Berlín III

Það var ágætt að geta haft sína hentisemi þegar ég fór á fætur á mánudagsmorgninum. Fékk ég mér að borða einhvern samtíning úr bakpokanum, pakkaði saman og kvaddi.

Nú ákvað ég að nóg væri komið af labbi og tók lest niður í bæ. Ákvað ég að taka því bara nokkuð rólega þennan síðasta dag. Fór ég úr lestinni neðarlega við Friedrich Str. og gekk svo eitthvað um með stefnu á Potsdamer Platz. Kíkti aðeins betur á jólamarkaðinn og fékk mér gott kaffi á Starbucks. Svo tók ég aftur lest smá spöl ofar í bæinn og gekk svo eitthvað eilítið um aðrar götur en dagana áður.

Rakst ég þá m.a. á lítið torg, Hausvogtel Platz, með sérstökum skúlptúr ef svo má kalla, en það eru þrír háir speglar sem mynda þríhyrning. Það er rétt svo hægt að smeygja sér á milli þeirra og að innan eru líka speglar, eins og í mátunarklefa. Ég fékk fljótt skýringu á þessu sérkennilega listaverki. Við speglana voru litlir skildir sem á stóð að þarna hefði verið hjarta fataiðnaðar Gyðinga í borginni. Þarna voru allar verslanir og fyrirtæki eyðilögð og fólkið ýmist handtekið eða hrakið burt í byrjun stríðs (ég man því miður engar dagsetningar, sem ég held þó að séu þarna). Þetta er enn eitt þeirra merkja um þá ótrúlegu og merkilegu sögu sem þessi borg á sér og maður finnur nánast á hverju götuhorni.

Eftir að hafa skoðað mig aðeins í speglunum hélt ég áfram göngunni upp á Unter den Linden og sem leið lá upp á Alexander Platz, enn eina ferðina. En áður en ég var komin alveg alla leið fór ég inn á safn sem Inga hafði bent mér á daginn áður. Þetta var DDR-safnið sem er, eins og nafnið gefur til kynna, um tíma þýska alþýðulýðveldisins og líf fólksins í landinu á þeim tíma. Það er ansi sérkennilegt að skoða þetta safn og tilfinningin sambland af kæti og hrolli. Maður hlær að því hvernig ýmsum hlutum var háttað og skammast sín svo fyrir um leið þar sem maður veit að þetta var sannarlega ekki skemmtilegt líf hjá þorra fólks.

Eftir að hafa skoðað safnið fór ég og fékk mér að borða á voða notalegum Víetnömskum veitingastað. Hann er inni í lítilli hliðargötu eða meira eins og húsasundi sem glerþak er yfir og eru þarna aðallega veitinga- og kaffihús. Þegar ég var að stíga út um dyrnar heyrði ég sérkennilegan háværan dyn og tók mig smá stund að átta mig á að þetta var haglél sem buldi svona á glerþakinu! Það stóð þó ekki lengi, ég var varla búin að spenna upp regnhlífina til að losna við að fá höglin ofan í hálsmálið þegar allt var um garð gengið.

Fór ég svo inn á jólamarkaðinn á torginu, verslaði einhverja ögn og fékk mér síðasta Glühwein-bollan í BerlínJoyful Svo ákvað ég að kíkja aðeins inn í verslunarmiðstöð sem heitir Alexa. Ég var búin að heyra og lesa um hana en hafði ekki fundið hana daginn áður. Hún er voða flott og fín og væri vandalítið að koma góðum slatta af aurum í lóg þar! Ég lét mér þó nægja að kaupa eina litla ferðatösku. Já, nú haldið þið auðvitað að ég hafi verið búin að versla svona mikið en málið er það að ég kom hingað bara með bakpokann minn (skólatöskuna, í rauninni) og eina stóra ferðatösku. Þegar ég leggst í jólaflakkið mun bakpokinn varla nægja en taskan vera allt of stór svo mig vantaði í raun eitthvað mitt á milli. Alveg sattSmile 

Að þessu búnu tók ég bara lest upp á Hauptbahnhof og dúllaði mér þar í tæpan klukkutíma áður en lestin til Greifswald fór af stað. Rétt fyrir brottför kom svo hann Ken vinur minn, en við höfðum ákveðið að verða samferða heim. Lestin sem við fórum með í þetta skiptið var mun flottari en hinar sem ég hef farið með og líka hraðskreiðari. Tekur bara rúma tvo tíma í staðinn fyrir tæpa þrjá með þessari „venjulegu.“ Það var ósköp notalegt hjá okkur á heimleiðinni: við þuldum ævintýri helgarinnar hvort fyrir öðru og slökuðum á eftir lýjandi en óhemju skemmtilega daga.

Við vorum bæði á því að við hefðum nú alveg getað hugsað okkur að vera einhverjum dögum lengur í Berlín! Urðum við að minna okkur sjálf á að við værum nú einu sinni skiptiNEMAR og að það væri svo sem alveg við hæfi að við reyndum að sinna náminu eitthvað líka, svona inn á milli, að minnsta kostiWink Og það var svo sem voða gott að koma heim, skríða í sitt eigið ból og hvílast vel.

Læt ég nú lokið ferðasögu þessari og býð góðar stundirSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband