29.10.2011 | 21:44
Íslenska í Greifswald, lítill heimur!
Ég talaði um það síðast að lífið væri að færast í fastar skorður og hélt að nú kæmi ekkert fleira á óvart í bili. En maður veit aldrei hvað er handan við næsta horn!
Hún Tanja hafði nokkrum sinnum hvatt mig til að koma við í Norrænudeild háskólans (Nordische Abteilung) og vita hvort þar leyndist ekki eitthvað skemmtilegt. Ég frétti það reyndar fljótlega eftir að ég sótti um hérna að hér væri slík deild og að þar væri (eða hefði a.m.k. verið) kennd íslenska.
Eftir tímann í Félagsmálvísindunum á þriðjudagsmorguninn lét ég svo loksins verða af því að tölta yfir í Hans-Fallada Strasse þar sem Norrænudeildin er til húsa, í gamalli glæsivillu. Þegar þangað kom hitti ég fyrir tvo menn sem töluðu íslensku, annar þeirra alveg prýðilega en hinn eitthvað minna og sneri hann strax aftur yfir í þýskuna og lét hinn að mestu um að tala við mig. Það var eins eins og sá hefði himin höndum tekið og mér leið bara eins og einhverju fyrirmenni (ekki í fyrsta skiptið hér!) yfir móttökunum. Þetta var sem sagt hann Gernot Hohnstein og þar sem það voru aðeins nokkrar mínútur í að kennslustund hæfist hjá honum gaf hann mér bara netfangið sitt og spurði hvort ég væri til í að koma einhvern daginn í kennslustund hjá honum til að tala íslensku við nemendurna hans. Hann er reyndar aðallega að kenna forn-íslensku en vildi samt endilega að ég kæmi. Svo benti hann mér á tvo aðra einstaklinga sem vinna við deildina og fór ég því aftur á staðinn eftir kennlustund seinni part dagsins.
Þá hitti ég fyrir hann Hartmut Mittelstädt. Það var hálf-furðulegt að vera allt í einu farin að tala íslensku við þjóðverja sem ég hafði aldrei séð áður. En það var vissulega mjög gaman og var íslenskan þeirra beggja aldeilis ljómandi góð! Ég man nú ekki alveg hvað Hartmut sagðist hafa dvalið mikið á Íslandi en það var ekki ýkja mikið og Gernot talaði ég ekki nógu lengi við til að ná að spyrja hann um það. Hartmut er að kenna tveimur einstaklingum nútíma-íslensku og kannast ég aðeins við annan þeirra, stúlku sem ég hitti fyrst á pöbbakvöldinu. Ég mun líklega fara í tíma til hans til að spjalla við þessi tvö og hlakka ég sannarlega til þess!
Þegar við höfðum spjallað saman í dágóða stund fór ég að afsaka það að vera að tefja hann en hann kvað það í góðu lagi. Spurði hann mig svo hvar ég byggi og sagði ég honum það. Þá sagðist hann vera að fara að spila handbolta í sömu götu og ég bý við og bauð mér far sem ég þáði með þökkum.
Þegar við komum út úr húsinu og vorum að stíga inn í bílinn hans þá heyrðist spiluð tónlist í nágrenninu og hann undrar sig eitthvað á því. Ég heyri strax að þetta er lúðrasveit og segi við hann að þetta minni mig nú bara á staðinn þar sem ég hafi búið í Reykjavík síðustu þrjú árin, þar hafi nefnilega verið æfingahúsnæði lúðrasveitar í næsta húsi. Hann spyr hvaða lúðrasveit það sé og segi ég honum að það sé Svanurinn. Þá kinkar hann kolli og brosir og segist kannast við þá sveit því hann hafi verið túlkur þeirra og leiðsögumaður þegar sveitin var í heimsókn í Austur-Þýskalandi fyrir yfir 20 árum. Þá rifjast það upp fyrir mér að hann Siggi Smári vinur minn og Guðrún systir hans höfðu minnst eitthvað á það, þegar ég sagðist vera að fara til Greifswald, að þar hefði búið einhver Hartmut sem hefði verið leiðsögumaður Svansverja í Þýskalandsferð fyrir löngu síðan! Makalaust hvað heimurinn getur nú verið lítill
Á föstudaginn fór ég síðan enn eina ferðina í Norrænudeildina og hitti þar hana Andreu Hesse sem kennir þýðingar á milli norðurlandamála og þýsku og einnig eitthvað um þýðingar á milli norðurlandamálanna. Hún sagðist nú ekki kunna mikið fyrir sér í íslensku og að kúrsarnir hennar snerust ekki beinlínis um það að þýða heldur væru þeir meira fræðilegir og fjölluðu um ýmis vandamál sem þýðendur kljáðust við. Vel gæti svo farið að ég sitji tímana hjá henni þó ég eigi enn fullt í fangi með að skilja talað mál, ekki síst svona á fræðilegri nótunum. En það væri vissulega mjög góð æfing fyrir mig og aldrei að vita hvað út úr því getur komið
Læt ég nú gott heita í bili og segi ykkur frá partíinu á fimmtudagskvöldið næst
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er bara alltaf nóg að gera hjá þér;) Dásamlegt líka að heyra hvað þessi blessaði heimur okkkar er lítill. Allsstaðar hittir maður einhvern sem kannast við einhvern;)
Lára Steina Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.