Prag I

Að morgni 21. desember lagði ég af stað í ferðalag sem bera myndi mig á nýja staði og um tvö ný lönd á næstu einni og hálfri viku. Kílómetrarnir sem ég átti eftir að leggja að baki í lestarferðunum reiknast mér til að séu samanlegt u.þ.b. 1.500.

En þennan fyrsta dag byrjaði ég á að fara með lest til Berlínar, skipta þar um og taka Búdapest-lestina til Prag. Um kl 15:30 var ég svo komin alla leið. Ég gekk frá brautarstöðinni að gistiheimilinu „Miss Sophie´s“ við Melónustræti (Melounova) þar sem ég átti pantað rúm í fimm kvenna herbergi með baði. Þangað var um 10 mínútna gangur frá stöðinni. Gistiheimilið var mjög huggulegt og greinilega allt nýuppgert. Einfalt, snyrtilegt og smekklegt (og engar kojurSmile). Ég létti af mér mesta farangrinum og hélt af stað út í bæinn þó farið væri að skyggja.

Ég byrjaði á því að labba stystu leið niður að ánni Vltava (Moldau) til að skoða dansandi húsið sem þar stendur og er engu líkara en þar sé á ferðinni dansandi par! Húsið var teiknað af tékknesk-króatíska arkítektinum Vlado Milunic í samvinnu við Frank Gehry og lauk byggingu þess árið 1996. Það hefur stundum verið uppnefnt Ginger og Fred eftir Hollywood-stjörnunum fræguSmile

Þegar þarna var komið var orðið svo dimmt að myndavélin mín vildi ekki taka almennilega mynd. Ég ákvað því að halda bara áfram að labba um og njóta þess sem fyrir augu bar og gefa myndavélinni frí í bili. Gekk ég meðfram ánni og virti fyrir mér ljósadýrðina á kastalahæðinni og reyndar allt um kring því þarna skartaði borgin auðvitað öllum sínum fegurstu jólaljósum. Gekk ég niður að Karlsbrúnni og inn í bæinn og naut þess að horfa í kringum mig á öll þessi íðilfögru gömlu hús og var það nú eiginlega bara nóg fyrir mig.

En auðvitað skoðaði ég nú í einhverja búðarglugga líka, annað hvort væri það nú í höfðborg þess lands sem einna frægast er fyrir sinn kristal! Og ekki eru þær nú neitt slor búðirnar þarnaHappy Það væri ósköp lítið vandamál að losa sig við einhverja hundraðþúsunkallana á mjög skömmum tíma ef maður þyrfti þessWink

Er klukkan fór að nálgast átta um kvöldið var ég orðin svöng og freistaði þess að finna veitingastað sem Mila hafði mælt með. Gekk það hins vegar ekki vel og loksins þegar hann fannst, um 45 mínútum síðar, var þar fullt út úr dyrum. Ég fór því bara inn á næsta stað sem ég fann. Var hann afganskur og fékk mér eitthvað sem ég vissi ekkert hvað var og reyndust vera einhverjar kjötbollur í deigi. Ósköp lítið spennandi og öfundaði ég fólkið á næstu borðum sem virtist mun heppnara með sitt val.

Að þessu búnu fór ég bara að þræða mig í áttina að gistiheimilinu og kom þangað að verða tíu. Fór ég aðeins inn í afgreiðsluna til að fá að fara í tölvu, svona til að láta nú aðeins vita af mér. Tölvan var hins vegar hundleiðinleg, afskaplega hægvirk og var ég orðin ansi pirruð eftir nærri 45 mínútur en á þeim tíma hafði ég aðeins náð að lesa tvo pósta, svara þeim og skrifa eina stutta færsluAngry.

Ég var orðin hundþreytt og skreiddist því beint í bælið þegar upp á herbergið var komið og sofnaði eins og steinnSleeping


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband