16.2.2012 | 10:48
Salzburg II
Næsta morgun fór ég mér að engu óðslega og fór ekki út fyrr en um tíuleytið. Gekk ég fyrst niður í átt að ánni en hélt mig þó norðan hennar, sömu megin og brautarstöðin er. Gekk framhjá hinni fögru Mirabell-höll sem ég sá þá að ég hafði líka gengið framhjá á heimleiðinni kvöldið áður. En þá tók ég ekki eftir garðinum sem er fyrir framan hana. Hann er mjög fallegur með blómabeðum og fallega tilklipptum runnum sem auðvitað nutu sín nú ekki mikið þarna í lok desember.
Ég kíkti líka inn í tvær kirkjur, Andrésarkirkjuna og Þrenningarkirkjuna. Báðar voða fallegar, Þrenningarkirkjan þó sýnu íburðarmeiri og ekki hægt að ganga inn um hana alla heldur bara horfa úr anddyrinu. Áfram hélt ég svo niður að Linzer Gasse, sem er verslunargata, og dólaði ég þar um einhverja stund.
Svo fór ég upp á Kapusínahæðina (Kapuzinerberg) en þar er munkaklaustur og á móti því er hús þar sem rithöfundurinn Stefan Zweig bjó um hríð. Við húsið er dálítið minnismerki um hann. Gekk ég um hæðina dágóða stund og naut útsýnisins yfir borgina á vetrarsólinni. Ekki amalegt það
Þegar ég kom aftur niður af hæðinni fann ég mér lítið veitingahús í hálfgerðu bakhúsi við Linzer Gasse og fékk mér þar eitthvað sem hét Knödelgeheimnis (Knödel-leyndarmál). Ofan á vænum haug af súrkáli, sem var reyndar bara þokkalega gott, voru Knödelbollur með mismunandi kjötfyllingum. Ég held að ég hafi örugglega einhvern tíma minnst á Knödel áður en það eru einhvers konar soðnar brauðbollur sem hægt er að fá með alls konar mismunandi fyllingum, sætum, kjöt- og alla vega. Einnig eru slíkar bollur án fyllingar oft hafðar sem meðlæti með mat. Með þessu drakk ég svo einhvern bjór úr nágrenninu, ljósan reyndar, en hann var samt alveg þokkalegur! Þetta bragðaðist alveg hreint prýðilega og veitingastaðurinn var hinn notalegasti.
Eftir matinn hélt ég svo áfram ferð minni og tók nú stefnuna yfir ána og niður í miðbæinn. Þar gekk ég meira um og fór m.a. alveg upp að þverhníptum klettum Mönchberg-hæðarinnar sem gnæfir yfir bænum. Rétt undir þeim er kirkja heilags Blasíusar og fór ég þar inn. Eins og í þrenningarkirkjunni er bara hægt að kíkja úr anddyrinu. Hún er mjög dimm og sérkennileg og dálítið gotneskt andrúmsloft þar inni.
Svo fór ég fram hjá hestabaðinu (Pferdeschwemme) sem er býsna sérstakt fyrirbæri. Það lét erkibiskupinn byggja árið 1695 og af því má ráða hve mikils virði hestarnir hans voru honum. Í miðjunni er stytta af hesti sem verið er að temja og var hún eins og aðrar styttur bæjarins undir heilmiklum glerhjúpi. Svo hélt ég áfram eftir Hofstallgasse, sem nefnd er eftir hesthúsum hirðarinnar, fram hjá háskólabókasafninu og Mozarthúsinu sem byggt var árið 2006. Þar er líka Grosses Festspielhaus sem byggt var á árunum 1956 60. Risastór tónleikasalurinn þar er höggvinn inn í Mönchberg-klettahæðina og voru gömlu hesthúsin endurbyggð sem anddyri og forsalir tónleikahallarinnar.
Ég hlóð svo eldsneytisgeyma mína á kaffihúsi sem er í sama húsi og háskólabókasafnið, fékk mér kaffi og súkkulaðiköku með rjóma og kirsuberjafyllingu og hvíldi lúin bein. En þau áttu nú eftir að verða lúnari þennan daginn! Eftir endurnæringuna lá leiðin í Dómkirkjuna. Hún er alveg dásamlegt listaverk og dvaldist mér dálengi þar inni. Settist niður og glápti opinmynnt eins og sveitamaður (sem ég jú er!) og drakk í mig alla dýrðina. Bara myndirnar í loftinu eru alveg kafli út af fyrir sig.
Til að koma mér niður á jörðina aftur eftir himneska fegurð kirkjunnar kíkti ég aðeins í nokkrar búðir áður en ég hélt að Nútímalistasafninu. Þar voru í gangi sýningar á verkum ýmissa frægra listamanna, til að mynda Emil Nolde og Oskar Kokoschka. Einnig sýning á verkum eftir Evan Penny sem þekktastur er fyrir óhugnanlega eðlilegar mannamyndir, skúlptúra. Mjög sérstakt að skoða fólkið hans. Dvaldi ég á safninu í um tvo tíma og naut þess í botn. Út af safninu kom ég ekki fyrr en um áttaleytið um kvöldið og lá þá leiðin beint heim í vinkonuhúsið og var þar slappað vel af.
Meirihluti fjölskyldunnar hafði skroppið í burtu og var því rólegt í kotinu. Ég var ótrúlega þreytt og dösuð í skrokknum og tók góða stund í að teygja á vöðvum og liðka liðamót áður en haldið var í háttinn.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.