Lífið er ævintýri!Föstudaginn 30. sept. kl 14 var boðið upp á útsýnisgöngu um skólann, þ.e.a.s. gömlu aðalbygginguna. Húsið var byggt á árunum 1747-50 og er hið fallegasta. Gamli hátíðarsalurinn, Álan(die Aula), er sérstaklega fallegur; rauðmálaður (sem er reyndar nýlegur litur) og hvítur, með marmaramáluðum súlum. Þar er einnig mikill útskurður og gyllingar. Þessi salur var reyndar upphaflega bókasafn skólans en það flutti í húsnæði sem sérstaklega var fyrir það byggt árið 1882. Ér verð nú að viðurkenna að ég náði ekki miklu af því sem leiðsögumaðurinn sagði, bæði vegna þess að blessuð stúlkan talaði ekki mjög hátt og eins er þýskuhlustunareyrað mitt ekki orðið mjög þjálfað
En þetta var samt mjög gaman. Eftir þetta fórum við Tanja á kaffihús en vorum voða hógværar og fengu okkur bara eina köku saman
Svo tók við enn meira bæjarrölt í blíðunni og rólegheitakvöld heima við.Laugardagurinn 1. október rann upp með dásamlegu veðri, glampandi sól og hita. Þann dag var samkvæmt hinu þéttskipaða skemmtiplani LEI-hópsins búið að ákveða ferð niður ána Ryck og út í litla þorpið Wieck, sem stendur við árósinn, svo og að klausturrústunum í Eldena. Hittist allur hópurinn við Ráðhúsið og þaðan var gengið niður á Museums Hafen sem er bara nokkurra mínútna labb. Þar fórum við um borð í lítið skip og sigldum sem leið lá niður ána og út á víkina, Dänische Wieck, og aftur til baka. Þessi sigling var afar skemmtileg og veðrið alveg dásamlegt, rúmlega 20°c og glampandi sól. Þegar til baka var komið fórum við af skipinu í Wieck og í dálítinn göngutúr um þorpið. Það er hreinn draumur í dós og með þeim alkrúttlegustu sem ég hef séð
Voru nú ýmsir orðnir nokkuð svangir og stungu fararstjórarnir upp á því að við prófuðum Fischbrötschen, sem eru lítil brauð, svona aðeins stærri en rúnstykki og eilítið aflöng. Inn í þau er svo stungið hinum ýmsustu fisktegundum (og þetta er yfirleitt alltaf kalt). Ég fékk mér bara það fyrsta sem ég sá en það var með einhvers konar fiskibollu- eða borgara. Aldeilis ágætt! Svo sá ég aðra sem voru með reyktan lax og ýmislegt annað. Eftir matarhléið var svo gengið af stað í átt að Eldena klausturrústunum en þangað er aðeins um 10mín gangur frá Wieck. Klaustrið í Eldena var reist árið 1199 af dönskum munkum og er bygging þess jafnan talin marka upphaf byggðar í Greifswald. Við siðaskiptin í Pommern, árið 1535, var það síðan aflagt. Klausturbyggingarnar urðu fyrir miklum skemmdum í 30 ára stríðinu (1618-48) en þá voru hlutar þess rifnir niður og múrsteinarnir m.a. notaðir í virkisbyggingar. En nóg um það! Rústirnar eru mjög fallegar og það er greinilegt að klaustrið hefur ekki verið nein smásmíði!! Hinn frægi þýski málari Caspar David Friedrich gerði svo þessar rústir frægar með málverkum sínum. Eftir skoðunarrölt um rústirnar var svo haldið til baka inn í bæ. Sumir tóku strætó en ég ákvað að ganga ásamt nokkuð stórum hópi annarra. Þetta varð hin dásamlegasti göngutúr í yndislegu veðri, fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Rólegheita rölt sem tók u.þ.b. klst. Þegar við vorum farin að nálgast Museums Hafen fórum við að heyra tónlist og runnum á hljóðið. Þar var þá hljómsveitin Krach að spila og það gerði hún um borð í lítilli skútu sem bundin var við bryggjuna. Ég fór ásamt fleirum og settist í grasið og hlustaði og drakk bjór
Skemmtileg sveit sem minnti mig á allar í senn Skálmöld, Hjálma og Stórsveit Reykjavíkur
Veðrið var svo makalaust dásamlegt (já, ég geri mér grein fyrir því hvað ég er búin að nota þetta orð oft!), og upplifun dagsins öll, að mann langaði ekki til að fara heim eða að dagurinn tæki enda. Ég og Tanja hin finnska og Sunni hin norska ákváðum því að framlengja göngutúrinn og gleðina með því að ganga heim (við búum allar í sama húsi). Dóluðum við eftir makalaust fallegum götum og nutum þess að horfa á hús og gróður og spjalla um allt og ekkert. Þegar heim kom biðu skilaboð á facebook um að það væri partí hjá frönsku stelpunum kl 21 um kvöldið. Ég snarlaði í mig einhverjum mat og rölti svo þangað yfir (í næsta stigagang, ekki erfitt). Það varð hin skemmtilegasta samkoma með spjalli og nasli af ýmsu tagi. Þar kom upp sú hugmynd hjá tveimur piltum sem eiga bíla að fara í bíltúr til Usedom daginn eftir. Ég stökk auðvitað á það tækifæri og sé sannarlega ekki eftir því
Kl rúmlega 11 var svo lagt af stað og veðrið var sama dásemdin og daginn áður. Við vorum 9 manns á tveimur bílum sem þeir Philip, sem er þýskur, og Jindra hinn tékkneski óku. Það er að jafnaði ekki nema tæplega hálftíma akstur þarna niður eftir en við vorum u.þ.b. 45 mín og Philip hafði það á orði að þetta væri nú kannski ekki gáfulegasti dagurinn til að fara til Usedom. Búast mætti við örtröð af fólki, bæði þar sem veðrið var svona gott og líka vegna þess að þetta var löng helgi. 3. október (sem var mánudagurinn eftir) er nefnilega þjóðhátíðardagur eða sameiningardagur þýsku ríkjanna.
Fyrsta stoppið þegar út í eyna var komið var við hús sem stendur á hvolfi. Býsna skondið að ganga þar um loftin og skoða allt frá því sjónarhorni
Síðan var haldið til Peenemünde en höfnin þar gegndi mikilvægu hlutverki í Síðari Heimsstyrjöldinni. Afi Philips gegndi þar einhverri stöðu á þeim tíma. Síðan keyrðum við til bæjarins Zinnowitz en þar er falleg strönd og var þar mikið af fólki að njóta þessa óvænta sumarauka. Við lölluðum um bæinn og niður á ströndina og dóluðum þar dágóða stund. Fórum svo á veitingastað og fengum okkur í goggin, flestir fengu sér Fischbrötschen og nú prófaði ég þetta með reykta laxinum og það var alveg himneskt! Og drakk bjór með, hvað annað;-) Síðan var meira dól, aftur farið niður á strönd og tekinn góður göngutúr þar. Heimferðin tók svo enn lengri tíma en hin þar sem umferðin gekk afskaplega hægt. Og það tók okkur sem sagt rúmlega einn og hálfan klukkutíma að komast heim aftur! Leið sem ætti að taka í mesta lagi 35-40 mín að öllu eðlilegu. Þrátt fyrir þessar tafir var dagurinn alveg frábær og lítið síðri en laugardagurinn. Ég hugsaði mikið um það á heimleiðinni hvað ég væri heppin að eiga kost á þessu öllu saman. Mánudeginum eyddi ég svo bara í dúllerí heima við og í heimalærdóminn fyrir þýskukúrsinn. Kærar kveðjur þangað til næst
P.s. Það er ýmislegt sem útlendingsauganu finnst skrýtið hér og eitt af því er það að ég hef ekki séð einn einasta kött síðan ég kom! Hér teymir annar hver maður hund og er varla þverfótað fyrir þeim, meira að segja inni á kaffihúsum og inni í búðum!! En engin kisa.
Athugasemdir
Éta kannski skoffínin ketti!?
Gulla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.10.2011 kl. 19:45
Mikið öfunda ég þig af allri þessari menningarupplifun! Þetta er alveg makalaust! :)
Halldór Árnason (IP-tala skráð) 13.10.2011 kl. 22:19
mér þykir makaluast alveg að þú sért farin að svolgra í þig öli ;)
Jóhann Alexander (IP-tala skráð) 14.10.2011 kl. 21:41
Hehe, Gulla, hvað veit maður?! Annars fór ég út í göngutúr eftir pistilsskrifin og hvað heldur þú að ég hafi séð nema þennan sæta litla kettlingsstútung
Og strákar mínir: það var nú reyndar orðið "dásamlegt" sem ég var að meina
Verð að fara að "skanna" textana mína til að leita að hinu!
Rósa María Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 07:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.