Loksins kemst ég áfram!

Nú held ég að ekki sé seinna vænna fyrir mig að fara að halda eitthvað áfram ef ég á einhvern tíma að ná að koma til skila því sem á daga mína hefur drifið þessar síðustu tvær vikur. Þetta er búnn að vera viðburðaríkur tími og varla gefist stund til að setjast niður og líta til baka.

Ég flaug til Þýskalands í tveimur leggjum, svo ég leyfi mér að nota þessa ensku slettu. Fyrst frá Keflavík til Arlanda í Stokkhólmi og svo þaðan til Berlínar. Bæði flug gengu hnökralaust og þægilega fyrir sig en fjögurra tíma bið var á Arlanda. Á Pension Regine Braun í Berlín var ég svo komin kl rúmlega átta á miðvikudagskvöld og hafði þá verið á ferðinni frá 4:30 nóttina áður. Þar sem matvörubúðir loka almennt kl átta og ég hafði ekkert hugsað fyrir kvöldmat fór ég á nærliggjandi veitingahús sem pilturinn á gistiheimilinu benti mér á. Þar pantaði ég „lítið blandað salat,“ sem var ljómandi gott, en skammturinn sem ég fékk var allt annað en lítill og var ég pakksödd á eftir. Fór ég svo fljótlega í háttinn því ég var orðin býsna þreytt og átti pantað far með lest til Greifswald kl 8:34 morguninn eftir.

Vaknaði ég eldsnemma því ég vildi vera tímanlega í því þar sem ég þekki ekkert til í Berlín og vissi ekki hvernig gengi að finna út úr hlutunum á brautarstöðinni. Pilturinn á gistiheimilinu hafði líka sagt mér hvaða strætó ég ætti að taka til að komast á stöðina. Fór ég eftir hans orðum og gekk það eins og í sögu og auðvitað var ekkert mál að átta sig þegar þangað var komið. Þannig að ég hafði góðan tíma til að fá mér morgunmat og náði m.a.s. að kíkja í nokkra búðarglugga líkaWink

Svo kom lestin mín og ég seig af stað í norðurátt. Lestarferðin var hin skemmtilegasta; þetta var bara svona gamaldags lest sem líður í gegnum sveitir, bæi og borgir og veitir ágætis útsýni á umhverfið í kring. Fyrir manneskju sem aldrei hefur ferðast með slíku faratæki (nema bara neðanjarðarlestum annarra borga) var þetta bara skemmtun og gaman að horfa á þýsku sveitirnar út um gluggan. Fór ekki hjá því að ég bæri það sem fyrir augu bar saman við heimalandið; marflatt Norður-Þýskalandið og fjöllin og hæðirnar heima, og velti því dálítið fyrir mér hvernig mér ætti eftir að líða á flatlendinu. Fyrir Íslending er það sérkennilegt að hægt skuli vera að ferðast hundruðir kílómetra án þess að sjá þúfu eða hól.

Þegar til Greifswald var komið tók á móti mér indælis stúlka, sem ég hafði verið í tölvusamskiptum við, setti mig upp í strætó, sagði hvar ég ætti að fara út og bað mig svo að bíða þangað til hún kæmi á hjólinu sínu.  Hlýddi ég því. Meðan ég beið eftir henni fór ég að kvíða því að þurfa að dröslast með farangurinn minn langar leiðir fótgangandi því ég var satt að segja búin að fá nóg af því daginn áður og bak og axlir hvort tveggja fremur aumt. En viti menn: stúdentagarðurinn minn var bara hinum megin við götuna! Þar, í Ernst-Thälman Ring 10A, tók önnur indælis stúlka við mér, afhenti mér lykil og lóðsaði mig upp í íbúðina. Og við það að drösla töskukvikindinu upp á fimmtu hæð í lyftulausu (6 hæða) húsi fór restin af kröftum mínumFrown Mér leist nú svo sem ekkert voðalega vel á húsakynnin við fyrstu sýn; allt virkaði voða hrátt og bert en þetta venst nú bara þokkalega. Klósett og bað eru ljómandi snyrtileg með nýjum flísum og fínni sturtu svo þá er varla yfir neinu að kvarta!

Tók ég upp úr töskunni í snarheitum og fór svo með strætó niður í bæ til að skoða mig um. Og þvílíkur draumur í dós sem þessi bær er. Svo mikið af fallegum gömlum húsum, steinlögðum götum og torgum. Að ég nú ekki tali um kaffihúsin og bakaríin og úrvalið af bakkelsinu. Fór strax á eitt þeirra og fékk þessa líka dásamlegu valhnetu-rjóma-marsipantertuSmile Svo rölti ég um miðbæinn fram undir kvöld, fór þá heim og verslaði eitthvað í matinn og reyndi aðeins að koma mér betur fyrir í herberginu. Fór svo frekar snemma í háttinn eftir langan og lýjandi dag. Herberginu áttu að fylgja sæng, koddi og ein rúmföt en sængin og koddinn myndu nú varla kallast svo virðulegum nöfnum á Íslandi; mátti vart milli sjá hvort var þynnra sængin eða verið og koddin varla sýnilegur. En mér tókst nú samt að sofna og svaf ágætlega.

Á fimmtudeginum svaf ég fram undir 10. Hafragrautur í morgunmat með einhverri soya-hrís-mjólk. Hún var það næsta sem ég komst hrísgrjónamjólkini sem ég er vön heima. Í þetta skiptið ákvað ég að ganga niður í bæ til að vita hvað það tæki langan tíma og var ég um 35mín niður að Lange Strasse, sem er aðal verslunargatan. Það var mun styttri tími en ég átti von á. Erindi dagsins var að fara í Akademisches Auslandsamt. Þar tóku á móti mér þrjár aldeilis ljómandi indælar konur sem voru ekkert nema elskulegheitin og virtust voða glaðar að sjá mig. Mér leið bara eins og stórstjörnu, svo áhugasamar voru þærSmile Ein þeirra var Ann-Cathleen Neumann sem ég var búin að vera í tölvusambandi við alveg frá því að ég sótti um og það var mjög gaman að hitta hana loksins. Hún hjálpaði mér að fylla út pappíra varðandi stofnun á bankareikningi og vísaði mér á konu sem átti að taka á móti mér í skólanum sjálfum.

Eftir þetta fór ég svo og fékk mér kaffi og köku, auðvitaðWink Svo fór ég á röltið og í bókabúðina sem er á móti ráðhúsinu en ég hafði ekki tekið eftir henni daginn áður. Mjög hugguleg búð og minnti óneitanlega töluvert á minn „gamla“ vinnustað. Lyktin meira að segja svipuð! Sá þar margt skemmtilegt og fróðlegt, m.a. dágóðan slatta af bókum sem voru með myndum af kúm framan á kápunniInLove Svo hélt ég áfram að kíkja í búðir og nóg er nú af þeim!

Tók síðan strætó heim og fór inn í bakaríið sem er við hliðina á Aldi og bara rétt á ská á móti blokkinni „minni“ og spurði konuna þar hvar ég gæti keypt rúmföt. Hún benti mér á „stóru“ verslunarmiðstöðina hinumegin við hornið og það var sum sé Schönwalde Center. En seint myndi ég nú kalla það stóra verslunarmiðstöð; svona kannski á stærð við Glæsibæ í Reykjavík. Þar bar ég upp sömu spurningu og var mér þá bent á enn aðra verslunarmiðstöð sem er svona ca 15 mín labb heiman frá mér. Hún heitir Elizen Park og þangað stormaði ég. Það er alvöru verslunarmiðstöð og mikið af frekar stórum búðum með öllum fjáranum. Og út labbaði ég með þessi fínu rúmföt og kodda, því ekki gat ég hugsað mér aðra nótt á sneplinum sem fyrir var. Svo lallaði ég heim og skellti öllum herlegheitunum í þvottavél og þurrkara og svaf við það næstu nótt. Kvöldmaturinn var svo brauð með salami og skinku og tesopi.

Hér læt ég staðar numið í bili, framhald í næsta þætti!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að sjá hvað Greifswald fer vel með þig og vonandi að endurgjaldir hlýjar vðkomur (sem ég hef fulla trú á). En ætli maður þurfi ek að fara á þýskunámskeið til að geta talað við þig í vetur ? ;) ég fylgist með þér hérna Skoffínið mitt og við heyrumst fljótlega ;*

Jóhann Alexander (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 16:05

2 identicon

Það er svo gaman að sjá hvað þú ert að pluma þig vel ,elskan(ekki að ég hafi haft neinar áhyggjur) Og ætli Jói hafi ekki rétt fyrir sér,maður ætti kannski bara að reyna að rifja upp barnaskólaþýskuna svo maður geti spjallað aðeins við þig! Neeei kannski ekki Stórt knús frá Akureyri og Dalvík líka og ég hlakka til að lesa meira

Hanna Örverpi (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 21:28

3 identicon

Sæl elskan mín!Frábært bréf og gott að heyra að allt gekk vel.Þegar ég las um sæng og kodda,þá hugsaði ég að það væri nú auðvelt fyrir mig að senda þér þetta.en auðvita bjargaðir þú því bara sjálf.Við erum búin að vera með talningu í búðinni á mánudaginn og vorum með opið á meðan og var ég með miklar áhyggjur hvernig það gæti gengið upp,en það gekk upp að telja og selja á sama tíma.

Vegna sparnaðar í búðinni á kvöldin(við erum bara 3) hefur álagið á okkur aukist mjög og ég hef miklar áhyggjur af Maríönnu,sem á erfitt með ritföng og erl.deild en við sjáum nú til,annars er allt við það sama,mikil mótmæli á laugardaginn og aftur í gær,en hvað er til ráða?Jæja elsku Rósa,njóttu lífsins og reyndu að fá sem allra,allra mest úr námi og dvöl.Kær kveðja Sigrún Her.

Sigrún Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rósa María Sigurðardóttir

Höfundur

Rósa María Sigurðardóttir
Rósa María Sigurðardóttir
Hálf-fimmtug, móðir þriggja ungra manna og verðandi eilífðarstúdent sem eltir drauma sína.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband