1.5.2012 | 10:13
Apríl
Jæja, nú er apríl floginn hjá og ég hef ekki komið neinu frá mér óralengi! Ég var byrjuð að skrifa og var svo að smá bæta við en kom þessu aldrei af stað Hér kemur því allur aprílmánuður eins og hann leggur sig og rúmlega það!
Eins og ég hef áður minnst á þá fór hluti af skiptinemunum heim eftir fyrri önnina. Einhverjir nýjir komu hins vegar í staðinn en þó ekki eins margir og á haustönninni. Einn góður félagi minn fór svo alfarinn heim í lok mars. Daginn eftir að ég kom heim úr ferðalaginu til Hamborgar og Leipzig var dálítið kveðjupartí fyrir hann og var það mjög skemmtilegt þó alltaf séu kveðjustundir blandnar ákveðnum trega. Á sunnudeginum var voða gott veður og fórum við því nokkur saman niður í miðbæ til að fá okkur kaffi og svona til að hann gæti formlega kvatt bæinn. Fyrst fórum við á kaffihús og tókum svo kaffi með okkur niður að á og sátum lengi í grasinu þar.
Um kvöldið var ég svo búin að bjóða honum ásamt þremur öðrum í mat. Tvær stúlkur komust ekki í matinn þannig að á endanum urðu það bara tveir piltar sem nutu matarins með mér. Stúlkurnar komu svo síðar um kvöldið og var þetta hin ljúfasta kvöldstund. Sagði hann svo þessi elska að hann hefði ekki getað hugsað sér betri lokadag og lokakvöld hér, í þessum félagsskap og með svona góðan mat. Ég var bara eins og bráðið smér við þessi fallegu orð. Daginn eftir fór hann svo af stað heim.
Vikuna þá var ýmislegt að gera því skólinn nálgaðist og ég þurfti að velja mér kúrsa fyrir sumarönnina og hafa samband við kennara ásamt ýmsu fleiru smálegu. Á miðvikudeginum kom svo annar góður vinur til baka úr annarfríinu og bauð ég honum í mat um kvöldið. Það var ósköp ljúft að fá hann til baka og nóg um að spjalla. Svo eru alltaf einhver partí og nóg að gera við að hitta fólk.
1. apríl var gönguferð út í Wieck og Eldena fyrir nýju skiptinemena og fór ég líka með ásamt fleirum af þeim eldri. Það var mjög hressandi göngutúr í skítakulda og roki. Við fórum því nokkur saman og náðum í okkur yl á góðu kaffihúsi áður en aftur var haldið inn í bæ.
Mánudaginn 2. apríl byrjaði svo skólinn aftur og var ég bara ósköp fegin því. Mér líst ljómandi vel á þá kúrsa sem ég valdi og kennarana líka. Þessa önnina sýnist mér að verði mun meiri lestur en á þeirri fyrri en lesefnið er spennandi og bara tilhlökkunarefni að fást við það.
Svo komu páskarnir og fóru þeir að mestu bara í leti og át. Þó tók ég góða hjólatúra inn á milli því veðrið var ágætt að mestu, aðeins rigning á laugardagskvöldinu. Á Skírdag bauð hann Ken, vinur minn frá Eistlandi mér og annarri vinkonu til sín til að gera páskegg. Við veltum eggjum upp úr vatni og svo hrísgrjónum, pökkuðum þeim svo inn í laukhýði og tuskur og svo voru þau soðin. Upp úr pottinum komu svo ljómandi sæt brúnleit egg með hvítar freknur
Páskadagurinn var aldeilis ljómandi góður og byrjaði ég hann á því að fara í messu í Dómkirkjunni ásamt Ken vini mínum. Þaðan fórum við svo beinustu leið í páskamorgunverð sem LEI skipulegði og fór fram niðri í bæ. Þar komu allir með eitthvað smálegt, aðallega álegg og meðlæti en brauð, te og kaffi var á staðnum. Þetta var ljómandi skemmtileg stund með áti og spjalli. Síðan var dólað heim og síðdeginu varði ég aðallega í tölvuhangs og lestur.
Um kvöldið var ég svo búin að bjóða eistnesku vinunum mínum, Ken og Kati í mat. Mér til allnokkurrar furðu hafði ég fundið lambakjöt úti í REWE, sem er búðin hér úti á horni. Það hef ég ekki séð áður og hugsa að þetta hafi nú bara verið út af páskunum en það eru víst einhverir þjóðverjar sem vilja borða lamb á þeirri hátíð. Ég bakaði grænmeti í ofni og gerði góða sósu, steikti hryggvöðvana á pönnu og bragðaðist þetta allt hið besta, þó ég segi sjálf frá Kjötið var bara mjög gott og kom skemmtilega á óvart!
Eftir matinn töltum við svo yfir til Kens og þá bættust í hópinn Philipp og Maria, þýskir vinir okkar. Þau eistnesku buðu þar upp á alveg dásamlegan eftirrétt, eitthvað sem helst líktist skyrköku og heitir Pasha. Þetta er gert úr quark, sem er mjólkurafurð sem minnir helst á sambland af skyri og rjómaosti, ekki eins þykkt þó. Þetta er síað þar til það verður nokkuð þykkt, svo er hrært saman við það sykri, eggjum, þeyttum rjóma, rúsínum og hnetum. Þetta var alveg dásamlega gott og borðaði ég mér nánast til óbóta Svo spiluðum við skemmtilegt landnemaspil fram til miðnættis. Þessi páskadagur var því eins góður og hugsast gat.
Sitt hvoru megin við páskana komu svo sambýlingarnir til baka eftir 5 og 6 vikna frí heima í Rússlandi og Tékklandi. Það var ósköp notalegt að fá þessar elskur aftur til baka og margt um að spjalla eftir þeirra löngu fjarveru.
Síðustu vikur hafa svo að mestu leyti bara snúist um skólann og lærdóm. Laugardagskvöldið 14. apríl fór ég þó í leikhús að sjá danska leikritið Veisluna. Það er býsna magnað stykki sem mig er lengi búið að langa til að sjá, en ég kom mér aldrei að því að sjá það heima, hvorki á sviði né í bíó.
Sunnudagskvöldið fyrir rúmri viku síðan bauð ég norskri vinkonu ásamt sambýlingunum að borða með mér lax. Ég er nú alltaf svolítið stressuð að kaupa fisk hér og hrædd við að hann sé ekki nógu góður en það voru óþarfa áhyggjur í þetta skiptið.
Á miðvikudagskvöld var svo alþjóðlegur kvöldverður þar sem allir komu með eitthvað matarkyns frá sínu landi. Ég hafði alveg steingleymt þessu og hafði því lítinn tíma til að láta mér detta eitthvað sniðugt í hug. Skellti ég því bara í rækjusalat, keypti Ritz-kes og lét það duga. Hvarf það fljótt og kýs ég að líta á það sem hrós Sat fólk lengi kvölds úti í garðinum á bak við húsið þar sem þetta var haldið. Veðrið var gott og flestir í spjallstuði enda skortir aldrei umræðuefni í þessari alþjóðasúpu
Lengst af spjallaði ég við hina Norðurlandabúana, fimm finnskar stelpur og eina danska. Líkir fiskar spyrðast best stendur einhvers staðar og mér finnst einfaldlega alltaf eitthvað meira heimilislegt við félagskap frændþjóðanna en annarra, að þeim öllum ólöstuðum! Nýliðin helgi var svo bara eintómur lestur og rólegheit.
Í gærkvöldi fórum við Ken í Óperuna og sáum Flagara í framsókn. Það var svona miðlungi skemmtilegt, dálítið köflótt sýning. Held ég að mér hafi fundist sýningin heima á Íslandi sem ég sá fyrir nokkrum árum mun betri.
Á eftir löbbuðum við svo niður á höfn til að hitta nokkra vini sem þar voru, ásamt mörgum heimamönnum, að halda upp á Valborgarmessu eða Valborgarnótt sem er þó nokkur hátíð hér. Þar var setið og spjallað dágóða stund en ég fór þó frekar snemma heim. Þar sátu svo sambýlingarnir með glas í hönd og auðvitað settist ég með þeim og skemmtum við okkur vel við spjall og vitleysu fram til hálf tvö
Og nú er fyrsti maí runninn upp en honum verður lílega að mestu varið í lestur. Framundan er svo bara lærdómur og meiri lærdómur og betra að reyna að slugsa nú ekki of mikið!
Læt ég nú lokið löngum pistli og vona að hann sæki vel að ykkur, kæru vinir, og að hækkandi sólin gleðji og kæti
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.