2.12.2011 | 22:26
Bærinn minn.
Ég minntist nú alveg örugglega á það í einhverjum af fyrstu pistlunum mínum hvað þetta væri fallegur og snyrtilegur bær sem ég byggi í. Mér finnst þó í góðu lagi að endurtaka það og langar líka dálítið til að lýsa honum aðeins betur og því hvernig lífið hér kemur mér fyrir sjónir. Þetta er nokkuð gamall bær eins og sjálfsagt flestir evrópskir bæir eru, alla vega í samanburði við íslenska
Þéttbýli tók að myndast hér á 13. öld eftir að klaustur var byggt í Eldena sem er hér í útjaðri bæjarins. Eldena er núna bara eitt hverfi í bænum og varla nema 20 mínútna ganga þaðan sem ég bý (sennilega nær klst frá miðbænum).
Gamli miðbærinn er auðvitað uppáhaldið mitt og þar er mikið af fallegum gömlum húsum eins og títt er í slíkum bæjum. Það er þó ekki sjálfgefið hér í Þýskalandi að allar gamlar bæjarmyndir séu heillegar þar sem mikið var sprengt og skemmt í Síðari Heimsstyrjöldinni. Það sem bjargaði Greiswald var það að yfirvöld hér gáfust bardagalaust upp þegar Sovétherinn kom og því þurfti ekkert að sprengja hér.
Eitt af því sem hefur komið mér einna mest á óvart er það hversu lítið er af illa förnum og niðurníddum húsum. Vel má skrifa það á fordóma mína en það eru vissulega ekki nema rúm 20 ár síðan Þýskaland sameinaðist og maður hefur heyrt svo margt um það að ástandið í gamla austrinu hafi nú ekki alls staðar verið beysið. Bærinn er vissulega ekki bara gamli miðbærinn og hér eru úthverfi sem eru misfalleg en ekkert í líkingu við ýmsar myndir sem maður hefur séð í gegnum tíðina af austur-evrópskum borgum. Hér eru vissulega heilu hverfin þar sem varla er neitt nema Plattenbau-blokkir. Margar þeirra líta svo sem ekkert sérlega fallega út en það eru líka margar sem hafa verið gerðar upp undanfarin ár og eru bara ljómandi huggulegar.
Þegar ég kom hingað í haust og steig út úr strætisvagninum hérna aðeins á ská hinum megin við götuna þá voru stillansar utan um alla blokkina hér við hliðina. Greinilegt var að verið var að klæða hana að utan og við blasti eitthvert svart miður fallegt efni með sements-sparslblettum hér og þar. Svo komu málarar og húsið fór að taka á sig aðra og mun frýnilegri mynd. Síðan voru sett ný svalahandrið og nú þegar stillansarsnir eru farnir blasir við stórglæsilegt hús
Hér hefur greinileg verið töluverð endur- og uppbygging hin síðari ár. Bærinn skartar glænýju háskólasjúkrahúsi og bókasafni, hvort tveggja glæsilegar byggingar. Og á nýja háskólasvæðinu (skáhallt á móti hinum tveimur áðurnefndu) er svo verið að byggja nýja háskólamatsölu með meiru sem á að opna einhvern tíma á næsta ári.
Víst er að háskólinn er einhver helsta lífæð bæjarins og hans vegna koma hingað á hverju ári nokkur þúsund ungmenni (þar af einhver hundruð útlendinga) eingöngu í þeim tilgangi að stunda hér nám. Enda er skólinn metnaðarfullur og virtur. Ég hef heyrt fleiri en einn segja að hér væri varla þetta stór bær ef ekki væri fyrir þennan skóla. Vegna þess fjölda útlendinga sem hingað koma er líka nokkuð alþjóðlegur blær á bænum en ekki virðast hér vera ámóta vandamál því tengd og víða í öðrum (og stærri) borgum og er það væntanlega vegna þess að stærstur hluti útlendinganna hér eru námsmenn.
Fólkið í bænum kemur mér fyrir sjónir sem vingjarnlegt, viðmótsþýtt og afslappað. Aldrei hef ég séð örla á neinum pirringi hjá fólki þegar ég hef átt í einhverjum vanda með að tjá mig eða skilja eitthvað og sýnir fólk því almennt umburðarlyndi. Það virðist ekki vera mikið um að fólk tali ensku (alla vega ekki fólk á mínum aldri og eldra) en þeir sem það gera eru meira en reiðubúnir að gera það ef á þarf að halda. Hinir sem það gera ekki eru frekar afsakandi en eitthvað annað og ekki hef ég orðið vör við neinn þýsku-hroka sem maður hefur stundum heyrt um.
Ég minntist einhvern tíma á að hér væri mikið af hundum en að engan kött hefði ég séð fyrstu þrjár vikurnar. Ég hafði varla sleppt því orðinu þegar ég rakst á fyrstu kisuna og er ég búin að sjá nokkrar síðan En ekki er nú hægt að bera fjölda þeirra saman við flesta bæi heima og í miðbæ Reykjavíkur fór ég varla út úr húsi án þess að sjá a.m.k. einn og oftast nokkra. Og þó þetta mikið sé af hundum man ég varla eftir að hafa rekist á hundaskít liggjandi en margsinnis orðið vitni að því að eigendur hirði upp eftir sín dýr og mættu íslenskir hundaeigendur taka taka sér það til fyrirmyndar!
Ég get því með góðri samvisku sagt að Greifswald sé hinn vinalegasti bær og örugglega gott að búa hér, ekki síst með börn þar sem hér er frekar rólegt og lítil umferð bíla. Svo lítil reyndar að ég átti erfitt með að trúa að hér byggju jafn margir og raun ber vitni. Enda er reiðhjólið aðalferðamáti yfir 40% íbúanna (eins og ég held að ég hafi minnst á áður). Ég hef því ekki ástæðu til annars en að láta mér líða vel og vera glöð með staðarvalið sem þó var tilviljun ein á sínum tíma.
Falleg kveðja úr fallega bænum
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta virðist vera viðkunnanlegasti bær, gaman að þessum lýsingum. Þú átt greinilega mjög gott með að myndgera orðin, ég sé þetta alveg fyrir mér. Og ég er mjög fegin að Greifswald er ekki kattlaus bær :)
Heiðrún Sveinsdótttir (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 13:02
Þakka þér fyrir, Heidi:-) Já, það er bara mjög fínt að vera hérna og þetta slembilukkuval mitt ótrúlega vel heppnað! Og ég er búin að sjá þó nokkrar kisur í viðbót
Rósa María Sigurðardóttir, 11.12.2011 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.