Skoffínskógur kært kvaddur

Ég sit hér við skrifborðið mitt í litla norðurherberginu í íbúð 47 í Ernst-Thälman-Ring 10A í Greifswald, og klukkan er að nálgast eitt. Ég er nýkomin heim af Domburg, sem er einn af uppáhalds-pöbbum vinahópsins míns hér. Þangað var ég mætt klukkan átta í kvöld til að eiga stund með þeim hópi fólks sem ég hef átt hvað mest saman við að sælda í vetur.

Ég sendi út skilaboð til u.þ.b. 25 einstaklinga á fésbókinni í gær um að ég yrði þar til að kveðja liðið og að mér þætti vænt um ef einhverjir vildu koma og eiga með mér notalega kveðjustund yfir kokteilglasi. Þar sem skólinn er nýbúinn, margir að undirbúa heimferð og flestir á kafi í prófum eða ritgerðaskrifum átti ég aðeins von á broti af hópnum en viti menn, það bara mættu nánast allir! Það snart mig djúpt að allir þessir krakkar skyldu vilja koma og kveðja mig og þau voru ekkert að flýta sér neitt, það var lengi setið og mikið skrafað og hlegiðHappy Það er vissulega ekki bara ég sem er að fara; þegar ég leit yfir hópinn „minn“ þá sá ég að af þessum rúmleg tuttugu einstaklingum yrðu líklega aðeins þrír eftir í Greifswald að mánuði liðnum.

Mér er efst í huga ómælt þakklæti fyrir alla þá góðu reynslu sem ég hef safnað í sarpinn þessa mánuði hér og gleði yfir viðkynningunni við þessa yndislegu krakka sem, þrátt fyrir að vera flestir á aldur við syni mína, hafa tekið mér eins og hverjum öðrum „unglingi“ og aldrei látið mig finnast ég vera eitthvað öðruvísi.

Og þó, ég hef svo oft fengið að heyra það að þeim finnst þetta reyndar dálítið sniðugt og merkilegt, að kona á mínum aldri geti gert svona nokkuð, og hafa sumir sagt að þetta gefi þeim nýja sýn á það hvað og hvernig menntun er. Hún er ekki bara eitthvað sem maður gerir einu sinni, klárar, og svo ekki meir, fer að vinna og heldur sig á sömu brautinni það sem eftir er, heldur getur maður breytt til síðar og þarf ekki að verða fastur í sama farinu ef maður fær leið á því sem maður gerir eða áhugamál breytast.

Það er líka afskaplega gaman að sjá saman komið ungt fólk af 10 mismunandi þjóðernum og fá enn einu sinni staðfestingu á því að manneskjur eru í raun alls staðar eins, inn við beinið. Ég velti því fyrir mér á meðan við sátum þarna hvort manneskja sem gengi fram hjá og skyldi ekki þýsku hefði gert einhvern greinarmun á þessum hóp og hverjum öðrum sem fyrir utan þýska krá sæti á þriðjudagskvöldi í júlí. Ég hugsa ekki.

Það fer vissulega ekki hjá því að þegar fólk er fjarri sínu landi og ástvinum þá skapast öðru vísi bönd og fólk lærir að meta hvert annað á annan hátt. Maður þarf að stóla á sjálfan sig og læra að þekkja annað fólk og treysta því, og um leið lærir maður margt um sjálfan sig. Þó svo maður eigi aðeins skamma samleið þá binst maður böndum sem alltaf verða sérstök.

En það er líklega best að ég reyni að missa mig ekki alveg endanlega í tilfinningaseminni og pælingum um eðli mannsins. Það er bara svo auðvelt að verða viðkvæmur á kveðjustund, ekki síst kveðjustund sem þessari þegar maður veit ekki hvort maður á nokkurn tíma eftir að sjá meirihlutann af fólkinu framarCrying 

Ég held að ég fari því að hafa mig í háttinn, þessa síðustu nótt mína hér í bæ, í bili a.m.k. Klukkan 8 í fyrramálið kemur „Hausmeister“ og tekur út herbergið og tekur við lyklinum sem búinn er að vera minn í 10 mánuði. Að því búnu ætla ég að smyrja mér brauð til að hafa með mér í nesti á leið minni til Berlínar, en lestin þangað leggur af stað kl 09:57.

Í Berlín ætla ég svo að dúlla mér fram á fimmtudagskvöld en þá á ég flug heim á landið mitt fagra. Það verður yndislegt að sjá fósturjörðina, ættingjana og vini aftur og tilhlökkunin bærist í bland við tregann að skiljast við fólkið „mitt“ hér og þetta land, sem búið er að fóstra mig svo ljúflega þessa mánuði.
Kveð ég svo kæra bæinn minn með þökkum fyrir allt. Auf Wiedersehen, GreifswaldKissing


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband