17.5.2012 | 22:32
Hátíðardagar o.fl.
Það sem af er maí er búinn að vera fremur viðburðaríkur tími, eins og reyndar flestar vikur hér hafa verið. Mikið hefur farið fyrir tónleikum og menningarviðburðum í tengslum við menningarhátíðina Nordischer Klang, eða hljómur úr norðri, sem haldin hefur verið árlega hér í Greifswald síðustu 20 ár.
Föstudaginn 4. maí fór ég á í heimsókn á Borgarbókasafnið til að ræða við góða konu þar um tilhögun á lestri sem ég átti að vera með fyrir börn á þriðjudeginum 8. Hinkraði ég svo um stund niðri í bæ til að fara aftur á bókasafnið en þar var þá opnuð sýning á Íslandsmyndum eftir þýskan ljósmyndara, Krim Grüttner. Hún hefur margsinnis komið til Íslands til að mynda og hefur m.a. gefið út bækur með myndum þaðan.Þetta var mjög gaman, fallegar myndir, mestmegnis náttúrumyndir og þó nokkuð af vetrarmyndum Þessi sýning var einn liður í áðurnefndri hátíð.
Laugardaginn 6. maí voru svo tvær veislur sama daginn. Mila átti afmæli seinni partinn í apríl og var með smá veislu fyrir nokkra vini. Útbjó hún fullt af alls konar pinnamat og svo var grillaður fiskur, sem ég smakkaði reyndar ekki fyrr en kaldan seint um kvöldið því í millitíðinni fór ég í annað boð.
Hann Philipp hafði boðið okkur nokkrum til sín í súpu. Þetta reyndist vera köld súpa og þó hún væri fagurbleik og íðilfögur á að líta leist mér nú ekki meira en mátulega á þegar ég fór að skoða innihaldið. Mikið af rauðrófum og svo gúrkur, kefir, dill og sitthvað fleira. En það reyndist ekkert flagð undir súpunnar fagra skinni, hún var bara mjög fersk og góð og ég á sko örugglega eftir að búa til svona súpu einhvern tíma, á heitum sumardegi Í eftirrétt var svo ein dásamlegasta ostakaka sem ég hef smakkað og fór ég heim saddari en ég hef orðið lengi!
Á sunnudeginum hjólaði ég svo niður í bæ og fór á tónleika með norska saxófónsnillingnum Torben Snekkestad. Hafði ég nú misgaman af því sem kappinn spilaði, tvö stykki voru ágæt en restin full nútímalega fyrir mín gamaldags eyru Í bakaleiðinni stoppaði ég svo í rúman hálftíma og hlustaði á lúðrasveit aldraðra norskra hermanna og var það mjög gaman.Hjólaði ég svo í einu spani heim og fór í kaffi og unaðslega góða kanilsnúða til hennar Tinu, sem er frá Noregi. Það má því segja að ég hafi þarna átt mjög norskan dag
Daginn eftir fór ég svo og hlýddi á upplestur hins hálf-þýska/hálf-íslenska Kristofs Magnússonar úr nýlegri bók hans sem heitir Gebrauchsanweisungen für Island eða Notkunarleiðbeiningar fyrir Ísland. Ágætlega skemmtilegur lestur og örugglega hátt í hundrað manns að hlusta þannig að það er alveg ljóst að það eru margir hér sem hafa áhuga á eyjunni okkar fögru
Á þriðjudeginum var svo komið að mér að láta ljós mitt skína og leggja mitt af mörkum í þágu norrænnar menningar! Á Borgarbókasafninu var sem sé búið að undirbúa tvær lestrarstundir fyrir börn úr 7 ára bekk. Fyrri hópurinn kom kl 9 og sá seinni kl 11. Las ég fyrir þau þýsku útgáfuna af Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur og Brian Pilkington. Virtust blessuð börnin bara nokkuð ánægð og eftir lesturinn svaraði ég svo eftir bestu getu alls konar spurningum sem þau báru fram um Ísland og tröll og hvaðeina. Virtust allir vera sáttir með þetta og ég þó örugglega langmest
Föstudaginn 11. maí fór ég á tónleika í hátíðasal háskólans með finnskum píanóleikara, Annikku Konttori-Gustavsson. Mjög skemmtilegir tónleikar með finnskri tónlist og sagði hún frá verkunum inn á milli. Að þeim loknum þeysti ég upp í leikhús til að fara á meiri tónleika! Þar voru tvær hljómsveitir, önnur dönsk með pólskan söngvara og hin sænsk með brasilískan söngvara! Mjög skemmtilegar báðar tvær þó ólíkar væru.
Laugardaginn 12. maí fór ég svo á formlega lokatónleika hátíðarinnar en þeir voru haldnir á litlum tónleikastað niðri í bæ. Þar spiluðu þrjár hljómsveitir: ein dönsk, ein finnsk og svo íslenska hljómsveitin Moses Hightower. Þetta voru aldeilis frábærir tónleikar og íslendingarnir auðvitað langbestir
Á sunnudagskvöld stormaði ég svo niður í bæ, eina ferðina enn! í þetta skipti var á dagskrá eitthvað sem kallað var Musikalishe Lesung eða tónlestur. Þar var á ferðinni hann Steini, Steingrímur Karl Teague, úr Moses Hightower og spilaði bæði eigin tónlist og þekkt íslensk lög eins og Undir stórasteini, Braggablús, Draumalandið og Vísur Vatnsenda-Rósu. Hann Hartmut Mittelstädt, sem ég hef áður minnst á, íslenskuprófessor við Norrænudeild háskólans hér, las svo þýðingar sínar á nokkrum textanna. Einnig las hann þýðingu sýna á makalaust skemmtilegri smásögu eftir Steina. Undir þeim lestir veltist fólk um úr hlátri og átti Hartmut sjálfur stundum í mesta basli með að hlæja ekki of mikið! Þetta var held ég bara skemmtilegasta uppákoma hátíðarinnar, svona að mínu mati
Fyrir utan öll þess hátíðahöld hefur lífið svo bara snúist um skólann og lestur og lærdóm. Í gærkvöldi fór ég þó í leikhús og sá My Fair Lady. Það var ægilega gaman þó ekki skildi ég nú nema u.þ.b. helminginn af því sem sagt var. Það kom þó ekki svo mikið að sök þar sem ég þekki verkið þokkalega og tónlistin dásamlega nýtur sín alltaf. Konan sem lék Elísu hafði mjög fallega sópranrödd sem hún gat svo fyrirhafnarlaust breytt yfir í rokkaða hálsrödd og var hún alveg frábær. Og ekki var sá sem lék Higgins síðri, fór hreinlega á kostum og er sá allra skemmtilegasti sem ég hef séð í því hlutverki
Þið sjáið að það er ekki rólegheitunum fyrir að fara hjá mér, frekar en fyrri daginn hér í vorkartöflulandinu eins og góður vinur orðaði það! Og nú magnast spennan í mér óðum, því á næsta mánudag koma drengirnir mínir og Guðbjartur með þeim að heimsækja mig. Það verður skemmtileg vika sem varið verður í Berlín og Greifswald og nágrenni
Það verður því væntanlega frá nógu að segja næst! Góðar stundir.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.