19.11.2011 | 17:50
í upphafi.
Þó að þessi skrif mín hér hafi hingað til að mestu verið í dagbókarformi þá var það í raun ekki ætlunin þegar af stað var farið. Alla vega ekki eingöngu. Vissulega vildi ég deila með vinum og fjölskyldu, og hverjum þeim sem hugsanlega hefðu áhuga á, því sem á daga mína drifi. Í upphafi hafði ég líka hugsað mér að skrifa um eitt og annað sem mér dytti í hug og velti fyrir mér í útlegðinni. En eins og þið hafið séð þá er hreinlega búið að vera svo mikið um að vera að það hefur eiginlega komið af sjálfu sér að þetta yrði svona.
Ég tók þá ákvörðun raunar áður en ég kom hingað að gera allt sem ég gæti til þess að njóta vistarinnar hér sem mest og best. Ég vissi að það yrði ekki sjálfgefið að fjörtíu og fimm ára gömul kona dytti fyrirhafnarlaust inn í félagsskap fólks sem er flest á aldur við börnin hennar. Ég veit líka að það er ekki óalgengt að skiptinemar einangrist og eigi miður góða daga í nýja landinu. Slíkar sögur hef ég heyrt og þið eflaust líka og veit ég raunar um örfáa sem gáfust upp á fyrstu vikunum hér.
Það var mér því mikið ánægjuefni að finna hve vel mér var tekið og eins og ég held að ég hafi minnst á fyrr þá virðist það vekja forvitni og áhuga fólks að manneskja á mínum aldri geti yfir höfuð gert svona nokkuð. Mér hlýnaði um hjartarætur um daginn þegar einn af ungu strákunum í hópnum mínum sagði við mig að ég væri frábær fyrirmynd fyrir mömmu hans. Hún væri alltaf að tala um að hana langaði svo að læra eitthvað en endaði þær tölur yfirleitt á því að segja að hún væri orðin of gömul fyrir það. Nú væri hann búinn að segja henni frá mér og nota mig sem dæmi um það hvað margt væri hægt.
Ég vissi að það yrði oft erfitt að vera fjarri fjölskyldu og vinum og að þær stundir kæmu sem ég myndi velta því fyrir mér hví í ósköpunum ég væri að þessu og hvað ég væri nú búin að koma mér út í. En þetta er nokkuð sem mig hefur svo lengi dreymt um og ég hreinlega varð að gera. Hvernig sem fer vil ég í framtíðinni frekar getað sagt; ja, ég reyndi þó alla vega heldur en ég vildi að ég hefði... .
Þó ég sé aðeins búin að vera hér í tvo mánuði þá hef ég þegar gengið í gegnum fjölbreyttan skala tilfinninga. Og það er kannski eðlilegt að það gerist einmitt á þessum fyrstu vikum. Alveg í byrjun er allt svo spennandi og nýjabrum á öllu en svo þegar frá líður og allt verður venjulegt þá kemur að því að maður fær tíma til að velta fyrir sér því neikvæðara. Þetta er reyndar þekkt ferli sem var kynnt fyrir okkur í fyrsta þýskukúrsinum og kallað u-kúrfa upplifunarinnar(af því að koma til nýs lands).
Ég er ánægð með að hafa fengið þær upplýsingar sem þar komu fram og þær koma eflaust til með að hjálpa mér að komast í gegnum hin mismunandi stig þessarar reynslu. Ég er þegar búin að upplifa það að líta til baka og hugsa; já ég er á þessu stigi núna, óþarfi að hafa áhyggjur, þetta er allt eðlilegt. En ekki misskilja mig, þetta er nú ekki búið að vera neitt voðalegt drama;-) Það er einfaldlega svo margt sem maður hugsar um og upplifir á annan hátt á nýjum stað.
Ég gæti líka trúað því að fyrir mig sem er að gera þetta á þessum tímapunkti í lífinu sé upplifunin kannski sterkari að ýmsu leyti. Á mínum aldri veit maður að það er svo margt sem er ekki sjálfsagt í lífinu og svo margt sem getur gerst. Ungt fólk sem ekki er búið að koma sér upp fjölskyldu er yfirleitt kjarkaðra og frekar til í að láta vaða á hlutina. Kannski ný sloppið að heiman frá mömmu og pabba, frelsinu fegið, tilbúið að leggja heiminn að fótum sér, finnst það geta allt. Þetta er sá eiginleiki sem ég öfunda það helst af. En ég veit að það er ljótt að öfunda og kannski get ég þetta bara líka
En nú er nóg komið af væmni og spekingslegum pælingum í bili. Ég sagði frá því síðast að ég væri á leið til Stettin í Póllandi. Við fórum af stað um kl. tíu á sunnudagsmorgun, níu manns saman á tveimur bílum. Það er nánast sléttra tveggja tíma akstur þangað héðan og vorum við því komin um kl. tólf á bílastæði u.þ.b. tíu mínútna gang frá miðbænum. Löbbuðum við fyrst niður að ánni Oder og fengum okkur að borða á fínum veitingastað. Ég fékk mér þessa líka dýrindis rifjasteik og hún var sko ekki skorin við nögl! Ég þurfti nánast að leita að rifbeinunum í kjötinu, svo mikið var það og stóð ég nánast á blístri að máltíð lokinni. Með þessu drakk ég bjór sem heitir Okocim og er einn sá besti sem ég hef smakkað. Dökkur og pínu sætur og heil 8%! Síðan fékk ég mér kaffibolla á eftir og fyrir herlegheitin borgaði ég sem svaraði 1.700 íslenskum krónum!
Gengum við því næst inn í bæ og aðeins um þar. Fórum þó fljótt inn í stóra verslunarmiðstöð því hálfa erindið var að versla þar sem það er mun ódýrara en í hér. Þar röngluðum við um fram undir kvöld og versluðu allir eitthvað, mismikið þó. Ég keypti mér tvær síðar og hlýjar peysur fyrir veturinn og eitthvað fleira smálegt. Fékk mér svo Starbucks kaffi og ís með því, svona þegar steikin var farin að sjatna eftir búðarápið
Enduðum við daginn síðan á því að fara í matvörubúð og birgja okkur upp af hinu og þessu sem hverjum og einum hentaði. Á heimleiðinni lentum við í mikilli þoku á köflum og tók heimferðin því eitthvað lengri tíma. Bartek var með kveikt á útvarpinu í bílnum og þar var einhver tónlist í gangi sem ég held að hafi verið úr kvikmyndum. Var hún mjög skemmtileg og sérstök og átti einkar vel við þar sem tunglið skein fleytifullt í gegnum þokuna. Varð þetta til þess að skapa sérkennilega stemmningu og held ég að okkur hafi öllum liðið mjög vel. Sátum við nánast þegjandi alla leiðina heim, nema þegar við sögðum eitthvað um tónlistina og hvað dagurinn hefði verið skemmtilegur. Við vorum svo ekki komin heim fyrr en um ellefu um kvöldið og hugsa ég að allir hafi sofnað fljótt og vel, sáttir og sælir með daginn.
Læt ég nú langloku lokið og óska ykkur góðra stunda að sinni
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heil og sæl! Mikið er gaman að fylgjst með þér.Ég var eins og þú 45!!þegar ég fór í eins árs "videre uddannelse" til Köben. Ótrúlega gaman og létti mér lundina í mörg ár!Ég skil líka hvað þú ert að tala um "skalinn", en hafði ekki gert mér grein fyrir því að þetta væri eitthvað ferli, sem það greinileg er. En það var undarlegt að vera búsett á kollegií og deila eldhúsi (og partýum) með krökkunum :-) Vertu bara dugleg að njóta lífsins. kær kveðja Ása Björk
Ása Björk (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 16:05
Sæl sjálf, Ása. Og þakka þér fyrir falleg orð og góðar óskir
Já, þetta er alveg magnað! Að hrista svona ærlega upp í sjálfum sér og vera allt í einu farin að stunda partí og pöbbasetur með "hinum" krökkunum
Og að deila kjörum með ókunnugu fólki á görðunum. Ég var nú svo sem mestalla barnaskólagönguna á heimavistarskóla þannig að þetta er ekki alveg ókunnugt, þó síðan séu liðin mörg ár, eins og þar stendur
Ég á fastlega von á að ég komi til með að lifa lengi á þessu ævintýri og ætla bara að reyna að neyta meðan á nefinu stendur! Kær kveðja á móti.
Rósa María Sigurðardóttir, 24.11.2011 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.