Vorið á næsta leyti

Jæja, þá er ég nú loksins búin að koma þessari blessuðu ritgerð frá, það var löng og erfið fæðing! Nei, ég segi nú bara svona, það eina sem var erfitt var að halda sig að verki. Umfjöllunarefnið var hins vegar hið skemmtilegasta og ekkert undan því að kvarta. Að velja nokkur verk eftir skemmtilegan listamann, greina þau og fjalla um þau út frá eigin brjósti er hreint ekki slæmt SmileÉg var örugglega búin að minnast á hann áður, indjánann með þýska nafnið, Fritz Scholder. En þegar skilafrestur er langur þá er pressan ekki mikil og einhvern veginn virka ég nú bara best undir henni, því er nú ver og miður. Leiðindaeiginleiki sem treglega gengur að breyta. En nóg um það!

Það er svo sem ekki búið að vera neitt mikið um að vera hér þennan mánuðinn. Margir í burtu eins og ég hef áður minnst á og þeir sem eru á staðnum uppteknir sem aldrei fyrr í verkefnum af ýmsu tagi. Mér hefur þó tekist að narra nokkra til mín í mat annað slagið og eru allir voða glaðir að einhver skuli hafa orku og frumkvæði til þess. Það er alltaf gaman að hittast aðeins og sjá framan í aðra og þarf ekki alltaf mikið til eða að taka langan tíma. En það fer nú væntanlega að rofa til hjá flestum hvað úr hverju og hinir burtflognu að koma til baka.

Svo reyni ég að vera dugleg að lesa á þýsku og prjóna dálítið þegar ég nenni engu öðru. Ég fór í bókabúð á dögunum og keypti tvær litlar bækur um Greifswald til að reyna að fræðast meira um bæinn minn. Kannski rekst ég þar á eitthvað skemmtilegt til að deila með ykkurSmile 

Ég hef líka þó nokkuð verið að þvælast um bæinn og kanna nýjar slóðir. Er nú líka loksins, loksins búin að fjárfesta í hjóli og það er mesti munur! Þá get ég komist lengra á styttri tíma sem er voða fínt. En ég fer nú líka áfram í göngutúra og þó gaman sé að skoða nýja staði þá hefur litla þorpið Wieck alltaf sitt aðdráttarafl og dregst ég oft þangað. Það er svo lifandi skelfing krúttlegt og er líka niður við sjó og alltaf hressandi að anda að sér sjávarloftinu.

Um síðustu helgi fékk ég mér enn einn göngutúrinn þangað en í stað þess að ganga svo beint sömu leið til baka þá ákvað ég að ganga meðfram ánni. Það var mjög gaman og gekk ég langleiðina inn í miðbæ en þó ekki alveg alla leið. Beygði inn á einn af mörgum stígum sem liggja í gegnum mýrarnar og skóginn á milli árinnar og bæjarins. Þræddi svo nokkrar götur sem ég hef ekki gengið áður. Þetta voru mest íbúðagötur og gaman að kíkja inn í garðana og sjá krókusa og vetrargosa og einhver fleiri blóm sem ég þekkti ekki, gægjast upp úr moldinni og blómstra eins og þau ættur lífið að leysaSmileÁ trjám og runnum tútna svo brumknapparnir út og virðast vera að springa úr óþreyju!

Í vikunni á undan hafði ég hjólað fram hjá Praktiker, sem er svona Húsasmiðjan þeirra hérna, og þar gat að líta sumarblóm í löngum röðum og búið að stilla út öllu sem við kemur vorverkunum í garðinum. Maður finnur líka hvað það er farið að birta mikið, alveg orðið bjart fram að kvöldmat. Það koma þó ennþá kaldir dagar en ég held það hafi ekki frosið neitt að ráði í meira en tvær vikur.

Og þar sem ég er nú búin með ritgerðina þá er kominn dálítill fiðringur í mig að skreppa í einhverja smá túra hér innan lands. Á morgun legg ég af stað til Hamborgar og ætla að vera þar í þrjá daga og þaðan er svo meiningin að fara til Leipzig og vera þar fram á föstudag. Það verður væntanlega spennandi að koma á nýja staði, eins og alltaf og hlakka ég virkilega mikið til. Það ætti því að verða frá einhverju skemmtilegu að segja næst.

En nú læt ég staðar numið í bili og vona að allir heima séu við góða heilsu og láti ekki bensínverð og stjórnmálaþvaður skemma fyrir sér vorið sem framundan er! Það styttis í það, vitið þið tilW00t Kær kveðja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

Gaman að heyra hvað þú ert að gera...og að þú hefur það gott:) Knús til þín kæra bekkjarsystir.

Julius Juliusson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 00:13

2 identicon

 Þú hefur svo gott vald á fallega móðurmálinu okkar Rósa mín og þegar ég les um, hvernig þú upplifir umhverfi þitt, sé ég fyrir mér gamla daga, þegar ég fór í umhverfis göngutúra með Eddu Björk nýfædda í barnavagni um Hannover, en þá var reyndar komið vor og sumar í Þýskalandi. Við vorum alltaf tvær nýbakaðar mæður saman, og þessi tími var okkur öllum svo góður, að ég minnist alltaf þýskalands með gleði fyrir vikið.    

Steinunn P. Hafstað (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 01:02

3 identicon

 Þú hefur svo gott vald á fallega móðurmálinu okkar Rósa mín og þegar ég les um, hvernig þú upplifir umhverfi þitt, sé ég fyrir mér gamla daga, þegar ég fór í umhverfis göngutúra með Eddu Björk nýfædda í barnavagni um Hannover, en þá var reyndar komið vor og sumar í Þýskalandi. Við vorum alltaf tvær nýbakaðar mæður saman, og þessi tími var okkur öllum svo góður, að ég minnist alltaf þýskalands með gleði fyrir vikið.    

Steinunn P. Hafstað (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 01:09

4 identicon

Til hamingju með að ver loks búin með ritgerðina;) Knús frá okkur og góða skemmtun á ferðalaginu;)

Lára (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 12:17

5 identicon

Takk fyrir falleg orð, kæru vinir! Já, ég hef það svo sannarlega gott hér og það er ósköp gaman að finna vorið koma svona snemma :-) Og þó hefur varla verið neinn vetur hér!

Rósa María Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband