Leipzig

Að morgni 22. maí var ég venju fremur löt og var ekki komin út fyrr en upp úr hálf tíu. Ég rölti niður í bæ, en þó ekki stystu leið eins og daginn áður heldur fór ég aftur að brautastöðinni og gekk niður Nicolaistrasse sem er ein aðalverslunargatan í miðbænum. Á leið minni þarna tók ég eftir að þessi ljótu hús sem stungið höfðu í augað daginn áður voru í raun bara umlukin stillönsum. Sum eru nýbyggingar enn önnur er verið að gera upp.

Tók ég svo einhverja smá króka og hliðargötur og þræddi mig þannig niður á Ráðhústorg. Ákvað ég þegar þangað var komið að kíkja á Tómasarkirkjuna frægu, þar sem meistari Bach var kantór í 27 ár, frá 1723 – 50. Þetta er fremur látlaus bygging en þó falleg og gaman að koma þar inn. Settist ég niður í dálitla stund og reyndi að ímynda mér hvernig umhorfs hefði verið á hans dögum og hvernig lífið hefði verið. Ekki fékk ég nú neina hugljómun um það en það er sannarlega merkilegt að koma inn í þessa kirkju sem var hans vinnustaður í svona mörg ár.

Bach stjórnaði einnig Thomaner drengjakórnum sem er einn hinn frægasti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað en kórinn sá fagnar einmitt 800 ára afmæli sínu á þessu ári. Svo fór ég yfir götuna og á Bach-safnið sem er í húsi þar sem Bose fjölskyldan bjó en gott vinfengi var á milli þessara tveggja fjölskyldna. Það var virkilega gaman að skoða safnið og mikið varð mér nú hugsað til hennar mömmu minnar! Alveg er ég viss um að hún hefði gaman af að koma bæði á safnið og í kirkjunaSmile

Um tólfleytið fór ég inn á ítalskan veitingastað á móti kirkjunni og fékk mér pasta með norskum laxi, alveg ægilega gott! Þaðan fór ég svo að upplýsingamiðstöðinni þar sem ég átti bókað í skoðunarferð um bæinn. Það var boðið upp á ensku líka en ég var eini útlendingurinn í u.þ.b. 15 manna hóp og sagði við leiðsögumanninn, sem var mjög skemmtileg kona á svipuðum aldri og ég, að mig langaði til að reyna að hlusta á þýskuna og ég skyldi bara spyrja hana ef ég skildi ekki eitthvað. Það er skemmst frá því að segja að til þess kom bara ekki og var ég mjög ánægð með sjálfa mig að skilja hana svona velHappy Auðvitað skildi ég nú ekki alveg hvert einasta orð en það vantaði ekki mikið upp á. Konan var vissulega mjög skýrmælt og talaði ekki hratt þannig að þetta var allt hið besta mál og naut ég ferðarinnar mun betur en ella hefði verið.

En til að lýsa túrnum aðeins þá var fyrst farið í um klukkustundar langan göngutúr þvers og kruss um miðbæinn og svo var stigið upp í rútu sem fór um einnar og hálfrar stundar hring. í göngutúrnum var aðeins kíkt inn í Nikulásarkirkjuna fögru. Það var einmitt í henni sem fólk byrjaði, í byrjun september 1989, að hittast á mánudagsmorgnum að aflokinni vikulegri friðarbæn, til að mótmæla, í mestu friðsemd þeim stjórnarháttum sem það bjó við og fara fram á breytingar. Eftir bænastundina í kirkjunni færði fólkið sig svo yfir á Ágústusartorgið. Þessi mótmæli (Monday demonstrations) breiddust svo smám saman út og restina af þeirri sögu þekkjum við í grófum dráttum en hún endaði með sameiningu þýsku ríkjanna 3. október 1990.

Þessi ferð var öll hin ánægjulegasta, konan fróð og skemmtileg og veðrið hið besta. Þegar maður hefur ekki mikinn tíma á einhverjum stað þá held ég að sé einmitt sniðugt að fara í svona ferð. Maður fær ákveðna yfisýn og góðar upplýsingar og fróðleik með. Ferðinni lauk klukkan fjögur á Ágústusartorginu, sem mér skilst að sé eitt af stærstu torgum Þýskalands. Það liggur á milli óperuhússins, Gewandhaus hljómleikahallarinnar og háskólans.

Að ferðinni lokinni var ég orðin fremur kaffiþyrst. Fór ég því beinustu leið á Riquet, sem er kaffihús sem ég var búin að sjá og lesa um og leist vel á. Þar fékk ég mér kaffi og dásamlega góða hnetutertu. Að því innbyrtu fór ég á rölt um bæinn og varði síðdeginu í rólegheitum við að njóta þess sem fyrir augu bar í þessari afskaplega líflegu og skemmtilegu borg. Þvældist ég um og skoðaði öll litlu sundin og hliðargöturnar þar sem úir og grúir af alls konar verslunum.

Meðal annars kíkti ég inn í Mädler Passage, sem er ein af mörgum yfirbyggðum götum í miðbænum, en þar ofan í kjallara nokkrum er veitingastaður sem heitir Auerbachs Keller. Þann stað gerði skáldið Goethe ódauðlegan með því að nefna hann í leikriti sínu um Faust. Fyrir utan dyr staðarins eru svo tvær styttur, hvor sínu megin við götuna, og sýna þær einmitt það atriði sem á að gerast þar. Önnur styttan er af Faust og hin af Mefistófelesi.

Þegar nálgaðist kvöldmatartíma fór ég að velta fyrir mér hvað og hvar ég ætti að fá mér að borða. Varð mér gengið inn í Barthels court, sem er lítið sund og hafði ég gengið það líka daginn áður. Þar hafði ég séð veitingahús sem einnig var minnst á í bókinni minni litlu. Heitir það Zum Arabischen Kaffee Baum eða við arabíska kaffitréð. Þetta mun vera eitt af frægustu veitinga- og kaffihúsum borgarinnar og er til húsa í mjög fallegri Barrok byggingu.Kaffihús er á efri hæðum en veitingahús á jarðhæðinni þar sem boðið er upp á dæmigerða Saxneska rétti. Ég man nú ekki hvað rétturinn sem ég fékk mér hét en þetta var kjötþrenna: lamb, svín og naut borið fram á stórum haug af steiktum kartöflum, sveppum og lauk. Ægilega gottSmile

Þegar ég kom þaðan út tók ég dálítinn kveðjugöngutúr um miðbæinn áður en ég hélt upp á gistiheimilið. Þegar þangað var komið var kominn einn herbergisfélagi, geðugasta stúlka frá Finnlandi. Spjölluðum við saman í svolitla stund en fórum svo frekar snemma í háttinn.

Morguninn eftir pakkaði ég saman og tékkaði mig út. Fékk þó að geyma töskuna mína á meðan ég fór í dýragarðinn, en þangað var ég komin rétt upp úr klukkan níu. Þar varði ég síðustu þremur tímunum í borginni og var það sannarlega ekki leiðinlegt!

Auk venjulegs dýragarðs er þar að finna einhvers konar innanhússregnskóg, Gondwanaland að nafni. Þar eru endurskapaðar aðstæður eins og í hitabeltislandi og er þar að finna mikið af bæði plöntum og dýrum sem ekki myndu lifa við aðstæður svona norðarlega á hnettinum.

Ég fór meðal annars í siglingu um litla „á“ og sá alls konar dýr sem ég hef ekki séð áður. Til að mynda litla apa sem skjótast um í trákrónunum og fara hratt yfir! Þeir eru ansi skemmtilegir en fólk er beðið að passa upp á hluti sem það heldur á og að láta ekkert standa upp úr vösum því þeir eru þjófóttir og snöggir að grípa hluti sem vekja forvitni þeirra. Svo voru þarna alls kyns eðlur og skriðdýr, tapírar, kattardýr sem ég kann ekki að nefna og margt fleira. Úti voru svo fílar, ljón, gíraffar og alls konar „hefðbundin“ dýragarðsdýr. Þrír klukkutímar eru allt of stuttur tími á svona stað og næst tek ég sko heilan dag í þetta!

Um tólfleytið fór ég svo aftur niður á gistiheimili en það er aðeins í um 10 mínútna göngufjarlægð. Náði ég þar í töskuna mína og tölti að brautarstöðinni þaðan sem ég tók lest tíu mínútur fyrir eitt. Sú bar mig til Berlínar en þar skipti ég um og tók aðra norður til Greifswald og var ég komin heim um fimmleytið. Þó ferðalagið hafi verið skemmtilegt var vissulega ósköp ágætt að koma heim og slappa aðeins af.

Helgin fór svo mikið til í að kveðja einn góðan vin sem var að fara alfarinn til síns heima á mánudeginum. En um það skrifa ég síðar. Læt ég hér lokið ferðasögu þessariSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband