8.2.2012 | 22:37
Aftur í gang!
Tíminn flýgur og flýgur, ég gleymi mér smá stund og fyrr en varði voru liðnar þrjár vikur frá því að ég setti síðasta pistil hér inn! Þá ætlaði ég að fara að halda áfram en það var búið að vera hálfgert vesen á tölvunni minni svo ég fór með hana í viðgerð (miðvikudaginn 1. febrúar) og fékk hana ekki aftur fyrr en í gær! Ég ætlaði auðvitað að vera löngu búin að klára ferðasöguna úr jólafríinu en svona er þetta. Janúar er búinn að vera ógurlega fljótur að líða og alltaf drífur nóg á dagana hér.
Fyrstu vikuna eða svo var ég þó eitthvað hálf niðurdregin og ómöguleg. Ég held að það hafi aðallega verið spennufall eftir öll skemmtilegu ævintýrin um jólin, sem blandaðist svo saman við söknuðinn eftir fólkinu mínu, sem auðvitað var alltaf til staðar í hjartanu. Þeim tilfinningum held ég að ég hafi einfaldlega skotið á frest og hafði ég nú loksins tíma til að velta mér upp úr þeim. En allt gekk það nú yfir, enda ekki tími til að velta sér of lengi!
19. Janúar var þýskupróf og viku seinna var ég með kynningu í þriðja faginu mínu en það fjallar um frumbyggja Norður-Ameríku í nútímanum, hvernig þeir takast á við sína dapurlegu sögu og fortíð og hvernig þeir lifa í nútímanum og segja sína sögu. Ég valdi að fjalla um myndlistarmann, Fritz Scholder að nafni, sem var reyndar aðeins Indjáni að einum fjórða en var samt alltaf talinn Indjáni í listsköpun sinni. Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að kynna sér hans sögu og feril og held ég að kynningin hafi bara gengið þokkalega.
Svo þurfti að hnýta ýmsa lausa enda, safna saman pappírum varðandi nám og námsárangur og fara með þá í Prüfungsamtið sem sendir þá svo heim til Íslands. Það var líka mikið um alls konar hittinga og heimsóknir þar sem styttast fór í heimför þeirra sem ætluðu bara að vera eina önn.
Ég hélt dálítið íslenskt kvöld fyrir "krakkana mína" þriðjudaginn 31. janúar. Eldaði ég kjötsúpu og svo átti ég einhverja ögn af harðfiski sem féll mun betur í kramið en ég átti von á! Lambakjötið keypti ég í heilsubúðinni í miðbænum og borgaði formúgu fyrir! En það var mjög gott þó ég fyndi nú alveg að það var ekki íslenskt. Það var eins og í súpunni sem ég fékk hjá honum Geira í haust, lífrænt ræktað þýskt.
Og súpan vakti mikla lukku, eistneskur vinur minn réði sér varla fyrir kæti þegar hann heyrði að það væri lambakjöt í henni, sagði það uppáhalds kjötið sitt, mætti fyrstur á staðinn og fékk sér þrisvar á diskinn Það er sem sagt líka borðað lambakjöt í Eistlandi! Norsk vinkona, sem borðar ekki kjöt, fékk sér bara grænmetið og var svo hrifin að hún fékk sér líka þrisvar á diskinn. Fleiri luku lofsorði á herlegheitin og var ég auðvitað himinsæl með það
Svo hafði ég bakað gulrótarköku og gert ananasostaköku og hafði þessar tvær í eftirmat og féllu þær líka vel í kramið. Endaði svo kvöldið á að hita súkkulaði og skvetta smá Stroh úti í það. Það var alveg punkturinn yfir iið og voru syfjuleg sælubros á andlitum sem þurftu sem betur fer ekki að fara langt, allir búa í sama húsi og ég nema tvö sem búa í næstu götu.
Með súkkulaðinu og Shrohinu lét ég fylgja sögur af íslenskum útilegum á íslenskum sumrum sem ekki eru alltaf mjög heit, þannig að fólk norpar í lopapeysum og ullarteppum á kvöldin og drekkur svona drykki til að hlýja sér! Þótti þeim það frekar fyndið. Ég vona þó að ég hafi ekki gert þau afhuga því að koma til Íslands
Ég má ekki gleyma að segja frá því að snemma í mánuðinum fór ég ásamt vinahópnum á Café Koeppen, sem er svona nokkurs konar Rósenberg Greifswalds, kaffihús þar sem reglulega er boðið upp á tónleika af ýmsu tagi. Það var svolítið sniðugt að franska vinkonan mín hafði sent skilaboð á facebook rétt fyrir áramót um það hvort einhverjir hefðu áhuga á að fara með henni á tónleika þar og sendi með hlekk inn á youtube með lagbút með viðkomandi tónlistarmanni. Ég sá strax að þarna var Íslendingur á ferð en hún hafði ekki haft hugmynd um það!
Þett var sem sagt hann Hjalti úr hljómsveitinni Múgsefjun. Það var troðfullt hús og mjög gaman að hlust á hann, einan með gítarinn sem hann kunni greinlega þokkaleg vel á Auðvitað gat ég ekki stillt mig um að fara og trufla blessaðan manninn aðeins í hléinu og tók hann því ofur ljúflega. Ég átti svo eftir að hitt hann aftur í strætó einn daginn og á öðrum tónleikum á Koeppen helgina á eftir. Svona er nú heimurinn lítill!
Nú er ég að hugsa um að láta gott heita í bili og fara að skrifa upp Salzburgarpistla! Ég vona að þið fyrirgefið mér að ég skuli flakka svona aftur og fram í tíma og að það komi ekki að sök.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.