8.10.2011 | 21:01
Nýjabrum

Laugardaginn 24. september svaf ég bara út og dúllaðist heima við fram að hádegi. Um eitt leytið lallaði ég svo af stað niður í bæ í dásamlegu veðri og rétt fyrir kl 2 var ég mætt við Ráðhúsið. Erindið þangað var að fara í gönguferð um miðæinn sem boðið var upp á fyrir Erasmus stúdentana. Það er hópur sem heitir Lokale Erasmus Initiative (LEI) sem stóð fyrir honum og mun hann einnig standa fyrir alls konar uppákomum skiptistúdentum til skemmtunar og fræðslu í allan vetur. Gangan var mjög skemmtileg og fróðleg og hápunktur hennar, í fleiri en einum skilningi, var sá að prílað var upp í (100m háan!) turninn á Nikulásarkirkjunni. Og eins og gefur að skilja var þaðan aldeilis frábært útsýni yfir borgina og nágrenni hennar og alveg út í báðar eyjarnar, Rügen og Usedom
Eftir það var göngunni formlega lokið en stelpurnar sem leiðsögðu okkur stungu upp á því að við löbbuðum út að Museums Hafen, sem er í rauninni bara gamla höfnin í bænum. Ég tölti þangað líka (bara 5mín labb) þó ekki væri til annars en að sjá staðinn. Þar var svo bara sest í grasið og farið að spjalla saman. Ég var ein á báti og ætlaði nú eiginlega að fara að snúa við og fara aftur inn í bæ þegar stúlka sem sat við hliðina á mér gaf sig á tal við mig. Hún reyndist vera frá Finnlandi og heita Tanja og með henni var hin Pólska Magda. Svo kom Fransizca hin þýska í viðbót en hún hefur verið að læra finnsku og þurftu þær Tanja auðvitað að spjalla svolítið saman á finnskunni. Við sátum svo allar og spjölluðum dágóða stund og ég fór svo aftur inn í bæ og á kaffihús, en ekki hvað
Sunnudagurinn rann svo upp hlýr, bjartur og fagur og ég fór í langan göngutúr um bæinn. Gekk fyrst að því sem ég hélt að væri lystigarður en reyndist svo aðeins vera trjágarður eða trjásafn (Arboretum). Það var mjög gaman að sjá alls konar misframandleg tré og haustlitadýrðin að komast í hámark. Svo gekk ég fram hjá nýja Háskólabókasafninu og spítalanum og alveg niður í bæ. Enn og aftur sá ég nýjar götur og gladdist yfir því hvað þessi blessaði bær er fallegur Nú var ég komin niður í miðbæ, eina ferðina enn, og ekki með neitt sérstakt erindi. Datt þá ofan í höfuðið á mér hvort ekki væri nú sniðug hugmynd að gerast svolítið menningarleg og fara á safn. Fyrir valinu varð, nokkuð fyrirsjáanlega kannski, Pommerisches Landesmuseum sem er nokkurs konar Þjóðminjasafn fyrir þetta svæði hér (Mecklenburg-Vorpommern). Það var mjög gaman að skoða það og var ég þar í tæpa 3 tíma! Áður en ég fór heim fór ég svo, ...jájá, ég held að þið séuð alveg búin að fatta þetta, á kaffihús
Kl 7 um kvöldið þann sama dag var svo planað Kneipenbummel á vegum LEI en það var sem sagt kráarrölt með leiðsögn! Hittust allir við Ráðhúsið og var svo skipt upp í grúppur. Ekki fengum við neitt að velja okkur saman heldur skipuðu LEI-krakkarnir okkur að standa í hring, gengu svo á milli og númeruðu liðið og valdist því í hópana af handahófi. Þetta var aldeilis frábærlega skemmtilegt kvöld og hitti ég marga nýja krakka og spjallaði mikið. Minn hópur fór á þrjá pöbba; fyrst á Domburg, sem er frekar gamall staður, svo á Cheers, sem er alveg nýr og síðast á Die Urige Kneipe sem er eldgömul. Það er skemmst frá því að segja þetta kvöld setti ég persónulegt met! Og nú bið ég ykkur að halda ykkur fast; ég drakk heila ÞRJÁ bjóra!!! Hehe, ég veit að flestu venjulegu fólki finnst ekki sérlega mikið til um það en þeir sem þekkja mig best vita að ég hef aldrei verið hrifin af bjór og hef undanfarin ár drukkið að meðaltali einn á ári (á Þorrablótinu heima í Svarfaðardal!). Og það sem meira var; tveir af þessum bjórum voru bara alveg ágætir (enda dökkir)! Einhverjir myndu eflaust segja að þroskamöguleikum mínum séu lítil takmörk sett og verður þetta kvöld að teljast til sterkari dæma um það
Um bloggið
Rósa María Sigurðardóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl og blessuð, gaman að sjá hvað þú ert að brasa. Frábært að láta drauma sína rætast, mér sýnist þú vera á draumastað! Það verður gaman að kíkja hér inn annað slagið, þú ert flottur penni. Kveðja frá Dalvíkinni draumabláu!
Guðný S. Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 22:22
Góð færsla Rósa mín. Ég er viss um að þú verður orðin ansi slyng í bjórdrykkjunni þegar dvölinni lýkur, enda ertu nú í mekka bjórsins!
Hrafnhildur Haldorse (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 22:59
Snilli - njóttu lífsins og það verður gaman að fá sér öl með þér eftir þessa dvöl þína ,-)
Ósk Jórunn (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 23:15
Greinilega alveg meira en nóg að gera hjá þér Rósa mín
Farðu svo varlega í bjórnum hahaha
Lára (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 14:51
Gaman að fylgjast með því hvað þú ert að gera elsku mamma. Ég jafna mig ekki á því hvað ég er stoltur af þér, bæði fyrir að ana út í þetta ævintýri og ég tala nú ekki um bjórdrykkjuna! Þetta kemur mér verulega á óvart! :) En hafðu það gott. Knús og kossar úr Tjarnarlundinum :*
Halldór Árnason (IP-tala skráð) 12.10.2011 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.