Febrúar

Nú er febrúar að renna sitt skeið og hefur gert það býsna hratt. Ég er dálítið óánægð með sjálfa mig, hvað ég er ódugleg orðin að skrifa hér og finnst ég vera að svíkjast umBlush

Febrúar og mars eru svokölluð „Vorlesungsfreie Zeit“ í skólanum. Það þýðir að það er engin kennsla á þessum tíma en hins vegar eru próf og ef fólk þarf að skrifa ritgerðir er þessi tími hugsaður til þess. Þannig að formlega séð er önninni í raun ekki lokið fyrr en í lok mars. Skilafrestir á verkefnum eru þá oftast á bilinu frá 15. – 31. mars.

Ég þurfti ekki að taka nein próf en þarf að skrifa eina ritgerð og er skiladagur hennar 15. mars. Í byrjun mánaðar var ég með háar hugmyndir um að klára hana snemma en þau fögru markmið fóru fljótt fyrir lítið og byrjaði ég ekki af alvöru á henni fyrr en fyrir rúmri viku.Blush 

Það var mikið um að vera í kringum mig því eins og ég hef áður minnst á þá voru margir að fara heim. Það var því mikið um kveðjupartí og bara samverustundir almennt. Það er dálítið sérstök stemmning sem myndast í hóp sem er svona mikið saman í þetta stuttan tíma. Þetta fólk þjappar sér saman, verður dálítið eins og önnur fjölskylda manns og leitar hvert til annars þegar eitthvað bjátar á. Svo veit fólk ekkert hvort það kemur til með að sjást aftur yfir höfuð þó að ýmis fögur fyrirheit séu þar um. Þessar fyrstu tvær vikur í febrúar báru því með sér margar tilfinningaþrungnar stundir og fór einbeitingin kannski dálítið úr skorðum fyrir vikið.En maður kemur í manns stað og svo eru vissulega ekki allir farnir! Og ég þekki  nú líka fleiri en bara þá sem ég hef átt allra mestu samskiptin við og í þeim hópi eru líka fínir krakkar sem ég kem örugglega til með að hitta meira.

Ég fór til dæmis á miðvikudagskvöldið var á krá með nokkrum krökkum sem ég hef ekki átt mjög mikil samskipti við hingað til en eru ekkert nema elskulegheitin. Það var mjög skemmtilegt kvöld og alltaf um nóg að spjalla þegar saman kemur fólk af margs konar þjóðerni og í mismunandi námiSmile Ég hef því ekki miklar áhyggjur af að ég sökkvi niður í einhvern einmanaleika eða verði afskipt, síður en svo!

Febrúar er svo auðvitað alltaf uppáhaldsmánuður því þá á ég jú afmæliW00t Á afmælisdaginn, á föstudaginn var, vaknaði ég fremur snemma og tók því bara rólega um morguninn. Þvoði smá þvott og tók til og var svo meira og minna við tölvuna að skoða afmæliskveðjur sem streymdu inn á fésbókina úr öllum áttum! Um hádegisbilið hringdu svo Lára mágkona og mamma í mig á skype og sungu fyrir mig afmælissönginnHeartSpjölluðum við saman dágóðastund og það var mjög notalegt!

Svo fór ég í búð og keypti inn fyrir bakstur. Bakaði skúffuköku og bolludagsbollur, sem mislukkuðust reyndar, hefuðu sig nánast ekkert og urðu bara litlar og harðarFrown  En þær voru góðar á bragðið með sultu og rjóma og glassúr!

Ég hafði boðið nokkrum krökkum í kaffi til mín en það komust ekki nema þrjár stelpur því hinir voru allir uppteknir í prófum eða vinnu. En þeir komu svo hins vegar með mér á veitingastað um kvöldið og áttum við mjög skemmtilegt kvöld saman þar og sátum lengi. Ég kveikti ekki á perunni fyrr en eftir um það bil klukkutíma setu að þetta voru allt saman læknanemar! Koma þau úr ýmsum áttum: tvær stelpur frá Noregi, ein frá Eistlandi, ein frá Þýskalandi og tveir strákar, annar pólskur og hinn tékkneskur. Þetta var dálítið skondið og bauð upp á ýmislegt grínJoyful Ég hafði á orði að mér fyndist ég mjög örugg í þessum hópi ef eitthvað kæmi nú upp áWink 

Í fyrradag, laugardag, fór ég svo með þessum tveimur ágætu piltum og einni pólskri stelpu í viðbót í dálítinn skreppitúr til tveggja borga sem ég hef ekki séð áður. Þetta voru Schwerin, sem er höfuðborg Mecklenburg- Vorpommernríkis, og Wismar sem er mjög gömul borg með afar fallegan gamlan miðbæ sem er á Heimsminjaskrá UNESCO (eins og Stralsund, sem er hér rétt fyrir norðan mig!). Það var tæpra tveggja tíma keyrsla til Schwerin og svo um tuttugu mínútur þaðan til Wismar þannig að það hentaði ágætlega að taka þessar tvær svona saman.

Þetta var mjög skemmtileg ferð og gaman að skoða þessar gömlu og merku borgir. Wismar var til dæmis blómleg Hansa-borg á 13. og 14. öld og státar af einu stærsta markaðstorgi í Þýskalandi. Schwerin er líka falleg borg og á sína merku sögu sem ég ætla nú ekkert að reyna að rekja hér. Þar er ægifagur kastali sem stendur á dálítilli eyju í vatni sem heitir Schwereiner See (Schwerinvatn). Þennan kastala skoðuðum við svo og garðinn í kringum hann, sem er mjög fallegur. Fyrstu sagnir um virki á þesum stað eru frá árinu 973. Í gegnum aldirnar er kastalinn svo búinn að taka ýmsum breytingum og hefur verið endurbyggður margsinnis. Elstu hlutar núverandi kastala munu vera frá 16. öld. Núna hýsir hann ríkisþing Mecklenburg-Vorpommern og einnig hefur hluti hans verið gerður að safni sem er mjög fallegt og gaman að skoða.Heim vorum við svo komin um sexleytið og átti ég svo bara rólegt kvöld heima við sem var kærkomið eftir tvo viðburðaríka daga.

Í gær var ég svo að reyna að koma mér aftur í gírinn við ritgerðarskrifin en gekk hálf hægt. Lét svo freistast þegar ferðafélagarnir frá laugardeginum buðu mér með sér í göngutúr. Fórum við út í Wieck, það fallega litla þorp sem ég fæ aldrei leið á að labba um. Veðrið var dásamlega fallegt og gengum við bara um og nutum útiverunnar og þess sem fyrir augu bar. Fengum okkur svo kaffi í „Alter Schule“ sem er voða krúttlegt kaffihús í gömlu skólahúsi.

Nú er svo bara að bretta ermarnar enn lengra upp, spýta í lófana og reyna að drífa ritgerðina af svo ég nái að eiga dálítið frí. Kær kveðja þangað til næstSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband