Ratað inn í Aðventuna

Á laugardaginn um síðustu helgi fór ég í mjög skemmtilegan ratleik hér um bæinn. Þetta er einn af þeim viðburðum sem LEI skipuleggur og er búið að vera  árvisst síðustu tíu ár eða svo. Lið þurfa að skrá sig til keppni með nokkrum fyrirvara og þetta hefur augljóslega krafist þó nokkurs undirbúnings af hálfu skipuleggjenda.

Það var hún Maria, þýsk stúlka og kærastan hans Philips (sem ég hef áður minnst á) sem safnaði liði í minn  hóp. Hún er líka ein af hjálparhellum útlendu nemanna, mjög fín og skemmtileg stelpa. Hún hafði hitt hann Ken vin minn og spurt hvort hann vildi vera með í þessu og hvort hann gæti ekki hóað einhverjum saman. Hann hafði svo mig og Alix upp úr því krafsi og svo bættist önnur þýsk stúlka í hópinn, hún Suzanne, sem er einmitt  hjálparhellan hans Kens. Þetta krafðist þess að maður væri á hjóli og þar sem ég hef ekki enn lufsast til að kaupa slíkan fararsjóta þá fékk ég hinn aldna og virðulega hjólfák hennar Milu sambýliskonu minnar að láni.

Klukkan 16 á laugardag vorum við því komin niður í Mensu (háskólamatsöluna) en þaðan var lagt af stað. Þar fengum við fyrstu vísbendingarnar og vorum við býsna ánægð með það hvað við vorum snögg að lesa úr þeim og lögðum því hreykin af stað. Fannst okkur þó eilítið langt í fyrsta takmark en Maria, sem hefur tekið þátt í þessu áður var ekkert voða hissa á því. Við fengum það sem sagt út að við ættum að hjóla norður í Nordstrasse, sem er í Ladebow, einu af úthverfum bæjarins, og þar áttum við að finna kassa. Þetta var nú bara hinn skemmtilegasti hjólatúr í ágætu veðri og tók um hálftíma.

Þegar þangað var komið var engan kassa að sjá og fórum við að rýna betur í leiðbeiningar. Þá kom nú eitthvað annað í ljós og töldum við að við hefðum átt að fara að húsi enskudeildar skólans, sem er í Steinbeckerstrasse, í miðbænum og aðeins steinsnar frá MensuBlush En við vorum greinilega ekki ein um þennan misskilning með Nordstrasse því á hæla okkar kom annað lið sem hafði fengið það sama út og við!

Þegar í Steinbeckerstrasse var komið var heldur engan kassa að sjá og fórum við enn að rýna í bréfið og komumst þá að hinni algjörlega augljósu staðreynd að við áttum að fara í Norrænudeildina í Hans-Fallada Strasse! Þar fundum við svo næstu vísbendingar og hélt leikurinn áfram og gekk bara bærilega að mestu leyti. Ekki kláruðum við þó leikinn og voru það aðeins tvö lið sem það höfðu gert enda hafði teygst meira úr tímanum en ráð var fyrir gert. Við lentum samt í þriðja sæti (af tólf liðum sem byrjað höfðu). Fjögur lið höfðu gefist upp og flestum hinna ekki gengið neitt of vel. Var það mál manna að þetta hefði verið með erfiðasta móti og höfðu margir á orði að ekki hefðum við útlendingarnir einir og sér komist langt þar sem vísbendingarnar kröfðust ansi mikillar þekkingar á þýskri menningu og tungu. En skemmtilegt var þetta nú samt og allir nokkuð sáttir og glaðir eftir því sem ég fékk best séð.

Eftir þetta fórum við nokkur saman, með Mariu og Philip í broddi fylkingar, á kebabstað  og fengum okkur í svanginn því menn voru orðnir ansi hungraðir (kl að verða 9 um kvöldið!) og eilítið kaldir þar sem kólnað hafði og hvesst eftir því sem á leið. Svo var haldið heim og hugsa ég að menn hafi sofnað fljótt og vel eftir að hafa hjólað bæinn þveran og endilangan og við örugglega einhverja tugi kílómetra með útúrdúrnum mikla!

Á sunnudag var svo bara lærdómur og undirbúningur að fyrirlestri sem ég, ásamt einum þýskum strák, var með í félagsmálvísindunum á þriðjudagsmorgun. Um kaffileytið fórum við Alix svo niður í bæ að skoða jólaþorpið sem þar opnaði þessa helgi. Þar er fjöldinn allur af litlum sölukofum og básum að selja alls konar dót en mest áberandi eru þó veitingasalar af ýmsu tagi. Einnig eru alls kyns leiktæki fyrir börn og má segja að markaðstorgið sé eins og lítið Tívolí.

Við löbbuðum um í dágóða stund, fengum okkur jólaglögg og hlustuðum á lifandi tónlist. Ekki var það þó jólatónlist sm við hlýddum á heldur „gömlu góðu“ lögin, eins og  t.d. Eagles, Roy Orbison o.þ.h.Grin Spilararnir voru tveir herramenn af léttasta skeiði, gráhærðir og síðhærðir gamlir rokkhundar en aldeilis prýðilega skemmtilegirSmile Ég er alveg viss um að þeir hefðu slegið í gegn á hvaða íslenska sveitaballi sem er! Og fólkið var greinilega mjög ánægt með þá, dansaði og söng með. Svo kíktum við í nokkrar búðir og fórum að því búnu heim.

Eftir kvöldmat fórum við svo, ég og Ken og Kërt heim til Alix. Þar fengum við kakó og smákökur sem hún var búin að baka, hlustuðum á jólalög og kveiktum á aðventu“kransinum“ hennar sem samanstóð (eins og minn) af fjórum kertum á diski! Var það virkileg notaleg stund með spjalli, aðallega um jólasiði hinna ýmsu landa.

Vikan gekk svo nokkuð venjulega fyrir sig; við Andreas klóruðum okkur (að ég held) nokkuð skammlaust í gegnum fyrirlestur um tvímálakennslu. Var okkur báðum létt á eftir og fórum beint á næsta kaffihús til að „pústa“ aðeins.

Í gærkvöldi fór ég svo á „Länderabend“ með kynningum á Tékklandi, Slóvakíu og Slóveníu. Það var mjög gaman og fróðlegt og hlaðin borð af þjóðlegum veitingum þessara landa. Þar var líka hún Tanja vinkona mín og fórum við svo aðeins yfir á Domburg til að hitta Alix og Ken og Kërt og bróður hennar Alix sem kominn var í heimsókn.

Við ætlum svo saman, öll þessi fimm, til Berlínar í fyrramálið og hlakka ég mikið til. Það verður því væntanlega bara rólegt kvöld hjá mér og snemma farið í háttinn til að ég verði nú vel upplögð fyrir ferðina. Það er svo ekki ólíklegt að ég hafi frá einhverju skemmtilegu að segja eftir helgina þar sem flestir sem ég hef talað við eru sammála um að Berlín sér með skemmtilegustu borgum! Bið ég ykkur hér með að óska mér góðrar ferðar og kveð svo að sinni.

Góðar stundirSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband