Aðfangadagur í Budweis

Að morgni aðfangadags vaknaði ég um hálf níu og þegar ég kom fram var fjölskyldan að setjast að morgunverðarborðinu. Þar var meðal annars brauðið girnilega sem Marie var að baka kvöldið áður, Hefezopf. Þetta er gerbrauð, eilítið sætt og ekki ósvipað Stollen en bara mun minna af þurrkuðu ávöxtunum í því. Sem sagt: ljómandi gottSmile

Eftir morgunmatinn hjálpaði ég Marie að skræla kartöflur og brytja þær og grænmetið sem átti að fara í kartöflusalatið sem vera skyldi aðalmeðlætið með vatnakarfanum um kvöldið. Á meðan skreyttu Madga og Jan jólatréð. Svo var hausinn af karfanum (sem er engin smásmíði, örugglega 1/3 af fiskinum!) soðinn, fiskurinn plokkaður úr og gerð súpa sem út í fara líka hrognin og lifrin úr fiskinum ásamt einhverju grænmeti. Þessi súpa var svo borðuð í hádeginu og bragðaðist mjög vel í munni þessa fiskikjafts sem ég er(fyrirgefið þið orðbragðiðBlush).

Svo var eitthvað dúllað í rólegheitum eftir hádegið en seinni partinn fórum við öll fjögur í göngutúr um þorpið, bæði til að sýna mér það og til að viðra hundinn Bert, sem er hinn mesti ljúflingur þó kraftmikill sé. Komum við til baka úr göngunni upp úr fimm og þá fór frúin að huga að eldamennskunni. Karfinn er einfaldlega skorinn í sneiðar, honum velt upp úr hveiti, eggi og raspi og steiktur á pönnu. Á undan fiskinum og kartöflusalatinu fengum við hvert sína litlu skálina með grænum baunum í og eru þær borðaðar til að tryggja góða uppskeru næsta ár. Á undan máltíðinni útdeildi húsbóndinn líka hreisturflögum af fiskinum og eiga þær að fara í peningaveskið til að tryggja að það verði ekki tómt næsta áriðSmile

Þetta eru eldgamlir siðir og finnast mér afar skemmtilegt að þeim skuli enn við haldið. Í veskinu mínu er nú ein svona flaga og verður þar (alla vega) næsta áriðSmile Og þessar flögur eru sko ekkert af minni gerðinni eða um það bil á stærð við íslenskan krónupening! Síðan var fiskurinn sjálfur snæddur og bragðaðist prýðilega. Eftir matinn komu svo bróðir Mödgu og mágkona og voru þau með okkur í pakkaopnuninni. En fyrst fengum við okkur dálítinn eftirrétt, sem var ávaxtakakan mín og kaffi með.

Það kaffi sem þarna var á borð borið kalla þau tyrkneskt kaffi en þá er einfaldlega sett kaffiduft í hvern bolla og sjóðandi vatni hellt yfir og beðið í smá stund á meðan korgurinn sjatnar (svolítið eins og könnukaffi sem ég veit að einhverjir Íslendingar kannast við). Var haft á orði að þetta væri nú makalaust fjölþjóðleg máltíð: á borðum á þessu tékkneska heimili var ensk jólakaka, bökuð í Þýskalandi af Íslendingi og drukkið tyrkneskt kaffi með! Dálítið smart, ekki satt? Wink

Svo voru pakkar opnaðir og er skemmst frá því að segja að ég var hreinlega ausin gjöfum! Var ég brátt orðin alveg orðlaus (og myndu nú einhverjir segja að dálítið þyrfti til þessWink). Er ég því ákveðin í að hætta að trúa á jólasveininn og taka í staðinn alfarið upp átrúnað á hinn tékkneska Jesichek, en það er hann sem kemur með gjafirnar þar í landi. Nafnið skilst mér að þýði einfaldlega Jesús litli.

Eftir „pakkastundina“ var svo aðeins bætt á sig kaffi og smákökum áður en haldið var til kaþólskrar messu í nærliggjandi bæ, Velesin. Þetta er fræg messa þar um slóðir og fjöldinn allur af fólki sem treðst inn í fallega litla kirkju (á þess lands mælikvarða, en ég giskaði á að hún tæki í sæti svona tvo þriðju til þrjá fjórðu af því sem Dalvíkurkirkja tekur). Það var líka þó nokkur fjöldi fólks sem stóð allan tímann.

Þetta var hin fallegasta athöfn, mikil tónlist og falleg, og einhver lestur inn á milli sem ég skildi auðvitað ekki nema tvö orð í: Jesús KristúsSmile Jú og svo auðvitað amen! En mér tókst að standa upp og signa mig á réttum stöðum og held að ég hefi ekki skorið mig mikið úr fjöldanumSmile

Á eftir var svo aðeins staldrað við og heilsað upp á fjórar föðursystur Jans sem einnig voru í messunni, en ein þeirra syngur í kórnum. Svo var haldið heim þar sem ég náði að spjalla aðeins við fjölskylduna mína á skype og var það auðvitað afskaplega indælt. Fannst mér þá í augnablik að fólkið mitt væri ekki svo langt í burtu, eftir allt saman!Heart

Í háttinn fór ég svo að nálgast eitt og leið mér ósköp vel eftir þennan yndislega dag og kvöld. Fannst mér ég vera ótrúlega lánsöm og rík að njóta allrar þessarar gestrisni hjá þessu indæla fólki og að geta um leið séð inn í stofu til minna eigin ástvina. Varð mér hugsað til þeirra tíma, fyrir daga nútíma tækni, þegar fólk sem fór til dvalar í útlöndum gat ekki látið vita af sér eða fengið fréttir að heiman nema á margra vikna eða mánaða fresti.

Það var því með gleði í hjarta yfir lánsemi minni sem ég sofnaði þessa jólanóttSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband