8.1.2012 | 13:48
Prag III
Á Þorláksmessumorgun vaknaði ég um hálf sjö við skarkalann í einum herbergisfélaganum sem þurfti að fara snemma af stað. Og sú var nú ekkert að skafa af því! Það var eins og hún væri ein í heiminum og tillitssemi ekki til í hennar orðabók Trampaði um gólfið, skurkaði heillengi í einhverjum plastumbúðum og snýtti sér eins og tóbakskarl þegar hún var rétt komin út af baðherberginu (einhverjir hefðu nú kannski bara gert það þar inni!). Ein hinna bað hana, frekar pirruð, um að hafa lægra en það hafði engin áhrif. En hún fór svo út upp úr sjö og var þá friður eftir það.
Ég fór svo fyrst fram úr um hálf níu og þegar ég kom út af baðherberginu voru hinar allar vaknaðar og töluðu um hávaðann um morguninn. Ég gekk frá farangrinum mínum og fékk að setja hann í geymslu í afgreiðslunni. Dreif mig svo út og fann mér fljótt kaffihús þar sem ég fékk mér morgunmat þar sem ég hafði alveg gleymt að hugsa fyrir honum daginn áður. Tölti ég svo niður í bæ, eina ferðina enn. Núna var ég með áætlun, í fyrsta skiptið í ferðinni Ég hafði svo sem bara ætlað að nota þennan stutta tíma í borginni til að skoða hana sjálfa og ekkert hugað að því að fara á söfn eða því um líkt. En núna var ég bara alveg búin að fá nóg af labbi í bili og langaði til að taka því aðeins rólegar.
Ég ákvað því að fara og skoða Gyðingasafnið og hverfið í kringum það. Safnið samanstendur af nokkrum sýnagógum, viðhafnarsal (Ceremonial Hall) og svo auðvitað kirkjugarðinum fræga. Ég byrjaði á Pinkas sýnagógunni en þar eru skrifuð á veggi nöfn þeirra 80.000 Gyðinga frá Bæheimi og Móravíu (=Tékklandi) sem létu lífið í útrýmingarbúðum nasista í Síðari Heimsstyrjöldinni. Það er mjög sérstakt að ganga um þetta hús, þar sem mjög lítið er um innanstokksmuni en bara letrið á veggjunum. Að ímynda sér þennan fjölda og öll þau líf og þá sögu sem að baki liggur. Í viðhafnarsalnum eru svo alls kyns hlutir sem minna á einmitt það; persónulegir munir og teikningar, bæði eftir börn og fullorðna, sem sýna lífið í búðunum og lýsa líka draumum, þrám og hugðarefnum fólksins.
Þegar ég steig út úr Pinkas og út í kirkjugarðinn hvað við ægilegur hávaði svo mér krossbrá. Þetta var væl í sírenu og velti ég eitt augnablik fyrir mér hvort þetta væru einhver áhrifahljóð tengd safninu en fannst það þó skrýtið því það var eins og þetta kæmi að utan. Sem það og gerði. Mér varð svo litið á klukkuna og þá áttaði ég mig á því hvers kyns var: klukkan var tólf og á þessari stundu var að hefjast jarðarför Vaclavs Havels. Jók þetta enn á það undarlega andrúmsloft sem á safninu ríkti. Ég skoðaði svo líka Maizel, Klaus og Spænsku sýnagógurnar. Mjög fallegar byggingar, en ég hef aldrei stigið fæti inn í sýnagógu fyrr. Ég var í rúma tvo tíma að skoða safnið.
Þegar ég var búin að því (þó maður geti varla sagt að maður sé búinn að skoða nokkurt safn, því það er alltaf hægt að skoða betur og sjá hluti á nýjan hátt) þá var klukkan að nálgast tvö og ég orðin svöng. Fann ég þá þennan ljómandi huggulega stað, sem heitir Kolkovna, og fékk mér að borða. Þarna var margt innan stokks sem minnti á bjórbrugg og á matseðlinum var meðal annars að finna Beer Menu þar sem réttir virtust eldaðir með eða upp úr bjór. Ég pantaði mér nú bara hamborgara en hann hét Beer burger og láðist mér að spyrja þjónana hvernig hann tengdist bjór. Ekki fann ég að minnsta kosti neitt bjórbragð af honum Eitt af því sem ég tók fljótt eftir þarna var að þjónarnir voru allir karlkyns og þótti mér það nú ekkert verra
Hvort það var tilviljun eða ekki verð ég bara að sjá næst þegar ég fer til Prag!
Þegar ég var búin að borða var klukkan farin að ganga þrjú og tími til kominn að rölta aftur upp á gistiheimilið til að ná í farangurinn minn. Á lestarstöðina var ég svo komin vel í tíma fyrir brottför sem var kl 16:16. Lestin sem ég ferðaðist með til Budweis var með klefum en svoleiðis lest hef ég ekki ferðast með áður. Hún var svolítið gamaldags en prýðilega þægileg. Það tók hana rétt tæpa þrjá tíma að sniglast þarna suður eftir þó vegalengdin sé varla meira en 150km. Ástæðan var sú að þessi tiltekna lest stoppaði í hverju einasta krummaskuði á leiðinni og held ég að hámarkstími á milli staða hafi verið um tíu mínútur og aðeins um tvær mínútur þegar styst var á milli!
En það fór ágætlega um mig og ég reyndi að skrifa aðeins í fínu ferðadagbókina mína. Hana hafði keypt í minjagripabúðinni við kastalann í Prag og er hún með mynd eftir tékkneska listamanninn Alphonse Mucha sem ég er mjög hrifin af (þó ekki gæfi ég mér nú tíma til að heimsækja safnið hans!). Ég hugsaði mikið um það hvernig jól ég ætti í vændum og til þessa fólks sem ég var að fara að hitta í fyrsta sinn og var svo elskulegt að bjóða mér, bláókunnugri manneskjunni, að halda jólin með sér. Mér varð líka hugsað til minnar eigin fjölskyldu, sem ég yrði svo víðs fjarri og var ekki laust við að ég yrði nú dálítið meyr við þær hugsanir. En það var ekki síst yndislegt að hugsa um þann dýrmæta fjársjóð sem það er að eiga góða og yndislega fjölskyldu til að sakna
Ég hugsað nú líka pínulítið til skötunnar sem ég fengi ekki þennan Lákann, og þó mér finnist hún voða góð þá var nú ekki verst að missa af henni
Á brautarstöðinni í Budweis tóku svo Magda og pabbi hennar, hann Jan, á móti mér Keyrðum við beint heim til þeirra en þau búa í litlu þorpi sem heitir Vcelna og er í útjaðri borgarinnar. Þar beið Marie, mamma hennar Mögdu, með matinn, ofnbakaðan þorsk og lax!
Um kvöldið var svo bara setið og spjallað um alla heima og geima, enda margs að spyrja á báða bóga. Allt í einu var bara komið miðnætti og var þá ákveðið að drífa sig í háttinn og svaf ég vel og lengi
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.