Berlín II

Þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgninum voru herbergisfélagarnir enn í fastasvefni. Ég læddist því um, maulaði eitthvað í mig sem leyndist í bakpokanum og dreif mig fljótt út. Svo gekk ég niður „Alt Moabit“ og beint niður að Þinghúsi og tók nokkrar myndir í viðbót því nú var veðrið snöggtum skárra (Ég held að ég hafi gleymt að nefna hvar ég gisti, en það var á Amstel House sem er við Waldenser Strasse).

Svo ákvað ég að fara smá rölt meðfram ánni Spree og byrja á nyrðri enda Friedrich Strasse sem ég ætlaði svo að ganga endilangt niður að Checkpoint Charlie. En við ána, svona mitt á milli Þinghússins og Friedrich Str. rakst ég á veitingahús sem mér leist svo vel á að ég ákvað að fara þar inn og splæsa á mig „brunch“ til að fá orku fyrir göngur dagsins. Og þar varð ég sko ekki fyrir vonbrigðum! Þetta var mjög huggulegur staður og var lifandi tónlist, þetta líka frábæra Jazzband af gamla skólanumSmile Bara eins og Raggi Bjarna væri mættur á staðinnWink Frábærir spilarar og tónlist við mitt hæfi og auðvitað jólalög í bland. Ég naut því hverrar mínútu þennan klukkutíma sem ég sat þarna og gúffaði í mig alls konar kræsingum. Held ég að þetta sé það næsta sem ég kemst jólahlaðborði þetta árið.

Fór ég því södd og sæl aftur af stað og hélt áætluðum kúrsi. Þegar inn í Friedrich Str. var komið var ein fyrsta búðin sem þar gat að líta All Saints tískuverslunin og held ég að ég hafi sjaldan séð jafn flotta og frumlega gluggaskreytingu í nokkurri búð. Úr fjarska leit út fyrir að hjólkoppum hefði verið raðað í gluggana en þegar ég kom nær sá ég að þessir hringir voru nú of litlir til að það passaði. Þetta reyndust sem sagt vera hjólin á nokkur hundruð handsnúnum saumavélum sem stillt var upp á mörgum hillum við hvern glugga í búðinniW00t Og ekki eru þeir nú neitt slor heldur hinir gluggarnir í þessari (örugglega einni) flottustu verslunargötu Berlínar. Leiddist mér gangan ekki en viðurkenna verð ég að það hefði nú verið býsna gaman að vera með eilítið þykkra veskiWink

Ég hélt mínu striki niður að Checkpoint Charlie, sem var eitthvert frægasta eftirlitshliðið á Berlínarmúrnum á sínum tíma. Þar eru líka upplýsingaskilti við götuna og svo „Múrsafnið“ en ekki heimsótti ég það nú í þetta skiptið. Úr því ég var komin þetta „neðarlega“ ákvað ég að labba niður á Potzdamer Platz sem er ekki langt frá. Á leiðinni gekk ég meðfram hluta af múrnum sem ennþá stendur þarna og fannst mér það býsna magnað.

Á Potsdamer Pl. er auðvitað jólamarkaður, eins og á u.þ.b. öðru hverju götuhorni í borginn. Þessi hafði þó það sem hinir (sem ég sá) höfðu ekki: snjóbrekku (tilbúna, að vísu) þar sem hægt var að kaupa sér salíbunu á einhvers konar dekkjablöðru. Skoðaði ég mig aðeins um þarna og gekk svo til baka upp í bæ og kíkti í nokkrar búðir að gamni. Meðal annars súkkulaðibúð þar sem gat að líta stærðarinnar líkön af Þinghúsinu, Brandenbogarhliðinu o.fl. úr súkkulaði! Frekar flottSmile

Fór ég svo að fikra mig nær Alexander Platz en þar hafði ég mælt mér mót við hana Ingu Þórunni sem var með mér í enskunni heima, en hún er við nám í Berlín. Um það leyti sem við hittumst var veðrið að verða leiðinlegt aftur. Rétt þegar við ætluðum að fara inn á jólamarkaðinn á torginu gerði slíka dembu að við ákváðum að hlaupa frekar beint inn á næsta kaffihús og fá okkur eitthvað heitt. Sátum við þar og spjölluðum dágóða stund og bárum saman bækur okkar um nám og annað sem á daga hafði drifið í Þýskalandi. Þegar stytti upp fórum við og þvældumst á milli jólamarkaða allan seinni part dagsins.

Meðal annars fórum við á Gendarmenmarkt en inn á hann þarf maður að borga sig, en að vísu bara eina evru. Hann er líka öðrum mörkuðum fallegri og var þar óhemju mikið af skemmtilegum og eigulegum hlutum. Þar hittum við ungt íslenskt par, söngnema, og ræddum við þau dágóða stund. Svo fengum við okkur auðvitað Glühwein og eitthvert brauðmeti. Héldum við svo aftur upp á Alexander Platz en þar skildu leiðir um áttaleytið um kvöldið.

Fór ég svo fljótlega heim á gistiheimilið. Greip ég einhverja ávexti í búð á leiðinni og lét duga sem kvöldmat eftir allt brauðmeti dagsins. Herbergisfélagarnir voru nú allir á bak og burt og hafði ég því herbergið fyrir mig, sem var ósköp þægilegt.  Mig verkjaði í hverja frumu eftir að hafa verið á gangi meira og minna frá hálf tíu um morguninn og fór því fljótt í koju og sofnaði eins og rotaður selurSleeping

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband