8.7.2012 | 16:50
Frakklandsferð II
Dögunum sem í hönd fóru var að mestu tekið rólega. Seint farið á fætur og réð afslöppun og samverugleði ríkjum. Auðvitað þurftum við að prófa sundlaugina sem fyrst og alla dagana fjóra lágum við eitthvað við hana. Þó hún væri fremur köld, aðeins um 21-23°C, var gott að busla aðeins í henni á milli þess sem sólin bakaði kroppinn Við hliðina á lauginni var tún þar sem kýr af Limousin-kyni voru á beit. Skemmdi sú sjón ekkert fyrir og jók enn á sveitarómantíkina sem yfir vötnum sveif.
Eitthvað þurfti að kaupa inn eins og gengur og var því rölt niður í St. Mathieu flesta dagana þeirra erinda. Og auðvitað líka til að skoða bæinn ögn. Niður í miðbæinn þar er bara nokkurra mínútna gangur frá húsinu. Svo voru gestir að bætast í hópinn og aðrir að fara. Tvær vinkonur Alix bættust í hópinn á föstudeginum og svo komu bæði systkini hennar, Marielle og Rémi, á laugardeginum og tæpra þriggja ára systurdóttir, lítill bláeygður krullukollur sem heillaði alla upp úr skónum.
Kanadísku vinkonurnar okkar frá Greifswald, þær Emma og Sofia, ætluðu að fara á laugardeginum og þar sem Alix hafði lofað svo hátíðlega að baka franskar makkarónukökur þá varð hún að drífa í því á föstudagskvöldinu. Áður en baksturinn hófst bjuggu Emma og Sofia til jello shots sem eru ansi skemmtileg skot. Vodka er blandað út í uppleyst ávaxtahlaup og það látið stífna. Það er mjög skondið að skella þessum skotum í sig og varla hægt að merkja að þar sé áfengi á ferð því þau líkjast frekar sakleysislegum eftirrétti. Lúmskt góð í fleiri en einni merkingu
Á eftir fylgdust allir spenntir og áhugasamir með Alix útbúa makkarónurnar en það er þolinmæðisvinna og ekki hrist fram úr erminni! Að endingu fékk svo hver sínar tvær kökurnar og þær voru auðvitað bara himneskar!Eftir át og bakstur var svo slegið upp diskóteki í hlöðunni, en hún þjónar bæði sem borðstofa heimilisins og einnig spilasalur, því uppi á loftinu þar eru bæði borðtennisborð og ballskákborð. Skemmtum við okkur auðvitað hið besta og dönsuðum af innlifun fram á nótt.
Á laugardagsmorgninum fór ég út að skokka því mig langaði svo til að skoða aðeins hið fagra umhverfi St. Matiheu. Það var mjög gaman en ég fór þó ekki langt því ekki vildi ég nú villast. Svo var hitt og þetta mallað og borðað eins og búast má við í franskri sveit. Ekki var það þó allt franskt því á laugardeginum bjó Philipp t.d. til lettneskt ostasalat, en hann bjó í eitt og hálft ár í Lettlandi. Ekki leist mér nú alveg á blikuna þegar hann hrærði saman rifnum osti, rifnum gulrótum, majónesi og hvítlauk. En þetta bragðaðist miklum mun betur en það hljómaði og átti ég eftir að laumast oft í salatskálina. Var þetta svo á borðum á laugardagskvöldinu ásamt hrísgrjónarétti sem frönsku vinkonurnar bjuggu til og auðvitað voru ostarnir ekki langt undan og heldur ekki saucissons sem eru einhvers konar spægipylsur sem eiga engan sinn líka! Hrikalega góðar! Ken og Andrus bjuggu líka til eistneska rommköku sem er algjört sælgæti, úr muldu kexi, dósamjólk (condensed milk), súkkulaði, ávöxtum og auðvitað rommi, ásamt einhverju fleira góðgæti.
Þessi laugardagur sem við vorum þarna var Jónsmessudagur. Var Philipp búinn að lofa að við fengjum að kynnast lettneskum Jónsmessusiðum og stóð sannarlega við það. Slegið var upp brennu á túni skammt frá húsinu og í kringum bálið var sungið, dansað og setið og slappað af í grasinu langt fram á nótt. Svo þurftu allir að stökkva yfir bálið, en að takast það á að boða gæfu allt næsta ár. Síðan var spjallað og hlegið út í eitt. Um miðnættið skaust ég svo inn, ásamt tveimur af frönsku vinkonunum og lagaði heitt súkkulaði í stærðar potti og þeytti rjóma. Skutlaði svo út í það Austurrísku rommi, Stroh, og bárum við þetta svo niður á túnið og féll það í góðan jarðveg
Upp úr því, sennilega á milli eitt og tvö, fór fólk að tínast inn og í háttinn. Við vorum þó fimm sem eftir sátum og héldum nóttina út þangað til bjart var orðið aftur, en það er ekki fyrr en upp úr klukkan 5. Alix, Philipp, Ken, Andrus og ég. Alix var með gítar og spilaði og söng eins og alvöru trúbador, sem hún gæti hæglega verið, ef hún kærði sig um. Svo bættum við sprekum á eldinn annað slagið til að halda honum við og okkur heitum. þaþ var töfrum líkast að sitja þarna í nóttinni í þessari fallegu sveit með Jónsmessuandann yfir.Þegar bjart var orðið tóku Philipp og Andrus sig til og fóru í sundlaugina, en í Lettlandi ku það vera siður að baða sig í sjó eða vötnum við sólarupprás á Jónsmessunótt. Við skreiddumst svo í rúmið um 6, þreytt og syfjuð en líka glöð og hamingjusöm.
Á sunnudeginum ákvað ég að taka aftur smá skokk, þó ekki væri langur svefn að baki, og þá slóst Maria í för með mér. Við hlupum þá vænan hring og var það bara dásemdin ein. Veðrið var yndislegt og ekki hægt annað en að njóta. Vorum við býsna drjúgar með okkur eftir 40 mínútna túr sem ýmist var upp eða niður í móti. Ágætis tilbreyting frá flatneskjunni hér í Greifswald, að beggja mati, og höfðum við það á orði að við værum búnar að vinna okkur inn samvisku fyrir góðu áti
Eftir hádegi á sunnudeginum var svo ákveðið að fara að St. Mathieu-vatninu, sem er rúmlega hálftíma gang frá húsinu. Töfrandi göngustígur í gegnum skóg og engi til skiptis. Við vatnið var mjög fallegt og þó nokkur slatti af fólki þar að baða sig og busla, en þarna er tilbúin baðströnd. Mér fannst nú ekkert voðalega aðlaðandi að fara út í vatnið, en það var kolbrúnt, sem Rémi sagði að stafaði af miklu járninnihaldi. Maður sá varla armslengd ofan í það. Ég fikraði mig rólega út í því það og taldi mér trú um að það væri bara meinhollt að synda í öllu þessu járni! En vatnið var svo sem ekkert heitt, þó ívið hlýrra en sundlaugin við húsið, sem lengst af var um 21-23°C. Endaði með því að ég synti, ásamt Mariu, þvert yfir vatnið og var það alveg ótrúlega gaman! Mér fannst á þeirri stundu líf mitt vera dásamlegt, verandi stödd í miðju Frakklandi og að synda í stöðuvatni í fyrsta skiptið á ævinni! Svo lágum við bara dágóða stund í sólbaði áður en við gengum aftur heim.
Þar var svo spilað Petanques, kúluspilið fræga. Fyrir matinn tóku sumir smá syrpu í borðtennis. Þar á meðal ég, en ég held að ég hafi ekki spilað það síðan ég var unglingur. Það var ótrúlega gaman að rifja það upp og mesta furða hvað ég gat! Síðan voru borðaðir afgangar frá deginum áður og auðvitað ostar og saucisson. Svo var bara setið við arininn og spjallað um heima og geima. Stemningin var yndisleg og það var óskaplega notalegt að vera þarna með þessu góða fólki sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til fyrir 10 mánuðum síðan! Svona gjafir getur lífið fært manni
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.