Lífið að komast í fastar skorður.

Þá er þriðja skólavikan að hefjast og nokkuð reglulegt mynstur að komast á lífið. Síðasta vika snerist að mestu um skólann og ýmislegt smástúss honum tengt. Ég er að reyna að koma mér í lestrargírinn en kúplingin er dálítið þungWoundering Svo byrjaði ég í jóga-mixinu á miðvikudaginn og það var mjög fínt. Nokkuð strembið þó og fékk ég býsna hressilegar harðsperrur á eftir! Þetta er auðvitað mjög líkt venjulegu jóga en stöðurnar notaðar dálítið öðru vísi. Stundum er maður aðeins lengur í þeim, stundum eru spunnar einhverjar hreyfingar út úr þeim og svo er oft meiri hraði og ekki stoppað á milli staðanna.

Á föstudaginn var fór ég í bæinn, bara svona til að dúllast í góða veðrinu og kíkja í nokkra búðarglugga. Og það er sko nóg af þeimSmile Margar skemmtilegar og fallegar búðir sem gaman er að skoða. Fór svo inn í Junge Stadtbäckerei til að fá mér kaffi og hitti þar þrjár Erasmus-stelpur, þær ítölsku báðar og eina tékkneska. Þær buðu mér að setjast hjá sér og við spjölluðum dágóða stund yfir kaffi og kökum. Það er alveg ótrúlegt hvað allir eru áhugasamir um landið mitt og það er sífellt verið að spyrja mig um hitt og þetta. Eitt af því sem þær spurðu mig um var hvað við borðuðum. Það spannst svo alls konar grín út frá lýsingum af sauðfjárinnyflum, sviðum og kviðsviðum og hákarli. Mér gekk hálf bölvanlega að lýsa verkuninni á hákarlinum á þýsku og þær skildu ensku orðin yfir hlutina ekkert betur. En svipbrigði þeirra lýstu ekki miklum áhuga á að prófa umrædd matvæliWink

Í gær, sunnudag, var svo ferð til Stralsund sem er næsti stóri bær hérna norðan við Greifswald. Þar búa eilítið fleiri en hér, eða um 57.000 manns, og þangað er tæplega hálftíma lestarferð. Þessi ferð var skipulögð af LEI (þessum hópi sem ég var örugglega búin að segja frá og er í því að dekra við okkur Erasmusana) og vissi ég af henni frá fyrsta degi veru minnar hér. Fengum við leiðsögn um gamla bæinn og var farið fótgangandi fram of aftur um hann í tæpa tvo tíma.

Gamli bærinn í Stralsund er á heimsminjaskrá UNESCO og kemur það til af því að skipulag hans er nánast óbreytt frá stofnun hans á 13. öld. Bærinn er óskaplega fallegur og ákaflega gaman að ganga um hann og virða fyrir sér öll þessi gömlu, fallegu hús. Mikið hefur verið gert síðustu árin til að fegra hann og glæða lífi á ný en á tímum Alþýðulýðveldisins þóttu þessi gömlu hús ekki par fín. Hafði fólk að mestu flust út í úthverfin með sínum nýtískulegu og óneitanlega praktískari, en jafnframt steingeldu Plattenbau-blokkum. Núna er það hins vegar komið í tísku að búa í miðbænum og sést það mjög vel á því hvernig húsunum og umhverfi þeirra er við haldið. Þarna eru heilu göturnar sem gætu nánast verið klipptar út úr barnabókum eða teiknimyndum, svo krúttlegar eru þær og húsin litrík.InLove Ég hafði það á orði við ferðafélagana og leiðsögumanninn að það að búa þarna væri eins og að búa á safni og voru allir sammála um að það væri rétt lýsing.
Eftir gönguferðina var eins og hálfs tíma frjáls tími sem ég held að flestir hafi notað til að setjast inn á kaffi- eða veitingahús og fá sér eitthvað heitt í kroppinn því það var skítkalt! Norska verðursíðan yr.no hafði spáð  5-10°c en það hefur varla verið mikið yfir frostmarki og strekkingsvindur með. Ekki voru allir undir það búnir, þ.á.m. ég, og var ég hvorki með húfu né trefilFrown Síðan var farið í stórt og flott sjávarlífssafn sem er við höfnina og það skoðað í tvo tíma og var það líka mjög gaman.

Heimleiðis var svo haldið um 17:30 og var ég mjög fegin að setjast inn í hlýja lestina og ná í mig smá yl. Það var líka gott að koma heim og eiga þar drjúgan afgang af gómsætum kjúklingi og grænmeti sem ég hitaði vel og rann það ljúflega niður með rauðvínstáriWhistling

En nú ætla ég að láta gott heita og drífa mig í að hringja í mína yndislegu mömmu sem á afmæli í dagHeart

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband