8.1.2012 | 13:25
Prag II
Fimmtudaginn 22. desember vaknaði ég ekki fyrr en að nálgast níu og fór mér að engu óðslega við að koma mér á fætur. Átti bara eitt lítið epli til að borða og ekki tók það langan tíma. Svo fór ég yfir í afgreiðsluna til að freista þess að reyna aftur við tölvuna en það gekk engu betur og gafst ég því upp.
Fór bara út í góða veðrið, sól og u.þ.b. 5°c hita, og gekk af stað sama rúnt og kvöldið áður. Í þetta sinn tók ég örlitla lykkju á leið mína og rakst þá m.a. á menn sem voru með tvö væn kör á gangstéttinni full af lifandi fiskum. Þetta var vatnakarfinn sem er jólamatur margra Tékka og sem ég vissi að ég fengi á aðfangadagskvöld. Þarna gat fólk komið og valið sér fisk, sölumennirnir veiddu þá upp úr karinu, slátruðu og gerðu að á staðnum. Þannig getur fólk vitað að fiskurinn þess sé glænýr og ferskur
Eftir að hafa fylgst með þessu og tekið myndir hélt ég áfram ferðinni og myndaði nú líka dansandi húsið ásamt fleiri fallegum húsum sem urðu á leið minni á göngunni meðfram ánni. Einnig tók ég myndir yfir á kastalahæðina og af Karlsbrúnni sem ég stansaði að sjálfsögðu aðeins við. Einnig staldraði ég við safnið um tónskáldið Smetana, sem samdi svo fallega tónlist um föðurlandið sitt, en safnið stendur rétt við brúna og stytta af honum fyrir framan húsið sem er afskaplega falleg bygging.
Svo ranglaði ég inn í bæinn og fór fljótlega á veitingastað og fékk mér að borða þar sem ég var orðin talsvert svöng þó klukkan væri aðeins rétt farin að ganga tólf. Fékk ég mér eitthvað sem merkt var á matseðlinum sem tékkneskur sérréttur. Þetta var svínagúllas í dökkri, bragðmikilli sósu og með einhverjum brauðbollum og þeim stærsta haug af rauðkáli sem ég hef séð á einum matardiski! En þetta bragðaðist bara ljómandi vel og yfirgaf ég því staðinn södd og sæl og hélt áfram fremur stefnulausu flandri mínu til klukkan eitt.
Þá var ég komin upp á Vaclavstorg (Vaclavske Namesti) en þar ætlaði ég að hitta hana Jönu vinkonu hennar Mögdu, sem ætlaði að vera svo elskuleg að lóðsa mig eitthvað um bæinn. Við höfðum ákveðið að hittast við minnismerkið um heilagan Vaclav sem er efst á torginu og beint fyrir framan Þjóðminjasafnið. Og þar gat á að líta: hundruðum, ef ekki þúsundum, kerta hafði fólk komið fyrir þar í kring til minningar um sinn ástsæla fyrrum forseta og rithöfund, Vaclav Havel sem var nýlátinn. Og víðar um borgina mátti sjá haf af kertum sem þetta og greinilegt að þarna var einlæglega syrgt.
Jana byrjaði á því að fara með mig í Lucerna höllina, sem byggð var af Vaclav Havel, afa þess sem nú er nýlátinn. Húsið var fullbyggt árið 1921 og eitt hið fyrsta af mörgum slíkum fjölnota húsum sem hýsa skyldu verslanir, veitingahús o.fl. Í Lucerna eru auk þess tóneikasalur, bíósalur og klúbbur þar sem spiluð er lifandi tónlist. Þetta er flott og glæsileg bygging og a.m.k. að einhverju leyti í Art Nouveau stíl (sem ég er mjög hrifin af!). Þar byrjuðum við á að fá okkur gott kaffi áður en við tókum lest og sporvagn upp að kastalanum.
Það er mjög gaman að skoða sig um í kringum kastalann og það var líka það eina sem ég gat gert þar sem allar byggingar þar og söfn voru lokuð vegna andláts Vaclavs Havels og undirbúnings jarðarfarar hans. Lá hann á viðhafnarbörum í húsi við hliðina á Dómkirkjunni þar sem hann var svo jarðsunginn daginn eftir. Þarna gat fólk komið og vottað honum hinstu virðingu og það gerðu margir. Ég held að ég ýki ekki þegar ég segi að biðröðin hafi verið meiri en hálfs kílómetra löng og heyrði ég svo síðar að fólk hefði beðið í nokkra klukkutíma eftir að komast að. Það var ótrúlega magnað og sérstakt andrúmsloft í borginni allri vegna andláts þessa manns. Blandaðist það svo saman við jólaösina og stemmninguna sem henni fylgdi.
En þó ég kæmist ekki inn fyrir dyr í kastalanum þá gat ég notið útsýnisins af hæðinni og þess fallega umhverfis og þeirra bygginga sem þar eru. Þarna upp frá skildu leiðir okkar Jönu. Ég lallaði í rólegheitunum um, fékk mér kaffibolla og eplastrudel á kaffihúsi og gekk svo niður gullnu götuna sem er vægast sagt sérstök með sínum hálfu húsum sem byggð eru upp við kastalavegginn. Svo gekk ég dálítið um sömu megin árinnar, alveg stefnulaust, naut þess aðeins að horfa í kringum mig og gat ekki hætt að undrast fegurð þessarar borgar.
Að endingu gekk ég svo yfir Karlsbrúna, stoppaði oft og naut útsýnisins þaðan, þó dimmt væri orðið. Inn í bæ lá svo leiðin, eina ferðina enn. Og nú kíkti ég aðeins í búðir, það var varla annað hægt en að smitast af jólaskapinu og ösinni og láta aðeins freistast Svo dólaði ég heimleiðis og nældi mér í einhvern matarbita á leiðinni.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.