...og áfram heldur það!

Þriðjudaginn 4. október byrjaði svokölluð „Erstsemesterwoche“ en það er nafnið á fyrstu viku vetrarins í skólanum (og nýstúdentar og allir nýir nemar eru kallaðir „Erstis“). Þá fara fram alls kyns kynningar og boðið er upp á skemmtiatriði af ýmsu tagi, háskólanemum til ánægju.  Þennan dag var líka formleg skráning í íþrótta“kúrsa“ eða það sport sem hver og einn kærir sig um að stunda sér til ánægju og heilsubótar  meðan á námi stendur. Úrvalið er hreint út sagt ótrúlegt og auðvelt að fyllast valkvíða þegar maður fær bæklinginn frá Háskólasportinu í hendurnar! Eftir að vera búin að lesa hann nánast allan í gegn (það er tugir mismunandi námskeiða í boði!) þá endaði ég nú bara á því að velja eitthvað sem heitir Yoga Mix og mér skilst að sé blanda af Jóga og Pilates. Og fyrir einn og hálfan klukkutíma í viku frá 20. okt. – 28. jan. Borgaði ég heilar 25 evrur sem er rúmlega 4.000 íslenskar krónur.

Eftir skráninguna labbaði ég upp í Mensu, sem er háskólamatsalan, og þar eru líka til húsa ýmsar stofnanir eins og Stúdentaráð og Stúdentagarðarnir. Þar var hins vegar svo mikið kraðak af fólki að ég nennti ekki að skoða það sem um var að vera og fór bara á röltið. Hitti svo eina stelpu sem ég þekki og hafði ekki heldur nennt að standa í öllu kraðakinu. Við fengum okkur kaffi saman í rólegheitum og fórum  við svo aftur saman í Mensu seinni partinn þegar mesta flóðið hafði fjarað út. Fengum við þá gefna þessa fínu poka, merkta Greifswald, og voru þeir fullir af upplýsinga- og auglýsingabæklingum og ýmsu öðru dóti: bol, pennum, kveikjara, nammi og smokkWink Svo fórum við heim og ég varði kvöldinu í heimalærdóm fyrir þýskukúrsinn. Þegar heim kom var annar sambýlingurinn mættur á svæðið, þessi líka ljómandi geðuga stúlka frá Tékklandi, hún Magda. Svo auðvitað þurfti ég líka að spjalla aðeins við hana. Hún er sem betur fer mjög góð í þýsku og er með BA-próf í ensku eins og égSmile  Þannig að ég get notað hana fyrir orðabók og leiðréttinagarforrit líkaWink

Á miðvikudeginum var nokkurs konar prufu-próf fyrir lokaprófið í þýskukúrsinum. Mér fannst mér ganga skelfilega illa og var hálf miður mín á eftir. Þannig að ég var bara heima við þann daginn að reyna að klóra eitthvað í bakkann í náminu. Daginn eftir fengum við svo útkomuna og ég hafði mér til mikillar undrunar náð 60%, en það var mun betra en ég hélt. Ég komst líka að því að ég var ekki ein um að hafa fengið sjokk yfir prófinu. Þá tilkynnti kennarinn að þetta hefði verið mun erfiðara próf heldur en lokaprófið yrði og öllum var nokkuð létt. Ég ákvað nú samt að vera bara heima, stillt og prúð, og lesa fyrir blessað prófið. Það gekk svo bara ágætlega og viku seinna komst ég að því að ég hafði fengið 76% fyrir það, sem Frau Lüring (kennarinn) sagði að væri mjög gott.

Það var þungu fargi af mér létt eftir prófið á föstudeginum. Ég hafði ætlað mér beint niður í bæ að halda upp á það að þetta væri búið en þá fór ég að spjalla við eina pólska stelpu sem ég þekki ágætlega og hún minnti mig á að kl 2 væri kynningin á bókasafninu, en því hafði ég steingleymt. Við fórum því þangað og ég sá ekki eftir því. Góð kynning á öllu sem safninu viðkemur, bókakosti jafnt sem starfsemi. Feykilega flott og glæsilegt bókasafn! Það var svo komið hálf leiðinlegt veður svo ég fór bara heim eftir það. Þegar heim var komið kom póstmaðurinn rétt á hælana á mér með langþráðan pakka: sængina mína góðu og prentarann! Ég ætlaði svo að eyða kvöldinu í að horfa á íslenskt sjónvarp, fréttir og kastljós og útsvar en þá var eitthvað vesen á vefnum hjá RÚV svo ég gat ekkert séðAngryReyndi þá bara að finna eitthvað þýskt í staðinn sem tókst og ég horfði á það með öðru auganu og hélt áfram með sjalið sem ég er að heklaSmile Sofnaði svo vel undir sænginni mjúku og góðuInLove

Laugardagurinn var bara dúllerí; bloggskrif, þvottur, hekl og eplakökuát því Magda hafði bakað þessa fínu köku! Um kvöldið kom svo hinn sambýlingurinn, hin rússneska Mila sem mér líst líka alveg prýðilega áSmile Um kvölmatarleytið komu svo skilaboð á facebook frá honum Jindra um að hann ætlaði til Rügen daginn eftir og hvort einhverjir vildu með. Það voru margir um hituna og ég lenti því á biðlista ef svo má segja. En morguninn eftir var greinilega mishátt risið á mannskapnum þannig að einhverjir duttu út og ég  komst meðHappy Hinir farþegarnir þrír voru allir pólskir, og kannaðist ég aðeins við þau öll, en Pólverjar eru langfjölmennastir af erlendu nemunum hér. Keyrði Jindra svo sem leið lá til Stralsund en þar er brúin út í eyna. Og áfram var haldið og keyrt beinustu leið í Jasmund þjóðgarðinn. Þetta var alls um klukkustundar akstur. Þar skoðuðum við skemmtilega sýningu um tilurð landsvæðisins í kring og lífríkið þar; aðallumfjöllunarefnið voru útskýringar á því hvernig kalksteinn verður til (sem ég treysti mér nú ekki til að reyna að endursegja hér). Fórum við svo í langan göngutúr í gegnum skóginn og að hinum frægu kalksteinsklettum sem mynda ströndina þar á löngum kafla. Eftir heimsóknina í þjóðgarðinn keyrðum við lengra norður á eina og skoðuðum lítið þorp sem heitir Putgarten en þaðan er styst yfir til Svíþjóðar frá Þýskalandi. Það sýnir m.a. skilti við krá eina sem spyr hvort maður sé þyrstur og svarar sér svo sjálft með því að segja að þarna sé síðasta tækifæri til að bæta úr því áður en til Svíðjóðar komiSmile Þeir hafa kannski ekki mikið álit á sænskum bjór, Þjóðverjarnir!
Við fórum líka í langan göngutúr um svæðið þarna og skoðuðum  gamla vita og fleira fróðlegt. Þegar við komum aftur inn í þorpið var orðið alveg dimmt og áttum við fullt í fangi með að finna bílinn aftur! En það hafðist á endanum og svo var brunað beinustu leið heim en það tók rétt um einn og hálfan tíma og vorum við komin til baka um 9 leytið. Skemmtilegur dagur og mikið gengið þannig að ég sofnaði fljótt og vel.
Nú tók við fyrsta skólavikan og alvara lífsins byrjaði að ýta manni aðeins niður á jörðina eftir þá sumarfrísstemmningu sem ég var búin að vera í síðan ég kom.
Vikuna byrjaði ég þó á því að fara niður í Ráðhús og skrá mig formlega sem borgara í Universitäts- und Hansestadt Greifswald, eins og borgin heitir fullu nafni! Þetta er eitthvað sem er skylda að gera og fær maður ágætis hvatningu til þess: 150 evrur að gjöfHappy Eftir það fór ég svo upp í Mensu að skrifa undir leigusamning fyrir herbergið. Svo fór ég bara heim því það var leiðindarigning og ekkert spennandi að vera að dúllast í bænum í henni. 
Þriðjudaginn 11. byrjaði svo skólinn hjá mér með tveimur tímum sama daginn; fyrst kl 8 um morguninn og svo kl 4. Það var bara alveg ágætt að komast loksins í skólann og hitta kennara og samnemendur.
Ég hentist svo heim eftir seinni tímann til að gera mig fína því um kvöldið kl 7 var formleg athöfn í hátíðarsal skólans (flottu „Álunni“ sem ég sagði frá síðast!) fyrir alla nýju erlendu skiptinemana en þeir eru allt í allt eitthvað á þriðja hundrað. Þetta var að mörgu leyti fín athöfn en ég held að hún frú Roth hjá Auslandsamtinu slái honum Hjöra Gutt næstum því út í þrautræðniGasp Prorektor skólans, hann herra Dünkel byrjaði á að tala í svona tíu mínútur og svo tók hún við og var hátt í þrjú korter! Þeim varð báðum tíðrætt um það hve mörg þjóðerni væru þarna saman komin og endaði hún á því að telja þau upp og láta alla standa á fætur og sýna sig. Byrjaði hún á þeim löndum sem áttu bara einn fulltrúa, ef svo má að orði komast. Ein stúlka frá Belgíu, ein frá Danmörku, ein frá Íslandi Whistling og ein frá Finnlandi (það er reyndar ein líka frá Noregi en hún var einhverra hluta vegna ekki talin upp þarna). Svo voru tveir frá einhverjum löndum og svo bættist alltaf í og var endað á Pólverjunum en þeir eru 28 í nýliðahópi ársins. 53 þjóðerni voru þetta alls!

Eftir þetta var svo farið á veitingahús og þar var boðið upp á Brötschen með alls konar áleggi. Búið var að skreyta staðinn með fánum allra þeirra þjóðlanda sem þarna áttu fúlltrúa. Þar var svo setið og spjallað lengi kvölds.Miðvikudagurinn fór svo að mestu leyti í lestur og dund heima við. Ég skrapp þó aðeins niður í bæ til að ná í bankakortið mitt sem var loksins tilbúið eftir hálfs mánaðar bið!

Á fimmtudaginn þurfti ég svo að fara yfir í Makarenkostrasse til að fá niðurstöðurnar úr þýskuprófinu og í framhaldi af því að velja mér þýskukúrs fyrir veturinn. Eftir það fór ég og „meldaði“ mig hjá Útlendingaeftirlitinu og þar með held ég að öllu skrifræðisveseni sé loksins lokiðW00t

Föstudagsmorguninn fór síðan í þrif á heimilinu. Svo tók ég sólskinsgöngutúr niður í bæ til að versla eitt og annað smálegt. Kom svo heim og eldaði mér dýrindis ítalska pastasósu og pasta og sat svo á spjalli við Mögdu dágóða stund. Horfði svo á íslenska sjónvarpið sem ekki var með neitt vesen þetta kvöldiðSmile

Og nú í morgun er ég bara búin að lesa smá og skrifa þennan pistil og þar með loksins búin að ná í skottið á sjálfri mér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er aldeilis!!! Maður verðu bara þreyttur í fótunum við að lesa þetta, það er svo mikið um að vera hjá þér;) Þá er ég ekki að meina að lesturinn sé leiðinlegur;-) Takk fyrir pistilinn;)

Lára (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 16:09

2 Smámynd: Rósa María Sigurðardóttir

Hehe, mágkona! Já, því trúi ég vel; ég get ekki sagt að líf mitt sé nein lognmolla þessa dagana! En gott að þér leiðist ekki lesturinn og takk fyrir að nenna að lesa

Rósa María Sigurðardóttir, 24.10.2011 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband