Frakklandsferð I

Ævintýrum mínum hér á meginlandinu eru lítil takmörk sett! Ég hugsa oft um það hve heppin ég er að vera búin að upplifa allt það skemmtilega og góða sem ég hef upplifað hér. Einnig um allt það góða fólk sem ég hef hitt í dvöl minni hér og eins á ferðalögunum.

Nýjasta ævintýrið sem bættist í minningasafnið hófst um hálf-ellefuleytið að morgni miðvikudagsins 20. júní. Þá steig ég, ásamt þremur ungum mönnum, þeim Ken, Andrusi og Philipp, upp í lest sem bar okkur á næstu 6 klst. til Leipzig, en þaðan er hinn síðastnefndi. Þetta var fyrsti áfangi ferðar sem við fórum til að þekkjast heimboð hennar Alix vinkonu okkar sem var hér í Greifswald á fyrri önninni í vetur.

Þegar til Leipzig var komið sótti stjúpa Philipps okkur á lestarstöðina og fór með okkur heim þar sem við fengum svo bíl föður hans lánaðan. Svo fórum við í bæinn og hittum þar hana Mariu, kærustu Philipps, sem þangað var komin á undan okkur. Löbbuðum við síðan um bæinn undir leiðsögn heimamannsins. Dóluðum við okkur þar fram á kvöld og fórum svo út að borða með pabbanum og stjúpunni, mesta indælisfólki, sem skaut svo yfir okkur skjólshúsi um nóttina.

Klukkan korter yfir fjögur um nóttina lögðum við svo af stað keyrandi á lánsbílnum beint á ská yfir rúmlega hálft Þýskaland (hinn tæpa helminginn höfðum við jú farið með lestinni daginn áður!). Þar var þó ekki látið staðar numið því áfangastaður okkar var í mið-suður-Frakklandi svo verkefni dagsins var ærið.

Allt gekk ferðalagið hið besta og þó langt væri naut ég þess til hins ýtrasta. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því að fá að njóta útsýnis yfir fagrar sveitir þessara tveggja landa og fékk enga leið á því! Við fórum meðal annars yfir margar stórar ár, svo sem Elbu, Rín, Mósel og Loire. Það er ekki á hverjum degi sem maður fer yfir þær allar á einum og sama deginum!

Aðeins var stoppað til að skreppa á klósett og fá sér í gogginn, en gestgjafar okkar um nóttina voru svo rausnarlegir að útbúa okkur með haug af dýrindis samlokum, ávöxtum og grænmeti. Við stoppuðum því oftast bara einhvers staðar á bílastæðum við veginn þar sem við borðuðum standandi við bílinn, til að njóta þess að teygja úr skönkunum líka.

Í bænum Commercy, var svo komið að mér að taka við stýrinu, en við Philipp og Maria skiptumst á, þar sem hinir tveir eru hvorugur með bílpróf. Það var nú ekki alveg laust við að ég væri pínulítið stressuð að fara að keyra í fyrsta skipti á erlendri grund og hafa ekki setið undir stýri síðan í september. En þetta gekk bara mjög vel þar sem við keyrðum að mestu leyti bara um sveitavegi í Frakklandi og Philipp sat við hlið mér og lóðsaði.

Að keyra sveitavegina þýddi líka akstur í gegnum tugi, eða líklega frekar hundruð, lítilla þorpa sem var voða gaman. Ekki skemmdi félagsskapurinn fyrir og vorum við, þrátt fyrir langa og lýjandi ferð, búin að skemmta okkur aldeilis prýðilega við sögur, spjall og leiki.

Eftir að hafa lagt að baki um 1.420km á tæpum 19 klst. komum við í myrkri um kvöld, til áfangastaðar okkar, bæjarins St. Mathieu í Limousin-sýslu, en í útjaðri hans stendur sumarhús fjölskyldu Alix. Og það sem beið okkar! Þetta var eins og að keyra inn í kvikmynd, franska auðvitað, gamalt og stórt sveitahús með sundlaug og tennisvelli við hliðinaSmile 

Það voru hlýjar og yndislega móttökur sem við fengum hjá Alix og þremur vinkonum, þar af tveimur sem einnig voru komnar frá Greifswald, en höfðu farið fljúgandi og komu daginn á undan okkur. Beið okkar létt máltíð, salat og brauð og auðvitað ostabakki! Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem skriðu upp í dásamleg rúm í ótrúlega sjarmerandi herbergjum hússins gamla, eftir máltíð og stutt spjall, en orkan leyfði ekki langa vöku þetta fyrsta kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geggjað! Þetta hefur verið aldeilis dásamlegt ferðalag, ég hlakka til að sjá myndirnar. Eins gott að þú hafir tekið myndir! ;)

Gulla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband