Salzburg III

Að morgni 29. Desember var ég ekkert upprifnari en daginn áður og leyfði ég mér að sofa þokkalega lengi. Var því ekki komin út úr húsi fyrr en upp úr tíu eins og daginn áður.

Gekk ég sem leið lá eins og fyrsta daginn beint niður að ánni, yfir Makartsteg-brúna og niður í miðbæ. Ef horft er af brúnni má næst henni á norðurbakka árinnar sjá fallega byggingu, fölbleika að lit. Þetta er Sacher hótelið sem Sachertertan fræga dregur nafn sitt af (það er að vísu annað Sacher hótel í Vín og ég er reyndar ekki viss um á hvorum staðnum kakan sú varð upphaflega til).

Á handriði brúarinnar er einhvers konar hænsnanet og í það eru festir a.m.k. nokkur hundruð hengilásar. Þegar grannt er skoðað er á lásana skrifað eða í þá grafin nöfn, og gjarnan hjörtu með, og dagsetningar. Það virðist sem sagt vera vinsælt meðal elskenda að hengja þarna lása sem einhvers konar tákn um tryggðabönd. Af hverju veit ég ekki en þetta er skemmtileg sjónHeart 

Gekk ég nú enn einu sinni um bæinn og kíkti aðeins í búðir. Var ég eitthvað búin að skoða áður og nú hafði ég gert upp hug minn um örfá hluti sem mig langaði til að kaupa. Tók ég líka mikið af myndum.

Þennan dag var ég líka búin að ákveða að fara upp á Mönchberg-hæðina og skoða Hohensalzburg virkið sem er eitt helsta og stærsta kennileiti borgarinnar. Áður en upp á hæðina var haldið kom ég þó við hjá kirkju heilags Péturs og skoðaði kirkjugarðinn þar, sem er afar fallegur. Ekki fór ég þó inn í kirkjuna sjálfa. Í þessum kirkjugarði, sem er sá elsti í Salzburg, eru grafnir margir frægir menn, eins og til dæmis tónskáldið Michael Haydn. Áður en ég lagði svo í hann upp á hæðina fór ég aðeins í Katacomburnar sem eru einhvers konar bænhús grafin út úr berginu. Ekki er vitað nákvæmlega hvað þær eru gamlar en þær eru taldar vera frá frumkristni (ég fann eitthvað um að þær hefðu alla vega verið þarna um árið 477).

Svo lagði ég á brattann upp hæðina. Þarna er líka er togbraut sem hægt er að fara upp með en ég sparaði mér þær þrjár Evrur sem munaði á aðgangseyrinum að virkinu og fór bara upp Festungsgasse á mínum tveimur jafnfljótu sem höfðu ekkert nema gott af æfingunniWink Og þegar upp er komið er margs að njóta. Í virkinu fær maður hljóðleiðsögn sem leiðir mann um helstu hluta þess og er það mjög gaman. Mig minnir að það tæki rúma klukkustund. Þar eru meðal annars til sýnis líkön af virkishæðinni og virkinu sjálfu á hinum ýmsu tímaskeiðum í byggingarsögu þess. Allt frá því að þarna er byggt lítið, einfalt virki árið 1077 sem smá bætist við næstu aldirnar þangað til að það er komið í þá mynd sem það er í í dag en það var einhvern tíma á 17. eða 18. öld.

Í viðbót við alla þá skemmtilegu hluti sem innan veggja er að sjá er svo auðvitað útsýnið sem er alveg frábært! Ég gekk um og horfði í allar áttir og naut þessi dágóða stund. Á Kuhenburg Bastion, sem virkar eins og risastórar svalir og veita einna fallegasta útsýnið, eða yfir sjálfa miðborgina, varð ég vitni að bónorði! Ég sá allt í einu útundan mér að maður kraup á kné frammi fyrir konu og af svip hennar að dæma fór ekkert á milli mála hvað var að gerastSmile Stóðu þau svo lengi lengi í þéttu faðmlagi. Það er vel skiljanlegt að fólk kjósi þennan stað fyrir slíka stund því þetta er bara alveg magnað! Eins og að standa mitt í ævintýri í þessu ofurfagra umhverfi hefur óneitanlega sterk áhrif á mann og ekki varð stemmningin verri við þettaInLove 

Þarna uppi í virkinu eru líka veitingastaðir og minjagripasala og enn nokkrir kofar þar sem selt var Glühwein og smá snarl í jólamarkaðsstíl. Ekki keypti ég nú neitt og það var orðið það áliðið að flestir höfðu lokað þegar ég var búin að horfa nægju mína, eða ætti ég frekar að segja þegar ég gat ekki horft mikið lengur þar sem það var orðið dimmt. Ég náði þó í skottið á einum náunga og gat keypt mér síðasta Glühweinbollann í þessu jólafríi! Sötraði ég hann í rólegheitum og virti fyrir mér jólaljósadýrðina sem við tók þegar dagsbirtunni sleppti.Rölti ég svo til baka og fór einhverjar krókaleiðir í gegnum ljósum prýddan jólabæinn áður en ég hélt heim á leið.

Þetta var síðasti dagurinn minn í Salzburg og það var dálítið erfitt að sleppa hendi, eða öllu frekar augum af þessari fallegu borg. Það var ýmislegt sem ég gerði ekki eins og til dæmis að skoða Mozartsafnið og allt sem tónskáldinu góða viðkemur. Ekki fór ég heldur á nein önnur söfn niðri í bænum og verður það allt að bíða næstu heimsóknar, en það er spurning hvenær hún verður farin!

Þetta voru alveg óendanlega skemmtilegir dagar sem ég hafði átt þarna sem og undangengin vika á flakkinu mínu öllu. Um kvöldið komu svo vinkonan og fjölskylda til baka og sátum við og spjölluðum fram eftir kvöldi á jólaskreyttu og notalegu heimili. Morguninn eftir fór ég á fætur um hálf átta og þegar ég kom fram í eldhús var gestgjafinn búinn að búa til dásamlegan morgunverð handa mér. Að honum loknum kvaddi ég með söknuði og rölti niður á brautarstöð þaðan sem lestin mín fór af stað klukkan 9:02.

Ég þurfti aðeins að skipta um lest tvisvar á allri þessari löngu heimleið og fékk sem betur fer góðan tíma til þess: 45 mínútur í München og rétt um klukkutíma í Berlín. Til Greifswald var ég svo komin um tuttugu mínútur fyrir níu um kvöldið og var bara hreint ekki sem verst að koma heim. Ég hafði kviðið pínulítið fyrir því að fyllast einhverri tómleikatilfinningu en það var bara ágætt að slaka aðeins á. Ég hafði jú gengið óhemju mikið undanfarna daga og var vissulega dálítið þreytt. Og þó að maður sitji nú bara á rassinum í lestunum þá eru slík ferðalög líka þreytandi, ég tala nú ekki um þegar maður er hálfan sólarhringinn á ferðinni!

Ég sofnaði því vel og snemma um köldið, himinsæl með ótrúlegt jólaævintýri sem örugglega á eftir að geymast í minni svo lengi sem ég lifi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband