24.11.2011 | 21:53
Kjötsúpa og konsert.
Þegar ég kom heim frá Stettin beið mín tölvupóstur frá honum Geira, þjóðverjanum sem kennir (aðallega forn-) íslensku við norrænu deildina hér. Erindið var að bjóða mér að koma á íslenskt kvöld sem hann ætlaði að halda fyrir nemendur sína á laugardagskvöldinu helgina á eftir.
Umrætt kvöld lallaði ég því heim til hans í kolsvartaþoku og hráslaga. Það var því heldur betur óvænt ánægja að finna ilm af íslenskri kjötsúpu þegar inn var komið Þarna voru saman komnir einir fimm eða sex nemendur hans, sem skildu reyndar mismikið í íslensku, en allt hið skemmtilegasta fólk og gaman að spjalla þó mest væri það nú á þýsku. Við Geiri töluðum þó saman á íslensku og verð ég að viðurkenna að mér finnst nú býsna notalegt að geta talað við einhvern á hinu ástkæra ylhýra, svona við og við. Og fleira var í boði sem íslenskt getur talist svo sem skúffukaka, harðfiskur og rækjusalat. Ekki var þó íslenskt brennivín á boðstólnum en hins vegar færeyskt og verð ég að segja að það finnst mér ekki síðra.
Eftir að hafa innbyrt kjötsúpuna (sem var aldeilis ljómandi vel lukkuð þó kjötið væri ekki íslenskt heldur eitthvað lífrænt ræktað þýskt!) og salat og harðfisk og köku var sest niður og horft á íslenska bíómynd. Það var Kóngavegur, sem ég hafði ekki séð og held ég að krakkarnir hafi nú ekki mikið skilið þó að texti (íslenskur) fylgdi með. En myndin er svo sem þess eðlis að það er alveg hægt að hlægja að henni þó maður skilji ekki allt og alla vega hlógu þau. Þarna upplifði ég ennþá einu sinni eitthvað nýtt, skemmtilegt og óvænt og var kvöldið alveg frábært
Kvöldið eftir, sunnudagskvöld, fór ég síðan ásamt nokkrum krökkum úr hópnum mínum á voða fína tónleika í Dómkirkjunni. Hálfa ástæðan fyrir því að við fórum var sú að hann Ken vinur okkar var að syngja í verkinu sem á efnisskrá var, en flytjendur voru Dómkórinn í Greifswald og Fílharmóníuhljómsveit Vorpommern. Verkið sem þarna var flutt var óratórían Das Weltgericht sem er eftir Friedrich nokkurn Schneider, en á honum þekki ég hvorki haus né sporð. Nafn verksins gæti útlagst sem Lokadómurinn eða eitthvað þ.u.l.
Einsöngshlutverkin eru erkienglarnir Gabríel, Mikael, Rafael og Úríel, og svo Eva, María og Satan! Og síðan er líka kór hinna ranglátu, kór hinna frómu og englanna, kór vítisandanna, kór hinna trúuðu, kór hinna hólpnu, kór kvennanna og barnanna og kór píslarvottanna, svo eitthvað sé nefnt! Það er skemmst frá því að segja að ég var yfir mig hrifin. Mjög fallegt og áheyrilegt verk og gaman að láta koma sér jafn skemmtilega á óvart þegar maður hefur ekki hugmynd um hvað í vændum er
Og ekki var nú alveg laust við að litla kórhjartað mitt yrði pínu meyrt yfir þessu öllu saman. Hugsaði ég oftar en einu sinni hvað það væri nú gaman að standa meðal (kór)söngvaranna og reikaði hugurinn aftur til margra ógleymanlegra stunda við söng í hinum ýmsu verkum, stórum sem smáum, sem ég tók þátt í að syngja ásamt mínum kór á árum áður. Vona ég svo sannarlega að slíkir tímar komi aftur innan tíðar
Og þannig reyndist helgi sem engar væntingar voru við bundnar bera með sér hina ánægjulegustu skemmtun og gleði sem lengi verður lifað á
Góðar kveðjur heim.
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.