að við Marie höfum báðar átt dálítið bágt, alla vega táruðumst við báðar Svo seig lestin af stað og gekk ferðin tíðindalaust.
Til Salz var ég svo komin um tvöleytið. Ég hringdi strax í góðu íslensku vinkonuna sem ætlaði að vera svo elskuleg að leyfa mér að gista hjá sér. Hún býr örskammt frá brautarstöðinni og tölti ég því þangað. Fékk ég hinar hlýjustu móttökur og eftir kaffi og smá spjall löbbuðum við í bæinn þar sem hún ætlaði að hitta vinkonu sína. Það var um það bil 20 -25 mínútna gangur og héldum við spjallinu áfram því langt var síðan við höfðum hist og margt hafði á daga beggja drifið.
Ég naut þess svo bara að labba um í hinni fögru borg í gullfallegu veðri en það var glampandi sól og alls ekki svo kalt. Í Salzburg var dálítill snjór, sá fyrsti að einhverju ráði sem ég sá þennan vetur. Og ekki leiddist mér að vafra um þarna, frekar en í Prag. Allar jólaskreytingar auðvitað ennþá uppi og allt með hátíðlegum blæ. Nema styttur bæjarins! Það var dálítið furðulegt að sjá fögur listaverk undir risastórum glerlokum og gosbrunninn fagra, Residenzbrunnen, barasta innpakkaðan í einhverja viðarhlíf Ég verð greinilega að koma aftur og þá að sumri til, til að sjá hann í allri sinni dýrð.
Það var afskaplega gaman að ganga bara um og horfa í kringum sig, njóta þess sem fyrir augu bar, bæði í byggingalist og mannlífi. Ég keypti mér litla leiðsögubók, settist með hana inn á kaffihús þar sem ég blaðaði í henni yfir kaffibolla og kökusneið. Svo hélt ég áfram göngunni alveg fram undir kvöldmat. Það var orðið of seint að fara skoða einhver söfn svo ég lét röltið duga. Auðvitað gluggaði ég líka eitthvað í búðir því ekki er nú skorturinn á þeim né heldur öllu því fallega sem þar er á boðstólnum.
Á endanum sagði þreytan til sín og ég tölti heimleiðis. Svo átti ég bara rólegt og indælt kvöld með vinkonunni og hennar fjölskyldu við súkkulaðidrykkju og spjall um heima og geima. Það var bæði notalegt og gaman að geta loks spjallað íslensku og ákveðin afslöppun í því fólgin. Það var því þreytt og sæl kona sem sofnaði eins og steinn á íslensku heimili í Salzburg það kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2012 | 22:37
Aftur í gang!
Tíminn flýgur og flýgur, ég gleymi mér smá stund og fyrr en varði voru liðnar þrjár vikur frá því að ég setti síðasta pistil hér inn! Þá ætlaði ég að fara að halda áfram en það var búið að vera hálfgert vesen á tölvunni minni svo ég fór með hana í viðgerð (miðvikudaginn 1. febrúar) og fékk hana ekki aftur fyrr en í gær! Ég ætlaði auðvitað að vera löngu búin að klára ferðasöguna úr jólafríinu en svona er þetta. Janúar er búinn að vera ógurlega fljótur að líða og alltaf drífur nóg á dagana hér.
Fyrstu vikuna eða svo var ég þó eitthvað hálf niðurdregin og ómöguleg. Ég held að það hafi aðallega verið spennufall eftir öll skemmtilegu ævintýrin um jólin, sem blandaðist svo saman við söknuðinn eftir fólkinu mínu, sem auðvitað var alltaf til staðar í hjartanu. Þeim tilfinningum held ég að ég hafi einfaldlega skotið á frest og hafði ég nú loksins tíma til að velta mér upp úr þeim. En allt gekk það nú yfir, enda ekki tími til að velta sér of lengi!
19. Janúar var þýskupróf og viku seinna var ég með kynningu í þriðja faginu mínu en það fjallar um frumbyggja Norður-Ameríku í nútímanum, hvernig þeir takast á við sína dapurlegu sögu og fortíð og hvernig þeir lifa í nútímanum og segja sína sögu. Ég valdi að fjalla um myndlistarmann, Fritz Scholder að nafni, sem var reyndar aðeins Indjáni að einum fjórða en var samt alltaf talinn Indjáni í listsköpun sinni. Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að kynna sér hans sögu og feril og held ég að kynningin hafi bara gengið þokkalega.
Svo þurfti að hnýta ýmsa lausa enda, safna saman pappírum varðandi nám og námsárangur og fara með þá í Prüfungsamtið sem sendir þá svo heim til Íslands. Það var líka mikið um alls konar hittinga og heimsóknir þar sem styttast fór í heimför þeirra sem ætluðu bara að vera eina önn.
Ég hélt dálítið íslenskt kvöld fyrir "krakkana mína" þriðjudaginn 31. janúar. Eldaði ég kjötsúpu og svo átti ég einhverja ögn af harðfiski sem féll mun betur í kramið en ég átti von á! Lambakjötið keypti ég í heilsubúðinni í miðbænum og borgaði formúgu fyrir! En það var mjög gott þó ég fyndi nú alveg að það var ekki íslenskt. Það var eins og í súpunni sem ég fékk hjá honum Geira í haust, lífrænt ræktað þýskt.
Og súpan vakti mikla lukku, eistneskur vinur minn réði sér varla fyrir kæti þegar hann heyrði að það væri lambakjöt í henni, sagði það uppáhalds kjötið sitt, mætti fyrstur á staðinn og fékk sér þrisvar á diskinn Það er sem sagt líka borðað lambakjöt í Eistlandi! Norsk vinkona, sem borðar ekki kjöt, fékk sér bara grænmetið og var svo hrifin að hún fékk sér líka þrisvar á diskinn. Fleiri luku lofsorði á herlegheitin og var ég auðvitað himinsæl með það
Svo hafði ég bakað gulrótarköku og gert ananasostaköku og hafði þessar tvær í eftirmat og féllu þær líka vel í kramið. Endaði svo kvöldið á að hita súkkulaði og skvetta smá Stroh úti í það. Það var alveg punkturinn yfir iið og voru syfjuleg sælubros á andlitum sem þurftu sem betur fer ekki að fara langt, allir búa í sama húsi og ég nema tvö sem búa í næstu götu.
Með súkkulaðinu og Shrohinu lét ég fylgja sögur af íslenskum útilegum á íslenskum sumrum sem ekki eru alltaf mjög heit, þannig að fólk norpar í lopapeysum og ullarteppum á kvöldin og drekkur svona drykki til að hlýja sér! Þótti þeim það frekar fyndið. Ég vona þó að ég hafi ekki gert þau afhuga því að koma til Íslands
Ég má ekki gleyma að segja frá því að snemma í mánuðinum fór ég ásamt vinahópnum á Café Koeppen, sem er svona nokkurs konar Rósenberg Greifswalds, kaffihús þar sem reglulega er boðið upp á tónleika af ýmsu tagi. Það var svolítið sniðugt að franska vinkonan mín hafði sent skilaboð á facebook rétt fyrir áramót um það hvort einhverjir hefðu áhuga á að fara með henni á tónleika þar og sendi með hlekk inn á youtube með lagbút með viðkomandi tónlistarmanni. Ég sá strax að þarna var Íslendingur á ferð en hún hafði ekki haft hugmynd um það!
Þett var sem sagt hann Hjalti úr hljómsveitinni Múgsefjun. Það var troðfullt hús og mjög gaman að hlust á hann, einan með gítarinn sem hann kunni greinlega þokkaleg vel á Auðvitað gat ég ekki stillt mig um að fara og trufla blessaðan manninn aðeins í hléinu og tók hann því ofur ljúflega. Ég átti svo eftir að hitt hann aftur í strætó einn daginn og á öðrum tónleikum á Koeppen helgina á eftir. Svona er nú heimurinn lítill!
Nú er ég að hugsa um að láta gott heita í bili og fara að skrifa upp Salzburgarpistla! Ég vona að þið fyrirgefið mér að ég skuli flakka svona aftur og fram í tíma og að það komi ekki að sök.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2012 | 15:03
Annar í jólum í Budweis
Eftir morgunmat þennan daginn var áfram setið og spjallað í rólegheitum og það var sannarlega enginn skortur á umræðuefnum hjá okkur. Endalaust verið að bera saman ýmsa hluti varðandi menningu Íslands og Tékklands, líf fólks fyrr og nú á báðum stöðum og einnig líf fólks í Tékklandi fyrir, undir og eftir kommúnistastjórnina. Sannarlega af nógu að taka og það er ansi margt og misjafnt sem kynslóð þeirra Marie og Jans hefur upplifað og gengið í gegnum.
Um hádegisbilið stakk Jan upp á því að við færum í göngutúr upp á lítið fjall sem heitir Kýrfjall og er í um hálftíma akstur frá Vcelna. Þessu var slegið föstu og eftir að hafa borðað kanínuna, sem bragðaðist afskaplega vel, elduð með rauðvíni og beikoni, var lagt af stað. Að sjálfsögðu var hundurinn Bert með í för og vissi hann greinilega hvað í vændum var því hann var alveg að springa úr spenningi á leiðinni
Og sá var nú í essinu sínu, hljóp um allt eins og brjálaður og naut þess skemmtilegasta í hundalífinu, að hlaupa frjáls um, til hins ýtrasta! Það var mjög gaman að ganga upp almennilegar brekkur og hreyfingin kærkomin eftir makindalíf undangenginna daga.
Á fjallstoppnum væri ekkert útsýni fyrir öllum trjánum, ef ekki væri þar turn, nokkurra tuga metra hátt stálgrindavirki. Við Magda og Jan klifruðum upp en Marie beið niðri með Bert því tröppurnar eru leiðinlegt víravirki sem hefði meitt loppurnar hans. En ósköp átti hann nú bágt að mega ekki fara með okkur!
Þarna uppi var hið ágætasta útsýni yfir þetta fallega land þó að veðrið væri kannski ekki alveg upp á það besta, fremur skýjað og þungbúið. En þarna sást þó vítt í allar áttir og auðvelt að ímynda sér hvernig það væri að vera þarna í björtu og fallegu veðri. Vorum við rúmlega einn og hálfan tíma á göngu og naut ég þess alveg í botn að reyna aðeins á skrokkinn.
Í bakaleiðinni fórum við aðeins niður í miðbæ Budweis til að ég fengi nú aðeins að sjá eitthvað af borginni. Þar hittum við líka bróður Mögdu og mágkonu aftur því þau ákváðu að fá sér smá göngu með okkur. Á Ráðhústorginu, sem er eitt hið stærsta í Tékklandi, og þó víðar væri leitað, voru enn nokkrir jólamarkaðskofar eftir en þó aðallega þeir sem seldu glühwein og eitthvað matarkyns. Þarna í miðbænum gengum við um í tæpa klukkustund og fengum okkur heita drykki og eplastrudel að maula á röltinu. Í þetta skiptið breytti ég til og fékk mér púns sem var ekki síðra en glühwein. Húsin í kringum torgið eru flestöll afskaplega snotur og mjög fallegur heildarsvipur á öllu í kringum torgið.
Þegar heim var komið borðuðum við afganginn af kanínunni og eftir matinn sýndi ég þeim restina af myndunum mínum. Svo var enn meira spjallað því nú nálgaðist kveðjustund þar sem ég ætlaði að leggja af stað til Salzburgar í Austurríki morguninn eftir.
Fannst mér þessir dagar hafa liðið allt of hratt og það var strax komin saknaðartilfinning í hjartað. Var mikið um það rætt að ég þyrfti að koma aftur og þá að sumri til svo ég gæti séð öll ávaxtatrén í garðinum, og auðvitað garðinn sjálfan, í blóma. Það gæti ég svo sannarlega hugsað mér og mallar ýmislegt í kollinum Teygðist úr spjallinu og var farið fremur seint í háttinn.
Þakklátar hugsanir svifu um kollinn síðustu kvöldstundina hjá þessu indæla fólki svo og gleði yfir þeirri ljúfu lífsreynslu sem þessir dagar höfðu verið. Morguninn eftir fylgdi svo öll fjölskyldan mér á lestarstöðina. Kveðjustundin var tilfinningaþrungin og fannst mér ég ekki geta þakkað nógsamlega fyrir mig.
Lestin mín lagði svo af stað klukkan rúmlega tíu en Salzburg og hennar töfrar verða svo efni næstu pistla.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar