Berlín I

Um síðustu helgi fór ég í skemmtireisu til Berlínar. LEI-hópurinn hafði skipulagt ferð þangað en það reyndist vera takmarkaður sætafjöldi og náði enginn úr mínum nánasta hópi að skrá sig nógu snemma og ekki ég heldur. Mér þótti þetta súrt í broti og ákvað að fara bara á eigin vegum. Það gerðu fleiri, sem áttu þó reyndar hin ýmsu erindi og stefnumót við vini, systkini eða unnusta. Við ákváðum að fara á laugardagsmorgninum. Náðum að kaupa miða saman, en það er mun ódýrara, sem var auðvitað hið besta mál og svo hitt að hafa félagsskapinn á leiðinniJ

Þegar á Hauptbahnhof var komið skildu því leiðir og ég arkaði beinustu leið að gistiheimilinu þar sem ég átti pantað herbergi (í fjögurra kvenna svefnskála). Það var um hálftíma gangur og þegar ég kom þangað, sem var um klukkan eitt eftir hádegi, var herbergið ekki laust. Ég fékk þó að létta aðeins á bakpokanum mínum og geyma þar dót og var það ágætt þar sem hann seig nokkuð í. Fór ég því næst á kaffihúsið Jonas sem ég hafði séð þegar ég kom og fékk mér Brötschen með reyktum laxi. Þarna var allt búið til jafn óðum og var því mjög ferskt og gott.

Ég fór svo aftur af stað og ákvað að ganga niður í bæ, svona til að taka tíma á vegalengdum. Fyrst fór ég niður að sigursúlunni á 17. júní-stræti (ekki nefnt eftir íslenska þjóðhátíðardeginum samtWink, heldur eftir uppreisn sem verkamenn í Austur-Berlín efndu til þann dag árið 1953).

Gekk ég svo umrætt stræti að Brandenborgarhliðinu og þaðan að þinghúsinu (Bundestag) og skoðaði það lítillega, en aðeins að utan þó, þar sem panta þarf með þriggja daga fyrirvara ef mann langar að komast inn! Fór svo aftur niður að hliðinu, eftir að hafa látið aðeins „renna af mér“ inni í minjagripabúðinni við þinghúsið, en það var mígandi rigning og ekki öll lóðrétt. En inn um hliðið fór ég og þótti nokkuð til komaSmile Gekk svo eftir Unter den Linden, sem mér hefur alltaf þótt gasalega rómantískt götunafn, og það var bara þó nokkur stemmning í því þrátt fyrir vætuna.

Mig var farið að svengja og langaði auk þess mikið í kaffi og ætlaði ég að fara inn á kaffihús sem mér leist voða vel á en það var svo pakkfullt að ég varð frá að hverfa. Lufsaðist ég því inn á eitthvert lítið kaffihús í hliðargötu. Það leit svo sem ekkert spennandi út en kaffið var mjög gott og kakan sömuleiðis svo ég tók gleði mína á nýSmile

Hélt ég svo áfram sem leið lá upp á Alexander Platz og skoðaði jólamarkaðinn þar sem var mjög gaman. Fékk mér Glühwein og Schmalzen, sem eru litlir bitar úr svipuðu eða samskonar deigi og kleinuhringir eða Berlínarbollur og er flórsykri stráð yfir þá ylvolga! DásamlegtJoyful Gafst svo upp á að vera úti í rigningunni og fór inn í Galeria Kauphof, sem er verslunarmiðstöð, og þrammaði þar allar hæðirnar fjórar eða fimm í dágóðan tíma. Um áttaleytið fór ég svo þaðan og ætlaði að finna mér einhvern stað til að borða á og rakst ég þá ekki á Tönju, einn ferðafélagann, og unnusta hennar. Þótti okkur þetta fremur fyndið þar sem borgin er nú ekki það lítil að maður eigi von á að rekast á fólk sem maður þekkir.

Eftir óhemjugott sushi og vænan bjór tók ég svo neðanjarðarlestina upp á gistiheimilið. Þegar upp í herbergið var komið voru þar tvær ungar stúlkur að hafa sig til fyrir djamm. Ég skreið beint í koju og held að ég hafi sofnað með það sama. Varð ég rétt svo vör við það þegar stelpurnar fóru út. Ekki svo ýkja löngu seinna að mér fannst rumskaði ég við umgang og þar var þá kominn fjórða manneskjan í kompaníið. Hefur hún örugglega farið beint í koju og vissi ég ekki meir fyrr en næsta morgun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband