12.1.2012 | 15:03
Annar í jólum í Budweis
Eftir morgunmat þennan daginn var áfram setið og spjallað í rólegheitum og það var sannarlega enginn skortur á umræðuefnum hjá okkur. Endalaust verið að bera saman ýmsa hluti varðandi menningu Íslands og Tékklands, líf fólks fyrr og nú á báðum stöðum og einnig líf fólks í Tékklandi fyrir, undir og eftir kommúnistastjórnina. Sannarlega af nógu að taka og það er ansi margt og misjafnt sem kynslóð þeirra Marie og Jans hefur upplifað og gengið í gegnum.
Um hádegisbilið stakk Jan upp á því að við færum í göngutúr upp á lítið fjall sem heitir Kýrfjall og er í um hálftíma akstur frá Vcelna. Þessu var slegið föstu og eftir að hafa borðað kanínuna, sem bragðaðist afskaplega vel, elduð með rauðvíni og beikoni, var lagt af stað. Að sjálfsögðu var hundurinn Bert með í för og vissi hann greinilega hvað í vændum var því hann var alveg að springa úr spenningi á leiðinni
Og sá var nú í essinu sínu, hljóp um allt eins og brjálaður og naut þess skemmtilegasta í hundalífinu, að hlaupa frjáls um, til hins ýtrasta! Það var mjög gaman að ganga upp almennilegar brekkur og hreyfingin kærkomin eftir makindalíf undangenginna daga.
Á fjallstoppnum væri ekkert útsýni fyrir öllum trjánum, ef ekki væri þar turn, nokkurra tuga metra hátt stálgrindavirki. Við Magda og Jan klifruðum upp en Marie beið niðri með Bert því tröppurnar eru leiðinlegt víravirki sem hefði meitt loppurnar hans. En ósköp átti hann nú bágt að mega ekki fara með okkur!
Þarna uppi var hið ágætasta útsýni yfir þetta fallega land þó að veðrið væri kannski ekki alveg upp á það besta, fremur skýjað og þungbúið. En þarna sást þó vítt í allar áttir og auðvelt að ímynda sér hvernig það væri að vera þarna í björtu og fallegu veðri. Vorum við rúmlega einn og hálfan tíma á göngu og naut ég þess alveg í botn að reyna aðeins á skrokkinn.
Í bakaleiðinni fórum við aðeins niður í miðbæ Budweis til að ég fengi nú aðeins að sjá eitthvað af borginni. Þar hittum við líka bróður Mögdu og mágkonu aftur því þau ákváðu að fá sér smá göngu með okkur. Á Ráðhústorginu, sem er eitt hið stærsta í Tékklandi, og þó víðar væri leitað, voru enn nokkrir jólamarkaðskofar eftir en þó aðallega þeir sem seldu glühwein og eitthvað matarkyns. Þarna í miðbænum gengum við um í tæpa klukkustund og fengum okkur heita drykki og eplastrudel að maula á röltinu. Í þetta skiptið breytti ég til og fékk mér púns sem var ekki síðra en glühwein. Húsin í kringum torgið eru flestöll afskaplega snotur og mjög fallegur heildarsvipur á öllu í kringum torgið.
Þegar heim var komið borðuðum við afganginn af kanínunni og eftir matinn sýndi ég þeim restina af myndunum mínum. Svo var enn meira spjallað því nú nálgaðist kveðjustund þar sem ég ætlaði að leggja af stað til Salzburgar í Austurríki morguninn eftir.
Fannst mér þessir dagar hafa liðið allt of hratt og það var strax komin saknaðartilfinning í hjartað. Var mikið um það rætt að ég þyrfti að koma aftur og þá að sumri til svo ég gæti séð öll ávaxtatrén í garðinum, og auðvitað garðinn sjálfan, í blóma. Það gæti ég svo sannarlega hugsað mér og mallar ýmislegt í kollinum Teygðist úr spjallinu og var farið fremur seint í háttinn.
Þakklátar hugsanir svifu um kollinn síðustu kvöldstundina hjá þessu indæla fólki svo og gleði yfir þeirri ljúfu lífsreynslu sem þessir dagar höfðu verið. Morguninn eftir fylgdi svo öll fjölskyldan mér á lestarstöðina. Kveðjustundin var tilfinningaþrungin og fannst mér ég ekki geta þakkað nógsamlega fyrir mig.
Lestin mín lagði svo af stað klukkan rúmlega tíu en Salzburg og hennar töfrar verða svo efni næstu pistla.Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.