11.12.2011 | 21:35
Jólamarkaður í Lübeck
Síðustu viku hefur allt gengið sinn vanagang og flýgur tíminn að mér finnst orðið mun hraðar en ég kæri mig um.
Í gær fór ég í smá rútuferðalag sem löngu var ákveðið og er enn eitt atriðið sem LEI skipuleggur og býður okkur útlendingunum upp á. Ekið var sem leið lá til Lübeck, en þangað er tæpra þriggja tíma akstur frá Greifswald. Það hafði snjóað um nóttina og var föl á jörðu, það fyrsta sem ég sé þennan vetur. Á veginum var líka smá krapi en ekkert sem orð er á gerandi.
Við vorum komin á áfangastað um hálf ellefu og var þá gengið rakleiðis inn í miðbæinn og að Ráðhúsinu. Fengum við tæplega klukkustundar langa leiðsögn um þessa gullfallegu byggingu sem byrjað var að byggja um 1226 en lokið 1308. Svo hafa ýmsar viðbætur og breytingar verið gerðar í gegnum aldirnar eins og gengur. Einhverjum skemmdum varð húsið fyrir í stríðinu en við þær skemmdir var gert, þó að mestu á nútímalegan máta.
Leiðsögumaðurinn var vel fullorðinn maður og afar innlifaður í starf sitt. Höfðum við það á orði að hann væri búinn að fara um með aðeins of marga skólahópa því málstíllinn og talandinn var slíkur. Það var eins og hann væri sífellt að treysta okkur fyrir ægilegum leyndarmálum og var það nokkuð grínaktugt á köflum. En skemmtilegur var hann og fróður og var ég mjög ánægð með hann
Þessari leiðsögn var lokið rétt fyrir tólf og var þá frjáls tími til kl fimm en þá var ætluð brottför. Ég fór í dálítinn göngutúr um bæinn með eistnesku stelpunum, Kërt og Lottu en við lúskruðumst þó fljótt inn í verslanir því veðrið var afskaplega leiðinlegt; slyddu-krapa-hundslappadrífa af verstu sort. Við kíktum inn í eina kirkju, Jakobskirkjuna sem er ljómandi falleg, og ætluðum inn í Maríukirkjuna líka en hún var þá lokuð vegna einhverrar athafnar. Svo skildu okkar leiðir þegar ég var orðin svöng.
Fór ég inn á fiskistað sem heitir Nordsee og fékk mér eitthvað sem hér heitir Seelachs og bragðaðist bara ágætlega. Við stutta og lítt fræðilega athugun komst ég að því að þetta myndi vera ufsi. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé ekki vinsæll matfiskur heima og man ég aðallega eftir að hann væri hafður í bollur, sem mér finnast reyndar mjög góðar! En hann bragðaðist sem sé bara ljómandi vel með einhvers konar sveppasósu út á og var nýr og ferskur.
Og talandi um Nordsee; ég hélt stundum að ég væri hreinlega komin til Danmerkur eða Svíþjóðar því svo mikið heyrði ég talað af tungum þeirra landa! Astrid, sem er eini daninn hérna í Erasmushópnum í Greifswald, var ekkert hissa á því og sagði að það væri mjög vinsælt að skreppa suður fyrir landamærin til að versla, þar sem það er mun ódýrara en í heimalöndunum.
Á veitingastaðnum var, eins og alls staðar annars staðar í bænum, brjálað að gera og hafði ég dálitlar áhyggjur af því að fá ekki sæti þar sem ég var ein og enginn til hjálpar við að sitja um borð sem losnuðu. Ég sá þó smugu hjá fjölskyldu sem sat við eitt og hálft borð. Spurði ég hvort ég mætti setjast og kinkuðu þau vinalega kolli. Ég heyrði svo strax að þarna voru danir á ferð.
Það var í raun alveg ótrúlegt hvað mikið var af fólki í bænum og greinilegt að þarna er fólk ekkert að láta veðrið hafa of mikil áhrif á sig sem er auðvitað hið besta mál. Ég hélt svo áfram rölti mínu um bæinn, kíkti á jólamarkaðinn en fann fljótt að ég væri sennilega bara ennþá mett eftir dagskrána í Berlín um síðustu helgi.
Síðast en ekki síst fór ég svo inn í Marsipanbúð Niederegger-marsipanframleiðandans. Þetta er eitthvert frægasta marsipanið í Þýskalandi og búðin ein sú frægasta líka (þeir í Lübeck ku að eigin sögn hafa fundið upp marsipanið en eistnesku vinirnir mínir sögðu mér að Tallinbúar eigni sér líka þann heiður! Læt ég ógert að fara nánar út í þá sálma hér hver er hvurs o.s.frv. í því máli!). Þetta var í stuttu máli sagt eins og að vera kominn í marsipan-himnaríkið
Þvílík búð! Úrvalið af marsipaninu og öllu sem mögulega er hægt að láta sér detta í hug að búa til úr því er með ólíkindum. En það var ekki fyrir viðkvæma eða óstöðuga að vera þarna inni skal ég segja ykkur! Það var varla hægt að hreyfa sig um og dáðist ég alveg að starfsfólkinu hvað það var lipurt og æðrulaust, því ekki gat það hreyft sig mikið hraðar en aðrir í allri ösinni.
Eftir að hafa keypt ögn af einhverju dýrindi var ég orðin býsna kaffiþyrst og endaði ég daginn á því að fara inn á ljómandi notalegt kaffihús og fá mér kaffi og köku, auðvitað með marsipani Svo arkaði ég beint á rútustæðið og var ósköp fegin að geta slakað mér í hlýrri rútunni á heimleiðinni.
eima tóku svo sambýlingarnir á móti mér, önnur með nýbakaðri köku og hin með jólaföndri! Ekki amalegt það Það er svo von mín að þið, kæru vinir, eigið jafn indæla og skemmtilega aðventu og ég.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sjólax er fína orðið yfir ufsann sem er mun hærra metinn á meginlandinu en hér, þykir finn matur víða um Evrópu norð, og austanverða. Mikið er nú gaman af heyra af öllum þínum ævintýrum. Þú hefur sennilega líka fengið minn skammt af ævintýraþrá, og verði þér að góðu! :D
Gunnlaug Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.