8.4.2012 | 14:15
Hamborg II
Mánudaginn 19. mars fór ég þokkalega snemma á fætur og borðaði morgunmat á gistiheimilinu. Ég hafði ákveðið að kaupa morgunmat þar til að spara mér það vesen að þurfa að finna eitthvað annars staðar.
Svo tók ég lest beina leið niður á Landungsbrücken þar sem ég hafði ákveðið að fara í útsýnisferð um borgina, en bílarnir fara m.a. þaðan. Gekk ég um bryggjurnar í einhverja stund en ákvað svo að fara bara inn í rútuna upp úr hálf tíu til að ná góðu sæti. Það tókst og sat ég alveg fremst á efri hæð bílsins. Þetta var mjög skemmtilegur rúntur sem þræddi alls konar krókaleiðir í gegnum borgina og fram hjá öllu því markverðasta sem hún býr yfir.
Leiðsögumaðurinn var hinn skemmtilegasti og jós af sínum fróðleiksbrunni á prýðilega skiljanlegri þýsku, fyrir mín eyru. Ekki skildi ég nú hvert orð þó og er stundum dálítið pirruð orðin á því hvað mér finnst mér ganga hægt að ná að skilja talað mál Túrinn var um ein og hálf klukkustund, frá tíu til hálf tólf.
Að honum loknum fór ég og fékk mér svo fisk að borða á Nordsee. Ég held að ég hafi áður minnst á þá staði, þetta er keðja veitingastaða sem eru um allt Norður-Þýskaland og bjóða upp á ágætis fisk. Það er svolítill mötuneytisblær á þessum stöðum en ég kann ágætlega við þá samt og það er þokkalega fjölbreytt úrval af fiski í boði.
Svo stökk ég aftur upp í rútuna (miðinn gildir allan daginn) og fór fyrsta og skemmtilegasta hluta leiðarinnar aftur, í gegnum Speicherstadt, sem er gamla vöruskemmuhverfið á eyjunum í ánni. Það hefur verið mikið endurbyggt á síðustu árum og er m.a. verið að byggja nýtt og glæsilegt og feykilega framúrstefnulegt tónlistarhús með glerhjúpi, ofan á eldri múrsteinsbyggingu. Þarna eru líka ennþá alls konar vöruhús en þó mestmegnis íbúðir og alls kyns söfn. Mér skilst að algengt fermetraverð á íbúð, ef einhver hefur áhuga á að kaupa, sé um 5.000 evrur sem eru u.þ.b. 850 þúsund íslenskar!
Ég fór svo úr rútunni við aðaljárnbrautarstöðina og hélt af stað í minn eiginn útsýnistúr, fótgangandi. Ég hafði keypt litla bók daginn áður sem innihélt uppástungu að slíkum göngutúr með leiðbeiningum, ágætu korti og heilmiklum upplýsingum um merkisstaði á leiðinni. Byrjaði ég á því að ganga Mönckeberg Strasse að Ráðhúsinu sem er feykilega falleg bygging í endurreisnarstíl. Það var byggt á árabilinu 1886-97 í stað eldra húss sem sprengt var í loft upp til að reyna að forða því að miklir eldar sem eyðilögðu stórna hluta borgarinnar árið 1842, dreifðu sér.
Svo fór ég yfir ána Alster en Hamborg stendur á mótum þessara tveggja áa, Alster og Elbu og má segja að ármótin séu akkúrat í miðbænum (eða miðbærinn akkúrat á ármótunum!). Fór ég svo ýmsar krókaleiðir að Mikjálsksirkjunni (Michel). Ég fór inn í hana, sat þar dágóða stund og las mér til í bókinni á milli þess sem ég virti fyrir mér fegurð kirkjunnar.
Hélt ég svo áfram og tók dálítinn útúrdúr að safni um Jóhannes Brahms, en fór nú ekki inn í það þó heldur hélt áfram röltinu. Stytti reyndar aðeins hringinn með því að sleppa Reeperbahn því ég hafði jú gengið hann daginn áður. Fór því bara stystu leið niður á Landungsbrücken, en ég held að ég fái nú seint leið á því að koma þangað Þar er stanslaus umferð skipa og báta og mjög líflegt.
Leiðarlýsingin beindi mér svo aftur meðfram ánni og dálítinn krók inn í bæ og að Nikulásarkirkjunni. Turn hennar stendur hár og voldugur og var greinilega verið að gera eitthvað við hann því hann var allur innpakkaður í stillansa. Að öðru leyti er kirkjan bara rústir einar en hún var sprengd í Síðari Heimsstyrjöldinni, eins og reyndar ansi stór hluti af borginni. Ekki stendur til að byggja hana upp aftur heldur eiga rústirnar að vera minnisvarði um eyðileggingu stríðsins. Svo fór ég aftur niður að á og aðeins inn í Speicherstadt og gekk þar dálítið um áður en ég lét leiða mig aftur upp í bæ og að brautarstöðinni.
Ég var hátt í sex klukkutíma að fara þennan hring með dálitlum stoppum og hliðarsporum hér og þar. Eftir þetta rölti ég dálitla stund um Mönckeberg Strasse og kíkti aðeins meira í búðarglugga. Fór svo aftur niður að höfn en aðdráttarafl hennar er býsna sterkt! Fékk ég mér eitthvað létt í gogginn á litlum stað þar áður en ég fór upp á gistiheimili. Þar fór ég fljótlega í háttinn og las þó nokkra stund. Hugsa ég að ég hafi verið sofnuð upp úr hálf tíu enda nokkuð þreytt eftir langan göngudag.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir pistilinn. Það steypist yfir mig heimanþráin við að lesa. Sérstaklega þegar þú ert að lýsa öllum þessum endalausu göngum um ófarnar slóðir. Mikið vildi ég vera með!! Það er í mínum huga aðein eitt sem er betra en að upplifa svona nýjan heim, og það er að upplfa hann í góðum félagsskap. Að geta sagt, VÁ! Sjáðu þetta! Án þess að vera litinn hornauga fyrir að tala við sjálfan sig ;) Ég er líka alveg græn af öfund yfir ferðafrelsinu ;) Það er líka mjög heilsubætandi að lesa þetta: Ég verð að fara að hugsa vel um heilsuna og kroppinn til að geta elst vel og enst vel, til að gera allskonar skemmtilegt á efri árunum. Hveðjur úr kotinu til Rósu frænku.
Gulla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 11:19
Ekkert að þakka, elsku systir! Já, ég hefði sko alveg getað hugsað mér að hafa góðan ferðafélaga, en það er þó skárra að gera suma hluti einn en að gera þá alls ekki. Og vissulega hef ég nú alveg fengið hornaugað sko! ;-) Við vinnum svo bara í því að eldast vel og stefnum að því að gera eitthvað skemmtilegt saman, þó síðar verði :-) Kveðjurnar úr kotinu eru vel þegnar og Rósa frænka sendir knús og kveðjur á mýslurnar :-)
Rósa María Sigurðardóttir, 12.4.2012 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.