Hamborg I

Sunnudaginn 18. mars lagði ég upp í dálítið ferðalag og fór þann dag til Hamborgar. Lestin lagði af stað frá Greifswald kl 9:16 um morguninn og var komin á leiðarenda um tvöleytið. Þó ekki sé leiðin ýkja löng þá þurfti ég nú samt að skipta tvisvar um lest, fyrst í Stralsund og svo í Rostock. Allt gekk þetta ljómandi vel og mátulegur skiptitími var á báðum stöðum. Á brautarstöðinni í Hamborg vafraði ég hins vegar um í örugglega hátt í klukkutíma og ætlaði aldrei að finna út úr því hvernig ég fyndi lest upp á gistiheimiliðFrown Gekk á milli upplýsingabása og misskildi greinilega allar leiðbeiningarErrm...og hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að tala bara ensku! En allt kom þetta nú á endanum og ég komst upp í lestina.

Þegar á Altona brautarstöðina kom tók ekki mikið skárra við, ég gekk í nokkra hringi og fann bara Goethe „Allee“ en ekki Goethe „Strasse“! Hafði loks rænu á að hringja bara í gistiheimilið og fá leiðbeiningar. Skutlaði ég dótinu mínu þangað inn og fór svo aftur niður í bæ (og þaðan í frá voru lestarnar auðvitað ekkert mál!).

Úr lesinni fór ég á Reeperbahn til að geta nú sagt að ég hefði gengið þá frægu götu. Svona sveitalubbi eins og ég fékk nú bara hálfgerðan kjánahroll af að ganga fram hjá öllum spilavítunum og klámbúllunum og spásseraði rösklega í gegnBlush

Gekk ég svo áfram og niður á Löndunarbryggjurnar, Landungsbrücken, sem eru bryggjurnar við ána Elbu. Í dag eru þær aðallega notaðar fyrir ferjusiglingar á ánni. Ég kíkti aðeins niður í Alter Elbtunnel, sem eru göng sem grafin voru undir ána til að flytja vörur frá vöruhöfnunum yfir í verslunarhlutann. Þau leystu af hólmi endalausar ferjusiglingar þvers og kruss yfir ána. Þá var orðið töluvert vandamál að skjóta ferjunum á milli tíðra ferða stórra skipa upp og niður ána og slysahætta þó nokkur. Göngin, sem eru um 426m löng, opnuðu 7. september árið 1911 og þóttu á sínum tíma mikið tækniundur.

Þegar þarna var komið sögu var ég um það bil að ærast á kaffibindindinu og freistaðist inn á svakalega huggulegan veitingastað á bryggjunni. Þar sem klukkan var að verða sex spurði ég um leið og ég kom inn úr dyrunum hvort ennþá væri hægt að fá kaffi og köku. Þjónninn kvað já við því en sagðist bara eiga eftir tvær tegundir, og benti mér á þær. Mér leist voða vel á eplastrudel og bað um sneið og kaffi með. Þetta var mjög gott, bæði ís og rjómi með kökunni og kaffið alveg alvöru. En héðan í frá ætla ég ALLTAF að skoða matseðilinn áður en ég panta: herlegheitin kostuðu nærri 10 evrur (u.þ.b. 1.600íkr)!

Hálfa ástæðan fyrir því að ég fór þarna inn var sú að mér var skítkalt, það var hávaðarok og ekki nema 4 – 5 gráðu hiti. En inni var hlýtt og notalegt. Í hátölurum hljómaði tónlist sem ég á sjálf á diskum og það jók auðvitað á notalegheitatilfinninguna. Fyrst var Norah Jones og svo kom Michael Bublé og þegar hann söng „Home“ varð ég bara hálfmeyr og átti bágt með að halda aftur af tárunum. Svona læðist heimþráin að manni þegar mann síst varir. Upp í hugann komu margs konar minningar tengdar þessari tónlist sem ég spilaði svo oft heima á Dalvík. Veit ég að synir mínir eiga líka sínar minningar um margt af því sem ég hlustaði á, þó þeim sé það oft þvert um geð þar sem tónlistarsmekkurinn hefur nú ekki alltaf fallið sérlega vel samanWhistling

Á veggnum fyrir ofan borðið mitt hékk svo mynd af skipi, svona gamaldags Kútter eða einhverju svoleiðis og hét það „Die bunte Kuh“ sem gæti útlagst sem skjöldótta kýrin, eða bara Skjalda! Ekki minnkaði þetta nú heimilislegu áhrifin, en fyrir þá sem ekki vita er ég afskaplega hrifin af kúm og hef um árabil safnað alls kyns hlutum með myndum af þeim og þeim tengdum. Meira að segja saumað út heilan púða með mynd af kúInLove En ég komst hratt og örugglega niður á jörðina þegar ég fékk reikninginn!

Eftir að ég var komin með yl í kroppin á ný hélt ég aftur af stað og lét berast með vindinum eftir bryggjunum og alveg inn í bæ. Þegar þangað var komið var orðið dimmt og dólaði ég mér því bara um Mönckeberg Strasse, sem er ein aðalverslunargatan í bænum. Endaði svo uppi á aðalbrautarstöðinni og tók lestina heim á gistiheimili um hálf átta. Þar fékk ég mér síðustu samlokuna af nestinu sem ég hafði tekið með mér í lestina, skrifaði minnispunkta og las dálitla stund áður en ég fór að sofa.

Þetta var átta kvenna herbergi með baði og klósetti inni, sem er mjög þægilegt. Sá ég að einhverjir myndu vera í öllum rúmunum en varð lítið vör við herbergisfélagana (hafði haft rænu á að taka með mér eyrnatappa!). Þær virðast flestar hafa komið heim eftir að ég sofnaði og voru alltaf í fastasvefni þegar ég fór á fætur. Gat ég því alltaf haft mína hentisemi með snyrtinguna sem var mjög þægilegtSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband