10.4.2012 | 10:13
Hamborg III
Þriðjudaginn 21. mars tók ég daginn snemma, eins og alla jafna í ferðinni. Var ég komin út úr húsi korter fyrir níu og tók lest beint niður í bæ eða öllu heldur niður á bryggju. Ég var hálft í hvoru að hugsa um að fara í siglingu um Elbu en rann svo á rassinn með það. Hvort tveggja var að það er dálítið dýrt en stærri hluti ástæðunnar var einfaldlega rok og kuldi. Ég hafði farið af stað í ferðalagið í nýju sumarúlpunni minni en hefði betur haldið mig aðeins lengur við gömlu þykku dúnúlpuna. Var mér búið að vera frekar kalt allan tímann og hraus hreinlega hugur við því að láta blása meira um mig en nauðsyn krafði
Arkaði ég því bara upp í bæ og beint að Ráðhúsinu. Þar fór ég inn til að forvitnast um skoðunarferðir um húsið en ég hafði séð það í bókinnni minni litlu að slíkt væri í boði. Ég var heppin því það var aðeins rúmur hálftími í næstu ferð. Dólaði ég því bara í rólegheitum um nágrennið og kom svo til baka á tilsettum tíma (11:00).
Ekki sé ég eftir þeim þremur evrum sem ég borgaði fyrir því húsið er eitt listaverk Ekki er nóg með að þar hangi málverk og standi fagrar höggmyndir heldur eru innréttingarnar hreint með ólíkindum. Húsið er líka heljarstórt og eru í því hvorki meira né minna en 647 herbergi sem mun vera 6 herbergjum fleira en í Buckingham Palace í London! Á veggjum er víða skrautlegt veggfóður, sums staðar úr plussi, annars staðar úr leðri. Loft og veggir málað af ótrúlegri list og fegursti útskurður í öllum hornum. Allt ber þarna vitni ríkidæmi borgarinnar sem byggðist að miklu leyti upp af umsvifum í kringum höfnina, en hún er önnur stærsta höfn Evrópu, á eftir höfninni í Rottedam, og ein af þeim 20 stærstu í heiminum. Það væri of langt mál að ætla sér að fara mikið út í smáatriði í sambandi við Ráðhúsið því það er einfaldlega svo stórt og mikið. Tók skoðunartúrinn um húsið u.þ.b. 45 mínútur og mæli ég svo sannarlega með honum við þá sem til borgarinnar koma.
Ég var svo komin út um korter í tólf og dólaði þá bara aðeins um miðbæinn þangað til ég fór að hitta góðan þýskan kunningja á kaffihúsi í Europa Passage verslunarmiðstöðinni. Við höfum ekki hist í nokkur ár og var mjög gaman að heyra hvað á daga hafði drifið og ekki síst að tala íslensku í dálitla stund.
Eftir heillangt og skemmtilegt spjall labbaði ég, að hans ráði, yfir í Speicherstadt og skoðaði Miniatur Wunderland. Það er sannkallað undraland þar sem endurskapaðir eru í smækkaðri mynd heilu lands-, bæja- og borgarhlutarnir, bæði þýskir og annarra landa. Þetta er stærsta lestarmódel í heimi og eru lestarteinarnir um 13 kílómetrar! Um þá ferðast 900 járnbrautarlestar með um 12 þúsund vagna nokkur hundruð kílómetra á dag.
Sýningin var opnuð árið 2002 og þekur 1.300 fermetra. 250 tölvustýrðir bílar af öllum gerðum keyra um og alls konar uppákomur eru sífellt í gangi. Í fyrra bættist svo við flugvöllur sem þekur um 150 fermetra. Þar má fylgjast með reglulegri flugumferð og segir í auglýsingu að þetta sé hugsanlega einn af heimsins nákvæmustu flughermum. Dagurinn í undralandinu varir í um 15 mínútur og þegar dimmir lýsa um 300 þúsund led perur upp þennan litla heim þar sem um 200 þúsund manneskjur u.þ.b. tveggja sentimetra háar búa.
Ég var þarna á ferð um miðjan dag á þriðjudegi og það var ótrúlegur fjöldi fólks á staðnum. Þetta er enda einn vinsælasti ferðamannastaður Hamborgar og heimsækir safnið um ein milljón manna árlega (sem gerir tæplega 3 þúsund á dag!). Ég var þarna í tæpa tvo tíma og kom út algjörlega orðlaus, svo magnað er þetta
Þegar ég kom út úr undralandinu fór ég beint niður á bryggjurnar aftur til að kaupa nokkra minjagripi sem ég hafði séð en ekki getað ákveðið mig nákvæmlega hvað skyldi kaupa. Ég hefði örugglega getað keypt þá annars staðar en mig langaði líka til að kíkja þangað einu sinni enn, svona í kveðjuskyni.
En nú var farið að rigna svo ég tók bara lest upp í bæ aftur og fór beinustu leið á eitt af huggulegu kaffihúsunum í Alster Arcades, sem eru á bakka Alster-árinnar. Þetta eru voða hugguleg bogagöng sem hýsa alls konar fallegar verslanir og skemmtileg kaffihús.
Eftir að hafa maulað í mig þessa fínu Sachertertu og drukkið kaffi með skrapp ég svo á snyrtinguna, sem ekki væri nú í frásögur færandi nema fyrir það að þar inni lenti ég á spjalli við eldhressa, 84 ára gamla konu. Hún uppveðraðist öll þegar hún heyrði að ég væri frá Íslandi og sagðist hafa komið þangað einu sinni, árið 1987. Svo sagðist hún vera búin að senda stóran hluta af börnum og barnabörnum þangað og allir kæmu jafn glaðir til baka
Þarna fann ég enn einu sinni hvað það er gott að vera Íslendingur í Þýskalandi! Það eru svo margir sem þekkja mann sem þekkir mann sem hefur komið þangað og ef fólk hefur ekki komið þangað sjálft þá segist það undantekningalítið að það hafi nú alltaf langað til að koma þangað
Þetta verður svo auðvitað til að brýna mig í þeirri trú að ég VERÐI að læra málið vel svo ég geti tekið á móti öllum þessum áhugasömu, hugsanlegu ferðamönnum
Þegar þarna var komið sögu var klukkan að verða fimm og orðið of seint að fara að hugsa um safnaheimsóknir. Ég hélt því bara áfram að róla um bæinn og skoða í búðir. Þar sem það rigndi enn var ég ekkert of spennt fyrir að vera mikið á gangi og tók ég því lestina upp á gistiheimili um sjöleytið. Tók ég kvöldinu rólega og fór að vanda snemma að sofa.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eilítil leiðrétting: þessi þriðjudagur var auðvitað hinn 20. dagur marsmánaðar!
Rósa María Sigurðardóttir, 10.4.2012 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.