8.7.2012 | 17:16
Frakklandsferð III
Á mánudeginum sváfu flestir vel fram eftir. Ég gat þó ekki sofið mjög lengi, ætli aldurinn sé ekki farinn að segja til sín Fór ég því á fætur og dúllaði við tiltekt í eldhúsinu og las agnarögn. Þennan morgun rigndi og var veðrið frekar grámyglulegt þó hlýtt væri. Þetta var þó ekkert úrhelli og var að mestu hætt um miðjan dag.
Þegar restin af fólkinu kom á fætur var svo farið að tína eitthvað í sig, eins og gengur. Það má segja að aðal þessarar dvalar hafi verð át, afslöppun og samvera. Einhverjir gestir tíndust svo í burt og vorum við, hin fimm fræknu ásamt Alix og systkinum eftir. Við áttum ennþá eftir að prófa tennisvöllin og nú var tækifærið notað til þess. Ekki verða hæfileikar mínir á því sviði í annála færðir, svo mikið er víst! Og þó ég væri hálffegin þegar Andrus leysti mig af á spaðanum þá var þetta mjög skemmtilegt. Philipp, Maria, Ken og Andrus spiluð örugglega vel á annan tíma en við Alix létum okkkur nægja að sitja hjá, dást að hinum og spjalla. Síðan spiluðum við kúluspil dágóða stund og lékum við litlu dúlluna hennar Marielle og líka sæta litla síamskettlinginn nágrannanna sem var alltaf annað slagið að sniglast þarna í kring.
Við ferðafélagarnir fórum svo seinni partinn niður í búð til að kaupa inn í nesti svo við gætum haft sama háttinn á og í fyrri ferðinni. Tókum við í leiðinni dálítinn rúnt um nágrennið fagra til að sjá aðeins meira í kringum okkur. Smurðum við svo nestið og stungum í ísskápinn. Svo var farið að huga að mat, en þetta kvöld var ákveðið að grilla pylsur og kjöt. Það var bara gert í arninum inni í borðsalnum og bjó Rémi til viðarkol eftir kúnstarinnar reglum. Það tók dágóða stund og á meðan bökuðu þau systkinin Crépes (franskar pönnukökur) sem átti svo að borða seinna um kvöldið. Eftir matinn var svo súkkulaðifylltum banönum skellt á grillið og þeir borðaðir með ís og rjóma, sem var ekki amalegt
Seinna um kvöldið tók svo Alix fram Crépes pönnu og hitaði kökurnar upp á matarborðinu. Voru þær ýmist borðaðar með smjöri, sykri og sítrónusafa (sem mér þótti best), bráðnu súkkulaði eða jarðarberjum og ís. Einhverjum datt svo í hug að prófa að flambera nokkrar og tókst það bara þokkalega. Ekki fór maður orkulaus í rúmið það kvöldið, frekar en hin!
Enn var setið og spjallað og nú var kominn tregatónn í samræðurnar þar sem þetta var síðasta kvöldið okkar á þessum dásamlega stað. Enginn veit hvenær, eða yfir höfuð hvort, við eigum eftir að hittast í framtíðinni þó fögur fyrirheit séu um slíkt.
Og á sama tíma og í fyrri ferðinni, klukkan 04:15 um nóttina yfirgáfum við svo þennan himneska stað. Með hjörtun þrútin af þakklæti og gleði og hugann fullan af ljúfum minningum sem ylja munu um ókomin ár. Bakaleiðin gekk jafn snurðulaust fyrir sig og hin. Þó löng væri leiddist mér ekki baun og hreinlega naut þess að líða í gegnum það fallega landslag sem fyrir augu bar. Og nú fékk ég eldskírnina í akstursmálunum því nú fékk ég það hlutverk að keyra hluta af leiðinni eftir að inn í Þýskaland var komið, á alvöru Autobahn. Ég veit ekki alveg hvort okkar var stressaðra, ég eða Philipp. Ég held að ég hafi tekið hann svolítið á tauginni á stundum og honum ekki fundist ég nógu viðbragðsfljót. En allt gekk þetta vel og til Leipzig vorum við komin upp úr tíu um kvöldið þannig að ferðin var um hálftíma styttri en hin.
Nánast var skriðið beint í bólið á sama náttstaðnum en nú var hægt að sofa aðeins lengur því lestin okkar fór ekki fyrr en um klukkan níu morguninn eftir. Lullaði hún svo norður eftir á sínum hraða og var sú ferð tíðindalítil. Heim til Greifswald komum við svo um hálf-fjögur í eftirmiðdaginn og þá var nú ekkert verið að slappa af því klukkan hálf sjö voru tónleikar hjá litlum kór sem Maria syngur í og fórum við öll hin til að hlusta. Það var mjög gaman, fjölbreytt og sumarleg efnisskrá og m.a.s. sungin lög sem ég hef sungið með mínum kór heima. Prýðilegur endapunktur á öllum skemmtilegheitunum! En það var ósköp gott að skríða upp í sitt ból það kvöld og hugsa til baka yfir þessa nýliðnu daga og öll þeirra ógleymanlegur ævintýri
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.