Jóladagur í Budweis

Á jóladagsmorgun var sofið fram yfir níu og morgunmatur borðaður í rólegheitunum. Ég sýndi fjölskyldunni nokkrar af þeim myndum sem ég hafði tekið með mér á minniskubbi. Þetta voru fjölskyldumyndirnar mínar frá síðustu árum í bland við ferðamyndir frá Íslandi. Magda var búin að sjá eitthvað af þeim myndum hjá mér og hafði beðið mig um að koma með þær. Ég reyndi að útskýra Íslandsmyndirnar eins vel og ég gat og segja um það bil hvar á landinu þetta eða hitt væri og virtust allir hafa gaman af. Í hádeginu fengum við okkur svo afganginn af súpunni frá gærdeginum, því þennan dag átti húsmóðirin að gera sem minnst og fannst mér það prýðileg hugmynd. Svo eru súpur líka alltaf bestar daginn eftirSmile

Eftir hádegið var svo farið í um 15 mínútna bíltúr að nálægum bæ sem heitir Cesky Krumlov. Þessi bær er á Heimsminjaskrá Unesco og er algjört listaverk. Hann stendur við bugðu á ánni Vltava (Moldau) og á klettahæð inni í skeifu bugðunnar, ef svo má að orði komast, stendur kastali. Var hann byggður á síðari hluta 13. aldar og fór þorpið að byggjast upp úr því. Meiri hluti húsanna eru frá 14. til 17. öld og þarna er mikið af óhemju fallegum húsum og bæjarmyndin býsna heilsteypt. Helstu byggingarstílar eru gotneskur, endurreisnar- og barrok.Það er nánast eins og að ganga inn í fagurlega myndskreytta barnabók að koma þarna, það er næstum óraunverulegtInLove

Og þó þorpið sé ekki stórt þá er kastalinn sá annar stærsti í Tékklandi á eftir Prag-kastala. Þarna röltum við um í rúma tvo tíma, settumst svo inn á litla krá og fengum okkur glühwein, eplastrudel og bláberjaknödel. DásamlegtSmile Það var þó fátt annað opið en stöku veitingahús og minjagripaverslanir þar sem þetta var  jú á jóladag.

Þegar dimma tók fórum við svo af stað til baka. Ekki fórum við þó beint heim heldur byrjuðum við á því að koma við í litlu húsi sem stendur við hlið kirkjunnar í Velesin. Þar voru til sýnis Betlehemsfjárhús (ef einhver veit um almennilega þýðingu á hugtakinu „Nativity Set“ þá þætti mér vænt um að heyra af því) af öllum stærðum og gerðum og úr öllu mögulegu og ómögulegu efni.

Það minnsta var í hálfri heslihnetuskel og það stærsta var nokkrir fermetrar á stærð! Sum voru úr pappír eða pappa, eins og ýmislegt gamalt jólaskraut sem ég hef séð. Önnur voru úr leir, eldspýtum, piparkökum, trölladeigi, tré, prjónuð, hekluð og ég veit ekki hvað! Það allra flottasta var svo þetta stóra en það var í kjallara hússins og þakti nokkurra fermetra stórt borð.

Þar var reyndar meira á ferðinni en bara Betlehemsfjárhús. Þetta var eiginlega heil sveit með vínakri, útihúsum, tækjum og tólum og fólki við hin ýmsu störf. Fólkið var skorið út úr tré og dýrin sömu leiðis. Þarna var verið að brugga vín í brugghúsi, plægja akra, fleyta trjábolum niður á bjarga kú út úr brennandi fjósi og slökkviliðið að berjast við eldinn, og margt, margt fleira um að vera. Hvert einasta smáatriði var svo nostursamlega unnið að unun var að skoðaInLove.

Það makalausa er að þetta er allt verk eins manns, 47 ára gamals bónda úr nágrenninu, þriggja barna föður sem rekur stórt bú! Ég get ekki byrjað að ímynda mér vinnustundafjöldann á bak við þetta dásamlega listaverk. Þetta er búið að vera til sýnis á aðventunni í einhver ár og það besta er að hann skiptir alltaf stórum hluta út á hverju ári og setur inn nýtt!

„Fólkið“ ku svo bera svip vina og nágranna handverksmannsins góða sem og þekkts fólks úr samfélaginu. Eftir að hafa skoðað þessi herlegheit lá leiðin næst í heimsókn til einnar af föðursystrum Jans, þeirrar sömu og syngur í kirkjukórnum. Þangað komu líka hinar þrjár sem við höfðum hitt kvöldið áður. Þarna var sest að kaffiborði og borið fram smurt brauð og ókjörin öll af smákökum og hefði ég allt eins getað verið á hvaða íslensku sveitaheimili sem var.

Sat fólkið og spjallaði heillengi. Mér hefði alveg nægt að sitja bara og maula kökur og láta mér líða vel án þess að skilja það sem fram fór en Magda blessunin var dugleg að þýða fyrir mig í lágum hljóðum svo ég held að fátt hafi farið fram hjá mér þegar upp var staðið.

Gestgjafinn Eva talaði líka dálitla þýsku og gátum við aðeins skipst á orðum. Klukkan var farin að ganga átta þegar við kvöddum þessar elskulegu konur og héldum heim. Eitthvað var svo kroppað í afganginn af karfanum þó enginn væri neitt ýkja svangur eftir trakteringarnar hjá Evu.

Marie spurði mig svo hvað mig langaði til að borða daginn eftir og gaf mér nokkra valkosti. Einn þeirra var kanína og þar sem ég hafði aldrei bragðað slíka skepnu valdi ég hana.

Svo sátum við og röbbuðum saman og ég sýndi eitthvað meira af myndum áður en haldið var í háttinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband