Hamborg - Leipzig

Að morgni 21. mars pakkaði ég saman föggum mínum og var ég komin út úr húsi upp úr kl níu. Tók lest niður í bæ en ákvað nú að taka því bara rólega þar sem ég átti pantað far með lest til Leipzig kl 10:51.

Datt mér í hug að kíkja inn aftur inn í Europa Passage verslunarmiðstöðina og skoða hana aðeins betur að gamni mínu. Þar opnuðu þá verslanir ekki fyrr en tíu en ég rölti um og virti fyrir mér húsið sem allt var blómum skreytt að innan og voða vorlegt um að litast. Fékk mér ís og borðaði í rólegheitum á meðan ég gekk um.

Húsið er á nokkrum hæðum og ég tók allt í einu eftir því að hér og þar í gólfflísarnar voru greypt nöfn hinna ýmsu evrópsku borga. Þegar ég var búin að sjá bæði Stokkhólm og Osló fór ég markvisst að leita að Reykjavík og fann hana uppi á efstu hæðSmile Auðvitað tók ég mynd af nafninu hennar þarna á gólfinu og fannst þetta voða sniðugt! Svona þarf nú lítið til að gleðja konu frá lítilli eyju úti í hafi sem hefur verið að heiman frá sér í nokkra mánuðiWink 

Svo fór ég upp á brautarstöð og þaðan fór lestin af stað á tilsettum tíma. Tók ferðin rúmlega þrjár stundir og stoppaði lestin bara einu sinni: Í Berlín. Ekki leist mér nú alveg á blikuna þegar ég kom út af flottu og fínu lestarstöðinni því við mér blasti svakaleg umferðargata og hundljót hús handan hennar. Ég gekk meðfram þessari götu spottakorn en gistiheimilið mitt var í hliðargötu aðeins tæpra tíu mínútna gang frá lestarstöðinni. Þar skutlaði ég dótinu mínu inn og gekk svo rakleiðis niður í miðbæ sem var aðeins steinsnar í burtu, um það bil tíu mínútna gangur niður á Ráðhústorg. Mun þægilegra en í Hamborg!

Ég byrjaði á því að heimsækja upplýsingamiðstöðina til að fá kort og bæklinga. Ákvað ég einnig að bóka mig í skoðunarferð um bæinn daginn eftir. Á korti í lítilli bók sem ég keypti var tillaga að göngutúr um miðbæinn og eftir að hafa fengið mér kaffi og köku í Berfættugötu (Barfussgasse) rölti ég af stað og lallaði þennan hring (nafn götunnar skilst mér að sé dregið af hinum berfættu Ágústínusarmunkum, en klaustur þeirra mun hafa verið þarna í nágrenninu).

Þetta var mjög gaman og tók það um tvo tíma með stoppum og glápi hér og þar. Veðrið var hið besta, 10 – 12°hiti, og allt annað en í Hamborg. Þarna fannst mér bara komið vor og naut ég blíðunnar út í æsar.

Að göngutúrnum afloknum ranglaði ég bara um miðbæinn frekar stefnulaust, skoðaði mig um og kíkti auðvitað í nokkra búðarglugga líka! Miðbærinn var voða skemmtilegur, mikið af kaffi- og veitingahúsum og fjöldi fólks á ferð. Afar líflegt andrúmsloft en þó afslappað.

Um kvödmatarleytið fór ég inn á Nordsee við Ráðhústorgið og fékk mér dýrindis fiskisúpu og hvítvínsglas. Kostaði það 20 centum minna en kaffið og kakan á fyrsta kaffihúsinu á bryggjunni í Hamborg!Svo rölti ég bara heim á leið í blíðunni með viðkomu augnaráðsins í nokkrum búðargluggum.

Á gistiheimilinu hafði ég pantað mér rúm í sex kvenna herbergi en var barasta alein í því þessa nótt. Ekki var það nú slæmt og gott að geta haft sína hentisemi. Herbergið var líka með ágætis útsýni í áttina að miðbænum og nú leit stóra gatan ekki alveg eins skelfilega út og fyrr um daginn. Og þó að dálítill umferðarniður væri þá sofnaði ég fljótt og vel eftir að hafa skrifað í dagbókina og lesið litla stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband