Afsakið hléið!

Nú er ég búin að taka ansi langt hlé frá blogg-skrifunum en það var þó alls ekki ætlun mín. Það var einfaldlega mjög mikið að gera hjá mér fyrir jólin, og yfir hátíðirnar var ég á eilífu flakki.

Síðasta daginn fyrir jólafríið frá skólanum var ég með kynningu í einum áfanganum og tók undirbúningur hennar dágóðan tíma. Inn á milli stalst ég aðeins út til að sinna vinunum en það var margt að gerast í kringum þá.

Daginn eftir Lübeck ferðina var ég með obbolítið aðventu/jólaboð fyrir mitt lið. Hafði mér tekist að baka þrjár smákökusortir og „vígði“ svo eina af jólakökunum líka. Hitaði súkkulaði og glühwein og rann þetta allt vandræðalaust niður í mannskapinn og voru allir í fínu skapi. Svo tókst mér (alveg óvart!) að vera með dálítinn fyrirlestur um Ísland og sýndi nokkrar myndir. Það er svo gaman hvað öllum finnst landið mitt spennandiSmile

Í vikunni á eftir var alltaf eitthvað um að vera. Meðal annars kom kærasti eins úr hópnum í heimsókn og þurfti að kynna hann fyrir vinunum og pöbbunum í bænum. Ekki gat ég misst af því! Og svo þurfti að taka kveðjuskál áður en allir færu heim í jólafrí. Á föstudagskvöldinu var LEI líka með smá jólaskemmtun og ball með en ég stoppaði nú ekki lengi þar.

Laugardaginn 17. desember fór ég svo á Lúsíuhátíð í Norrænu deildinni. Ég hef aldrei farið á svoleiðis áður og það var óskaplega gaman. Róleg og notaleg stemmning og mikið af fallegum söng. Jólalög frá öllum Norðurlöndunum nema ÍslandiPouty Einhverra hluta vegna var eina íslenska lagið í söngbókinni „Á Sprengisandi“ og þótti mér það hálf skrýtið. Að vísu var eitt erindi úr „Fögur er foldin“ þarna með en það var sungið á öllum málunum sem var reyndar býsna skemmtilegt. Svo var kaffi á eftir og það var þá heldur en ekki hlaðborðið! Bæði sætt og ósætt, brauð, kökur, salöt og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Slagaði bara upp í réttarkaffið heima á Tungunum, svei mér þá!  Vantaði bara randalínurnar og flatbrauðið með hangikjötinuWink

Allar voru þessar uppákomur ósköp skemmtilegar og hefði ég ekki viljað missa af neinu. Þriðjudaginn 20. des var ég svo með kynninguna mína og gekk það bara bærilega, held ég. Hún var seinni part dags og því var svigrúmið ekki mikið til að huga að því hvað taka þyrfti með í rúmlega vikulangt flakk sem leggja átti í snemma morguninn eftir. Ég var í nettu spennufallli eftir kynninguna og heilasellurnar ekki í neinu ástandi til að ákveða hverju ætti að pakka. Einhverju potaði ég þó niður í bakpokann/skólatöskuna og litla ferðatösku. Ég vildi ekki að farangurinn íþyngdi mér um of, þar sem ég bjóst jafnvel við því að þurfa að vera með allt hafurtaskið í eftirdragi einhverja dagparta.

Allt small þetta nú samt einhvern veginn saman. En í bólið skreiddist ég ekki fyrr en um eittleytið og svo reif ég mig upp um hálf sex því ég vildi hafa tímann fyrir mér. Tók ég strætó kl hálf átta, ásamt Kërt, en við urðum samferða í lestinni til Berlínar þar sem hún ætlaði að taka flug heim til Eistlands síðar um daginn. Ég tók hins vegar aðra lest og skreið í nokkurn veginn beina línu suður eftir Þýskalandi í gegnum Dresden, inn í Tékkland og alla leið til Prag.

Næsta vers verður svo um hanaSmile

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband