12.11.2011 | 21:53
...og fleiri partí!
Í síðasta pistli var ég að taka mig til fyrir afmælispartí hjá þeirri stelpu sem ég hélt að væri eini Norðmaðurinn á svæðinu. En svo kom nú reyndar önnur norsk stelpa þangað en ég er ekki alveg viss um hvað hún er að gera hér. En hvað um það! Það var auðvitað voða gaman eins og búast mátti við af þessum frjóu og skemmtilegu ævintýrakrökkum sem eru hér allt í kringum mig.
Það var meira að segja svo gaman hjá Sunni að við fórum allt of seint af stað niður í Geokeller, sem er eins konar klúbbur jarðvísindanema, en þar átti að vera 5 ára afmælisfagnaður LEI-samtakanna. Þar fyrir utan var því löng biðröð og þegar við vorum búin að bíða í u.þ.b. 45 mínútur þá nennti ég því ekki lengur og fór heim ásamt tveimur öðrum. Ég frétti svo daginn eftir að hinir hefðu komist inn stuttu seinna og skemmt sér ægilega vel
Hluti af ástæðunni fyrir nennuleysi mínu í biðröðinni var sá að ég var orðin eitthvað skrýtin í hálsinum. Úti var skítakuldi mér leist ekkert á að fara að krækja mér í einhver veikindi. En ég var sum sé komin með kvef og ekkert við því að gera nema bara sulla í mig tei úr fjallagrösum og blóðbergi, sem góð vinkona nestaði mig með að heiman, á víxl við Jägermeister, sem Þjóðverjar halda fram að sé hinn hollasti drykkur. Hann er nú greinilega eitthvert grasagums líka því á flöskunni stendur að í honum séu a.m.k. 56 tegundir af jurtum alls staðar að úr heiminum, verði ykkur að góðu
En kvefið rjátlaðis nú af mér fyrr en varði og varð ekkert átakanlega slæmt en það þakka ég vissulega grösunum góðu Helginni varði ég því að mestu í rólegheitum og lestri. Svo gekk vikan tíðindalítið fyrir sig sem er auðvitað hið besta mál. Magda var líka hundkvefuð og slöpp þannig að við væfluðumst hér um snörlandi og fölar á brún (og er nú ekki á náttúrulegan fölva okkar bætandi; hún er jafnvel enn ljósari yfirlitum en ég!). Milu fannst greinilega ástæða til að reyna að hressa okkur við og um ellefuleytið á miðvikudagsmorgun kallaði þessi elska í okkur og var þá búin að hita Glühwein, sem er það sem við heima köllum jólaglögg, tína til smákökur og súkkulaði og flysja C-vítamínríkar appelsínur! Svo kom hún með tölvuna sína fram í eldhús og sýndi okkur, yfir þessum dásemdar veitingum, litla teiknimynd við svítuna úr Hnotubrjótnum eftir Tjaíkovskí.
Ekki amalegar trakteringar það, og upplyftandi fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Þið sjáið að ég er nú ekkert í voða slæmum félagsskap hérna
Ég svo fékk í vikunni tækifæri til að lesa öll norðurlandamálin nema finnsku. Á þriðjudaginn fékk ég langt bréf frá góðri vinkonu sem er líka í námsdvöl, að vísu í sínu eigin föðurlandi, Svíþjóð. Við fórum út með fimm daga milli bili í haust og vorum búnar að ákveða að skrifast á hvor á sínu máli á meðan við værum í burtu. Lesefni vikunnar í Skandinavíska þýðingakúrsinum sem ég sit var svo sagan af því þegar Emil í Kattholti hífði Ídu systur sína upp í fánastöngina. Fyrst las ég hana á sænsku og undirstrikaði nokkur orð sem ég skildi ekki eða var ekki alveg viss um hvað þýddu. Svo las ég norska textann og þá gat ég strikað nokkur orð út. Þar næst las ég þann danska og þá bættust einhver orð í skilninginn í viðbót og að lokum las ég færeysku þýðinguna og þá small þetta allt saman! Ótrúlega gaman að lesa þetta svona hvað á eftir öðru og bera saman þessi skyldu og skemmtilegu mál
Í gærkvöldi fór ég svo í heimsókn í næsta stigagang, til hinnar frönsku Alix, og þar var líka ensk vinkona hennar og eistnesku stelpurnar báðar. Við spjölluðum dágóða stund, mestmegnis um bækur, rithöfunda og breskt sjónvarpsefni, sem við höfðum allar býsna líkan smekk fyrir.
Síðan fórum við niður í bæ og hittum nokkra krakka í viðbót og sátum lengi sötrandi og masandi á Domburg. Það er fremur sérstök krá verð ég að segja, þ.e.a.s. kjallarinn, en þar eru ekki borð og stólar heldur hálfgerðar kojur og borð í þeim hér og þar. Fólk verður að fara úr skónum og annað hvort hreinlega að liggja eða sitja einhvern veginn flötum beinum eða með krosslagða fætur. Mér leið hálfpartinn eins og ég væri komin í einhverja hippakommúnu en þetta var svo sem ósköp notalegt
Í dag er ég svo bara búin að lesa og reyndar taka smá göngutúr niður í bæ á kaffihús með Mögdu. Í fyrramálið bíður svo líklega enn eitt ævintýrið því við ætlum dálítill hópur að skreppa yfir til Stettin í Póllandi okkur til gamans! Ég hlakka heilmikið til og ætla að muna að búa mig almennilega svo mér verði nú ekki jafn kalt og í Stralsundferðinni um daginn! Það verður því vonandi frá einhverju skemmtilegu að segja næst og læt ég hér staðar numið að sinni.
Kærar kveðjur heim
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég er nú farin að skilja betur af hverju svo margir ungir og efnilegir Hafnarstúdentar runnu til á strætum borgarinnar í den tid! Það þarf greinilega sterk bein í svona lagað og eins gott að gamlar konur hugi vel að kalkforðanum ;)
Gulla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 10:48
Hahaha, sniðugt að þú nefnir þetta með kalkforðann! Ég er stundum að pirra mig á þessu kalkríka vatni sem hér er og virkar ekki ferskt nema rétt á meðan það er alveg ískalt! Sest á og í allt, þ.á.m. hraðsuðukönnuna. Fyrst var mér meinilla við þessar flygsur sem syntu um í teinu mínu en fór svo að hugsa að kona á mínum aldri ætti nú bara að gleðjast yfir eilitlum aukaskammti af þessu í mataræðið
En B-vítamín og járn er vissulega nauðsynlegt líka
(Og ætli það sé ekki meira af því í dökkum bjór?, Nei, ég bara spyr!?)
Rósa María Sigurðardóttir, 17.11.2011 kl. 16:00
Því dekkri sem bjórinn er því meiri hollusta! Það er mín sannfæring ;)
Gulla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.